Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Erfðalegar orsakir kálfadauða
Lesendarýni 22. ágúst 2025

Erfðalegar orsakir kálfadauða

Höfundur: Egill Gautason, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Um langt árabil hefur hátt hlutfall dauðfæddra kálfa í íslenska kúastofninum verið áhyggjuefni, einkum hjá fyrsta kálfs kvígum. Þrátt fyrir töluverðar rannsóknir hefur ekki tekist að greina ástæður vandans eða draga úr honum.

Egill Gautason.

Nýverið kom út grein eftir mig og meðhöfunda mína, Þórdísi Þórarinsdóttur hjá RML, og Goutam Sahana við Árósaháskóla, um áhrif erfðaþátta á frjósemi og lifun kálfa. Greinin er hluti af verkefninu Erfðalegar orsakir kálfadauða, sem er styrkt af þróunarfé í nautgriparækt og er unnið í samvinnu við RML. Greinin er opin öllum til aflestrar og ber heitið Haplotypes affecting stillbirth and fertility in Icelandic Dairy Cattle og var birt í Journal of Applied Genetics.

Við könnuðum hvort svokölluð banagen valdi því að fóstur látist snemma eða seint á meðgöngunni. Ef arfhreint fóstur drepst snemma á meðgöngunni birtast áhrif gensins sem fósturlát eða uppbeiðsli. Slík gen hafa fundist í fjölmörgum kúastofnum, í sumum tilvikum hefur tíðni þeirra verið mjög há.

Rannsóknin miðaði að því að leita að setröðum, þ.e. litningabútum sem erfast saman, þar sem vantar arfhreina, lifandi gripi miðað við tíðni þessara setraða í stofninum. Við notuðum erfðagögn rúmlega 20.000 íslenskra kúa og nauta og kembdum erfðamengið í leit að slíkum setröðum. Auk þess framkvæmdum við svokallaða erfðamengjaleit, þar sem var athugað hvort svæði í erfðamengi íslenskra kúa tengdust lélegri frjósemi eða lifun kálfa. Í stuttu máli sagt benda niðurstöðurnar ekki til þess að einstök gen hafi mjög mikil áhrif, hvorki á frjósemi né lifun. Hins vegar voru vísbendingar um að mörg svæði, dreift um erfðamengið, hafi áhrif á báða eiginleika. Tvö svæði, á litningum 8 og 13, eru sérlega líkleg til að valda fósturláti eða kálfadauða í arfhreinu ástandi.

Þessi tíðindi koma í sjálfu sér ekki á óvart. Til að ná tökum á vandamálinu með kynbótum þurfi að taka eiginleikann lifun kálfa inn í heildareinkunn og velja þannig gegn þessu vandamáli. Hins vegar tekur talsverðan tíma að sjá árangur af því starfi, þar sem arfgengi er fremur lágt, um 8% fyrir kvígur og 2,5% fyrir eldri kýr. Þessari rannsókn er þó ekki lokið. Undanfarin misseri hafa bændur verið hvattir til að taka sýni úr dauðfæddum kálfum á búum sínum. Því miður hefur söfnunin gengið heldur hægar en til stóð. Hins vegar erum við að verða komin með nægan fjölda sýna úr dauðfæddum gripum til að geta hafið rannsókn á þeim. Hugsanlega verður hægt að sannreyna áhrif ákveðinna svæða og mögulega er hægt að þróa erfðapróf sem bændur gætu í framtíðinni notað til að varast paranir arfbera. Ég hvet bændur til að safna sýnum úr dauðfæddum kálfum eins og RML hefur kallað eftir. Jafnvel þó þau nýtist ekki í þessu verkefni eru sýnin afar verðmæt til frekari rannsókna á þessu fyrirbrigði í framtíðinni.

Það er vel hugsanlegt að íslenska kúakynið sé af einhverjum ástæðum erfðalega verr til þess fallið en önnur kúakyn að bera lifandi kálfum. Í mörgum öðrum stofnum hefur verið valið fyrir lifun kálfa, jafnvel um áratugaskeið, en það höfum við ekki gert hingað til. Þar sem ekki er til beinn samanburður á íslenskum kúm og öðrum kynjum í sama umhverfi er þó ekki hægt að fullyrða neitt um það mál.

Hvað varðar frekari rannsóknir á lifun kálfa, þá sýnist mér að það þurfi að halda áfram að rannsaka áhrif umhverfisins. Þær athuganir sem hafa verið gerðar benda til þess að umfang vandamálsins sé mjög breytilegt milli bæja. Þá hefur komið í ljós að bændur virðast ekki telja kálfadauða vandamál á sínu búi jafnvel þó að lifun kálfa sé með allra versta móti. Ef að bændur telja þetta ekki vandamál er ólíklegt að þeir leggi áherslu að bæta úr málum. Að því sögðu vil ég alls ekki varpa ábyrgðina á bændur. Það verður að gera fleiri rannsóknir á þessum vanda.

Gerum allt að garði
Lesendarýni 28. nóvember 2025

Gerum allt að garði

Garðurinn í kringum Listasafn Árnesinga í Hveragerði er bæði umgjörð um safnið o...

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum

Aukin ásókn í ræktun skóga með framandi ágengum tegundum, eins og hún hefur tíðk...

Að vera í stríði við sjálfan sig
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Að vera í stríði við sjálfan sig

Snjótittlingurinn er ein helsta hetja norðursins. Vegur um 40 grömm og stenst fr...

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði

Tækifærin til orkusparnaðar, aukinnar sjálfbærni og samdráttar í losun gróðurhús...

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi

Um allt land á Íslandi eru lítil þorp, með litlum húsum en stórum garði. Garðuri...

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?
Lesendarýni 26. nóvember 2025

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?

Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár gengur í fáum orðum út á það til hvaða aðgerð...

Beitarstýring er best
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Beitarstýring er best

Í 16. tölublaði Bændablaðsins frá 11. september er forsíðugrein sem heldur því f...

Ávaxtaðu jarðveginn þinn
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Ávaxtaðu jarðveginn þinn

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir tveimur áskorunum, loftslagsbreytingum og hnig...