Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Árangursrík uppgræðsla á annars illa gróðursnauðri Grásteinsheiði við Húsavík.
Árangursrík uppgræðsla á annars illa gróðursnauðri Grásteinsheiði við Húsavík.
Mynd / Skógræktin
Lesendarýni 26. mars 2021

Hvað gæti verið sameiginlegt með Votlendissjóði og útfararstofu?

Höfundur: Þórarinn Lárusson

Formaður stjórnar Votlendissjóðs, Þröstur Ólafsson, svarar grein undirritaðs (Bændablaðið 25.02.2021)  í síðasta Bændablaði (11.03). Þar er mikið um vandlæt­ingar og þá ekki síst um faðerni Votlendissjóðs.  Má segja að það hafi verið að vonum og er sjálfsagt að biðjast velvirðingar á ónákvæmni í því að bendla hinu opinbera við getnað sjóðsins.

Skoðum þó þennan þátt ögn nánar, með eftirfarandi tilvitnun í hlutverk sjóðsins, samkvæmt vefsíðu hans:

,,Votlendissjóðurinn er sjálfs­eigna­sjóður fjármagnaður af samfélagslega ábyrgum fyrirtækjum og einstaklingum. Hlutverk sjóðsins er að vinna að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis, í samstarfi við landeigendur, ríki, sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök og einstakl­inga.“

 Ennfremur:

,,Öll endurheimt Votlendis­sjóðsins er unnin í samvinnu við Landgræðsluna sem heldur utan um landsbókhald endurheimtar fyrir Ísland og staðfestir endurheimt á þá skrá.“

Það er vissulega ofsagt í grein undirritaðs að sjóðurinn sé skilgetið afkvæmi hins opinbera. Hins vegar kemur fram að ríkið, sveitarfélög eru samstarfsaðilar að sjóðnum ásamt Landgræðslunni, – öll mjög öflugir opiberir aðilar sem koma þannig sterklega að uppeldi hans.

Stóra málið er að verkefnið í heild kostar í sjálfu sér það sama, hverjir svo sem eiga þarna hlut að máli.

Vissulega hafa miklir framkvæmda-og bjartsýnismenn í mörgum tilfellum, farið offari í skurðgreftri, á meðan loftslagsvá slíkra framkvæmda var ókunn. Fullyrða má þó að verið sé að bera í barmafullan lækinn (skurðinn), þegar fullyrt er í sömu heimild að ,,Um 4.200 km2 votlendis hafa verið ræstir fram hér á landi, en einungis 570 km2 þess lands eru nýttir til jarðræktar.“

Samkvæmt þessu var losun gróðurhúsalofttegunda úr framræstu votlendi á Íslandi árið 2013 metin 11,7 milljónir tonna CO2 ígildi, en heildarlosun gróðurhúsalofttegunda hér á landi árið 2013 var 16,6 milljónir tonna CO2 ígilda. Út frá þessu ætti losun framræslunnar vera rúm 70% heildarlosunar.

Annað er upp á teningnum, þegar tveir doktorar, Þorsteinn Guðmundsson og Guðni Þorvaldsson við Landbúnaðarháskóla Íslands (Bændablaðið 25.01.2018) reiknuðu út frá áætlaðri heildarlengd skurða upp á 32.000 km að framræst land alls á landinu sé um 1.600 km2, sem ætti að minnka hlutdeild framræslunnar í losun CO2 ígildis úr áður nefndum 11,7 milljónum tonna  í um 4,7 milljónir, eða um 60% og heildarlosun landsins úr fyrrnefndum 70% niður í um 49%.

Að auki telja þeir LbhÍ menn upp fjölmörg atriði, sem enn gætu minnkað þessa hlutdeild framræslu í losun gróðurhúsalofttegunda. Helstu skekkjuvaldarnir sem þeir félagar nefna af mikilli hógværð eru óvissa um stærð þurrkaðs votlendis, breytileika í magni lífræns efnis í votlendi sem taka þarf tillit til og takmarkaðar innlendar mælingar á losun sem gerir það að verkum að erlendir stuðlar eru notaðir. Bent er einnig á framhaldsgrein þeirra LbhÍ manna um þessi efni í Bbl. 22.02.2018.

Hér er ekki rými til frekari um­­fjöllunar um nefndar greinar þeirra Þorsteins og Guðna, en mjög fróðlegt áhugasömum að kynna sér vel efni þeirra.

Aðalatriðið er að taka til ræktunar, gróður, sem er eftirsóttur og bindur mikið kolefni, og kolefnisjafna þannig óæskileg loftslagsáhrif framræslunnar að miklu eða öllu leyti.

Í þessu sambandi er áhugavert að vitna ögn í nýlega grein í tímaritinu Forest Ecology and Management (482 (2021) 118861), eftir  Brynhildi Bjarnadóttur og fleiri. Brynhildur birti samandregið yfirlit yfir rann­sóknina í blaðinu ,,Við skógaeigendur“, sem hún nefndi ,,Kolefnisbinding í asparskógi á framræstri mýri á Suðurlandi“. Þar kom eftirfarandi  m. a. fram:

,,Á árunum 2014-2017 fór fram viðamikið rannsóknarverkefni á rúmlega 20 ára gömlum asparskógi sem stendur á framræstri mýri, svonefndri Sandlækjarmýri, í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Mark­mið rannsóknarinnar var að skoða kolefnismálin í vistkerfi þar sem fram fara bæði losun á kolefni (vegna framræslu mýrarinnar) og binding á kolefni (fyrir tilstuðlan trjánna).“

Eitt af höfuðmarkmiðum rann­sóknarinnar var, hvort skógurinn hefði náð að vega upp losun á koltvísýringi vegna framræslunnar.

Niðurstöðurnar voru áhugaverðar. Umtalsverð kolefnisbinding átti sér stað á svæðinu í heild á ársgrundvelli.  Að meðaltali bundust um 7,14 t C á ha á ári sem sýndi að uppsöfnun kolefnis í vistkerfinu á þessum tíma­punkti var bæði mikil og hröð.“

Varðandi nefnt höfuðmarkmið rannsóknarinnar, kom eftirfarandi fram:

,,Tölurnar úr Sandlækjarmýri gefa til kynna að við rúmlega 20 ára aldur vegi skógurinn upp alla losun vegna framræslunnar og gott betur en það, enda um talsverða kolefnisbindingu á svæðinu að ræða. Þessi rannsókn bendir því til þess, að ræktun skógar á framræstri mýri sé bæði fljótvirk og jákvæð loftslagsaðgerð.“

Efnislega kom fram hjá Brynhildi í tölvupósti til undirritaðs:

Lykiltalan þar er 7,14 t C ha/ári – sem er jákvæður kolefnisjöfnuður í vistkerfi sem samanstendur af skógi á framræstri mýri. Þannig að sú landnýting að planta skógi í framræst mýrlendi, hefur jákvæð loftslagsáhrif, eins og endurheimt votlendis, þar sem verið er að stoppa losun sem er á bilinu 1-4 t C ha/ári.

Þessi niðurstaða er í algjörru ósamræmi við villandi fullyrðingar Þrastar og sýnir mátt skógræktar til kolefnisjöfnunar á framræstu landi langt umfram alhæfingu Þrastar þegar vel er að málum staðið.

Þá má nefna skógrækt víðar en í famræstu landi til frekari kolefnisbindingar.

Dæmi hér um má sjá á með­fylgjandi mynd frá árangur­sríkri uppgræðslu á annars illa gróðursnauðri Grásteinsheiði við Húsavík frá Skógræktinni, sem fylgir greininni  ,,Frjósamt samlífi birkis og lúpinu hjálpar til við að endurreisa birkiskóga“ Þar sem hvor tegund vex ein og sér eiga báðar í erfiðleikum með að lifa af. Vaxi þær saman blómstra þær hins vegar báðar og binda vafalaust drjúgt kolefni auk þess að stöðva gróður-og landeyðingu.

Samhliða aukinni fæðuþörf heimsins virðist tilgangur Vorlendis­sjóðs snúast um það eitt að fórna framræstum gróðurlendum með því að molda yfir framræsluskurðina og eyðileggja með því nánast alla ræktunarmöguleika í vatnssósa mýrum. Tilgangurinn birtist ekki síst í dýrum heilsíðuauglýsingum og áróðri í fjölmiðlum til að egna fyrir eigendur slíkra landareigna til fylgis við uppátækið.

Fyrir utan skógrækt, sem rædd hefur verið hér að framan, hefur undirritaður nefnt ýmsa aðra lífvænlega ræktunarkosti í fyrri grein sinni, s.s. eins og ræktun uppskerumikilla jurta eins og korntegundir, repju og skógrækt. Þá hefur ræktun og nýting á iðnaðarhampi nokkuð borið á góma. Þar er um svo mikla fjölbreytni að ræða að hér verður látið nægja að benda áhugasömum á að fara inn á ,,Rannsókna- og þróunarsetur Geisla í Gautavík (hampur)“ á Fésbókinni, hafi menn ekki gert það nú þegar. Mjög áhugavert og gefur fyrirheit um mikla kolefnisbindingu og atvinnumöguleika í framtíðinni.

Vitandi um slíka valkosti og miklu fleiri fram yfir skurðamoldun Votlendissjóðs er vart hægt að verjast þeirri hugsun að líkja þessu fyrirbrigði við eins konar útfararstofu í því að jarðsetja metnaðarfull bjargráð, sem byggja á lífskrafti en ekki feigðarflani.

Í staðinn fyrir þessa einstefnu Votlendissjóðs með sitt ein­strengings­lega ráð, hefði verið nær að stofna framsækinn félagsskap eða starfshóp um stórfellt átak til kolefnisbindingar með því að græða landið í sínum víðasta skilningi og nýta til þess allt frá frjósömu framræslulandi og til uppgræðslu vangróinna heiðarlanda af ýmsum toga.  Slíkt þarf að byggja á þekkingu í gegnum, reynslu og vísindi. Til þess höfum við gott og öflugt fagfólk og reynsliríka og ráðagóða bændur. Mikilvægast af öllu er þó að víðtæk samstaða náist um verkefnið og að stjórnvöld beri gæfu til að átta sig á málinu og sameinist í að ná árangi sem fyrst á þessum vettvangi.

Tek undir eftirfarandi, sem Brynhildur Bjarnadóttir nefndi í bréfskrifum við undirritaðan: „Versta sviðsmyndin er að láta framræsta landið standa óhreyft.“

Þessum orðum geta flestir verið sammála. Mikilvægt er hins vegar að finna metnaðarfyllri og búmannlegri leiðir til að hemja allt skurðayfirklór.

Þórarinn Lárusson

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...

Kosningar
Lesendarýni 29. nóvember 2024

Kosningar

Kæru kjósendur. Það er ekkert mikilvægara en að nýta atkvæðisréttinn sem svo mik...

Tryggjum nýliðun og skattalega hvata
Lesendarýni 29. nóvember 2024

Tryggjum nýliðun og skattalega hvata

Það eru vissulega forréttindi að búa í sveit, ala upp börnin sín í faðmi náttúru...

Verum til vinstri – verndum náttúruna
Lesendarýni 28. nóvember 2024

Verum til vinstri – verndum náttúruna

Á meðan Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur staðið vörð um náttúruna og gæt...

Þú treystir ekki hverjum sem er fyrir búinu þínu
Lesendarýni 28. nóvember 2024

Þú treystir ekki hverjum sem er fyrir búinu þínu

Að vera bóndi getur verið félagslega einangrandi, sérstaklega ef aldrei er svigr...

Eignarhald bænda á jörðum tryggir hag þeirra best
Lesendarýni 27. nóvember 2024

Eignarhald bænda á jörðum tryggir hag þeirra best

Umræða um jarðir, jarðaviðskipti og kynslóðaskipti í landbúnaði er og á að vera ...

Landbúnaður í velsældarhagkerfi
Lesendarýni 27. nóvember 2024

Landbúnaður í velsældarhagkerfi

Landbúnaður í heiminum öllum stendur frammi fyrir umbyltingu vegna framfara í ræ...