Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Samvinna og kreppa
Leiðari 8. febrúar 2024

Samvinna og kreppa

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir, ritstjóri.

Áhugaverðar umræður sköpuðust á Alþingi þegar rætt var um mögulega heimild kjötafurðastöðva til samvinnu.

Þann 31. janúar var tekin fyrir fyrsta umræða um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum sem níu þingmenn lögðu fram. Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi mælti fyrir frumvarpinu, sem nokkrir þingmenn hafa lagt fram sl. fimm löggjafarþing. Frumvarpið felur í sér breytingu á búvörulögum í því skyni að undanþiggja afurðastöðvar í kjötiðnaði ákvæðum samkeppnislaga. Í greinargerð segir að finna megi svipaðar undanþágur fyrir afurðastöðvar í kjötiðnaði í helstu samkeppnislöndum Íslands, til dæmis innan Evrópusambandsins. Markmið með frumvarpinu er að veita innlendum kjötiðnaði tækifæri til að hagræða og til að bregðast við ört vaxandi samkeppni að utan. Í greinargerð með frumvarpinu segjast flutningsmenn telja að samkeppni við erlenda framleiðslu vegi þyngra í verðmyndun íslenskra landbúnaðarafurða en innlend samkeppni og álíta að samkeppni við erlenda aðila muni aukast á næstu árum. Þórarinn benti á smæð íslenskrar kjötframleiðslu í samanburði við samkeppnisaðila erlendis. Hann nefndi sem dæmi að það tæki danska stórfyrirtækið Danish Crown fimm daga að slátra öllu því nautakjöti sem fellur til á Íslandi á ári, íslenskar afurðastöðvar væru langt frá því að starfa á fullum afköstum og ytri aðstæður væru erfiðar. Tryggja þyrfti að innlendar kjötafurðir væru enn á boðstólum og væri heimild afurðastöðva til samvinnu skref í þá átt. Samkvæmt frumvarpinu yrði afurðastöðvum heimilt að gera með sér samkomulag og starfa saman til að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Hann nefndi samruna Kjarnafæðis og Norðlenska sem dæmi um farsæla sameiningu, en hinu sameinaða fyrirtæki hefur á stuttum tíma tekist að snúa rekstrinum til betri vegar. Með betri rekstrarhagkvæmni afurðastöðva gætu skapast fjármunir sem hægt væri að nota í vöruþróun og nýsköpun í úrvinnslu kjötafurða, fjármagn sem ekki væri fyrir hendi í þungum rekstri afurðastöðva í dag. Annað svipað lagafrumvarp, sem matvælaráðherra lagði fram fyrir ríkisstjórn í nóvember sl., er nú til vinnslu inni í atvinnuveganefnd. Er það frumvarp um framleiðendafélög sem felur í sér að fyrirtækjum sem eru í eigu eða undir meirihlutastjórn frumframleiðenda verði heimilt að eiga með sér samstarf um afmarkaða þætti við framleiðslu búvara. Nokkrir þingmenn ávörpuðu þingið í umræðum. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi, spurði um samlegðaráhrif frumvarps matvælaráðherra og þess frumvarps sem til umræðu var. Munurinn felur m.a. í sér hversu mikla aðkomu Samkeppniseftirlit getur haft á mögulegt samstarf og samruna fyrirtækja. Frumvörpin tvö eru nú bæði á borði atvinnuveganefndar.

Magnús Árni Skjöld Magnússon, þingmaður Samfylkingar í Reykjavíkurkjördæmi norður, og Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, skiptust á að koma í pontu og ræða mikilvægi landbúnaðar. Magnús Árni sagði atvinnugreinina í kreppu og væri þeirrar skoðunar að breyta þurfi umgjörð um íslenskan landbúnað. Honum hugnast sameiginleg landbúnaðarstefna Evrópusambandsins og sagðist vera talsmaður þess að bændur tækju samtalið um hvað myndi gerast ef Ísland gengi í það. Njáll Trausti benti á að orsök fjölda bændamótmæla sem hafi verið að eiga sér stað í Evrópusambandsríkjum væru vegna slæmra starfsskilyrða, m.a. vegna landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins. Þar væri landbúnaður því líka í kreppu.

Orð eru til alls fyrst
Leiðari 12. apríl 2024

Orð eru til alls fyrst

Góður fjölmiðill dregur saman upplýsingar, kemur á framfæri ólíkum sjónarmiðum, ...

Pylsan og merkið
Leiðari 21. mars 2024

Pylsan og merkið

Upprunamerkið Íslenskt staðfest var mikið rætt á nýafstöðnu Búnaðarþingi. Við se...

Beðið eftir jarðræktarmiðstöð
Leiðari 7. mars 2024

Beðið eftir jarðræktarmiðstöð

Sex ár eru síðan Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands flutti frá Korpu e...

Útflutningsverðmæti
Leiðari 5. mars 2024

Útflutningsverðmæti

Þótt framleiðsla landbúnaðarafurða sé að mestu hugsuð miðað við innlenda þörf er...

Samvinna og kreppa
Leiðari 8. febrúar 2024

Samvinna og kreppa

Áhugaverðar umræður sköpuðust á Alþingi þegar rætt var um mögulega heimild kjöta...

Kerfið
Leiðari 29. janúar 2024

Kerfið

Að vanda kennir ýmissa grasa í þessu tölublaði Bændablaðsins en áherslurnar eru ...

Bitlaust
Leiðari 11. janúar 2024

Bitlaust

Tollvernd er eitt aðalverkfæri stjórnvalda til að stuðla að innlendri framleiðsl...

Peð
Leiðari 14. desember 2023

Peð

Bóndi er ekkert borðleggjandi hugtak. Samkvæmt Íslensku nútímamálsorðabók Árnast...