Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Sátt um lok á samkeppnismálum Mjólku og Mjólkursamsölunnar
Mynd / Halla Eygló Sveinsdóttir
Lesendarýni 28. apríl 2025

Sátt um lok á samkeppnismálum Mjólku og Mjólkursamsölunnar

Höfundur: Ólafur Magnús Magnússon, stofnandi Mjólku.

Vorið er árstíð bænda. Þá lifnar landið og gróandi klæðir landið. Af því tilefni vil ég senda bændum vorkveðju um leið og ég geri þeim grein fyrir frágangi og lokum á svokölluðum samkeppnismálum sem sneru að átökum Mjólku og Mjólkusamsölunnar (MS) og Kaupfélags Skagfirðinga á mjólkurvörumarkaði um 17 ára bil.

Ólafur Magnús Magnússon.

Málið hófst þegar upplýst var að Mjólkursamsalan hafði brotið alvarlega samkeppnislög gagnvart Mjólku með mismunun í verðlagningu, og beitt þar markaðsráðandi stöðu sinni með alvarlegum hætti, ásamt fleiri alvarlegum brotum á sömu lögum. Brotin voru ítrekuð og fjölþætt og sköðuðu fyrirtækið mikið með beinu fjárhagstjóni, og á annan hátt.

Málarekstur bæði hjá Samkeppniseftirlitinu, fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála og á öllum dómstigum, þ.e. Héraðsdómi Reykjavíkur, Landsrétti og Hæstarétti Íslands, tók í heild sinni um 17 ár. Í öllum tilvikum hafði Mjólka fullnaðarsigur, fyrir utan áfrýjunarnefnd samkeppnismála, en hún klofnaði í niðurstöðu sinni. Í því efni má nefna að við hjá Mjólku gagnrýndum mjög að Stefán Már Stefánsson, prófessor emeritus, hafi ekki vikið sæti í nefndinni, enda töldum við hann klárlega vanhæfan í málinu vegna umfangsmikilla hagsmuna af vinnu fyrir Bændasamtök Íslands um árabil og ráðgjafar í ýmsum málum. Voru þar undir miklir fjárhagslegir hagsmunir, svo ekki sé meira sagt. Það er okkar mat að Stefán Már hafi sett mjög niður við þessa framgöngu. Þetta litaði því miður störf áfrýjunarnefndar með ófaglegum hætti, eins og kom svo á daginni í niðurstöðum dómstóla sem voru mjög afgerandi.

Alls kallaði ofanskráður málarekstur á 7 fyrirtökur fyrir dómi hér heima og 4 fyrirtökur í vörumerkjamálinu Finnlandi, en Mjólka hafði fullnaðarsigur í öllum þessum málum. Við bjuggum á stundum við svo þröngan stakk að við fluttum málin sjálf, höfðum ekki ráð á lögfræðiaðstoð.

Átök sem reyna á

Öll þessi átök reyndu mjög á alla hlutaðeigandi, ekki síst okkar fjölskyldu sem mátti búa við tjónið sem af þessari framgöngu hlaust, og eru þá ónefnd þau hatrömmu átök sem málarekstrinum fylgdi. Án efa hefur þetta einnig reynt á forystumenn MS, bændur og ekki síst almennt starfsfólk sem bar enga ábyrgð á þessari framgöngu allri, frekar en almennir bændur. Við biðjumst hér með velvirðingar á því og þykir það miður.

Því miður fylgir svona átökum að fólk skipar sér í sveitir, og af stað fer atburðarás sem enginn gat séð fyrir hvernig endaði eða hvaða mynd tæki á sig, hvorki af hálfu MS né annarra málsaðila. Við hjá Mjólku máttum þola ýmislegt þar sem fótgönguliðar tóku sig til að eigin frumkvæði og gengu hart fram gagnvart okkur, og töldu sig hafa fulla heimild til þess, ekki síst í ljósi þess að sjálfskipaðir varðhundar kerfisins, m.a. fyrrrverandi landbúnaðarráðherra, sem gerði sig ítrekað sekan um að fara endurtekið með helber ósannindi, alvarlegan atvinnuróg og annan þvætting, bæði opinberlega og á vettvangi bænda. Slík framganga gefur skotleyfi á fólk, fyrirtæki þeirra og fjölskyldur sem er erfitt að búa við og er slík framkoma ekki til eftirbreytni. Það væri þarft að slíkir aðilar þekktu sinn vitjunartíma, og héldu sig við trúðshlutverkið sem fer þeim betur en sérhagsmunagæslan.

Þannig var því ítrekað haldið fram að MS hefði tapað háum fjárhæðum á viðskiptum við Mjólku, en rannsókn og gögn Samkeppniseftirlitsins sýndu hins vegar ótvírætt fram á að svo var ekki, heldur var um viðskipti/ millifærslu á milli MS og KS að ræða við yfirtökuna á Mjólku.

Betur má ef duga skal

Við ruddum sannarlega brautina og samkeppni ríkir nú á mjólkurvörumarkaði og barátta okkar hefur skilað lífvænlegri rekstrarskilyrðum fyrir nýja aðila á þessum markaði eftir ríflega 80 ára einokunarsögu, en betur má ef duga skal í þeim efnum. Við áttum nefnilega öfluga liðsmenn í Samkeppniseftirlitinu sem tryggðu þessa niðurstöðu með vandaðri vinnu, og hafa unnið hvert afrekið á fætur öðru sem hefur verið eftirtektarvert. Að mínu viti er enginn betur að fálkorðu forseta Íslands kominn en forstjóri Samkeppniseftirlitsins, Páll Gunnar Pálsson, fyrir þau afrek sem eftirlitið hefur unnið undir forystu hans.

Eftir að niðurstöður dómstóla lágu fyrir, var ljóst að Mjólka ætti hugsanlega ríkar skaðabótakröfur á hendur Mjólkursamsölunni, eða allt að 1.800 milljónir, ekki síst vegna þess mikla tíma sem málareksturinn tók.

Við fjölskyldan að Eyjum II í Kjós, og stofnendur Mjólku, erum hefðbundið bændafólk sem hefur fyrst og fremst viljað skapa sér lífsviðurværi og afkomu með stofnun og rekstri Mjólku. Okkar markmið var aldrei að koma höggi á Mjólkursamsöluna eða íslenska bændur, heldur þvert á móti höfum ávallt verið þeim velviljuð. Því síður var það okkar markmið að verða rík á kostnað bænda og neytenda, og því var niðurstaða okkar sú að ljúka málinu, hvað varðar skaðabótakröfu gagnvart MS, með þeim hætti að þær yrðu ekki sóttar í vasa bænda eða neytenda.

Við höfðum því frumkvæði að sáttum í málinu og lögðum fram þá tillögu að við fengjum greiddan stóran hluta af útlögðum lögfræðikostnaði við málareksturinn, bæði hér heima og erlendis. Málinu var lokið á grunni þeirra tillagna. Aðrar kröfur voru felldar niður af okkar hálfu. Íslenskir neytendur og bændur fá því ekki bakreikning vegna þessarar baráttu og þess herkostnaðar og beina fjárhagstjóns sem við urðum fyrir.

Auðmýktin er móðir virðingar

Við hvetjum bændur til að standa þétt við bakið á sínum fyrirtækjum, en ganga fram af auðmýkt og sanngirni gagnvart samkeppnisaðilum sínum á markaði. Jafnframt hvetjum við þá til að velja til forystu hæft og framsýnt fólk, sem sér ekki framþróun og breytingar sem óvin heldur sem nýtt tækifæri. Einnig er mikilvægt að bændur sýni þeirri vernd og stöðu sem hefur verið þjóðarsátt um að skapa bændum, veglæti og virðingu, og ganga um það vald sem í því felst af auðmýkt og ábyrgð. Þá mun bændum farnast vel og samfélagið standa vörð um íslenskan landbúnað og efla hann, því auðmýkt er móðir virðingar.

Við fjölskyldan í Eyjum II í Kjósarhreppi sendum bændum og neytendum okkar bestu óskir um gleðilegt og gjöfult sumar.

Skylt efni: Mjólkursamsalan

Nauðsyn þín er tekjulind okkar
Lesendarýni 26. janúar 2026

Nauðsyn þín er tekjulind okkar

Einhvers konar skattheimta er óhjákvæmilegur hluti samfélags. Skattar eru ekki v...

Fornleifar og skógrækt
Lesendarýni 26. janúar 2026

Fornleifar og skógrækt

Fornleifar kunna að þykja áhugaverðar, enda oft gaman að horfa til baka um farin...

Sorpbrennsla á Íslandi – besta lausnin?
Lesendarýni 26. janúar 2026

Sorpbrennsla á Íslandi – besta lausnin?

Við Íslendingar framleiðum margvíslegan úrgang, allt frá heimilis- og iðnaðarúrg...

Tími íslenskrar náttúru er núna
Lesendarýni 16. janúar 2026

Tími íslenskrar náttúru er núna

Atvinnustefna Íslands, vaxtarplan ríkisstjórnarinnar til ársins 2035 liggur fyri...

Íslenskari en ...
Lesendarýni 6. janúar 2026

Íslenskari en ...

Algeng er sú rökvilla að nútíminn mínus öld eða tvær sé einhvers konar hápunktur...

Við áramót
Lesendarýni 30. desember 2025

Við áramót

Árið 2025 var prýðisgott ár til lands og sjávar. Þess naut sannarlega við í blóð...

Vetrarbeit og válynd veður
Lesendarýni 22. desember 2025

Vetrarbeit og válynd veður

Er nokkuð jólalegra en maður, sauður og hundur á ferð í myrkri og kafaldsbyl á ö...

Fjölbreyttur og kraftmikill landbúnaður til framtíðar
Lesendarýni 22. desember 2025

Fjölbreyttur og kraftmikill landbúnaður til framtíðar

Þetta fyrsta ár mitt í embætti atvinnuvegaráðherra hefur verið allt í senn fjölb...