Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Sviptingar
Leiðari 14. apríl 2016

Sviptingar

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Það hefur verið ókyrrð í íslensku samfélagi síðustu vikur. Stjórnmálamönnum gengur illa að öðlast traust almennings og það er enn mikil reiði og óþolinmæði í samfélaginu, tæpum 8 árum eftir fjármálahrunið 2008. 
 
Nýr ráðherra landbúnaðarmála er tekinn til starfa, nýr forsætisráðherra og boðaðar hafa verið kosningar í haust, hálfu ári fyrr en til stóð. Við skulum vona að það verði bærileg sátt um þessa niðurstöðu, fram að boðuðum kosningum.
 
Búvörusamningar í miðjum pólitískum stormi
 
Þegar þessi pólitíski stormur skall á var nýbúið að birta frumvarp um nýja búvörusamninga á vef Alþingis, en engin umfjöllun var hafin og er ekki enn þegar þetta er skrifað. Við afgreiðslu þingsins þurfa bændur að leggja sig fram við að auka skilning þingmanna og annarra í þjóðfélaginu á efni samninganna og vinna að því að sem víðtækastur stuðningur verði við þá á Alþingi. Það hefur oftast verið þannig að stuðningur hefur verið víðtækur og þannig þarf það einnig að verða nú. Ef við lítum til baka yfir síðustu afgreiðslur búvörusamninga á Alþingi þá hefur aðeins einn þingmaður greitt atkvæði gegn samningum frá aldamótum. Það var Pétur H. Blöndal heitinn, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Flestir aðrir studdu samningana, en alltaf hafa nokkrir setið hjá.   
 
Margir hagsmunaaðilar hafa skoðun á starfsskilyrðum bænda og vissulega hafa allir rétt til að hafa skoðun á ráðstöfun þeirra opinberu fjármuna sem þeim fylgja. Margir sömu hagsmunaaðilar hafa þó ekki dregið neitt af sér við að heimta aukin ríkisútgjöld til verkefna sem þeim eru þóknanleg. Landsmenn fá margt í staðinn fyrir stuðning við landbúnaðinn eins og lægra vöruverð, lifandi landsbyggðir og fjölmörg störf, bæði í landbúnaðinum sjálfum, tengdum greinum og greinum sem þjónusta landbúnaðinn. Það hefur mikla þýðingu.   
 
Hlutfallslega mikill samdráttur á stuðningi
 
Oft hefur verið bent á þetta í umræðunni, en stundum er eins og aldrei sé hægt að ræða mál í heild, en bara horft á peningaupphæðir.  Að leggja af þessi útgjöld getur nefnilega hæglega skapað önnur á öðrum stöðum. Stuðningur við landbúnaðinn hefur til viðbótar dregist mikið saman undanfarna áratugi. Ég nefndi um daginn að stuðningurinn væri sama hlutfall af landsframleiðslu og fyrir 30 árum þá væri hann 100 milljarðar. En hann er nú 22 miljarðar, þar af eru 9,6 í formi tollverndar, en ekki beinna ríkisútgjalda. Upphæð tollverndar sveiflast sífellt milli ára eftir gengi og þróun markaða.
 
Skiptar skoðanir
 
Bændur voru ekki allir sammála um samningana heldur, en í atkvæðagreiðslu kúa- og sauðfjárbænda um samninga þeirra greina var stuðningur afgerandi eða 75% um nautgripasamninginn og 60% um sauðfjársamninginn.    Búast mátti við því að samningarnir væru umdeildir, enda er um breytingasamninga að ræða. Það er því fagnaðarefni hvað niðurstaðan var skýr.
 
Það er landbúnaðinum mikils virði að hafa nú í höndunum ramma um starfsskilyrði sín til næstu 10 ára. Sumir telja það langan tíma, en það er reyndar svo að þegar að nýju búgreinasamningarnir leysa þá sem nú eru í gildi af hólmi þá hefur sá elsti þeirra gilt lítt breyttur í 15 ár, en hinir tveir í 12 og 9 ár. Það var því alveg kominn tími á endurskoðun. Inn í nýju samningana eru að auki byggðar tvær endurskoðanir, árin 2019 og 2023. Þeir eru því sveigjanlegri en áður og hægt að bregðast hraðar við þeirri þróun sem kann að verða. Samningarnir eru því gott verkfæri fyrir landbúnaðinn til að þróast á næstu árum.   Ég hefði gjarnan viljað sjá meiri fjármuni í samningunum. Hagræðingarkrafa á samningstímanum er rúm 8% sem er verulegt. En þetta er niðurstaða sem ég hef trú á að verði landbúnaðinum farsæl og ég hvet þingmenn til að styðja hana.
 
Nýja nálgun í byggðamálum
 
Vaxandi áhyggjur eru í dreifbýlinu um hnignun og niðurskurð í opinberri þjónustu. Allt dreifbýlisfólk þekkir umræðuna um skerta þjónustu, lélegt viðhald innviða eins og samgöngumannvirkja og fleira. Þetta kom til umræðu við samningaborðið og niðurstaðan varð sú að við munum fara í sérstaka vinnu með stjórnvöldum um þessi mál eins og segir í bókun með rammasamningi:
„Samningsaðilar eru sammála um að ráðast í starf sem miðar að því að treysta innviði og búsetu í sveitum. Í því felist meðal annars að finna skilgreindar leiðir sem stuðla að aukinni sjálfbærni sveitanna, eflingu framleiðslu og úrvinnslu matvæla ekki síst svo að meiri virðisauki verði í byggðunum. Sérstaklega verði skoðuð uppbygging innviða, svo sem samgangna, fjarskipta og raforku. Einnig möguleika sveitanna og framlag þeirra til þátttöku í aðgerðum vegna loftslagsmála. Þá verði litið til úrræða til að treysta fjárhag bænda og greiða enn frekar fyrir ættliðaskiptum á bújörðum.
 
Til þess að koma þessu í framkvæmd mun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipa samstarfsvettvang samningsaðila vorið 2016 sem hafi það að markmiði að gera tillögur um aðgerðir sem stuðla að ofangreindum markmiðum.“
 
Ég bind miklar vonir við þetta starf og við höfum þegar tilnefnt fólk til þessara starfa.    Stjórnmálauppnámið hefur tafið fyrir því að stjórnvöld ýttu því í gang,en bændur munu fylgja því eftir að svo verði innan tíðar.
 
Það er svo annað mál að vilji stjórnvalda til að standa að byggðastefnu í landinu á ekki að þurfa að standa og falla með búvörusamningum. Þeir eru ekki forsenda slíkrar stefnu þó að hún hafi verulega þýðingu fyrir landbúnaðinn. Búvörusamningarnir koma samt ekki í veg fyrir að stjórnvöld og samfélagið allt geri betur í byggðamálum.
Fjársvelt neytendavernd
Leiðari 26. maí 2023

Fjársvelt neytendavernd

Reglugerð nr. 618/2017 fjallar um notkun þjóðfánans við markaðssetningu á vöru o...

Hvað kostar tollvernd?
Leiðari 12. maí 2023

Hvað kostar tollvernd?

Tollvernd er margslungið og frekar óaðgengilegt fyrirbæri. Því er ekki skrítið a...

Egg og baunir
Leiðari 28. apríl 2023

Egg og baunir

Fæðuöryggi og framtíð norrænnar matvælaframleiðslu er í húfi ef drög að nýjum no...

Samhengið
Leiðari 5. apríl 2023

Samhengið

Hækkandi framfærslukostnaður plagar fólk bæði hér og erlendis. Alls staðar er ma...

Tölur óskast
Leiðari 24. mars 2023

Tölur óskast

Hagtölur á borð við framleiðslutölur og neyslutölur, tölur um framboð og eftirsp...

Að fatta
Leiðari 10. mars 2023

Að fatta

Sögnin „að fatta“ hefur verið mér hugleikin undanfarna daga.

Merkingar landbúnaðarafurða
Leiðari 9. mars 2023

Merkingar landbúnaðarafurða

Nú um stundir eru frumframleiðendur og neytendur að fást við talsverða merkingar...

Leikreglurnar
Leiðari 24. febrúar 2023

Leikreglurnar

„Við fylgjum bara þeim leikreglum sem settar eru. Menn geta svo haft á því skoðu...