Kýrlaus varla bjargast bær
Í síðasta Bændablaði birtu Baldur Helgi Benjamínsson og Jón Viðar Jónmundsson ágæta grein sem fjallaði um innflutning kúa og var að hluta til svar við minni grein um sama efni. Ég vil í þessum pistli víkja örfáum orðum að nokkrum atriðum sem þeir nefna.

Baldur og Jón Viðar nefna að kúakynjum sem eru skyldust því íslenska sé viðhaldið í mjög litlum hópum á Norðurlöndum, og segja að þetta meti „þeir sem þekkingu hafa á nægjanlegt til viðhalds þessum kynjum“. Þessu er ég ósammála. Flest norræn landkyn eru í útrýmingarhættu samkvæmt viðmiðum FAO. Samkvæmt þeim eru kúakyn í útrýmingarhættu ef fjöldi kvendýra er meiri en 300 og lægri en 3.000. Til dæmis má nefna að öll sex gömlu norsku kúakynin voru árið 2023 í útrýmingarhættu miðað við stofnstærð. Til allrar hamingju er ekkert þeirra lengur í bráðri útrýmingarhættu og er það mikill sigur fyrir verndarstarf þar í landi. Sá árangur er afrakstur mikillar vinnu.
Hugarórar
Þá er að nefna að Baldur og Jón Viðar kölluðu það „hugaróra“ að leitað yrði til íslensku kýrinnar til að kynbæta ákveðna eiginleika í framtíðinni. Sjálfum þykir mér ekki sérlega líklegt að það verði nokkurn tímann gert, en að kalla það „hugaróra“ þykir mér djúpt í árinni tekið. Ákveðin rök mæla þó með íslensku kúnni í þeim efnum. Ef kæmi í ljós breytileiki í ættkvísl gamalla norrænna kúakynja sem þætti þess verður að innleiða í önnur kyn, þá er íslenska kúakynið að sumu leyti vænlegra til þess en önnur norræn landkyn. Það er vegna þess að íslenskar kýr eru afurðasamari en skyldir stofnar á Norðurlöndum. Blöndun íslenskra kúa við stór framleiðslukyn myndi því að líkindum leiða til minna taps í afurðum heldur en til dæmis blöndun við norsku landkynin. Að þessu sögðu þá eru hugarórar kannski helst fólgnir í því að reyna að geta sér til um við hvaða aðstæður það yrði leitað til þessara gömlu kynja til að kynbæta framleiðslukynin. Það er kannski svipuð hugarleikfimi og að geta sér til um hugarástand bænda í Rangárvallasýslu á miðöldum. Nefnum engin nöfn í því samhengi.
Gæði mjólkur
Hér vil ég benda á eitt atriði enn sem varðar ágæti íslenskra kúa. Samsetning mjólkurpróteina í norrænu landkynjunum, þar á meðal íslenskum kúm, er sérstök og heppileg til ostagerðar. Talsverður munur er milli kúakynja hvað varðar vinnslueiginleika. Mér þætti fróðlegt ef mjólkuriðnaðurinn myndi taka upp reiknistokkinn og meta ávinninginn af þessum eiginleikum íslenskrar mjólkur. Þær niðurstöður sem ég hef séð benda til þess að rauðu kynin standi frekar illa hvað vinnslueiginleika varðar, en Holstein og Jersey betur.
Ungkálfadauði
Hvað varðar slælega lifun kálfa í íslenskum kúm þá er lítið hægt að fullyrða um orsakir því við höfum ekki samanburð; hvorki höfum við erlendar kýr í íslenskum fjósum (og það er raunar orsök þessarar umræðu) né íslenskar kýr í erlendum fjósum. Eini samanburðurinn við íslensku kýrnar er við kálfadauða hjá innlendum holdakúm. Þar er ungkálfadauðinn einnig hár þó að vissulega sé hann ekki jafnhár og á búum í mjólkurframleiðslu. Tíðni kálfadauða var 12,2% árið 2024 og 14,1% árið 2023 hjá fyrsta kálfs kvígum á búum í nautakjötsframleiðslu. Auk þess er mikill breytileiki í lifun kálfa milli kúabúa en það bendir til þess að umhverfisþættir skipti miklu máli. Ég er því ekki sannfærður um að vandamálið muni lagast með nýju kúakyni, þó það sé vissulega hugsanlegt. Blessunarlega er hafin vegferð til að kynbæta eiginleikann með kynbótamati fyrir lifun kálfa og burðarerfiðleika. Vonandi verða þessir eiginleikar fljótlega hluti af heildareinkunn.
Framtíð mjólkurframleiðslu
Svo vil ég víkja máli að vali bænda og framtíð íslenskrar mjólkurframleiðslu. Ég var í minni grein að benda á leiðir til að vernda stofninn ef af innflutningi annars kúakyns verður. Mér hefur stundum þótt umræðan snúast um að „skipta um kúakyn“, hætta þá að kynbæta íslensku kúna og viðhalda henni einungis sem litlum verndarstofni, og setja alla krafta í innflutta kynið. Ég tel vænlegra að halda áfram kynbótastarfi fyrir íslenska kúastofninn óháð því hvort flutt verði inn erfðaefni úr öðrum stofni eða ekki. Verkefni kynbótastarfsins myndi í auknum mæli snúast um að halda aftur af skyldleikarækt og halda uppi stofnstærðinni til að forða íslenskum kúm frá útrýmingarhættu. En í eðli sínu yrði starfið ekki mjög ólíkt. Annars er ég sammála því að mjólkurframleiðslunni verði ekki haldið í herkví. Ef bændur vilja fara þessa leið þá ætla ég ekki að stuðla að hernaði gegn þeim. Hins vegar vil ég ekki gefa íslensku kúna upp á bátinn þó að annað kyn verði flutt inn.
Að lokum vil ég þakka Baldri og Jóni Viðari þeirra fróðlegu skrif um málið, enda afar mikilvægt að leita leiða til að efla íslenska landbúnaðarframleiðslu. Nú er ástand þannig í heimsmálum að sjaldan hefur verið jafnmikilvægt að efla fæðuöryggi Íslands með öflugum landbúnaði.