Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Dynjandisá í klakaböndum Viðmót stjórnvalda hefur verið kuldalegt í meira lagi í garð íslenskra eigenda lítilla veiðiáa á eldissvæðum líkt og áhættumat erfðablöndunar ber með sér.
Dynjandisá í klakaböndum Viðmót stjórnvalda hefur verið kuldalegt í meira lagi í garð íslenskra eigenda lítilla veiðiáa á eldissvæðum líkt og áhættumat erfðablöndunar ber með sér.
Mynd / Aðsend
Lesendarýni 17. febrúar 2023

Áhættumat erfðablöndunar – hvað næst?

Höfundur: Valdimar Ingi Gunnarsson sjávarútvegsfræðingur.

Uppbygging laxeldis í sjókvíum við Ísland hefur verið leidd af íslenskum fulltrúum erlendra fjárfesta og skilað þeim aðilum miklum fjárhagslegum ávinningi.

Valdimar Ingi Gunnarsson.

Leikreglurnar voru mótaðar í skýrslu starfs hóps sjávar- útvegs- og land búnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi frá árinu 2017 þar sem áhættumat erfðablöndunar leikur lykilhlutverk við úthlutun þeirrar auðlindar sem fólgin er í leyfum til eldis á laxi í sjókvíum hér við land. Áhættumat erfðablöndunar er úthlutunarkerfi sem gagnast aðallega laxeldisfyrirtækjum í meirihlutaeigu erlendra aðila og hefur lítið sem ekkert með náttúruvernd að gera. Náttúruvernd áhættumats erfðablöndunar er best lýst með umsögn lögfræðings og formanns stangveiðifélags við fiskeldisfrumvarpið sem endanlega var samþykkt á Alþingi Íslendinga á árinu 2019: ,,Það er raunar með nokkrum ólíkindum að veitt sé lagaheimild fyrir því að erfðablanda megi villtan íslenskan lax.“

Jafnframt var þess gætt af íslenskum fulltrúum erlendra fjárfesta í stefnumótunarhópnum að ekki væru settar hindranir sem kæmu í veg fyrir að mögulegt væri að fara með laxeldisfyrirtækin á erlendan hlutabréfamarkað og ná þannig mikilli hækkun í hafi á verðmætum eldisleyfa.

Yfirgangur gagnvart íslenskum hagsmunum

Í áhættumati erfðablöndunar er aðeins gert ráð fyrir að strokulax gangi upp í fjórar veiðiár á Vestfjörðum, en þar er að finna um 25 veiðiár þar sem lax er að finna með tilheyrandi laxalykt. Áhættumat erfðablöndunar gerir ráð fyrir að fórna minni laxveiðiám og vernda þær stærri. Fullnægjandi vöktun hefur sárlega skort á ástandinu í litlu veiðiánum á sjókvíaeldissvæðunum, með undantekningu hvað varðar þrjár ár í Arnarfirði sem rannsóknafyrirtækið Laxfiskar hefur vaktað.

Það ófremdarástand endurspeglast í því að tilkynningar um strokulaxa í ám hafa að mestu takmarkast við tilkynningar almennings (stangveiðimanna) og upplýsingar frá vöktun rannsóknafyrirtækisins Laxfiska. Mikilvægt er að bera virðingu fyrir eigum íslenskra landeigenda þó að um sé að ræða litlar veiðiár.

Enda þótt þær ár vegi ekki þungt fjárhagslega í stóra samhenginu þá eru náttúrulegir fiskistofnar þeirra áa dýrmæt auðlind sem aukinheldur skapar sumum eigendum þeirra tekjur. Eigendur lítilla veiðiáa á sjókvíaeldissvæðum hafa verið algjörlega hunsaðir af stjórnvöldum við uppbyggingu laxeldis á Íslandi. Nokkuð sem einfaldaði til muna að gefa eldisleyfi fyrir þeirri miklu framleiðslu s.s. á sunnanverðum Vestfjörðum til laxeldisfyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra aðila.

Á sama tíma var valtað yfir hagsmuni íslenskra sjókvía- eldisfyrirtækja í þeim framgangi sem stjórnvöld stýrðu til uppbyggingar á eldi á laxi í sjókvíum.

Úthlutun 2017

Þegar áhættumat erfðablöndunar var fyrst gefið út á árinu 2017 komu fjölmargir með margar alvarlegar athugasemdir sem ekki verða raktar hér. Með því að gera ekki ráð fyrir litlu veiðiánum í áhættumati erfðablöndunar var hægt að úthluta Kjartani Ólafssyni, stjórnarformanni Arnarlax og fulltrúa í stefnumótunarhópunum, nægilegum framleiðsluheimildum á sunnanverðum Vestfjörðum. Á sama tíma var lokað fyrir allt eldi í Ísafjarðardjúpi þrátt fyrir að svokallað reiknilíkan áhættumats erfðablöndunar gæfi möguleika á nokkurra þúsunda tonna eldi og þar með var fyrirhugað laxeldi íslensks fyrirtækis slegið út af borðinu. Af hverju var ekki farin sú leið á þessum tíma að úthluta framleiðsluheimildum á öllum eldissvæðum á Vestfjörðum þannig að öll fyrirtækin fengju einhverjar heimildir til eldis á frjóum laxi, ekki bara laxeldisfyrirtæki sem voru í meirihlutaeigu erlendra aðila? Hverjir réðu hér ferðinni?

Tilraunaeldi

Það voru miklir hagsmunir undir og unnið var að því að fá heimild til eldis á laxi í Ísafjarðardjúpi af laxeldisfyrirtækjum, sveitarstjórnar- mönnum og fleirum. Fljótlega eftir útgáfu áhættumats erfðablöndunar gaf Hafrannsóknastofnun út fréttatilkynningu um væntanlegt tilraunaeldi í Ísafjarðardjúpi.

Hafrannsóknastofnun hefur eflaust áttað sig að ekki væri heiðarlega unnið og 3.000 tonna heimildir stóðu eftir skv. reiknilíkani áhættumatsins þegar laxeldisfyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra aðila á sunnanverðum Vestfjörðum höfðu fengið allt sitt. Ekkert heyrðist meira um þetta tilraunaeldi og eflaust hefur jafnræðisreglan og skortur á lagaheimildum átt þar hlut að máli.

Úthlutun 2020

Það er gert ráð fyrir að áhættumat erfðablöndunar verði endurskoðað að lágmarki á þriggja ára fresti. Niðurstaðan við endurskoðun á árinu 2020 fól m.a. í sér að Ísafjarðardjúp utan Æðeyjar var opnað fyrir eldi á frjóum laxi. Sú ákvörðun var tekin í skjóli áhættumats erfðablöndunar án þess að nein fagleg rök væru þar að baki. Það fól m.a. í sér að sjókvíaeldi á laxi sem íslenskt fyrirtæki hafði lagt upp með að stunda innar í Ísafjarðardjúpi varð ekki að veruleika. Við endurskoðun áhættumatsins var heimilaður hámarkslífmassi í eldi á frjóum laxi hér við land aukinn úr 71.000 tonnum í 106.500 tonn. Í áhættumatinu frá 2020 var m.a. gerð sú breyting að miðað við hámarkslífmassa en áður var miðað við framleiðslu við úthlutun eldisleyfa.

Við breytinguna var framleiðslan reiknuð sem 80% af hámarkslífmassa (0,8:1) en var áður lögð að jöfnu (1:1). Við þessa breytingu jafngildir 71.000 tonna framleiðsla 88.750 tonna hámarkslífmassa eins og fram kemur í skýringum með áhættumatinu. Í raun er þetta hlutfall (1,3:1) hér á landi og í Noregi er það hærra (1,6:1) vegna betri sjávarskilyrða. Hámarkslífmassi m.v. 71.000 tonna framleiðslu hefði því átt að vera 55.000 tonn en ekki 88.750 tonn ef nota á þessa reiknibrellu til að ákvarða framleiðsluheimildir.

Hvað næst?

Áhættumat erfðablöndunar verður endurskoðað snemma á þessu ári og mikill þrýstingur hefur verið á að auka framleiðsluheimildir eða heimilaðan hámarkslífmassa. Áhættumatið þarf að auka hámarkslífmassa á Vestfjörðum um 13.000 tonn til að áform Arnarlax og Arctic Fish gangi eftir innan núverandi leyfisveitingarkerfis. Á Austfjörðum þarf að auka heimildir um 12.000 tonna hámarkslífmassa til að áform Fiskeldis Austfjarða gangi eftir. Erlendur hlutabréfamarkaður verðlagði á árinu 2021 hvert tonn af hámarkslífmassa að meðaltali á um 1,1 milljón króna og verðmæti þessara eldisleyfanna því um 27,5 milljarða króna (25.000 tonn x 1,1 milljón kr/tonn). Fjárhagslegu hagsmunirnir sem eru undir eru því gríðarlegir og krafan að auka eldið og arðinn enn frekar. Það eru ýmsar áskoranir við að auka hámarkslífmassa og stækka eldissvæði til eldis á frjóum laxi.

Hér eru dregnar upp eftirfarandi sviðsmyndir er koma myndu við sögu:

  • Aukinn hámarkslífmassi: Hvaða reiknibrellur verða notaðar til að auka hámarkslífmassa? Verður veiðiám fjölgað í áhættumati erfðablöndunar á þann veg að það leiði til þess að hægt verði að auka hámarkslífmassa?
  • Fleiri eldissvæði: Ef Ísafjarðardjúp verður opnað aftur fyrir eldi á frjóum laxi innan við Æðey, hvaða rök verða þá lögð til grundvallar fyrir þeirri ákvörðun eða fyrir því að opna það svæði ekki fyrir eldi á frjóum laxi verði það reyndin?
  • Mótvægisaðgerðir: Verður farin sú leið að grípa til mótvægisaðgerða s.s. að fjarlægja eldislax úr veiðiám? Ef sú leið verður farin, er þá hámarkslífmassi aukinn með vísun í þær mótvægisaðgerðir?

Það er mikil andstaða við áhættumat erfðablöndunar, gagnrýni sem er réttmæt og því e.t.v. skynsamlegast að gera enga breytingu á hámarki heimilaðs lífmassa við næstu endurskoðun. Varla er við því að búast að hámarkslífmassi verði skertur hjá fyrirtækjum á borð við Arnarlax sem ítrekað hafa staðið fyrir slysasleppingum.

Það er verið að brjóta lög

Á árunum 2018-2021 hafa átt sér stað níu tjón hjá Arnarlaxi og í átta tilfellum er um að ræða gat á netpoka. Arnarlax hefur aðeins í einu tilfelli tilkynnt um fjölda eldislaxa sem hafa sloppið. Endurteknar slysasleppingar hafa fengið að viðgangast hjá Arnarlaxi enda gerir áhættumat erfðablöndunar, sem stjórnarformaðurinn Kjartan Ólafsson ásamt öðrum fulltrúum í stefnumótunarhópnum lagði til, ekki ráð fyrir öðru. Stjórnvöld virðast vera að vakna til lífsins og ákveðin mál Arnarlax voru nýlega tekin til rannsóknar. Sú aðferðafræði sem áhættumat erfðablöndunar styðst við er að brjóta í bága við lög nr. 55/2012 um umhverfisábyrgð þar sem m.a. er kveðið á um að sá sem veldur mengun, láti taka til eftir sig og greiði kostnaðinn.

Þessi lög ná einnig yfir laxfiska og erfðablöndun. Stjórnarformaður Arnarlax og jafnframt fulltrúi í opinberum stefnumótunarhópi hefur ítrekað fram að þessu ekki þurft að taka ábyrgð á sínum umhverfistjónum á sama tíma og móðurfélagið Salmar í Noregi þarf að greiða fyrir vöktun og fjarlægja eldislax úr veiðiám í tilfelli slysasleppinga.

Að lokum

Íslendingar standa að baki nágrannalöndum í umhverfismálum er varða laxeldi og það er gefin heimild í íslenskum lögum til þess að norskur eldislax fái að hrygna í veiðiám, a.m.k. upp að ákveðnu marki. Rétt er að geta þess hér að undirritaður hefur enga persónulega fjárhagslega hagsmuni að verja í því máli sem hér hefur verið til umfjöllunar, enda hvorki eigandi veiðiáa né sjókvíaeldisfyrirtækja. Höfundur þekkir þetta mál mjög vel og hreinlega ofbýður þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið. Framganga stjórnvalda vegna uppbyggingar eldis á laxi í sjókvíum vitnar um að þar hefur ráðið för sá mikli fjárhagslegi ávinningur sem fámennum hópi skyldi hlotnast á sama tíma og aðkallandi umhverfismál vegna sjókvíaeldisins voru sett til hliðar. Það er því full ástæða til að fara sér hægt í áframhaldandi leyfisveitingum þar til búið er að gera viðeigandi endurbætur á stjórnsýslunni.

Skylt efni: laxeldi

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?
Lesendarýni 20. mars 2024

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?

Mikill fjöldi ótímabærra dauðsfalla á síðustu misserum hefur ekki farið fram hjá...

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker
Lesendarýni 14. mars 2024

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker

Óbyggðanefnd tók til meðferðarsvæði 12, með því að fjármálaráðuneytinu var tilky...

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?
Lesendarýni 13. mars 2024

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?

Í Samráðsgátt stjórnvalda lágu fyrir skemmstu til umsagnar drög að reglugerð um ...