Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Bjartsýni í sauðfjárrækt
Lesendarýni 9. desember 2022

Bjartsýni í sauðfjárrækt

Höfundur: Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra

Bandaríska skáldið Earl Nightingale talaði einu sinni um að maður yrði það sem maður hugsaði um.

Svandís Svavarsdóttir

Þó að þetta sé vitanlega mikil einföldun þá er í þessu sannleikskorn. Það skiptir máli hvernig nálgun á verkefni er. Er glasið hálf tómt eða hálf fullt? Fyrir tæpu ári síðan þegar ég settist inn í ráðuneyti landbúnaðar skrifaði ég á blað nokkur verkefni sem ég vildi leggja áherslu á. Unnið er í öllum þessum verkefnum í ráðuneytinu og sum hver farin að bera ávöxt.

Bjartviðri fram undan

Eitt af því efsta á blaðinu var afkoma sauðfjárbænda. Síðustu ár hefur afkoman verið döpur. Það sem verra er að það hefur verið síversnandi afkoma í umræðunni. Um að staðan sé erfið og horfur dökkar. Skýrsla eftir skýrslu um að eitthvað þurfi að breytast og að bændum fækki. Þessi tónn hvetur ekki til árangurs. Ég tel að nú sé bjart fram undan fyrir íslenskan landbúnað, sauðfjárræktina meðtalda. Þrátt fyrir þær áskoranir sem við blasa vegna afleiðinga heimsfaraldurs og grimmrar innrásar Rússa í Úkraínu. Eitt mitt fyrsta verk í ráðuneytinu var að hlutast til um að fá sérstakt 700 milljóna króna framlag til að aðstoða bændur vegna hækkana á áburðarverði sem áttu sér vart sögulega hliðstæðu síðastliðinn vetur.

Þá var ég ekki búin að vera lengi í ráðuneytinu þegar að þær gleðifregnir bárust að hið ómögulega hefði gerst, að kindur hefðu uppgötvast sem báru samsætu sem veitir vörn gegn riðuveiki. Það gefur fyrirheit að unnt sé að vinna lokasigur á 150 ára baráttu við veiru sem hefur valdið ómældu tjóni í sveitum landsins. Drifkraftur þeirra sem börðust fyrir því að leita betur, færði íslenskri sauðfjárrækt þennan sigur. Þá hefur verið gott samstarf milli Matvælastofnunar og sauðfjárbænda um tillögur að reglugerðarbreytingum til þess að auðvelda starfið. Nú er einfaldlega praktískt verkefni fram undan, að koma þessari vörn í sem flest fé á sem hagkvæmastan hátt.

Afkoma bænda er háð fleirum en stjórnvöldum

Í vor varð ljóst að grípa þurfti til ráðstafana vegna þeirra áhrifa sem stríðið í Úkraínu hafði á matvælamarkaði. Skipaður var þriggja manna spretthópur sem útfærði tillögur á stuttum tíma. Ég gerði tillögur hópsins að mínum, sem voru m.a. þær að 2,5 milljarðar króna yrðu greiddar í sérstakan stuðning til bænda. Þá sagði ég og segi enn að það eru ekki bara stjórnvöld sem bera ábyrgð á afkomu bænda, heldur miklu frekar afurðastöðvar og smásalan. Síðastliðið sumar hækkaði svo afurðaverð til bænda verulega, eða um þriðjung. Þannig er raunverð á afurðum loksins komið upp í það verð sem það var fyrir tæpum áratug – til viðbótar við þann sérstaka stuðning vegna hækkandi aðfanga.

Önnur tillaga spretthópsins var að hvetja til hagræðingar í afurðageiranum með breytingu á búvörulögum. Slíkt frumvarp hefur nú verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda þar sem meginefni þess er að veita tímabundna, skilyrta heimild til tiltekins samstarfs á sviði slátrunar. Markmiðið er þannig að hvetja til hagræðingar sem muni hagnast bændum og neytendum. Ég ætlast til þess að þessi drög fái gagnrýna umræðu þannig að málið sé sem best þegar hin þinglega meðferð hefst.

Ég hef hlustað á sjónarmið bænda

Óbreytt kerfi þýða óbreytta niðurstöðu. Það kerfi sem sauðfjárræktin býr við, hefur ekki skilað ásættanlegum niðurstöðum. Niðurstaðan hefur núna í rúman hálfan áratug verið döpur afkoma og neikvæð umræða. Við endurskoðun búvörusamninga árið 2019 var ákveðið að fresta niðurtröppun greiðslumarks til 1. janúar 2023. Þess hefur verið farið á leit við mig að ég myndi hlutast til um það að taka upp samninginn á yfirstandandi ári til þess að breyta þeirri niðurstöðu. Því erindi var hafnað.

Staðreyndin er sú að staða sauðfjárbænda gagnvart stuðningi almennings við sauðfjárrækt er afar ójöfn. Sá hópur sauðfjárbænda sem mun sjá hag sinn vænkast mest við það að samningurinn haldi gildi sínu er sá hópur sauðfjárbænda sem hefur verstu afkomuna í dag. Þeim ætla ég ekki að gleyma. Það að draga úr vægi greiðslumarks, líkt og bændur sömdu um við stjórnvöld árið 2019 mun jafna stöðu bænda. Bent var á það af búgreinadeild sauðfjárbænda í haust að við þessa breytingu myndu nokkrir tugir milljóna flytjast milli svæða. Það er rétt og hefur legið fyrir frá því að samið var, að því að draga úr vægi greiðslumarks. Ég er tilbúin við endurskoðun búvörusamninga á næsta ári að skoða svæðaskiptingu stuðnings ef að vilji sauðfjárbænda stendur til þess.

Árangur til framtíðar

Mín sýn er sú að til þess að afkoma bænda vænkist þurfi að koma saman raunverulegar umbætur á stuðningi almennings við sauðfjárrækt. Að hvatar séu til árangurs í loftslagsmálum svo að þeir fjölmörgu bændur sem ná árangri þar fái uppskorið erfiði sitt. Hvatar séu til að auka framleiðni með fjárfestingum. En án fjárfestinga verða ekki framfarir. En það er ekki eingöngu á ábyrgð stjórnvalda að tryggja afkomubatann. Afurðaverð þarf að vera í takti við framleiðslukostnað. Til að svo megi verða þarf framleiðslan að vera í takti við eftirspurn. Það gengur ekki til lengri tíma að byggja hluta af fæðuöryggi landsins á því að ein stétt gefi vinnu sína. Við þurfum að horfa til þess að nýta afurðir betur og þar tel ég að landbúnaðurinn geti lært af sjávarútvegi, sem hefur náð undraverðum árangri í að fullnýta hráefni. Hagræðing í slátrun getur aukið hagkvæmni sem muni vænka hag neytenda og bænda. Ég trúi á íslenskan landbúnað og mun hér eftir sem hingað til berjast fyrir því að við grípum tækifærin.

Kvikmyndin Konungur fjallanna
Lesendarýni 25. september 2023

Kvikmyndin Konungur fjallanna

Bíóhúsið á Selfossi var troðfullt af fólki sunnudagskvöldið 10. sept. sl. þar se...

Aukinn stuðningur til vínbænda innan ESB á árinu 2023
Lesendarýni 22. september 2023

Aukinn stuðningur til vínbænda innan ESB á árinu 2023

Í júní síðastliðnum samþykkti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sérstakar ráðst...

Landsbyggðin lifi
Lesendarýni 15. september 2023

Landsbyggðin lifi

Samtökin Landsbyggðin lifi voru stofnuð formlega árið 2001 sem íslenski armur sa...

Brókarvatn og borusveppir
Lesendarýni 14. september 2023

Brókarvatn og borusveppir

Eitthvað var það. Jafnvel eitthvað áhugavert. En um leið og ég settist niður til...

Skógrækt í viðkvæmri náttúru Íslands
Lesendarýni 13. september 2023

Skógrækt í viðkvæmri náttúru Íslands

Samtökin Landvernd og Vinir íslenskrar náttúru (natturuvinir.is) stóðu fyrir nok...

Til í samtalið við bændur
Lesendarýni 12. september 2023

Til í samtalið við bændur

Ég fór á fund Bændasamtakanna á Selfossi á dögunum. Þetta var lokafundur í funda...

Áhættumatið og fjárhagslegur ávinningur
Lesendarýni 11. september 2023

Áhættumatið og fjárhagslegur ávinningur

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og grein Ragnars Jóhannssonar, rannsók...

Landeigendum boðnir óhagstæðir vindorkusamningar
Lesendarýni 4. september 2023

Landeigendum boðnir óhagstæðir vindorkusamningar

Fyrr á þessu ári fékk ég að lesa yfir samning milli innlends félags og landeigan...