Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Síðasta myndin af þeim félögum, tekin í vor. Meistari ellefu vetra.
Síðasta myndin af þeim félögum, tekin í vor. Meistari ellefu vetra.
Mynd / Einkaeign
Lesendarýni 7. júní 2024

Saga af forystusauðnum Meistara

Höfundur: Rúnar Hreinsson, bóndi á Grindum í Skagafirði.

Árið 2013 fæddust hér á Grindum í Deildardal tvö hrútlömb af forystukyni, voru þeir vorgeltir og hugmyndin að eiga og setja á forystusauð.

Annar þeirra var móarnhöfðóttur, hinn móblesóttur leistóttur. Þann móblesótta ákvað ég að gefa ungum dreng, Hólmari í Vogum, litla bróður konunnar minnar, sem sé mági mínum og kærum vini, sem þá var að verða 12 ára. Þetta er sagan af þeim sauð, það er forystusauðnum, ekki Hólmari. Sögusviðið er Deildardalur og Deildardalsafrétt í Skagafirði.

Hólmar með sauðinn, fyrsta haustið þegar hann kom af fjalli undanvilltur. Hann sýndi strax greinilega forystuhæfileika.

Þessi tvö forystulömb fóru á fjall með móður sinni, sem var forystuær frá Leifsstöðum í Öxarfirði, þá þriggja vetra gömul. Á einhverjum tímapunkti yfir sumarið hafa leiðir þeirra skilið, og móblesótta lambið viljað kanna veröldina upp á eigin spýtur, hann sem sagt fer undan móður sinni og yfirgefur bróður sinn, sem fylgdi móðurinni.

Um þetta vissi náttúrlega enginn, allavega enginn mennskur. Sumarið líður og haustið að hefjast með öllum sínum ævintýrum og smalamennskum. Í göngum kemur undanvillti, móblesótti sauðurinn fyrir og rekst vel, svo vel raunar að hann rennur á undan safninu í gegnum afréttarhliðið og áleiðis til réttar.

Þegar til réttar er komið er ljóst að fleiri gangnamenn höfðu tekið eftir og haft orð á vasklegri framgöngu hjá þessu undanvillta smálambi sem rann á undan safninu, í gegnum afréttarhliðið og niður að rétt, já þetta móblesótta, leistótta smálamb, þetta voru snilldartaktar hjá honum, einhver sagði að þetta væri algjör meistari, og þar með var það komið, nafnið á þennan forystusauð, Meistari, stórt nafn á lítið lamb og öll ævin fram undan.

Meistari á sínum bestu árum.

Meistari fór um haustið á sitt nýja bú, Voga á Höfðaströnd, þar sem tengdaforeldrar mínir ráku á þeim tíma fjárbú, og eigandi hans Meistara vildi að sjálfsögðu að hann væri hjá sér. Hann fékk mikið og gott atlæti yfir veturinn og stækkaði hratt og mikið. Hornin hjá vorgeltum sauðum vaxa oft ansi mikið út til hliðanna og með mildum sveig og verða oft fyrirferðarmikil. Hornin hans Meistara uxu á þann hátt að þau urðu meira hringlaga, þó ekki eins og á hrút heldur þannig að þau uxu upp, og aftur og sveigðu svo aftur í átt að skrokknum, og urðu þar að leiðandi ansi mikilfengleg og stór um sig. Meistari var til heimilis, ef svo má segja, í Vogum allt fram til ársins 2016, og veit ég ekki betur en að það hafi gengið vel með hann þar. Að vísu leitaði hann í átt til heimahaganna, fyrsta sumarið á afrétti þar, en komst nú ekki alla leið í það skipti. Þegar fjárbúskap var hætt í Vogum lá beinast við að Meistari kæmi aftur heim á æskuslóðirnar, í kjölfarið, þá orðinn þriggja vetra. Ég held að allir hafi verið býsna sáttir við það og ekki síst sá sem þessi saga er um. Greinilegt var að hann undi sér vel og átti nú aðeins eftir að vaxa og dafna í sínum verkum.

Hann var hafður með fé sem gengur við opið um veturinn og unir sér vel, kóngur í ríki sínu.

Í sumarbyrjun þegar hægt er að fara með fé á afrétt, fer Meistarinn ásamt öðru fé til fjalla og er ætlað að dvelja þar sumarlangt. Hinn heimakæri, móblesótti sauður var hins vegar kominn úr afréttinni í ágústbyrjun tekið á sig krók á heimleiðinni, og lenti á bænum Stafnshóli, hjá Þórði. Til að skýra betur út legu jarðanna þá eru Grindur og Stafnshóll í raun nágrannabæir en Grafará rennur milli jarðanna, og í sjó fram. Þórður sagði, svo ég vitni beint í hann: „Hann móblesi þinn var nú bara nokkuð rólegur hérna hjá mér, en hann labbaði oft upp á hólinn hérna fyrir ofan og horfði heim í Grindur, hann vissi alveg hvar hann átti heima.“

Að lokum yfirgaf Meistari Stafnshól og hélt í áttina heim, en átti ekki gott með að finna sér stað að fara yfir ána. Ekki svo að skilja að um neitt stórfljót sé að ræða eða straumþunga á, hann var bara alltaf frekar varfærinn. Hann var eina tvo eða þrjá daga beint á móti heimastöðvunum og horfði heim, en þar er áin hyldjúp svo ekki fór hann þar yfir. Loks fann hann sér stað þó nokkru neðar og fór þar yfir ána og hélt svo í áttina heim, kominn réttum megin við ána. Sigri hrósandi gekk hann inn um veghliðið heim að bænum sínum.

Nýrúinn Meistari.

Sami háttur var hafður á veturinn eftir, hann hafður úti við með fé sem gekk við opið. Næsta sumar var farið með hann ásamt fleira fé á dráttarvél með vagni fram á afrétt.

Þessari ferð verð ég að gera betur skil.

Ég var búinn að setja fé á vagninn, sem skiptist í tvö hólf. Meistari var í fremra hólfinu ásamt lambfé. Bjarkey, eldri dóttir mín, og vinkona hennar voru 9 og 10 ára gamlar og fóru með í ferðina, enda fátt eins magnað og að fara fram í afrétt með fé á sumarkvöldi.

Þegar við erum komin vel áleiðis og ferðin fer að hægjast fá þær að vera á vagninum með fénu, því það er skemmtilegast í heimi fyrir 9 og 10 ára krakka (já og reyndar fullorðna líka) að fá að vera á fjárvagni innan um fé og keyra á afrétt.

Þær standa fremst á vagninum og hafa gaman, og syngja, þegar ein ærin fer að gera sig líklega að renna á þær. Þær kalla eitthvað á mig hálfskelkaðar en ég læt mér þetta í léttu rúmi liggja, í bili.

Ærin fer nú að verða ágengari við þær og er alveg líkleg til að láta vaða á þær hvað á hverju og þær eru byrjaðar að kalla á mig og hálfkjökra. Meistarinn er þarna á vagninum og skynjar að þær eru minni máttar í þessu samhengi og að hin kollótta vinkona hans gæti látið til skarar skríða hvenær sem er.

Þar sem stelpurnar standa í horninu fremst á vagninum kemur sauðurinn fram til þeirra og gengur á milli þeirra og kindarinnar sem hafði gert sig líklega til að renna í þær. Róuðust nú allir um stund og Meistari ætlar að færa sig til baka, en þá ætlar ærin aftur að gera sig líklega til að renna í stelpurnar, svo hann sá að best væri að halda kyrru fyrir og stóð það sem eftir var ferðarinnar á milli stelpnanna og kindarinnar sem hafði verið að ógna þeim. Mikið var honum klappað, líklega svo hann yfirgæfi ekki stelpurnar, og svo þegar honum var sleppt út af vagninum fékk hann ærlegt knús frá stelpunum, sjálfur bjargvætturinn. Þetta var magnað að sjá og fá að upplifa, þessa skynugu skepnu sem tók stjórnina á vagninum.

En líkt og árið á undan kom hann sjálfur heim í ágústbyrjun og nú fipaðist hann hvergi á leiðinni, mættur heim til sín bara býsna drjúgur með sig.

Þennan háttinn hafði hann á, það er að koma tímanlega heim á haustin, þar til síðustu tvö, þrjú árin, en þá fékk hann einfaldlega að vera í heimahögunum yfir sumarið og undi því vel. Of langt mál væri að telja allt upp sem hann gerði minnisvert um dagana, en þó ber þess að geta að um fengitíma var hann alltaf hafður inni með gemlingum sem ekki var haldið, og oft gaukað einhverju góðgæti að honum á þeim tíma, en þó var hann aldrei frekur á það, eða sóttist eftir einhverju kjassi.

Eins verð ég að nefna að hann einfaldaði allan innrekstur á fé hvort sem það var á haustin, eða ef þurfti að reka inn það fé sem gekk við opið sökum veðurs.

Alltaf rann hann á undan og inn, hann var líka fyrstur út þegar svo bar við. Þegar honum var hleypt út á vorin með lambfé, eftir innistöðu, í hólf við fjárhúsin, fylgdist hann með lömbunum leika sér, en lét annars lítið fyrir sér fara.

Í vor varð Meistari ellefu vetra gamall, og var seinni hluta vetrar, eða nú undir vor, farinn að slappast. Hafði ekki eins góða lyst og áður og var greinilega farinn að verða gamall. Ég hleypti honum út um miðjan maí saman með lambfé einsog ætíð áður og gekk hann rólega í heyið með fénu, át svolítið og lagðist svo og fylgdist með lömbunum að leik.

Var ég viss um að nú myndi hann hressast og braggast, þó ég vissi líka að nú væri síðasta sumarið runnið upp hjá þessum höfðingja. Morguninn eftir stóð hann næst fjárhúsunum, einn, og leit til mín þegar ég gekk út.

Ég gekk til hans, og við vissum, já, við vissum það báðir. Ég tók í annað hornið á honum og hann teymdist við hlið mér eins og hestur og inn í fjárhús. Þar lögðumst við vinirnir í heyið og hann lagði höfuðið á sér í fangið á mér. Meistari stóð aldrei upp aftur.

Meistari og eigandinn, Hólmar Björn Birgisson.

Það eru mikil forréttindi að fá að eiga og hugsa um skepnur, og að fá að kynnast stórbrotnum karakterum, sem hafa svona mikil áhrif á mann. Þessi kind var í miklu uppáhaldi hjá mér og minni fjölskyldu og vakti athygli þeirra sem sáu hann.

Meistari var eins og forystusauð sæmir, háfættur og greindarlegur, blesan breið og augun blíðleg. Hornin kórónuðu glæsilegt höfuðið. Léttrækur og ekki til vandræða í rekstri, skynsamur og hélt sig nálægt manninum þegar hann var í rétt, eða í húsi. Móblesótti, leistótti, heimakæri Meistarinn hvílir sín gömlu og þreyttu bein við húsin þar sem hann gekk við opið á vetrum og var eins og áður segir kóngur í ríki sínu.

Takk fyrir lesturinn, hann sýnir að þér er annt um íslensku sauðkindina.

Skylt efni: forystufé

Íslandsmót í rúningi
Lesendarýni 18. október 2024

Íslandsmót í rúningi

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu (FSD) hyggst endurvekja Íslandsmeistaramótið í r...

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi
Lesendarýni 15. október 2024

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi

Árið 1981 voru samtök fag- og stéttarfélaga frjótækna í Evrópu stofnuð í Strasbo...

Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Lesendarýni 9. október 2024

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Á meðan trén vaxa ræða skógarbændur framtíðina. „Það er víst lítið annað að gera...

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi
Lesendarýni 4. október 2024

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi

Öldungaráð Selfoss boðaði komu sína í MS-stöðina á Selfossi með fyrirspurnina á ...

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu
Lesendarýni 3. október 2024

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu

Haustið 2007 setti stjórn félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu saman nefnd ti...

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið
Lesendarýni 2. október 2024

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið

Íslenskur landbúnaður hefur gegnt lykilhlutverki í þróun samfélagsins frá landná...

Áhyggjur af samdrætti innan ESB
Lesendarýni 26. september 2024

Áhyggjur af samdrætti innan ESB

Þann 9. september 2024 kynnti Mario Draghi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu,...

Þá og nú
Lesendarýni 23. september 2024

Þá og nú

Hin hugljúfa ástarsaga Bergsveins Birgissonar um ástir þeirra Bjarna og Helgu he...

Bændur orðnir langþreyttir
23. október 2024

Bændur orðnir langþreyttir

Niðurgreiða sýningargjöld
23. október 2024

Niðurgreiða sýningargjöld

Kjói
23. október 2024

Kjói

Þórdís Laufey
23. október 2024

Þórdís Laufey

ML-sveitin ósigrandi í keppni eldri borgara
22. október 2024

ML-sveitin ósigrandi í keppni eldri borgara