Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Nýr alþjóða millilandaflugvöllur á Íslandi
Mynd / Rocker Sta
Lesendarýni 7. ágúst 2024

Nýr alþjóða millilandaflugvöllur á Íslandi

Höfundur: Magnús Óskarsson, fv. sauðfjár- og ferðaþjónustubóndi. Hann hefur mikinn áhuga á greiðum samgöngum og ferðaþjónustu.

Staðið hefur yfir með hléum hrina eldgosa samfara jarðhræringum á Reykjanesskaga. Náttúruhamfarirnar hafa í för með sér hörmulegar afleiðingar fyrir íbúa, fyrirtæki og stofnanir á Skaganum.

Magnús Óskarsson

Grindvíkingar hafa orðið hvað harðast úti í hamförum þessum. Þjóðin, með ríkisvaldið í broddi fylkingar, verður að rétta Reyknesingum hjálparhönd sakir þeirra ógna er að þeim steðja. Þjóð sem byggir tilveru sína á félagslegum og kristnum gildum, getur trauðlega verið þekkt fyrir annað.

Hinn góði vilji

Í sögulegu samhengi höfum við góð fordæmi til eftirbreytni um endurreisn í kjölfar náttúruhamfara – frá Vestmannaeyjum, Kópaskeri, Súðavík og miklu víðar. Vitaskuld mátti ýmislegt betur fara í því endurreisnarstarfi. Þó skiptir meira máli, að viljann til góðra verka vantaði síst af öllu í því starfi. Og vonandi höfum við lært það mikið af þeim mistökum, sem við gerðum þá, að þau ættu síður að endurtaka sig nú.

Áhrif eldgosanna á flugið

Áhrifa eldsumbrotanna og jarðskjálftanna, sem nú geisa syðra, munu með margvíslegu móti gæta víðar en á Reykjanesskaga. Þau snerta landið allt. Eini alþjóðlegi millilandaflugvöllur landsins, sem eitthvað kveður að, er núna staðsettur á Miðnesheiði ofan við Keflavík. Lega vallarins á eldvirku svæði er þegar farin að draga úr komu erlends ferðafólks til landsins ásamt háu síhækkandi verðlagi og slælegri markaðssetningu. Þjóðina sárvantar einn velútbúinn alþjóðlegan millilandaflugvöll í viðbót. Saman ættu tveir þess háttar vellir að þjóna landi og þjóð betur en einn gerir nú.

Staðsetning nýs millilandaflugvallar

Ég er þeirrar skoðunar að Egilsstaðir séu ákjósanlegasti staðurinn fyrir nýjan millilandaflugvöll. Varavöllinn, sem þar er fyrir, ætti að endurbyggja sem slíkan. Kostirnir við það eru ótvíræðir. Millilandavöllur eystra stæði á jarðfræðilega kyrru óeldvirku grágrýtissvæði utan eldvirka beltisins. Þá eru lendingarskilyrði með ágætum á Egilsstöðum og staðviðri meiri á mið- og innanverðu Héraði en víða annars staðar. Samt geta illviðri geisað hvar sem er á landinu; en oft eru þau bundin við einstaka landshluta. Af þeim sökum er einmitt hyggilegt að hafa tvo aðalvelli og sem lengst á milli þeirra, svo að lenda megi á öðrum hvorum þeirra eftir aðstæðum, ef þannig skipast veður í lofti. Jafnframt yrði innanlandsflugið milli Austurlands og Suðvesturlands ugglaust hagkvæmara í báðar áttir, ef alþjóðleg flugstöð risi á Egilsstöðum (fleiri farþegar). Svoleiðis stöð gæti einnig tengst með jarðgöngum undir Fjarðarheiði ferjusiglingum til og frá Seyðisfirði og umskipunarhöfn í Finnafirði. Þar að auki styttir það flugleiðina milli Íslands og Evrópu að fljúga frá Egilsstöðum, en stysta fugleiðin til Vesturheims yrði eftir sem áður frá Keflavík.

Hápólitísk viðkvæm byggðamál

Sú staðreynd að einungis skuli vera einn stór millilandaflugvöllur á landinu staðsettur á Miðnesheiði hefur í för með sér ójafna dreifingu ferðalanga um landið. Suðurland og höfuðborgarsvæðið eru með langflestar gistinætur, en aðrir landshlutar fá miklu færri gistinætur í sinn hlut. Tvær flugstöðvar svo gott sem á sitt hvorum landsenda stuðluðu tvímælalaust að jafnari dreifingu ferðafólks um Ísland. Slík jöfnun væri bæði jákvæð fyrir byggðirnar umhverfis landið og minnkaði átroðning á fjölsóttustu skoðunarstaðina syðra samfara aðgangsstýringu.

Ferskar afurðir og flug

Mikið er flutt út af ferskum matvælum með flugi frá Íslandi. Sá útflutningur fer nær allur um Keflavíkurflugvöll. Það hefur þær afleiðingar, að aflaheimildir safnast saman á Suðvesturlandi úr öðrum landshlutum. Sem dæmi um það má nefna að útgerðir hafa lagt niður starfsstöðvar víða á landinu og fært aflaheimildir frá þeim til Reykjanesskagans. Já, þau sem eiga og reka fyrirtæki, vilja eðlilega, ef þau geta komið því við, staðsetja reksturinn þar sem innviðir eru traustir og þar sem samgöngur eru greiðar í allar áttir – enn ein röksemdin fyrir því að hafa tvo millilandaflugvelli á Íslandi.

Akureyri aftur í beinu sambandi við útlönd

Erlend flugfélög eru loksins farin að fljúga til Akureyrar; og á flugvellinum þar er búið að taka í notkun nýbyggða flugstöð fyrir millilandaflug. Er það fagnaðarefni, þótt flugumferð um Akureyrarflugvöll mætti að ósekju vera meiri. Vonandi tekst fljótt og vel að gera flugstöð þessa þannig úr garði að flug þangað og þaðan verði með nútímatækni eins öruggt og kostur er miðað við þær aðstæður sem þar eru. Ekki veitir af að létta álagið á Keflavíkurflugvelli, bæði við flugstöðina sjálfa og í henni. Að endingu má minna á að siglt var um aldir milli Eyjafjarðar og útlanda, bæði með fólk og varning.

Alexandersflugvöllur sem varavöllur fyrir landið allt

Einn er sá staður á Íslandi þar sem flugskilyrði eru með miklum ágætum, bæði vegna víðlendis og skjóls fyrir erfiðum vindáttum. Þessi staður heitir Sauðárkrókur og er í Skagafirði. Oft gætir krappra lægða, er fara yfir landið með látum, lítið sem ekkert í Skagafirði. Flugmenn hæla enda flug- og lendingarskilyrðum í firðinum. Þennan flugvöll ætti tvímælalaust að byggja upp sem varavöll fyrir landið allt, því oft er þar lendandi, þegar hvergi er hægt að koma niður flugvélahjólum annars staðar fyrir illviðrum. Mér skilst að farþegaþotum sé núna snúið við til nærliggjandi landa með tilheyrandi eldsneytiskostnaði, ef þær geta hvergi tyllt sér á flugbraut hérlendis. Þess gerðist síður þörf, væri virkur varaflugvöllur á Króknum.

Er Flugstöð Leifs Eiríkssonar löngu sprungin?

Við hjónin rákum um nokkurt skeið bændagistingu. Við urðum margsinnis vitni að því þegar gestir okkar kvörtuðu yfir aðstöðu-, upplýsinga-, þjónustu- og viljaleysi á Keflavíkurflugvelli, til dæmis ef áætlanir fóru úr skorðum, fólk þyrfti að bíða lon og don og villur höfðu læðst inn í bókanir. Þeim þótti einnig samgöngur milli flugsstöðvarinnar og Reykjavíkurborgar dýrar. Hvers vegna ganga ekki almenningsstrætisvagnar alveg upp að aðaldyrum stöðvarinnar? spurðu þeir gjarnan, þegar þessi mál bar á góma. Hvers vegna er engin hraðlest á milli flugstöðvarinnar og höfuðborgarinnar? spurðu þeir einnig. Bara rándýrar rútuferðir eða leigubílar.

Lokaorð

Ég er sannfærður um að Flugstöð Leifs Eiríkssonar verði varla aðgengilegri farþegum með því að prjóna endalaust við hana rangölum og lengja leiðir innan hennar, þar til hún ummyndast í enn óaðgengilegra völundarhús en hún er nú þegar. Eina færa leiðin er að draga úr umferð um flugstöðina og færa hana annað, meðan nauðsynlegar endurbætur fara fram á stöðinni til þæginda fyrir viðskiptavinina. Loks þyrfti að bæta samgöngur milli stöðvarinnar og höfuðborgarinnar. Reykjanesbraut er nú varla skemmtilegasti vegur í heimi fyrir landann til að aka um, þegar umferð um hana er þung og veður rysjótt – hvað þá fyrir erlenda ferðalanga.

Skógrækt og skemmtun
Lesendarýni 4. september 2024

Skógrækt og skemmtun

Þegar líður að hausti breytist yfirbragð skóganna í stórkostlega haustlitasinfón...

Hernaði skógræktar gegn náttúru landsins verður að linna
Lesendarýni 3. september 2024

Hernaði skógræktar gegn náttúru landsins verður að linna

Almenningur hefur að undanförnu fylgst agndofa með í fjölmiðlum hvernig fyrirtæk...

Vandar þú valið við fatakaup?
Lesendarýni 2. september 2024

Vandar þú valið við fatakaup?

Háhraða tískuiðnaðurinn (e. ultra fast fashion) tekur allt sem er slæmt við hrað...

Líforkuver á Dysnesi
Lesendarýni 23. ágúst 2024

Líforkuver á Dysnesi

Í síðustu viku opnaði ég nýjan vef Líforku. Opnun vefsvæðisins er hluti samstarf...

Íslandsmeistaramót í hrútadómum
Lesendarýni 16. ágúst 2024

Íslandsmeistaramót í hrútadómum

Starfsemin á Sauðfjársetrinu á Ströndum hefur gengið mjög vel í sumar og aðsókn ...

Áhrifaþættir matvælaverðs á Íslandi
Lesendarýni 16. ágúst 2024

Áhrifaþættir matvælaverðs á Íslandi

Í umræðum um matvælaverð hérlendis má oft sjá borið saman verð matarkörfu hérlen...

Fámenn þjóð í stóru landi
Lesendarýni 9. ágúst 2024

Fámenn þjóð í stóru landi

Í nýlegum tölum frá Hagstofu Íslands má sjá að 365.256 (95%) Íslendingar búa í b...

Nýr alþjóða millilandaflugvöllur á Íslandi
Lesendarýni 7. ágúst 2024

Nýr alþjóða millilandaflugvöllur á Íslandi

Staðið hefur yfir með hléum hrina eldgosa samfara jarðhræringum á Reykjanesskaga...

Réttalistinn 2024
29. ágúst 2024

Réttalistinn 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Göngur og góður reiðtúr
13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Bændur selja Búsæld
13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Gerum okkur dagamun
13. september 2024

Gerum okkur dagamun