Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Refur með dauðan gæsarunga.
Refur með dauðan gæsarunga.
Mynd / Benedikt Hrólfur Jónsson
Lesendarýni 7. mars 2022

Refaveiðar og vargeyðing

Höfundur: Daði Lange Friðriksson, umhverfisstjóri og meindýraeyðir í Mývatnssveit

Þegar Ísland byggðist af land­náms­mönnum sem komu fyrir aldamótin 1000 og hófu að nema land hér var refurinn eini ábúandinn á landi. Líklega hefur hann búið hér lengi og býr hér enn ásamt fleiri landspendýrum. Maður og refur áttu ekki samleið og brátt urðu árekstrar og má segja að sífellt hafi geisað stríð á milli þeirra síðan. Meira að segja var settur refaskattur á landeigendur um að hver og einn átti að skila visst mörgum feldum miðað við bústærð.

Mismikið er stríðið þó en ekki virðist sjá fyrir endann á því nema að hinir háu herrar setji lög um refaveiðar, sem banna þær. Þó er ekki víst að stríðið hætti alveg því það eru ýmsir sem þurfa að verja sína hagsmuni, t.d. æðarbændur. Hvað ætli séu drepnar margar mylkar læður og/eða refir sem eru að bera æti heim fyrir nýgotnar læður, til að vernda æðarvörpin? Það eru líka fleiri vargar í varpi heldur en tófan og þeim ber að sinna líka.

Öðruvísi en fyrir 50-100 árum

Í dag eru refaveiðar talsvert öðruvísi en fyrir 50-100 árum þegar menn voru með gildrur, eitur og nánast eingöngu haglabyssur. Búseta var auk þess á nánast öllum stöðum á landinu nema á bláhálendinu. Margir af þeirri kynslóð sem voru uppi á þessum tíma hötuðu tófurnar, vildu nota allar hugsanlegar aðferðir til að drepa þær. Sauðfjárræktin var að aukast, tækniframfarir að breyta búskaparháttum en samt áttu menn mikið undir hverri þeirri skepnu sem menn áttu og því var dýrt að missa kind í tófukjaft.

Nær allir sem hafa séð tófu ráðast á kind, draga úr henni garnirnar, drepa vorlamb með því að mylja á því snoppuna biðja tófunni ekki vægðar, þeir fara að hata hana. Theódór Gunnlaugsson frá Bjarmalandi segir svona frá ref á Hólsfjöllum:

,,Veturna 1950-1952 hafði þessi refur, drepið fyrir Sigurði, 25 ær og sauði, er úti lágu, nótt og nótt á beitarhúsum þar, nokkurra kílómetra gang, norðan við bæinn. Refurinn þráelti ærnar þar til þær gáfust upp og lögðust. Þá réðst hann aftan í þær, og reif þær á hol við endaþarminn, dró hann út, og hámaði í sig fitu, og blóð, þegar hann fékk frið til þess. Fyrir kom að kindurnar fundust lifandi, með endaþarminn blæðandi“.

Auk þess segir hann frá á sömu blöðum frá gemlingum í Mývatns­sveit en svo fóru menn að bera tjöru á hálsinn á þeim til að verja þá tófubiti.

,,Vorið 1927 fundust rúmir 20 gemlingar dauðir austur á Mývatnsfjöllum, allir bitnir á barkann, sogið blóðið og svo látnir liggja. Vorið eftir fannst svo svipuð tala á sömu stöðum, fremur litlu svæði vestan við Nýja-Hraun, um og eftir rúning“ (Theódór Gunnlaugsson 1983).

Afstaðan til tófunnar hefur breyst

Kynslóðirnar sem á eftir komu hata ekki tófurnar og margir eru meira að segja farnir að halda að þær séu svo góðar, búið að breyta þeim í góðar persónur með barnabókum og teiknimyndasögum. Á árunum 1960-1968 þegar menn voru enn að eitra fyrir tófum og víða hafði það tekist vel fóru menn eins og Theódór á Bjarmalandi að berjast á móti eitrinu. Tófurnar sem eftir lifðu urðu harðskeyttari, að mati Theódórs, og merki um að fleiri yrðu dýrbítar (Theódór Gunnlaugsson 1967).

Ungar sem komu úr læðukjafti í greni. Mynd / Ingvar Stefánsson

Farnir að gera sér greni mun nær byggð en áður

Refir í dag sækja meira niður í byggð og eru farnir að gera sér greni mun nær byggð en áður, hluti af því tengist meiri umferð um hálendið. Einnig eru breyttar aðstæður, meiri gróður (t.d. lúpína), meira æti og tófan er að þróast með manninum. Sigurður Ásgeirsson sagði að tófurnar væru orðnar miklu frakkari, orðnar stærri og sterkari eftir kynblöndun við búrrefi þó svo að grimmdareðlið búi áfram í honum, því verður ekki útrýmt svo auðveldlega (Sveinn Runólfsson og Jón Ragnar Björnsson 2010).

Gera mikinn usla í fuglalífi

Tófur gera mikinn usla í fuglalífi og á t.d. tófan ekki minni þátt í því en maðurinn að það sé lægð í rjúpnastofninum. Auk þess hafa reyndari grenjaskyttur, t.d. Friðbjörn Haukur og Sigurður Ásgeirsson, talað um aukningu í frjósemi. Áður fyrr voru þetta 2-4 hvolpar á greni en núna eru 4-7 algengir en alveg upp í 10-11 stykki.

Ég ólst upp við að grenjavinnsla væri eftirsótt starf og svolítil rómantík á bak við það, liggja úti á björtum sumarnóttum en reynslan kennir manni að þetta sé oft og tíðum hörkuvinna, stundum legið samfleytt 22-36 klst. á greni (þá er enginn lögbundinn hvíldartími). Rómantíkin fer fljótt af þessu þegar veðrið versnar og aðstæður eru ekki góðar. Það má líkja þessu við smalamennskur, þegar menn eru á góðum hesti í frábæru veðri að smala er fátt skemmtilegra, en þegar gengið er á eftir fé í krapahríð og kulda fer gamanið fljótt af þessu. Sama á við um að liggja á greni, með góðan riffil, góða aðstöðu, gott nesti í 10 stiga hita á bjartri sumarnóttu og bíða eftir ref er gaman en það á við flesta veiði í góðu veðri.

Fiður við greni eru glögg merki um ævilok fugla sem þar hafa vappað um móana. Mynd / Benedikt Hrólfur Jónsson

Fæðuþörf tófunnar er mikil

Menn deila um hvort að grenjavinnsla eigi rétt á sér, bíða eftir dýrum sem eru að færa afkvæmum sínum mat, bíða við hreiðrið ef svo má segja. Hins vegar má velta þeirri spurningu upp, hvað tófa á grenjatíma heimsæki mörg hreiður á þeim tíma sem hún er að bera æti í afkvæmin. Heyrði ég eitt sinn að tófufjölskyldan þyrfti um 350-400 kg af mat til að komast upp á árinu.

Með lóur, spóa, skógarþresti, endur, rjúpur og gæsir í matinn

Ef unnin eru 10 greni í einu sveitarfélagi þá eru þetta 3,5-4 tonn af kjöti sem er að mestu fuglakjöt, smádýr og svo kindakjöt. Það eru ansi margar lóur, spóar og gæsir.
Gerðar hafa verið athuganir á fæðu refa en þær verða ekki raktar hér. Reynslan er sú að flestar tófur og þá sérstaklega inn til landsins lifa á fugli, mófugli, öndum, rjúpu og gæs. Hef ég séð tófu í miðju gæsavarpi koma með unga frá lóu og skógarþröstum heim á greni en hún hefur valið æti eftir stærð hvolpanna. Á sama greni voru leifar af fullorðnum gæsum sem ætla má að refurinn hafi borið í læðuna þegar hún lá á ungum hvolpum. Nokkrum sinnum hef ég séð lambaleifar á greni en ekki nema einu sinni komið á greni þar sem var dýrbítur.

Til er fjöldinn allur af sérfræðingum og sjálfskipuðum sérfræðingum, sjáum það best í umræðunni um Covid og bólusetningar. Við vitum oft og tíðum mun minna en við höldum og reynslan er það sem kennir okkur best, svo verðum við að læra sumt og lagfæra og þróast með því. Jafnvel kindur gæða sér á eggjum og ungum, hverjum hefði dottið það í hug?

Dæmi um vanþekkingu var t.d. þegar Sigurður Ásgeirsson refaskytta fór inn í Þórsmörk ásamt Stefáni bróður sínum. Oddviti þeirra Vestur-Eyfellinga, Ólafur Kristjánsson á Seljalandi, dró verulega úr því að þeir myndu eyða tímanum í þær veiðar, það væri mjög lítið af tófu í Þórsmörk og borgaði sig engan veginn að fara. Sigurður og Stefán náðu 8 fullorðnum tófum og 19 yrðlingum og náðu ekki öllum og var talsvert af tófu þar árið eftir. Það heyrðist eitthvað lítið í oddvitanum eftir það (Sveinn Runólfsson og Jón Ragnar Björnsson 2010).

Í grein í Fréttablaðinu 9. nóv­ember sl. var rætt um að for­sendur refaveiða væru brostnar og sagt að þær væru orðnar að vana og/eða launaðri sportveiði. Aðeins neðar stendur í sömu frétt að finna ætti annað fyrirkomulag, einkum með tilliti til fuglaverndar. Á nú allt í einu að vernda fugla með friðun refs?

Ritað var í Morgunblaðinu 25. nóvember 2021 að hætta eigi grenjavinnslu og taka eingöngu upp vetrarveiðar. Þar er velt upp þeirri spurningu hvort við höfum einhvern rétt til að reyna að stýra náttúrunni með því að ofsækja eina tegund svo aðrar geti dafnað. Já, ég tel svo vera þegar um er að ræða varg eins og ref, mink, hrafna og máva. Ef á að leyfa náttúrunni að hafa sinn gang, eigum við þá ekki að hætta öllum veiðum, leyfa hvolpunum að drepast í grenjunum vegna ágengra túrista eins og gerðist á Hornströndum (Esther Rut Unnsteinsdóttir 2020)? Hætta að reisa varnargarða fyrir ár og snjóflóð og flytja fólkið bara í burtu?

Þarf að halda fjöldanum í skefjum

Herðubreiðarlindir væru ekki til með núverandi hætti ef ekki hefði verið settur varnargarður við árkrossinn. Ég er hins vegar ekki að tala um að útrýma neinu, nema þá helst minknum á Íslandi, heldur að halda fjöldanum í skefjum og draga úr skaða.

Í Mývatnssveit voru unnin þrjú tófugreni rétt við Laxá sumarið 2020. Eitt þeirra var úti í eyju í Laxá og annað í 400 metra fjarlægð í landi og svo voru 2 km í það þriðja. Samtals voru veidd þarna 22 dýr.

Ekki hefði verið gaman að eiga við þau eftir t.d. 1. ágúst og ætla að veiða þau öll um veturinn. Það er alveg nóg til samt. Tæplega 100 minkar voru veiddir á síðasta ári í Skútustaðahreppi. Þarf ekki að spyrja hver áhrifin hefðu verið á fuglalífið ef ekkert væri gert í fækkun þeirra. Eins og góður maður sagði ,,ef ég kæmi að síðasta tófugreninu í landinu þá myndi ég ganga frá, ef ég kæmi hins vegar að síðasta minkagreninu í landinu þá myndi ég gera allt til að vinna það.“

Nauðsynlegt er að halda tófu­stofninum niðri og engin leið til þess er betri en grenjavinnsla samhliða vetrarveiði. En menn skulu heldur ekki gleyma minknum, hrafninum, veiðibjöllunni og sílamávnum og fleiri flugvörgum sem valda ekki síður skaða í lífríkinu en tófan.

Undanfarið er meira rætt um ágengar tegundir og það þurfi að eyða þeim á vissum svæðum en þá er nánast eingöngu verið að tala um tegundir í plönturíkinu, lúpínu, kerfil, njóla og þistil.

Menn þurfa að fara að tala um þetta af fullri alvöru en ekki bara endalaust stofna starfshópa, gera skýrslur og reikna og segja svo að það séu ekki til 100 kallar til að vinna hið raunverulega starf, sem er eyðingin/fækkunin sjálf.

Grenjaskytta og/eða minkaveiði­maður mega teljast góðir með að fá 3.200 á klst., að sama skapi finnst mönnum bara ekkert mál að borga lögfræðingi 27.500 kr. á klst., sérfræðingi 15.000 kr. og svona lengi mætti telja. Svo ég hætti nú ekki þá braut að fara að ræða listamannalaunin.

Veiðar á vargi má líkja við að skúra gólfin í skólum, það næst árangur fyrst um sinn, en svo þarf að skúra, skúra og skúra og alltaf verður gólfið skítugt aftur. Ef menn þrífa svo ekki nágrennið í kringum sig verður skólinn mun fyrr skítugri. Reynslan eins og t.d. í Borgarfirði þar sem búið er að draga úr grenjavinnslu er aukningin á ref mikil.

Hvernig er ástandið í Bretlandi á rauðrefnum, var ekki grenjavinnslu hætt þar? Rauðrefurinn er inn í borgunum og alls staðar í náttúrunni. Veiðar á vargi og verndun lífríkis mun aldrei og getur aldrei verið sportmennska nema að hluta til. Þetta þurfa að vera föst störf alveg eins og ræstitæknirinn, bréfberinn, lögfræðingurinn og íþróttakennarinn. Verktakar eru fínir með og sérstaklega á grenjatíma, en með fækkun fólks í sveitum og aldursdreifingu bænda eins og hún er í dag, þarf að gera þetta að föstum störfum sem erfast ekki bara í beinan karllegg.

Vargur virðir engin sveitarfélagamörk

Af ýmsum ástæðum er fyrirkomulag þessara mála umhugsunarefni. Vargur virðir engin sveitarfélagamörk og trassaskapur eins bitnar á öðrum. Sér í lagi er mikilvægt að þessum málum sé sinnt af myndarskap á svæðum sem njóta sérstakrar verndar vegna einstaks lífríkis svo sem á verndarsvæði Mývatns og Laxár. Auk þess eru að minnsta kosti 50 svæði á skrá sem mikilvæg fuglaverndunarsvæði (Lára Halla Sigurðardóttir 2013).

Nauðsynlegt er að unnin verði heildarstefna um eyðingu vargs og annarra ágengra tegunda en ekki látið duga að hvert sveitarfélag hafi það eins og því sýnist. Þá er stefnan ein og sér gagnslaus ef henni fylgir ekki fjármagn til aðgerða og umgjörð sem tryggir árangursríka framkvæmd.

Daði Lange Friðriksson umhverfisstjóri og meindýraeyðir í Mývatnssveit.

Heimildir
Esther Rut Unnsteinsdóttir (2020). Refir á Hornströndum, áfangaskýrsla um vöktun árið 2019. NÍ.
Ingólfur Davíð Sigurðsson (2021). Refaveiðar. Morgunblaðið, fimmtudaginn 25. nóvember 2021. Bls. 18.
Kristinn Haukur Guðnason (2021). Telja forsendur refaveiða brostnar og vilja breytingar. Fréttablaðið 9. nóvember 2021. Forsíða.
Lára Halla Sigurðardóttir (2013). Vaxandi áhugi á fuglaskðun. mbl.is,20.apríl 2013.
Sveinn Runólfsson og Jón Ragnar Björnsson (2010). Refaskyttan hugljúfa Sigurður Ásgeirsson. Sveinn Runólfsson. 199 bls.
Theódór Gunnlaugsson (1955). Á refaslóðum. Búnaðarfélag Íslands, (Bjarmaland 2012), 385. bls.
Theódór Gunnlaugsson (1967). Skiptar skoðanir. (Um refaveiðar). Tíminn, 27. apríl, 1967, bls. 7 og 12.
Theódór Gunnlaugsson (1983). Ljósrit á blöðum, Gylfi Sigurðsson skrifaði upp.

Skylt efni: refir

Skýrsla um raunveruleikann
Lesendarýni 18. september 2024

Skýrsla um raunveruleikann

Ástandið í íslenskum landbúnaði er víðs vegar þungt og mannskapurinn er þreyttur...

Tollar og tómatar
Lesendarýni 16. september 2024

Tollar og tómatar

Eins og sólin sest í vestri er nokkuð árvisst að upp komi umræða um tolla á land...

Skógrækt og skemmtun
Lesendarýni 4. september 2024

Skógrækt og skemmtun

Þegar líður að hausti breytist yfirbragð skóganna í stórkostlega haustlitasinfón...

Hernaði skógræktar gegn náttúru landsins verður að linna
Lesendarýni 3. september 2024

Hernaði skógræktar gegn náttúru landsins verður að linna

Almenningur hefur að undanförnu fylgst agndofa með í fjölmiðlum hvernig fyrirtæk...

Vandar þú valið við fatakaup?
Lesendarýni 2. september 2024

Vandar þú valið við fatakaup?

Háhraða tískuiðnaðurinn (e. ultra fast fashion) tekur allt sem er slæmt við hrað...

Líforkuver á Dysnesi
Lesendarýni 23. ágúst 2024

Líforkuver á Dysnesi

Í síðustu viku opnaði ég nýjan vef Líforku. Opnun vefsvæðisins er hluti samstarf...

Íslandsmeistaramót í hrútadómum
Lesendarýni 16. ágúst 2024

Íslandsmeistaramót í hrútadómum

Starfsemin á Sauðfjársetrinu á Ströndum hefur gengið mjög vel í sumar og aðsókn ...

Áhrifaþættir matvælaverðs á Íslandi
Lesendarýni 16. ágúst 2024

Áhrifaþættir matvælaverðs á Íslandi

Í umræðum um matvælaverð hérlendis má oft sjá borið saman verð matarkörfu hérlen...