Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
 „Því teljum við nauðsynlegt að staldrað verði við áður en tilraun er gerð, á veikum forsendum, til að keppa við stórbúskap erlendis sem er æ meira að þróast yfir í verksmiðjubúskap.“
„Því teljum við nauðsynlegt að staldrað verði við áður en tilraun er gerð, á veikum forsendum, til að keppa við stórbúskap erlendis sem er æ meira að þróast yfir í verksmiðjubúskap.“
Mynd / Jón Eiríks
Lesendarýni 5. maí 2025

Íslenskar mjólkurkýr reynast vel í lífrænum búskap

VOR, verndun og ræktun – félag um lífræna ræktun og framleiðslu, furðar sig á málflutningi tiltölulega lítils en háværs hóps kúabænda og stuðningsmanna þeirra sem telja að innflutningur erlends mjólkurkúakyns geti skipt sköpum við hagræðingu í framleiðslu mjólkur hér á landi. Í samanburði við erlend kúakyn vísa þeir oftast í galla íslensku kúnna en aðeins kosti hinna erlendu.

Þar sem rekstrarhagkvæmni mjólkurframleiðslu byggist á mörgu öðru en nautgripakyninu teljum við hætt við því að íslenskir kúabændur muni ekki njóta þeirrar hagræðingar sem talsmenn innflutnings boða með tilvísun í nýlega skýrslu frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Þá gæti innflutningurinn stefnt hinu verðmæta mjólkurkúakyni okkar í útrýmingarhættu og fórnarkostnaðurinn yrði trúlega mun meiri en reiknað er með.

Því teljum við nauðsynlegt að staldrað verði við áður en tilraun er gerð, á veikum forsendum, til að keppa við stórbúskap erlendis sem er æ meira að þróast yfir í verksmiðjubúskap. Þeir framleiðsluhættir eru ósjálfbærir í grundvallaratriðum og skaðlegir umhverfinu, algjör andstæða lífrænnar ræktunar og búskapar sem verndar líffræðilega fjölbreytni og gæði jarðvegs, notar ekki eiturefni, hormóna og sýklalyf við framleiðsluna og tryggir mjög góða dýravelferð, svo sem útivist mjólkurkúa, ekki aðeins á sumarbeit.

Kúabændur sem framleiða lífrænt vottaða mjólk hér á landi vekja athygli á þeim miklu framförum sem orðið hafa í íslenska kúakyninu, sérstaklega á seinni árum, og benda á ársskýrslur Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins sem sýna hinn glæsilega árangur. Enn frekari framfara er að vænta, svo sem vegna erfðamengjaúrvals og kyngreiningar sæðis.

Ályktun samþykkt á Aðalfundi VOR 10. apríl 2025.

GREINARGERÐ

Ísland hefur þá sérstöðu að hér á landi er verið að kynbæta og nýta gömul og verðmæt búfjárkyn með mikinn líffræðilegan fjölbreytileika við framleiðslu margvíslegra landbúnaðarafurða sem m.a. leggja drjúgan skerf til fæðuöryggis þjóðarinnar. Stjórnvöld hafa samþykkt alþjóðlegar skuldbindingar til að varðveita þennan fjölbreytileika. Sem betur fer hefur tap erfðaefnis búfjár hérlendis verið smávægilegt miðað við þá stórtæku eyðingu sem orðið hefur víða um heim, m.a. á hinum Norðurlöndunum. Þar eru t.d. mörg nautgripakyn á barmi útýmingar þrátt fyrir markvissar verndunaraðgerðir um áratuga skeið. Þau eru því ekki lengur mikilvæg framleiðslukyn á borð við íslenska mjólkurkúakynið.

Mikið af eyðingu erfðaefnis búfjár í heiminum má rekja til kynbótastarfs. Þetta er áhyggjuefni sem snertir m.a. fæðuöryggi og viðbrögð við loftslagsbreytingum. Hér á landi hefur tekist að varðveita, rækta og nýta landnámskyn, gömul kyn skyld hinum norrænu; mjólkurkýr, hross og sauðfé, án teljanlegs innflutnings. Því miður urðu örlög landnámssvínsins önnur eftir að svínabúskapur lagðist af um 1600 vegna kólnandi veðurfars og hnignandi landgæða; voru sennilega útdauð skömmu síðar. Stofnar landnámskynja geitfjár og forystufjár, svo og fornhænsna, eru litlir og í útrýmingarhættu líkt og fjöldi búfjárkynja í heiminum, ekki síst í nágrannalöndunum. Á meðal eiginleika í öllum landnámskynjunum sem hér hefur tekist að varðveita eru fjölbreyttir litir, þar með litaskrúð íslensku kúnna, sem myndi smám saman glatast með innleiðingu erlends erfðaefnis. Augljóslega þarf ekki að afhorna kálfa hinna kollóttu íslensku kúa en hætt er við að það myndi breytast við innflutning. Verndun íslensku kúnna snertir því einnig dýravelferð og sömuleiðis koma m.a. við sögu aðlögun að hérlendu umhverfi og góðir eiginleikar til að nýta beitiland yfir sumarið.

Landnámskynin okkar vekja gjarnan athygli útlendinga, ekki síst kýrnar sem sjást úti í haga, eru jafnvel sýndar í ferðamannafjósum, og eru vissulega hluti af jákvæðri ímynd Íslands sem ferðamannalands. Þessi fjölbreyttu og verðmætu búfjárkyn teljast til þjóðargersema og eru hluti af menningarlandslaginu. Gildi þeirra og tilvist á því ekki aðeins að byggist á mælikvörðum á borð við lítra mjólkur og kíló kjöts. Enn er svigrúm til kynbóta innan kynsins, svo sem til að bæta gerð júgurs og spena, og jafnframt að auka hagkvæmni í þeim tilgangi að renna styrkari stoðum undir tekjur íslenskra kúabænda, það sýna m.a. skýrslur Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins. Stjórnvöld og stofnanir landbúnaðarins hafa komið mikið við sögu verndunar landnámskynjanna en það eru þó fyrst og fremst bændurnir, fólkið í sveitum landsins, sem varðveitir erfðaauðlindir þessara gömlu kynja, þar með kúnna.

Bændur í lífrænt vottuðum búskap líta gjarnan heildrænt á allt umhverfi landbúnaðarins og þar er lögð mikil áhersla á hugtökin verndun og ræktun. Bændur í lífrænni mjólkurframleiðslu kunna vel að meta eiginleika íslensku mjólkurkúnna, vilja vernda hana og rækta því að hún reynist vel í lífrænum búskap, bæði á blönduðum búum og sérhæfðum. Lögð er áhersla á góða heilsu, frjósemi og endingu kúnna en ekki stefnt að hámarksafköstum.

Hvað varðar gæði mjólkur frá lífrænt vottuðum kúabúum er rétt að hafa í huga að víðtækar erlendar rannsóknir hafa sýnt að samanborið við mjólk frá hefðbundnum kúabúum hefur lífræna mjólkin mun meira af æskilegum fitusýrum, einkum omega-3. Þetta er vegna þess að á lífrænum búum er notkun kornfóðurs tiltölulega lítil enda mest byggt á beit og heyfóðrun. Auk þess hafa niðurstöðurnar sýnt að lífræna mjólkin er járnríkari en ekki er munur á magni próteins og fitu eftir mjólkurtegundum. Þá hefur komið í ljós að lítið sem ekkert er af leifum eiturefna og sýklalyfja í lífrænt vottaðri mjólk. Allt eru þetta gæðaþættir sem neytendur kunna að meta í vaxandi mæli.

Vert er að minna á Aðgerðaáætlun til eflingar lífræns landbúnaðar sem ráðherra landbúnaðarmála lagði fram árið 2023. Hún er stefnumótandi og vonast er eftir að innan þess ramma eflist lífræn ræktun og búskapur hér á landi, þar með mjólkurframleiðsla. Tvennt er víst, í fyrsta lagi, að nýting er vænlegasta leiðin til að vernda erfðaefni líkt og íslenskir bændur hafa gert um aldir, og í öðru lagi, að VOR, verndun og ræktun, mun standa vörð um íslenska mjólkurkúakynið eftir bestu getu og lífrænir kúabændur munu stoltir halda íslenskar kýr á búum sínum hvað sem gerist í nautgriparæktinni hér á landi í fyrirsjáanlegri framtíð.

Rétt tré á réttum stað
Lesendarýni 12. júní 2025

Rétt tré á réttum stað

Á undanförnum misserum hafa verið sett fram stórtæk áform um að auka skógrækt hé...

Lífeyrir til veikra, slasaðra og aldraðra
Lesendarýni 10. júní 2025

Lífeyrir til veikra, slasaðra og aldraðra

Nú er komið að kosningu í eitt af fimm stjórnarsætum Lífeyrissjóðs bænda. Aðalfu...

„Svo lengi lærir sem lifir “
Lesendarýni 10. júní 2025

„Svo lengi lærir sem lifir “

Vinsældir Reiðmannsins og keppnishestanámsins sem alhliða nám í hestamennsku ber...

Hvers vegna að endurheimta íslenskar mýrar?
Lesendarýni 6. júní 2025

Hvers vegna að endurheimta íslenskar mýrar?

Frá upphafi tuttugustu aldar hefur votlendi minnkað um 64-71% á heimsvísu og um ...

Laxalús og villtir laxfiskar
Lesendarýni 2. júní 2025

Laxalús og villtir laxfiskar

Laxalús sem berst frá eldi laxfiska í sjókvíaeldi getur mögulega valdið afföllum...

Hvað vitum við um neyslu gjörunninna matvæla á Íslandi?
Lesendarýni 30. maí 2025

Hvað vitum við um neyslu gjörunninna matvæla á Íslandi?

Á síðustu áratugum hafa gjörunnin matvæli (e. ultraprocessed foods) fengið aukna...

Forval hugmynda til verðmætasköpunar
Lesendarýni 28. maí 2025

Forval hugmynda til verðmætasköpunar

Í framhaldi af nýrri stefnu Félags skógarbænda á Suðurlandi ákvað félagið að kom...

Hvað ef ég vil vera hér?
Lesendarýni 26. maí 2025

Hvað ef ég vil vera hér?

Hvað þarf til þess að ungt fólk vilji setjast að á landsbyggðinni? Þetta er spur...