Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Þú treystir ekki hverjum sem er fyrir búinu þínu
Mynd / HKr.
Lesendarýni 28. nóvember 2024

Þú treystir ekki hverjum sem er fyrir búinu þínu

Höfundur: Jóna Björg Hlöðversdóttir er bóndi, fyrrum formaður Samtaka ungra bænda og situr í 2. sæti á lista VG í Norðausturkjördæmi og Pálína Axelsdóttir Njarðvík er félagssálfræðingur og kindaáhrifavaldur og situr í 2. sæti á lista VG í Suðurkjördæmi

Að vera bóndi getur verið félagslega einangrandi, sérstaklega ef aldrei er svigrúm til að bregða sér af bæ. Þó eru bændur skemmtilegasti félagsskapur sem til er, samkvæmt hlutlausu mati undirritaðra.

Mikið er rætt og ritað um erfiðleika við nýliðun í greininni. Þar spila mörg atriði inn í, ekki síst rekstrarumhverfi greinarinnar. Þó það sé spennandi að vera bóndi, gott að vera í sveit og svo framvegis, þá þarf að huga að fleiru.

Vinnuumhverfi á fjölskyldubúinu

Íslenska fjölskyldubúið, og landbúnaðurinn í heild sinni, er undirstaða byggðar víða um land og gegnir lykilhlutverki í matvælaframleiðslu. Allar hugmyndir um matvælaöryggi landsins standa og falla með því að styðja við íslenskan landbúnað. Enginn er landbúnaður án bænda og ef greinin á að þróast, fæða okkur og verða kolefnishlutlaus verður að tryggja sanngjarna afkomu þeirra sem hana stunda. Í búvörusamningum er kveðið á um að bændur skuli njóta sambærilegra kjara við aðrar starfsstéttir í landinu. Enn er þó langt í land til að það raungerist. Það þarf ekki aðeins að bæta fjárhagslega afkomu bænda, heldur einnig vinnuumhverfi þeirra og tryggja bændum sjálfsögð réttindi vinnandi fólks á borð við veikindarétt, fæðingarorlof og tækifæri til að fara í frí.

Við viljum eiga tíma til að verja með fjölskyldum okkar í samfélaginu sem við sköpum. Við viljum geta stundað áhugamál og farið í ferðalag. Þá má velta fyrir sér hvort búskapur sé eftirsóknarverður kostur, þar sem vinnan er mikil, tekjur af skornum skammti og lítil frí. Ekki er nóg að sjá til þess að bændur hafi þessi réttindi, en þarf líka að hafa fyrirkomulag þannig að fólk treysti sér til að nýta þessi réttindi. Þú treystir ekki hverjum sem er fyrir heimili þínu, hvað þá búinu þínu.

Aðsókn í búfræðinám við Landbúnaðarháskóla Íslands ber þess merki að ungt fólk hafi áhuga á búskap. En það getur verið fráhrindandi að vinna allan sólarhringinn, alla daga ársins, fyrir lág laun og fá svo ekki einu sinni fæðingarorlof þegar þú eignast barn. Fyrir þau sem stunda búskap ein, þá er fæðingarorlof nánast ómögulegt í dag. Bændur sem standa ein að búskap, hafa hreinlega ekki sama rétt á töku fæðingarorlofs og aðrir, þar sem öðrum höndum er ekki að skipta í búskapnum. Þar sem fleiri starfa við búskap, þá lendir meiri vinna á herðum þeirra sem ekki eru í fæðingarorlofi.

Afleysingaþjónusta bænda

Afleysingar fyrir bændur voru á meðal þess sem var tiltekið sérstaklega í niðurstöðum skýrslu hóps ráðuneytisstjóra sem skipaður var 2023 og átti að leggja mat á stöðu bænda eftir miklar hækkanir á aðföngum og fjármagnskostnaði. Á Búnaðarþingi 2018 var samþykkt ályktun um afleysingaþjónustu í landbúnaði þar sem stjórn Bændasamtakanna var falið að vinna að því að koma á fót afleysingaþjónustu fyrir bændur. Í Covid-faraldrinum var komið á vísi að afleysingaþjónustu fyrir bændur sem veiktust af Covid. Það var gert í samstarfi félagsmálaráðuneytis, Vinnumálastofnunar og Bændasamtakanna. Á þessu fyrirkomulagi má vel byggja næstu skref í afleysingaþjónustu fyrir bændur. Mikilvægt er að horfa á þessi mál frá að minnsta kosti tveimur hliðum. Annars vegar að skapa traustar aðstæður fyrir bændur að geta fengið afleysingu. Svo þurfa störf í afleysingaþjónustu jafnframt að vera með þeim hætti að þau geti verið eftirsóknarverð að starfa við.

Bændur hafa árum saman greitt í tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga. Lögin um sjóðinn eru þannig hljóðandi að erfitt er fyrir bændur að sækja í sjóðinn öðruvísi en að leggja niður búskap á meðan. Slíkt er auðvitað með öllu ótækt, þetta eru peningar sem bændur eiga og eðlilegt væri að bændur gætu nýtt hann án þess að gerast atvinnulausir. Kanna ætti möguleika á því að nýta sjóðinn til að fjármagna afleysingaþjónustu bænda. Mikilvægt er að endurskoðun á stuðningskerfi landbúnaðarins hafi það sem meginmarkmið að gera landbúnað og matvælaframleiðslu eftirsóknarvert fyrir ungt fólk. Lífeyrisgreiðslur bænda á að tryggja á annan hátt en með stuðningi sem eigngerist og hengir myllustein um háls ungra bænda til áratuga.

Bætt umhverfi gagnast öllum

Bætt vinnuumhverfi bænda er ekki aðeins í þágu þeirra sjálfra og fjölskyldna þeirra, heldur samfélagsins alls. Afleysinga- þjónusta er mikilvægt skref í þessa átt og ætti að vera hluti af heildstæðri stefnu um framtíð landbúnaðarins hér á landi. Þannig tryggjum við að bændur geti notið sömu lífsgæða og aðrir og jafnvel skellt sér til útlanda af og til. Þetta er því í senn byggðarmál, kjaramál og jafnréttismál. Við eigum að standa vörð um fjölskyldubúin um land allt, bætt kjör og vinnuumhverfi er lykilatriði í því.

Gerum allt að garði
Lesendarýni 28. nóvember 2025

Gerum allt að garði

Garðurinn í kringum Listasafn Árnesinga í Hveragerði er bæði umgjörð um safnið o...

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum

Aukin ásókn í ræktun skóga með framandi ágengum tegundum, eins og hún hefur tíðk...

Að vera í stríði við sjálfan sig
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Að vera í stríði við sjálfan sig

Snjótittlingurinn er ein helsta hetja norðursins. Vegur um 40 grömm og stenst fr...

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði

Tækifærin til orkusparnaðar, aukinnar sjálfbærni og samdráttar í losun gróðurhús...

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi

Um allt land á Íslandi eru lítil þorp, með litlum húsum en stórum garði. Garðuri...

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?
Lesendarýni 26. nóvember 2025

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?

Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár gengur í fáum orðum út á það til hvaða aðgerð...

Beitarstýring er best
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Beitarstýring er best

Í 16. tölublaði Bændablaðsins frá 11. september er forsíðugrein sem heldur því f...

Ávaxtaðu jarðveginn þinn
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Ávaxtaðu jarðveginn þinn

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir tveimur áskorunum, loftslagsbreytingum og hnig...