Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Veganesti í búvörusamningum
Leiðari 5. nóvember 2015

Veganesti í búvörusamningum

Fyrr á þessu ári fól atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) að vinna skýrslu sem hafði það að markmiði að vera leiðbeinandi gagn við undirbúning endurnýjunar á samningi um starfsskilyrði sauðfjárframleiðslunnar. 
 
Greina skyldi stöðu atvinnugreinarinnar og helstu þætti í starfsumhverfinu sem horfa þyrfti til við samningsgerðina. Frétt um útgáfu skýrslunnar og helstu niðurstöður er birt framar í blaðinu.
RHA hafði áður unnið að skýrslu fyrir Landssamtök sauðfjárbænda um samfélagslega þýðingu sauðfjárbúskapar sem lögð var fyrir aðalfund samtakanna síðasta vor.
 
Skýrsla RHA um sauðfjársamninginn er um margt fróðlegt plagg og þar er tekið á ýmsum þáttum er tengjast starfsskilyrðum sauðfjárræktar á Íslandi. Helstu efnistök skýrslunnar snúa að þáttum eins og nýliðun, mörkuðum hér heima og erlendis, opinberum stuðningi og framtíð greinarinnar. 
Ljóst er að nýliðun í sauðfjárrækt er fremur lítil og greinilegt að bág afkoma í greininni ræður þar miklu ásamt háu jarðaverði. Nýliðun er þó meiri eftir því sem fjær dregur frá höfuðborgarsvæðinu. Enn fremur kemur skýrt fram að flestir nýliðar taka við búi af einhverjum nátengdum ættingjum. Skýrar tillögur koma fram um hvernig auðvelda megi nýliðun í greininni.
 
Verðþróun á kjötmarkaði hefur fjölþætt áhrif
 
Greining á markaðsstöðu lambakjöts á innanlandsmarkaði er athyglisverð. Ítarlega er fjallað um teygni lambakjöts sem markaðsvöru, bæði verð- og tekjuteygni auk umfjöllunar um krossverðsteygni. Teygni er mælikvarði á það hvaða áhrif verðbreytingar á vörunni hafa á eftirspurn eftir henni. Þekkt er að neysla á lambi hefur gefið mikið eftir síðustu áratugi og það forskot sem áður var hefur tapast með aukinni neyslu á svína- og alifuglakjöti. Niðurstaða útreikninga á teygni segir okkur að hækkun lambakjötsverðs hafi ekki að sama skapi áhrif á það magn sem selt er en hins vegar hafi verð á öðrum kjöttegundum áhrif á verð lambakjöts. Verðbreytingar á nautakjöti og svínakjöti hafi mest áhrif á sölu lambakjöts, verð á kjúklingum minni áhrif. Þetta segir okkur einfaldlega að áhrif af nýgerðum tollasamningi við ESB getur haft mikil áhrif á sauðfjárræktina vegna þess hvað tollkvótar í svína- og nautakjöti eru opnaðir mikið, svo ekki sé minnst á áhrifin á svína- og nautakjötsframleiðendur sjálfa.
 
Samkvæmt búvörulögum hafa samtök sauðfjárbænda heimild til að gefa út viðmiðunarverð sauðfjárafurða. Slík útgáfa er þó einungis leiðbeinandi en alls ekki bindandi. Um árabil gáfu Landssamtök sauðfjárbænda út viðmiðunarverð sem rökstutt var með útreikningum sem byggðust á þróun kostnaðar við framleiðslu, birgðastöðu innanlands og viðgangi á erlendum mörkuðum. Skýrsla RHA fjallar um þessa heimild og gerir að umtalsefni ákvörðun sauðfjárbænda frá árinu 2011 um að hækka viðmiðunarverð milli ára um 25%, sem varð mjög umdeild í þjóðfélaginu. Niðurstaðan varð 21% hækkun afurðaverðs til sauðfjárbænda það ár. Samkvæmt útreikningum skýrsluhöfunda á verðteygni þyldi markaðurinn nú 12% hækkun og jafnvel meira án þess að það kæmi niður á sölu á innanlandsmarkaði.
 
Eðlilegt að knýja á um kjarabætur
 
Landssamtök sauðfjárbænda hafa ekki gefið út viðmiðunarverð undanfarin ár en eðlilegt er að velta því fyrir sér hvort ekki væri skynsamlegt, í ljósi þess sem fram kemur í skýrslunni, að nýta þessa heimild til að knýja á um kjarabætur fyrir sauðfjárbændur. Verðskrár sláturleyfishafa nú í haust hækkuðu ekkert á milli ára og á meðan talið er að 12% hækkun ætti ekki að hafa áhrif á eftirspurn á markaði er eðlilegt að spyrja sig nokkurra spurninga. Er fákeppni í smásöluverslun á Íslandi að halda niðri afurðaverði til bænda? Er sláturkostnaður of hár, þ.e. eru sláturhúsin of mörg? Er markaðssetning á erlendum mörkuðum nógu skilvirk? 
 
Fyrri atriðin tvö eftirlæt ég lesendum um að hugsa um en það síðastnefnda er fjallað um í skýrslunni. Umfjöllun um tækifæri í útflutningi á lambakjöti er alveg í takt við það sem margir hafa sagt. Með sameiginlegu átaki í markaðssetningu lambsins sem lúxusvöru á vel borgandi markaði undir einu vörumerki er hægt að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar og bæta afkomu sauðfjárbænda til muna.
Í umfjöllun um framleiðslukostnað koma fram athyglisverðar hugleiðingar um möguleika þeirra bænda sem geta aukið framleiðslu án þess að leggja í kostnað við nýbyggingar. Þó vissulega ráði afurðaverð til langs eða skamms tíma miklu um fýsileika þess að auka framleiðslu þá felst í orðum skýrsluhöfunda hvatning til bænda um að nýta alla framleiðsluaðstöðu sem þegar er fyrir hendi.
 
Stuðningur, markmið og stefna stjórnvalda
 
Í lok skýrslunnar er farið yfir opinberan stuðning og markmiðin með honum. Lagt er upp með verkbeiðni ráðuneytisins þar sem fjögur atriði eru lögð til grundvallar. Að stuðla að aukinni og arðbærri framleiðslu sauðfjárafurða með aukinn útflutning í huga, að efla sauðfjárræktina sem atvinnugrein í dreifðum byggðum, að bæta afkomu sauðfjárbænda og að auðvelda endurnýjun í stéttinni.
 
Skýrsluhöfundar telja að stefna stjórnvalda sé ekki skýr þegar kemur að stuðningi við landbúnað þó svo að alltaf hafi verið breið sátt meðal almennings um málið. Í skýrslunni eru færð ýmis rök fyrir því að styðja við landbúnað eins og að treysta fjárhagslegan grundvöll bænda, fæðu- og matvælaöryggi, mikilvægi þess að viðhalda byggð á jaðarsvæðum, varðveislu menningarlandslags, samspil við ferðaþjónustu o.fl. Þessi umfjöllun skýrsluhöfunda hvetur til þess að við gerð búvörusamninga sé stefnan augljós og sett skýr markmið í samningunum.
 
Umfjöllun um stuðningskerfið rammar ágætlega inn mikilvægi þess að setja sér skýr markmið um hvert skuli stefna. Það á við um allar búgreinar sem þurfa að treysta á öruggt rekstrarumhverfi landbúnaðar á Íslandi. Það eru að vísu mismunandi útfærslur á stuðningskerfi eftir því hvaða áherslur verða lagðar. Hins vegar kemur skýrt fram sú ráðlegging að vægi beingreiðslna verði minnkað og áhersla lögð á stuðning á hvern grip, byggðastuðning og stuðning vegna jarðræktar. Tollverndin er ekki síður mikilvæg bændum. Eins og margoft hefur verið fjallað um á þessum vettvangi er hún önnur af tveimur stoðum rekstrarumhverfis landbúnaðarins ásamt stuðningskerfinu. Allt eru þetta atriði sem þarf að rýna vel í við gerð búvörusamninga.
 
Hljóð og mynd
Leiðari 24. júní 2021

Hljóð og mynd

Landbúnaður er ein grundvallar­atvinnu­greina á Íslandi og gegnir mikilvægu hlut...

Bændur óska eftir viðræðum við stjórnvöld um tollamál
Leiðari 16. júlí 2020

Bændur óska eftir viðræðum við stjórnvöld um tollamál

Frá og með 1. júlí síðastliðnum hækkuðu tollar á ákveðnar afurðir af útiræktuðu ...

Ljúkum afgreiðslu samninga
Leiðari 21. júlí 2016

Ljúkum afgreiðslu samninga

Landbúnaður skiptir miklu fyrir íslenskt samfélag. Í fyrsta lagi er hann mikilvæ...

Raunveruleiki eða uppspuni?
Leiðari 12. maí 2016

Raunveruleiki eða uppspuni?

Einn af frambjóðendum í komandi forsetakosningum sagði meðal annars þegar hann k...

Umræðan og veruleikinn
Leiðari 28. apríl 2016

Umræðan og veruleikinn

Stjórnmálalegu uppnámi síðustu vikna virðist ekki lokið þó að ríkisstjórn með ný...

Sviptingar
Leiðari 14. apríl 2016

Sviptingar

Það hefur verið ókyrrð í íslensku samfélagi síðustu vikur. Stjórnmálamönnum geng...

Til framtíðar litið
Leiðari 22. mars 2016

Til framtíðar litið

Útgáfudagur þessa blaðs er síðasti dagur bænda til að kjósa um nýja búvörusamnin...

Gömul og ný umræða um starfsskilyrði bænda
Leiðari 10. mars 2016

Gömul og ný umræða um starfsskilyrði bænda

Nú standa yfir kynningarfundir um búvörusamninga. Búið er að skipuleggja 19 fund...