Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Úti í mýri
Leiðari 19. desember 2014

Úti í mýri

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Fréttablaðið hefur undanfarið birt röð fréttaskýringa um umhverfismál. Því ber að fagna, enda er um að ræða efni sem varðar okkur öll og er ráðandi þáttur um hvernig aðstæður okkar á jörðinni munu þróast í ekki svo fjarlægri framtíð.

Við þekkjum að veðurfar hefur hlýnað hér á Íslandi. Það hefur þegar breytt aðstæðum til landbúnaðar og sú þróun mun að öllum líkindum halda áfram. Það mun gera margt auðveldara fyrir íslenskan landbúnað – og hefur reyndar þegar gert það. En við sjáum þróunina ekki að öllu leyti fyrir. Hlýnandi veðurfar gerir líka ýmsum nýjum plöntum og dýrum kleift að festa rætur í landinu, fái þær að berast hingað. Sumar nýjar tegundir geta mögulega orðið að gagni, en aðrar valdið miklu tjóni í vistkerfinu. Það undirstrikar enn þörfina á því að gæta ýtrustu varúðar við innflutning á plöntum, dýrum og öðrum afurðum sem geta borið smit. Mistök á því sviði getur orðið mjög erfitt að leiðrétta.

Bent var á í umfjöllun Fréttablaðsins að framræst land valdi verulegri losun gróðurhúsalofttegunda.  Þessar tölur byggja á áætluðu flatarmáli framræsts lands, það er því landi sem vatnsstaðan hefur lækkað nægjanlega til að hafa áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda. Það er ekki endilega land sem er fullframræst, ræktað, eða  tækt til ræktunar. Losunarmagnið byggir síðan á stuðlum um losun á flatareiningu sem eru samkvæmt því sem loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna leggur til, eða innlendum gögnum ef þau eru fyrir hendi.

Votlendi líka ræst fram vegna þéttbýlis

Fyrir liggur að fyrr á árum beittu stjórnvöld sér fyrir mikilli framræslu um land allt.  Á þeim tíma var ekki verið að skoða hvort að framræslan hefði hugsanlega þær afleiðingar sem við vitum nú að hún hefur. Þetta var gert í góðri trú, til að efla landbúnað og matvælaframleiðslu.

Það þurfti að laga landbúnaðinn að vélaöldinni og auka fæðuframboð fyrir þjóð sem var að fjölga verulega. Það þurfti jafnframt að gera með mun færri höndum en áður. Framræslan var þó ekki eingöngu bundin við landbúnað, heldur var líka verið að þurrka land til að útbúa byggingarland fyrir vaxandi þéttbýli. Svæði eins og Vatnsmýri, Safamýri og Sogamýri í Reykjavík fengu ekki nöfn sín að ástæðulausu.

Flokka þarf framræst land með tilliti til nýtingar

Við þurfum að horfast í augu við þessa stöðu af fullri alvöru og reyna eftir föngum að bæta mat okkar á henni. Það þarf að fara yfir hvað raunhæft er að gera til að draga úr henni. Þar þarf að koma til samstillt átak margra aðila, bænda, stjórnvalda og sérfræðinga á þessu sviði. Flokka þarf framræst land með tilliti til núverandi nýtingar og vega svo saman áhrif óbreyttrar stöðu annars vegar og hins vegar endurheimt votlendis, sem ætti þá að skila minni losun gróðurhúsalofttegunda og hugsanlega frekari ávinningi svo sem bættum vatnsbúskap.  Taka verður tillit til áhrifa aukinnar skógræktar, sem felur í sér verulega kolefnisbindingu og annarra mögulegra aðgerða sem geta haft áhrif.  Þetta verður eitt af stærri viðfangsefnum næstu ára.
Í umfjöllun Fréttablaðsins var einnig minnst á gamalkunna frasa um sauðfjárbeit. Um ára og áratuga skeið hafa verið uppi sjónarmið þess efnis að sauðfjárbeit sé helsti sökudólgur landeyðingar á Íslandi. Án tillits til hvað hverjum er um að kenna þá er það staðreynd að beitarálag hefur minnkað stórlega á síðustu áratugum. Ástæða þess er bæði nærri helmings fækkun sauðfjár og sú staðreynd að langt fram eftir 20. öldinni var sauðfé beitt úti á vetrum meðan auða jörð var að fá. Slíkt er nú aflagt og rannsóknir hafa sýnt að landið er á heildina litið í framför, það grær hraðar en það eyðist. Það er ekki svo langt síðan það breyttist, en þeir sem vilja ræða þessi mál málefnalega mættu gjarnan fara að viðurkenna að staðan er breytt og fyrr á öldum var stundum ekkert annað í boði ef ætlunin var að lifa af.

Einn af virkustu landbótahópum hérlendis eru bændur

Vissulega eru næg verkefni fyrir hendi við landbætur hérlendis, næstu árhundruðin. Einmitt þess vegna er rétt að halda því til haga að einn af virkustu landbótahópum hérlendis eru einmitt bændur. Það er ekki síst í gegnum verkefnið „Bændur græða landið“ sem Landgræðslan hefur rekið með góðum árangri frá 1990. Um 600 bændur leggja þar hönd á plóg við að bæta landið – enda byggja þeir afkomu sína á því að það sé hægt að nýta það. Ofnýting hittir fyrst og fremst þá sjálfa fyrir.

Umfjöllun Fréttablaðsins var þó að mestu leyti sanngjörn. Leiðari ritstjóra blaðsins í kjölfarið var það hins vegar ekki – kannski er það bara í starfslýsingunni að ritstjórinn hverju sinni eigi að tala til landbúnaðarins með einföldunum og sleggjudómum?!  Að nota orð eins og „hryðjuverk“ um verkefni sem unnin voru í góðri trú, er ekki til þess fallið að skapa neina sátt um þessi mikilvægu mál. Er verið að leggja framræslu votlendis á Íslandi að jöfnu við það sem samtökin Íslamska ríkið eru að gera?  Svona orðanotkun gengisfellir merkingu orðanna og vanvirðir þá sem þurfa í alvöru að takast á við afleiðingar hryðjuverka.  Við notkun sífellt öfgakenndara orðalags í almennri þjóðfélagsumræðu verður gagnrýnin á endanum merkingarlaus og umræðan sjálf aðeins keppni um hver öskrar hæst. Það getur aldrei skilað okkur fram á veg. Ritstjórinn mætti í fyllstu vinsemd hugleiða það um hátíðarnar, ef hann hefur áhuga á málefnalegri umræðu.

Ég óska öllum lesendum Bændablaðsins gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. 

Skylt efni: Leiðari

Áhrifavaldið
Leiðari 30. ágúst 2024

Áhrifavaldið

Svo bar til tíðinda í síðustu viku að gúrkuskortur í matvöruverslunum á Íslandi ...

Slök frammistaða
Leiðari 16. ágúst 2024

Slök frammistaða

Í þessu tölublaði Bændablaðsins er fjallað um stóran rekstrarþátt ylræktarframle...

Skín við sólu Skagafjörður
Leiðari 11. júlí 2024

Skín við sólu Skagafjörður

Eftirfarandi línur úr fyrsta erindi hins tilkomumikla ljóðs Matthíasar Jochumsso...

Af íslenskum matjurtum
Leiðari 27. júní 2024

Af íslenskum matjurtum

Tíminn er núna til að taka forskot á sæluna og leita uppi brakandi ferskar íslen...

Veðuröfl
Leiðari 13. júní 2024

Veðuröfl

Margt hefur verið að frétta í íslensku samfélagi að undanförnu. Forsetakosningar...

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu
Leiðari 4. júní 2024

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu

Kolviður hefur unnið að því sl. tvö ár að skilgreina verkferla og verkefni samkv...

Stuðningskerfi framtíðar
Leiðari 30. maí 2024

Stuðningskerfi framtíðar

Núverandi búvörusamningar gilda til og með 31. desember 2026. Því ætti nýtt stuð...

Að fletta blaðinu
Leiðari 16. maí 2024

Að fletta blaðinu

Nýlega bárust okkur gleðifregnir um magnaða ljósmynd. Forsíðumynd Sigurðar Más H...

Réttalistinn 2024
29. ágúst 2024

Réttalistinn 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Göngur og góður reiðtúr
13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Bændur selja Búsæld
13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Gerum okkur dagamun
13. september 2024

Gerum okkur dagamun