Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Átta ára kynbætt birki í dæmigerðu sunnlensku skóglendi. Ógnar það lífbreytileikanum?
Átta ára kynbætt birki í dæmigerðu sunnlensku skóglendi. Ógnar það lífbreytileikanum?
Mynd / Þorsteinn Tómasson
Lesendarýni 28. febrúar 2022

Óábyrgar kröfur um afnám skógræktar á Íslandi

Höfundur: Þorsteinn Tómasson

Nýtt eða nýlegt hugtak, „framandi ágeng tegund“, sem kemur fyrir í lið 8H í samningi Sameinuðu þjóðanna um „lífbreytileika“ er nú með óvægnum hætti dregið inn í umræðu um skógrækt af þeim sem vilja stöðva raunhæfa ræktun trjáa til nytja á Íslandi. Óljós og ruglingsleg notkun hugtaka einkennir umræðuna.

Hugtakið framandi ágeng tegund (á ensku í samningnum „invasive alien species“) er gildishlaðin nýsmíð sem vekur hugboð um og hvetur til neikvæðrar afstöðu til viðkomandi tegundar. Allar gerðir lífs frá bakteríum til spendýra eru undir. Sú undantekning er á þessari reglu að maðurinn og búsmali hans er ekki talinn með í ráðleggingum um viðbrögð. Vandinn sem skilgreindur er í lið 8H í samningnum er einkum tilkominn vegna meðvitaðs og ómeðvitaðs flutnings tegunda milli landa sem talinn er valda tilteknum skaða. Reyndar býr íslensk tunga yfir nokkrum orðum og hugtökum sem vekja svipaðar hugrenningar og „framandi og ágeng“. Algengast er orðið illgresi sem mun fyrst koma fyrir á prenti í Guðbrandsbiblíu. Á öðrum norðurlandamálunum og t.d. þýsku er þessum plöntutegundum ekki ætlað illt innræti en hlutlausu neitunarforskeyti u-(gräs) og un-(Kraut) skeytt framan við orð um nytjategund og þannig komið til skila að viðkomandi tegund sé óvelkomin á vaxtarstað, sé ekki nytjaplanta. Hlutlaus lýsing á illgresi er planta á röngum stað séð frá sjónarhóli ræktandans.

Lok er norrænt orð yfir illgresi

Frá landnámi og langt fram eftir öldum lifði þjóðin mest á beitarbúskap og öflun vetrarfóðurs á engjum eða litlum ábornum túnum. Þetta kann að vera ástæða þess að gott og gilt orð fyrir illgresi glataðist en það er orðið lok. Orðið kemur fyrir í orðasambandinu „að fara sem lok yfir akur“. Það kemur fyrir bæði í Orkneyingasögu og Fóstbræðrasögu og lýsir því annars vegar þegar Rögnvaldur Kali Kolsson jarl fór með ófriði um Orkneyjar til að ná þar aftur völdum að lokinni herferð til Landsins helga og hinsvegar ófriði þeim sem stafaði af þeim fóstbræðrum Þorgeiri Hávarðsyni og Þormóði Kolbrúnarskáldi þegar þeir dvöldust sumarlangt á Ströndum. Á Skáni í Svíþjóð notast menn enn við þetta orð, „luk“, fyrir illgresi og það að ráðast að því með arfasköfu er lýst með sögninni að „lukra“. Allir ræktendur kannast við ónot sem fylgir mikilli og oft hraðri innrás illgresis þar sem ræktandi ætlaði einungis fallegum blómum eða nytjaplöntum að vaxa. Þar sem íslensk þjóð stundaði lengi vel enga jarðrækt og nánast enga ræktun plantna í garðrækt tapaðist skilningur á orðinu lok en orðatiltækið breyttist í að fara sem „logi yfir akur“. Engin önnur norræn þjóð notar slíka myndlýsingu um eitthvað óvelkomið sem dreifist hratt. Eldur í sinu hefur sömu merkingu um hraða og óvelkomna yfirferð óværu eins og lok yfir akur.

Þorsteinn Tómasson. Höfundur er erfðavistfræðingur að mennt og hefur m.a. unnið að kynbótum birkis í frístundum. Mynd/ghp

Orðið illgresi truflar reyndar marga þar sem það gefur til kynna að viðkomandi planta sé illa innrætt sem gengur ekki alveg upp miðað hugmyndir okkar um sálarlíf plantna. Hafsteinn Hafliðason garðyrkjufræðingur hefur því stungið upp á forskeytinu ama þar sem amagróður, amagresi eða amaplanta er greinilega ræktendum til ama. Hughrifin snúa því að okkar afstöðu en ekki ætlaðri skaphöfn viðkomandi plantna.

Þessi langi aðdragandi að stuttri grein er settur hér fram til að skýra undrun mína á viðbrögðum sumra við hinni nýju skilgreiningu á illgresi, „framandi ágeng tegund“, sem er að finna í tölulið 8H í samningi Sameinuðu þjóðanna um fjölbreytileika lífsins sem Íslendingar gerðust aðilar að árið 1993. Einkum er það þó afstaða nokkurra ákafamanna hér á Fróni sem keppast nú við að benda á nytjategundir í skógrækt og krefjast þess að þeim verði fargað í nafni óska um viðhald „líffræðilegrar fjölbreytni“. Þykir reyndar mörgum að sleppa mætti þeim hluta hugtaksins sem vísar til fræða. Orðið lífbreytileiki vísar til einkenna lífsins en ekki fræðanna.

Þessi skilningur á samningnum er nú nýverið notaður til að reyna að hamla gegn nytjaskógrækt á Íslandi. Ekki verði ráð nema í tíma sé tekið til að verja stöðu Íslands sem trjásnauðasta ríki Evrópu en hér nær skógarþekja ekki tveimur prósentum og er þó miðað við meðalhæð trjáa sem ná yfir tvo metra en víðast hvar annarstaðar er miðað við fimm metra meðalhæð. Rétt er þó að geta þess að Mónakó og Vatíkanið munu skáka okkur í þessu tilliti.

Það vekur sérstaka athygli að Landgræðslan (áður Landgræðsla ríkisins) sem rekur uppruna sinn til laga sem sett voru um skógrækt virðist hafa sett það á stefnuskrá sína að rétt sé að vara sérstaklega við ræktun helstu trjátegunda og kvæma sem líkleg eru til að skila einhverjum nytjum. Nú í haust brá svo við að í aðalfréttatíma Ríkisútvarpsins var boðið upp á langt viðtal við sérfræðing við stofnunina sem lýsti því sem mikilli skelfingu að ræktuð væri hér furutegundin stafafura. Tegundin væri á góðri leið að leggja stóran hluta gróðurlendis landsins undir sig og eyða þannig þeim fátæklega lífbreytileika sem hefði borist til landsins eftir ísöld. Talin voru upp nokkur lönd þar sem stjórnvöld væru þeim íslensku árvökulli og væru nú þegar tekin til við að hemja ræktun þessarar tegundar. Til frekari áréttingar staðhæfði sérfræðingurinn að stafafuran væri „ágeng á heimsvísu“ sem væntanlega setur kvaðir á íbúa Norður Ameríku þar sem tegundin er landlæg að taka nú vélsagir sínar til aukinnar notkunar. Skömmu síðar birtist svo grein í Kjarnanum eftir prófessor í plöntuvistfræði við Háskóla Íslands þar sem tekið var undir mat sérfræðinga hjá Landgræðslunni og kveðið enn sterkar að orði um ógnir þær sem þjóðarinnar biði ef ekki yrði látið af ræktun stafafuru og þá væntanlega ráðist í útrýmingu þeirra skóga þar sem tegundin hefur verið gróðursett. Var ógninni lýst þannig að hún væri síst minni en slæmar afleiðingar af hamfarahlýnun sem spálíkön gera ráð fyrir. Undir lok greinarinnar var svo látið að því liggja að sitkagrenið sem er ein öflugasta trjátegundin til timburframleiðslu á Íslandi væri einnig varhugaverð í íslenskri náttúru. Auk starfsmanna hafa tveir fyrrum stjórnendur Landgræðslunnar til langs tíma skrifað greinar bæði í Morgunblaðið og Bændablaðið þar sem sterklega er varað við ræktun stafafuru á Íslandi. Í þessum greinum er tekið fram að sitkagrenið sé ekki síður varhugavert en stafafuran og barrtré almennt uppnefnd með heitunum „villibarr“ og „villitré“ svo ekki fari framhjá neinum hversu óæskilegar lífverur þessi tré séu.

Myndbirting rétttrúnaðar á ákvæði 8H í lífbreytileikasamningi. Starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðs með járnkarl að vopni vegur að sjálfsáinni víðiplöntu af erlendum uppruna sem vantar réttan stimpil í vegabréfið. Mynd / Vefur Vatnajökulsþjóðgarðs

Birki getur líka verið varhugavert í skógrækt þó íslenskt sé?

Reyndar er það svo að Landgræðslan beitir sér nú ekki eingöngu á móti ræktun á trjátegundum sem best hafa reynst á Íslandi bæði í aðlögun og uppskeru. Í nýlegri umsögn stofnunarinnar um trjárækt í nálægð Reykjavíkur í nánd við Lækjarbotna sem Skógræktarfélag Kópavogs hefur hug á að hefja er mælt ákveðið gegn því að ein „ágengasta tegund jarðar“ þ.e. stafafura verði gróðursett en einnig beri að „forðast“ að notast við eina kynbætta íslenska yrkið af birki þ.e. Emblu, sem jafnbest reynist í samanburðartilraunum um allt land. Einnig beri að forðast svonefnt Bæjarstaðaúrval. Hvatt er til þess að notast heldur við fræ af birki sem finnist á svæðinu og „aðrar íslenskar trjátegundir“. Ekki er tiltekið hverjar þær eigi að vera enda úr vöndu að ráða þegar gluggað er í Flóru Íslands. Þegar svipast er um á svæðinu má reyndar sjá einstaka birki en líklegast er erfðauppruni þeirra úr sumarhúsalöndum í nánd við svæðið. Þau tré eiga sennilega að mestu uppruna sinn í Bæjarstaðaskógi líkt og Bæjarstaðaúrval og yrkið Embla. Þessi afstaða Landgræðslunnar til þess hvaða birki skuli gróðursett er einnig þekkt úr öðrum landshlutum.

Engin ástæða er til að efast um einlæga afstöðu ofangreindra greinarhöfunda að varast beri skógrækt en hún byggir þá væntanlega á tilfinningum, fegurðarmati og einhverskonar þjóðernishyggju fyrir hönd gróðurfarsins en örugglega ekki á fyrirmælum úr alþjóðlegum samningum. Einstaklingar eru frjálsir að skoðunum sínum en erfiðara er að glöggva sig á hvernig stofnun sem auðkennd er með heitinu landgræðsla kemst að þeirri niðurstöðu að ekki megi rækta vænlegar plöntutegundir sem sóttar eru í gróðurlendi í öðrum löndum eða jafnvel öðru landshlutum innanlands til uppgræðslu og nytja á Íslandi. Reyndar er það svo að starfsmenn stofnunarinnar beittu sér áður mjög einarðlega að innflutningi, frærækt og notkun slíkra plantna áratugum saman og er öflug útbreiðsla lúpínunnar um allt land óbrotgjarn minnisvarði um mikinn árangur þess starfs. Hér er því um mikinn viðsnúning í stefnumörkun að ræða.

Ákvæði 8H flaggað á röngum forsendum

Ákvæði 8H í lífbreytileika-samningnum á fyllilega rétt á sér og full ástæða til að huga vel að innflutningi framandi erfðaefnis til landsins. Á því er mikil brotalöm hér á landi. Hvað varðar trjárækt er innflutningur plantna á rót eitt háskalegasta dæmið. Fjörlegt lífríki sveppa, baktería ,þráðorma, skordýra og snigla hefur borist til landsins sem laumufarþegar með þessum innflutningi. Meðal þess háskalegasta á síðustu árum eru tvær tegundir skordýra sem leggjast á birki.

Þær nefnast kemba og þéla og leggja egg á lauf birkis. Úr þeim klekjast lirfur sem éta sér leið milli laga í laufblaðinu þannig að trén verða iðulega brún um mitt sumar. Laufþekja stórra trjáa sem verða fyrir mikilli árás nær ekki að þjónusta stórt rótarkerfi og greinar og tréð deyr ef það verður fyrir slíkri árás nokkur ár í röð.

Illa farið birki í Eyjafirði eftir árás kembu á miðju sumri 2021. Kemba og þéla eru ekki skráðar á lista yfir ágengar framandi tegundir á Íslandi.Hverju sætir? Mynd/Sigurður Arnarson

Mikið er í húfi því þessi óværa er tekin að leggjast á birkikjarr og fjalldrapa víða um land þannig að sér á. Sennilega tóra þessar tegundir eitthvað vegna hæfileika þeirra til að endurnýjast frá rót.
Kemban og þélan eru landlægar tegundir í Evrópu en valda ekki merkjanlegu tjóni á birki þar. Skýringin á þessum mun á skaðanum sem þær valda hér og t.d. á Norðurlöndum felst í því að þær eiga sér náttúrulega óvini í smávöxnum vesputegundum sem halda þeim í skefjum. Eina sjáanlega lausn á þeim vanda sem skapast hefur af þessum slysalega innflutningi er að færa þessar vespur einnig inn í lífríki landsins. Þar kæmi því aukinn lífbreytileiki til hjálpar en núverandi fábreytileiki hvað varðar óvini ofangreindrar óværu er vandamál okkar.

Mynd af kembu sem hugar að varpi á birki. Til lítils að rækta birki hvort heldur það er með rétt vegabréf eða ekki nema beitt verði lífrænum vörnum. Mynd/ Brynja Hrafnkelsdóttir

Til þessa ráðs gripu Kanadamenn þegar ofangreind evrópsk skordýr bárust til þeirra og gerði það gæfumuninn. Möguleg hraðfara eyðilegging birkiskóglendis á Íslandi er hinn kosturinn. Í Bændablaðinu á liðnu hausti er gerð grein fyrir verkefni á vegum Skógræktarinnar sem beinist að slíkum lífrænum vörnum með dyggri aðstoð Kanadamanna og verður að vona að það fái skjótan framgang.

Ekki dugir að bíða með hendur í skauti og vonast til að þessar lífrænu bjargir berist okkur fyrir heppni með næsta farmi af plöntum á rót sem fluttur er nánast eftirlitslaus til landsins.

Breytileg túlkun hugtaksins „líffræðilegur breytileiki“ skapar rugling

Þá er það yfirskrift samningsins sjálfs sem veldur misskilningi. Flestir skilja hugtakið lífbreytileika þannig að fjöldi tegunda sé mikilvægasti mælikvarðinn. Hvernig ber að skilja að sáning lúpínu til landgræðslu á örfoka landi ógni lífbreytileika? Og hvernig má það vera að fjölgun tegunda og aukin gróðursæld sé ógn við lífbreytileika og að þessi ógn sé afleiðing þess að íbúar þessa lands óska langflestir eftir því að efla þá gróðursæld.

Steindór Steindórsson frá Hlöðum lagði á sjöunda áratugnum mat á það hve stór hluti íslensku flórunnar væri aðfluttur. Niðurstaða hans var að nálægt fjórðungur væri aðfluttur eftir landnám bæði meðvitað og ómeðvitað. Flestir myndu túlka þá niðurstöðu þannig að breytileiki í tegundasamsetningu hafi aukist. Síðan hefur tegundum í þessum hópi fjölgað. Ekki er vitað til þess að nokkur upprunaleg plöntutegund hafi horfið vegna þessarar fjölgunar tegunda.

Hvaða nytjategundir verða næstar?

Hvaða vinna hefur farið fram í fjölmennu starfsliði Landgræðslunnar þegar ákveðið er hverjar þessara plöntutegunda hafi komið með óæskilegt vegabréf í farteskinu? Hvaða nytjategund er næst í röðinni til að fá rauða spjaldið? Verða það fóðurgrösin vallarfoxgras og snarrót sem báðar bárust til landsins eftir landnám? Hvernig og hvenær komust menn að því að ekki bæri að nota öflugasta staðbrigðið af íslensku birki í almennri skógrækt á Íslandi og að kynbætt birki með eftirsótta eiginleika beri ekki nota í ræktun. Hefur Landgræðslan umboð í lögum eða reglugerð til að fella slíka úrskurði og það á starfsviði Skógræktarinnar sem er falin yfirumsjón á skógrækt í landinu? Hafin er árás á skógrækt á Íslandi sem er sögð vera á grundvelli hátimbraðra fræða en ekki tilfinninga og er því nauðsynlegt að kalla eftir þeim forsendum sem liggja þar til grundvallar. Einnig væri rétt að meta þá hagsmuni sem eru undir ef ekki má rækta hér öflugar nytjaplöntur til afurða, til skjóls, til að hefta tap á jarðvegi og binda kolefni svo dæmi séu tekin. Og það á grundvelli torskilinnar bókstafstrúar. Nær væri að sameinast um að girða fyrir skaða af óheftum innflutningi framandi lífvera sem valda sannanlegu tjóni á gróðurþekju landsins og rýra burðargetu hennar í þágu þjóðarinnar. Ljóst er að stafafura og sitkagreni eru nytjaplöntur og flokkast ekki sem illgresi, amatré, eða lok og ekki heldur sem villibarr og framandi ágengar tegundir sem valdi hér tjóni. Enn síður eiga slík uppnefni við um þróttmikil staðbrigði og yrki af íslensku birki.

Brúnt hengibirki í Eyjafirði eftir árás kembu á miðju sumri 2021. Tréð deyr líklegast ef slík árás endurtekur sig tvö til þrjú ár í röð. Mynd/ Sigurður Arnarson

Skýrsla um raunveruleikann
Lesendarýni 18. september 2024

Skýrsla um raunveruleikann

Ástandið í íslenskum landbúnaði er víðs vegar þungt og mannskapurinn er þreyttur...

Tollar og tómatar
Lesendarýni 16. september 2024

Tollar og tómatar

Eins og sólin sest í vestri er nokkuð árvisst að upp komi umræða um tolla á land...

Skógrækt og skemmtun
Lesendarýni 4. september 2024

Skógrækt og skemmtun

Þegar líður að hausti breytist yfirbragð skóganna í stórkostlega haustlitasinfón...

Hernaði skógræktar gegn náttúru landsins verður að linna
Lesendarýni 3. september 2024

Hernaði skógræktar gegn náttúru landsins verður að linna

Almenningur hefur að undanförnu fylgst agndofa með í fjölmiðlum hvernig fyrirtæk...

Vandar þú valið við fatakaup?
Lesendarýni 2. september 2024

Vandar þú valið við fatakaup?

Háhraða tískuiðnaðurinn (e. ultra fast fashion) tekur allt sem er slæmt við hrað...

Líforkuver á Dysnesi
Lesendarýni 23. ágúst 2024

Líforkuver á Dysnesi

Í síðustu viku opnaði ég nýjan vef Líforku. Opnun vefsvæðisins er hluti samstarf...

Íslandsmeistaramót í hrútadómum
Lesendarýni 16. ágúst 2024

Íslandsmeistaramót í hrútadómum

Starfsemin á Sauðfjársetrinu á Ströndum hefur gengið mjög vel í sumar og aðsókn ...

Áhrifaþættir matvælaverðs á Íslandi
Lesendarýni 16. ágúst 2024

Áhrifaþættir matvælaverðs á Íslandi

Í umræðum um matvælaverð hérlendis má oft sjá borið saman verð matarkörfu hérlen...