Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Herdís Magna Gunnarsdóttir, kúabóndi á Egilsstöðum, býður sig fram til formanns Landssambands kúabænda.
Herdís Magna Gunnarsdóttir, kúabóndi á Egilsstöðum, býður sig fram til formanns Landssambands kúabænda.
Mynd / Úr einkasafni
Lesendarýni 28. janúar 2020

Ég gef kost á mér sem formaður kúabænda

Höfundur: Herdís Magna Gunnarsdóttir, Egilsstöðum.

Nú liggur fyrir að kosið verður um nýjan formann Landssambands kúabænda á næsta aðalfundi samtakanna dagana 27.-28. mars, þar sem Arnar Árnason hefur tilkynnt að hann gefi ekki áframhaldandi kost á sér til formannssetu eftir fjögurra ára setu. Arnari vil ég þakka kærlega fyrir gott samstarf og þá miklu og góðu vinnu sem hann hefur unnið fyrir búgreinina.

Undanfarin þrjú ár hef ég setið í stjórn LK og sem varaformaður síðastliðið ár. Þessi tími hefur bæði verið mjög áhugaverður og lærdómsríkur en ég bauð mig upphaflega fram til stjórnarsetu þar sem ég hef brennandi metnað og áhuga til þess að hafa áhrif til hins betra fyrir búgreinina.

Til að segja aðeins frá sjálfri mér þá bý ég með fjölskyldu minni á Egilsstöðum á Fljótsdalshéraði þar sem við erum bæði með mjólkur- og nautakjötframleiðslu. Ég hef því allt í senn þekkingu, reynslu og áhuga á báðum hliðum greinarinnar.

Þegar ég kem fyrst inn í stjórn LK voru kúabændur nýlega búnir að kjósa um búvörusamninga og stutt var í kosningu um kvótakerfið og fyrstu endurskoðun samninganna. Ég er stolt af því að hafa komið að þeirri vinnu sem tryggði áframhaldandi framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslu í formi kvótakerfis. Það er að mínu mati lífsnauðsynlegt fyrir greinina.

Eins og áður segir gegni ég nú stöðu varaformanns LK og hef komið að hagsmunavinnu fyrir greinina á ólíkum sviðum á síðustu árum. Ég hef m.a. setið í vinnuhópi um stefnumótun LK í nautakjötsframleiðslunni, verið fulltrúi LK í stjórn Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) þar sem ég er einnig varaformaður stjórnar og hef síðasta árið setið í fagráði nautgriparæktarinnar. Ég hef því fengið ágæta innsýn á starfi samtakanna síðustu ár auk þess að hafa leyst formann af í tilfallandi verkefnum.

Mín sýn á starfið framundan

Starf LK er víðtækt og verkefnin fjölbreytt. Búvörusamningar, kosning um kvótakerfi í mjólkurframleiðslu og söfnun félaga í LK eftir að búvörugjald var fellt niður hafa eðlilega tekið hvað mest pláss og tíma stjórnar LK síðustu ár.

Þó enginn viti fyllilega hvað framtíðin ber í skauti sér og alltaf koma upp ný verkefni þá skynja ég ákveðin tímamót í starfi LK þar sem aukið svigrúm gefst fyrir samtökin að einbeita sér að öðrum verkefnum.

Ég tel auknar rannsóknir og þekkingarmiðlun til bænda lykilþætti í framförum í greininni og núna er þekkingaröflun varðandi loftslagsmál hvað mest aðkallandi. Ég er gífurlega ánægð með að LK hafi látið vinna greiningu á kolefnisspori nautgriparæktarinnar á Íslandi. Sú skýrsla er ákveðinn grunnur að áframhaldandi vinnu okkar í þeim efnum og verða niðurstöður hennar kynntar á næstu dögum. Jákvæðum skrefum íslenskrar nautgriparæktar í þessu sem og öðru á að hampa og koma vel á framfæri við neytendur. Auknar upplýsingar um stöðu greinarinnar gefa okkur bændum svo tækifæri til að finna leiðir að umhverfisvænni framleiðslu og styrkja um leið samkeppnishæfni okkar vara, bæði í mjólk og kjöti.

Aukin áhersla á nautakjötsframleiðslu

Nautakjötsframleiðslan hefur hlotið mjög svo aukið vægi í starfi LK og er það vel. Á því sviði eru auknar áskoranir vegna breyttra aðstæðna á markaði og innflutningsmála en einnig mikil tækifæri. Þekking okkar og gagnagrunnur hefur nú þegar tekið miklum framförum eftir að nýr starfsmaður var ráðinn til LK sem vinnur sérstaklega að málefnum nautakjötsframleiðslunnar. Verkefnin í þessum lið greinarinnar eru stór og spennandi og hlakka ég til að fylgja þeim áfram, fái ég umboð til þess.

Stöðug verkefni eru í ímyndarmálum greinarinnar. Nú er mikilvægt að við tökum upplýsta umræðu um loftslagsmálin og það er einnig gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að styrkja sambandið milli bænda og neytenda. Eins og flestir hafa kannski tekið eftir hafa tengsl almennings ákveðið fjarlægst sveitirnar og m.a. er matvælaöryggi landsins hugtak sem margir tengja lítið við eða líta jafnvel á sem pólitískt þvaður. Ég tel því afar mikilvægt að hagsmunasamtök kúabænda taki virkan þátt í umræðunni og haldi jákvæðum eiginleikum íslenskrar framleiðslu á lofti.

Ég tel starf LK standa á ákveðnum tímamótum og eftir mikla pólitíska vinnu undanfarinna ára getum við farið að einbeita okkur að faglegum málefnum greinarinnar. Það er afar mikilvægt fyrir kúabændur að sameinast í sameiginlegum hagsmunamálum greinarinnar. Þannig stendur greinin sterkust.

Þau verkefni sem LK stendur frammi fyrir eru einkar spennandi og eftir nokkrar vangaveltur og ráðfæringar hef ég ákveðið að gefa kost á mér til formanns Landssambands kúabænda. Að framansögðu tel ég mig búa yfir þeirri reynslu og þekkingu á stjórnarstörfum sem þarf til, auk þess að hafa brennandi áhuga á málefnum greinarinnar. Ég hef trú á að ég geti unnið gott starf fyrir Landssamband kúabænda og vil leggja mig alla fram ef ég hlýt til þess brautargengi.

Herdís Magna Gunnarsdóttir,
Egilsstöðum.

Kartaflan
Lesendarýni 16. júlí 2024

Kartaflan

Hvað vitum við um kartöfluna? Þessa nytjajurt sem heitir á fræðimáli Solanum tub...

Hraunflóðavarnir og þekking
Lesendarýni 16. júlí 2024

Hraunflóðavarnir og þekking

Nú eru í gangi umfangsmiklir jarðeldar á Reykjanesskaga, hafa þegar verið í gang...

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...