Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Ákall til íbúa og sveitarstjórna í dreifbýli Íslands
Lesendarýni 1. apríl 2022

Ákall til íbúa og sveitarstjórna í dreifbýli Íslands

Höfundur: Ingólfur Bruun.

Nú er hafið kapphlaup að setja upp vindmyllugarða úti um allt land. Að þessu standa innlendir og erlendir fjárfestar. Enn er gerð atlaga að auðlindum landsins án þess að almenningur muni njóta góðs af arðinum sem felst í þeirri náttúruauðlind sem vindurinn er.

Nú þegar hafa aðilar sölsað undir sig fiskveiðiauðlindina án þess að fullt gjald komi fyrir og eins má minna á svo til frí afnot fiskeldisfyrirtækja af fjörðum landsins.

Arðurinn af vindorkuverum mun ekki enda hjá íbúum og sveitarfélögum í dreifbýli Íslands heldur að öllum líkindum á erlendum aflandsreikningum með bókhaldsbrellum.

Allir þekkja hvernig byggðaþróun var háttað á Íslandi á seinni hluta tuttugustu aldar. Fólki fækkaði til muna í sveitum landsins og eins í sjávarplássum þar sem einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélög létu glepjast af skyndigróða og seldu frá sér kvóta með hörmulegum afleiðingum fyrir íbúa viðkomandi sjávarplássa.

Í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli komst Ísland rækilega á blað erlendra ferðamanna. Skyndilega streymdu ferðamenn til Íslands sem aldrei fyrr. Ekki einasta komu ferðamenn til Íslands að sumri heldur líka að vetri. Og þá gerðist það merkilega að fólksflótti úr dreifbýlinu snérist við. Ungt fólk gat snúið aftur til æskustöðvanna og breytt búskap úr því að hugsa um dýr og huga þess í stað að ferðamönnum. Eða jafnvel sinnt bæði, búskap og ferðamönnum. Ferðaþjónustan var orðin að heilsársbúgrein.

Með því að setja upp vindmyllugarða þá eyðileggst óspillt víðáttan

En hvað var það sem heillaði ferða­menn við Ísland? Það var og er (nánast) óspillt náttúra landsins. Jöklarnir, sandarnir, hálendi Íslands og svo það sem mjög margir ferðamenn hafa orð á, óspillt víðáttan. Með því að setja upp vindmyllu­garða þá eyðileggst óspillt víðáttan fyrir utan þá staðreynd að arðurinn af téðum vindmyllugörðum mun ekki nýtast íbúum né heldur sveitarfélögum þar sem vindmyllugarðar yrðu settir upp. Ef af þessum vondu áformum verður mun draga úr straumi ferðafólks vegna þess að búið verður að spilla aðalaðdráttarafli ferðamanna til Íslands sem er óspillt náttúra.

Hér skal því haldið fram að ferðaþjónustunni tókst það sem gervöllum ráðstöfunum íslenskra stjórnmála á tuttugustu öldinni tókst ekki, að snúa við fólksflóttanum frá dreifbýlinu til þéttbýlisins á SV-horninu. Minna má á Byggðastofnun, laxeldi, loðdýrarækt, endalausa styrki til alls kyns framkvæmda og svo mætti lengi telja. Að mati þess sem hér ritar á það að vera markmið að halda landinu í byggð eins og við getum. Og við eigum að leggja mikið á okkur til þess að svo verði. Óspillt náttúra er mikilvægasti þátturinn í því að laða að ferðamenn til Íslands.

Dæmi um sveitarfélag þar sem fólksfækkun var svo mikil að sveitarfélagið var orðið skilgreint sem brothætt byggð, var Skaftárhreppur. Skaftárhreppur hefur notið góðs af fjölgun ferðamanna svo um munar. Því sætir það nokkurri furðu að til eru öfl í Skaftárhreppi sem berjast fyrir því að virkja bæði vind og vatn í hreppnum. Ef þessum sömu aðilum er annt um að búseta haldist í hreppnum ættu þeir að láta sig mjög varða óspillta náttúru í hreppnum sem og reyndar annars staðar á landinu. Ef náttúru Skaftárhrepps verður spillt með vatnsvirkjunum og/eða vindmyllugörðum mun það rýra mjög aðdráttarafl ferða­manna og draga verulega úr atvinnu­möguleikum íbúa Skaftár­hrepps.

Og svo því sé haldið til haga þá vantar ekki orku á Íslandi, það vantar betra dreifikerfi til að hægt sé að miðla orku milli landshluta þegar svo ber undir.

Ágætu íbúar í dreifbýli og sveitarstjórnir. Leyfum náttúru Íslands að vera óspilltri og skilum henni þannig til niðja okkar og einnig til þeirra sem leggja á sig á heimsækja Ísland til að njóta óspilltrar náttúru.

Ingólfur Bruun
ib@betrifjarskipti.is
Höfundur er leiðsögumaður og framkvæmdastjóri Betri fjarskipta ehf.

Skylt efni: Vindmyllur

Skógrækt og skemmtun
Lesendarýni 4. september 2024

Skógrækt og skemmtun

Þegar líður að hausti breytist yfirbragð skóganna í stórkostlega haustlitasinfón...

Hernaði skógræktar gegn náttúru landsins verður að linna
Lesendarýni 3. september 2024

Hernaði skógræktar gegn náttúru landsins verður að linna

Almenningur hefur að undanförnu fylgst agndofa með í fjölmiðlum hvernig fyrirtæk...

Vandar þú valið við fatakaup?
Lesendarýni 2. september 2024

Vandar þú valið við fatakaup?

Háhraða tískuiðnaðurinn (e. ultra fast fashion) tekur allt sem er slæmt við hrað...

Líforkuver á Dysnesi
Lesendarýni 23. ágúst 2024

Líforkuver á Dysnesi

Í síðustu viku opnaði ég nýjan vef Líforku. Opnun vefsvæðisins er hluti samstarf...

Íslandsmeistaramót í hrútadómum
Lesendarýni 16. ágúst 2024

Íslandsmeistaramót í hrútadómum

Starfsemin á Sauðfjársetrinu á Ströndum hefur gengið mjög vel í sumar og aðsókn ...

Áhrifaþættir matvælaverðs á Íslandi
Lesendarýni 16. ágúst 2024

Áhrifaþættir matvælaverðs á Íslandi

Í umræðum um matvælaverð hérlendis má oft sjá borið saman verð matarkörfu hérlen...

Fámenn þjóð í stóru landi
Lesendarýni 9. ágúst 2024

Fámenn þjóð í stóru landi

Í nýlegum tölum frá Hagstofu Íslands má sjá að 365.256 (95%) Íslendingar búa í b...

Nýr alþjóða millilandaflugvöllur á Íslandi
Lesendarýni 7. ágúst 2024

Nýr alþjóða millilandaflugvöllur á Íslandi

Staðið hefur yfir með hléum hrina eldgosa samfara jarðhræringum á Reykjanesskaga...