Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Matvælaráðherra á móti innlendri  kjötframleiðslu?
Lesendarýni 21. október 2022

Matvælaráðherra á móti innlendri kjötframleiðslu?

Höfundur: Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins.

Í október 2021, fyrir réttu ári síðan, birtu stjórnvöld stefnuplaggið „On the Path to Climate Neutrality – Iceland’s Long-Term low Emission Development Strategy“ í tengslum við COP26 (Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna) sem fór fram í Glasgow haustið 2021.

Bergþór Ólason.

Einföld þýðing á heiti plaggsins væri „Á leið til hlutleysis í loftslagsmálum“.

Í umræddu plaggi voru dregnar upp sviðsmyndir um það hvernig
Ísland ætlar að ná kolefnishlutleysi sem hafa bein áhrif á íslenskan landbúnað eins og við þekkjum hann í dag. Íslensk stjórnvöld lögðu plaggið eingöngu fram á þessari ráðstefnu án nokkurrar umræðu hér heima og án aðkomu greinarinnar eða annarra sem sviðsmyndirnar kunna að snerta. Plaggið var líka aðeins unnið á ensku og finnst ekki einu sinni íslensk þýðing þess þó vel sé leitað – sem sýnir kannski best áætlun stjórnvalda þegar kemur að kynningu þessara sviðsmynda hér heima.

Ég vil sérstaklega draga athygli að sviðsmynd D, sem ég hlýt að gefa mér að hafi verið nefnd svo, Sjálfstæðisflokknum til heiðurs. Í sviðsmynd D er sem sagt teiknuð upp sú framtíðarsýn fyrir Ísland að álverum hafi verið lokað, efnahagsvöxtur sé lítill og að fjölgun íbúa sé hæg. Eftirspurn eftir ferðaþjónustu hafi minnkað og mataræði hafi færst yfir í plöntufæði. Til að setja punktinn yfir i-ið er tilgreint að sauðfé og nautgripum hafi fækkað verulega. Þar kom það.

En af hverju rifja ég þetta upp núna, svona löngu seinna?

Í fyrsta lagi verður umrædd Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP27, haldin aftur í nóvember í 27. sinn og því ástæða fyrir þá sem tala máli íslensks landbúnaðar að vera á varðbergi. Sviðsmyndir eru nefnilega ekki bara sviðsmyndir og ímyndun – þær eru grundvöllur umræðunnar sem koma skal og þegar kemur að því að reyna að innleiða delluna sem þar kemur fram.

Hitt er svo sýnu alvarlegra að margt í þessari sviðsmynd D passar við stefnu þess flokks sem fer með forsætisráðuneytið annars vegar og matvælaráðuneytið hins vegar – stefnu Vinstri grænna sem sitja við völd á Íslandi í boði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Tveggja flokka sem hingað til hafa talað máli íslensks landbúnaðar en líklega er það á undanhaldi eins og annað undir verkstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Gleymum ekki hver fékk landbúnaðarráðuneytið.

Þeir sem lesa stefnu VG í landbúnaðarmálum grípa í tómt hvað varðar stuðning við innlenda kjötframleiðslu. Þeir sem spyrja matvælaráðherra í fyrirspurnartímum Alþingis, eins og undirritaður gerði síðastliðinn mánudag, grípa sömuleiðis í tómt hvað varðar stuðning matvælaráðherra við innlenda kjötframleiðslu.

Ráðherra fór eins og köttur í kringum heitan graut þegar hún kom sér undan því að svara spurningunni: Gerir ráðherra ráð fyrir því að kjötframleiðsla á Íslandi muni aukast, standa í stað eða minnka um fyrirsjáanlega framtíð? Flóknara var það nú ekki og svarið auðsótt.

Innlendir kjötframleiðendur hafa líklega aldrei áður fundið sig í þeirri stöðu að ráðherra matvæla á Íslandi sé ekki stuðningsmaður innlendrar kjötframleiðslu. Á slíkri stefnu bera þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ábyrgð að jöfnu við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð.

Ef raunveruleg stefna stjórnvalda er að ýta undir að sem flestir bændur heltist úr lestinni þá er hreinlegra að stjórnvöld segi það hreint út og á íslensku, en að fara þá leið að svelta ákveðnar greinar landbúnaðarins til uppgjafar – á meðan skálað er á loftslagsráðstefnum úti í heimi.

Skylt efni: kjötframleiðsla

Nauðsyn þín er tekjulind okkar
Lesendarýni 26. janúar 2026

Nauðsyn þín er tekjulind okkar

Einhvers konar skattheimta er óhjákvæmilegur hluti samfélags. Skattar eru ekki v...

Fornleifar og skógrækt
Lesendarýni 26. janúar 2026

Fornleifar og skógrækt

Fornleifar kunna að þykja áhugaverðar, enda oft gaman að horfa til baka um farin...

Sorpbrennsla á Íslandi – besta lausnin?
Lesendarýni 26. janúar 2026

Sorpbrennsla á Íslandi – besta lausnin?

Við Íslendingar framleiðum margvíslegan úrgang, allt frá heimilis- og iðnaðarúrg...

Tími íslenskrar náttúru er núna
Lesendarýni 16. janúar 2026

Tími íslenskrar náttúru er núna

Atvinnustefna Íslands, vaxtarplan ríkisstjórnarinnar til ársins 2035 liggur fyri...

Íslenskari en ...
Lesendarýni 6. janúar 2026

Íslenskari en ...

Algeng er sú rökvilla að nútíminn mínus öld eða tvær sé einhvers konar hápunktur...

Við áramót
Lesendarýni 30. desember 2025

Við áramót

Árið 2025 var prýðisgott ár til lands og sjávar. Þess naut sannarlega við í blóð...

Vetrarbeit og válynd veður
Lesendarýni 22. desember 2025

Vetrarbeit og válynd veður

Er nokkuð jólalegra en maður, sauður og hundur á ferð í myrkri og kafaldsbyl á ö...

Fjölbreyttur og kraftmikill landbúnaður til framtíðar
Lesendarýni 22. desember 2025

Fjölbreyttur og kraftmikill landbúnaður til framtíðar

Þetta fyrsta ár mitt í embætti atvinnuvegaráðherra hefur verið allt í senn fjölb...