Að gera sér mat úr skógi
Skógarbændur eru nú orðnir félagar í nýrri búgreinadeild skógarbænda innan Bændasamtaka Íslands. Fyrir um ári síðan var lögð út könnun meðal allra félagsmanna samtakanna. Þar kom fram að rúmlega helmingur bænda hefur áhuga á að hefja skógrækt, eða þá að halda áfram þeirri skógrækt sem þeir þegar stunda. Hverjir skyldu vera drifkraftar þess að bændur hafi hug á skógrækt?
Markmið með skógrækt eru mismunandi. Það geta líka legið ólíkar ástæður að baki því að bændur hafi hug á skógrækt – svo sem rekstrarlegar, skógurinn getur verið ætlaður til skjóls, til landgræðslu eða annars. Búpeningur hefst betur við utandyra í skjóli trjáa og skepnur leita í hlé fyrir slagviðrum. Öryggi eykst í allri útiræktun og afrakstur hennar verður meiri.
Allt hnígur að því að auka grænmetisframleiðslu og akuryrkju hér á landi. Það er stefna hins opinbera að stuðla að því að hlutfall innlendrar framleiðslu á grænmeti og korni aukist verulega, og einnig hlutfall innlendrar fóðurframleiðslu. Það er augljóst að skógar og skjólbelti hafa mikil jákvæð áhrif á möguleika til matvæla- og fóðurframleiðslu. Þess vegna er mikilvægt, og rétt, að horfa til skógræktar þegar unnið er að aukinni, heilnæmari og hagkvæmari matvælaframleiðslu.
Nær allt ræktað land, hér á landi og erlendis, var vaxið skógi áður en það var tekið til ræktunar. Undantekning frá þessu eru helst framræst votlendi.
Undir skógunum hefur jarðvegurinn þykknað og viðhaldist, þangað til trén hafa verið felld og jörðin tekin til ræktunar. Það var áður dýrt og vinnufrekt að brjóta skóglendi til ræktunar. En nú er 21. öldin gengin í garð og iðnvæðing, tækniþróun og þekkingarauður gerir okkur kleift að rækta skógarauðlind sem þjónar þörfum okkar. Og við erum einnig fær um að brjóta til ræktunar land þar sem er skjól og góð skilyrði fyrir hendi. Það þarf ekki lengur þrotlaust strit heilla kynslóða til, heldur er hægt með réttum tækjum að ná upp stubbum og losa jörðina við stórar trjárætur og gera þannig skóg að góðu og arðsömu ræktarlandi. Skógur getur, fyrir utan arðinn sem hafa má af honum sjálfum, varðveitt land til ræktunar og það er sem sagt ekki sérstökum vandkvæðum háð að gera skógi vaxið land ræktunarhæft. Auk þess búa skógar til skjól fyrir alla aðra ræktun í næsta nágrenni.
Samkvæmt núgildandi skógræktarlögum er óheimilt að eyða skógi varanlega, þ.e. að ryðja hann án þess að rækta upp skóg aftur. Þó eru skilyrði sem leyfa að það sé gert – m.a. að þess krefjist almannahagsmunir og að skógi af sömu stærð sé komið upp annars staðar. Þótt almannahagsmunir krefjist þess ekki beinlínis, að ákveðnir skógarreitir séu teknir til t.d. grænmetisræktunar, þá er ólíklegt að í framtíðinni komi upp sú staða að ekki megi taka land, vaxið ræktuðum skógi, til annarrar ræktunar.
Það er góð nýting á landgæðum að rækta matvæli og fóður þar sem þess er þörf og það er hægt. Skógar og skógrækt stuðla að því að við komumst nær viðunandi fæðuöryggi. Það er allt í senn loftslagsmál, byggðamál og lykillinn að sjálfbærni.