Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Peð
Mynd / Jani Kaasinen
Leiðari 14. desember 2023

Peð

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir, ritstjóri Bændablaðsins

Bóndi er ekkert borðleggjandi hugtak. Samkvæmt Íslensku nútímamálsorðabók Árnastofnunar er bóndi sá eða sú sem rekur bú í sveit og er með búfénað eða stundar ræktun. Bóndi er sá sem hefur atvinnu af landbúnaði eða fiskeldi samkvæmt vefuppflettiritinu Wikipedia. Í Lögfræðiorðasafninu er skilgreiningin einfaldlega: „Sá sem býr á jörð.“ ChatGPT sagði mér að „í mörgum samfélögum er bóndi líka hluti af menningararfi og hefur verið grundvöllur landbúnaðar og búskapar um aldirnar.“ Íslenska orðsifjabókin skilgreinir bónda sem mann sem rekur búskap, sem húsbónda eða – sem peð í skák. Í Þýskalandi og Danmörku er reyndar það orð sem merki bóndi notað yfir peðið, þennan lítilfjörlega taflmann sem þó getur reynst bjargvættur á skákborðinu.

Bændur stunda landbúnað og hér á landi eru starfandi um 3.000 bændur. Landbúnaður er ein af mikilvægustu atvinnuvegum landsins samkvæmt stjórnvöldum en undir hann falla alifuglarækt og eggjaframleiðsla, garðyrkja og geitfjárrækt, hrossarækt, landeldi, jarðrækt, loðdýrarækt, nautgriparækt, sauðfjárrækt, skógarframleiðsla, svínarækt og æðarrækt.

Til að styðja við atvinnugreinina teflir ríkisstjórnin fram tveimur stjórntækjum; opinberum stuðningsgreiðslum og tollvernd. Hlutfall stuðnings milli búgreina er hins vegar misskipt; á meðan tilteknar búgreinar treysta á greiðslur úr búvörusamningum þurfa aðrar að reiða sig á tollvernd. Báðar leiðirnar virðast ekki tryggja bændum viðeigandi starfsskilyrði eins og staðan er í dag og því hriktir í stoðum fæðuöryggis landsins.

Fyrir helgi var tilkynnt um stuðningsgreiðslur til bænda sem eiga í fjárhagserfiðleikum vegna efnahagsástandsins. Stuðningurinn nær til 982 bænda og verður meirihluta fjármagnsins úthlutað til nautgripa- og sauðfjárbænda. Í skýrslu starfshóps ráðuneytisstjóra kemur fram að tillögurnar séu í „ágætu samræmi við aðgerðir í nálægum ríkjum“. Mun þá einna helst hafa verið litið til Noregs í því samhengi og aðgerðirnar bornar saman við þær aðgerðir sem gripið hefur verið til hér á landi. Umfang landbúnaðarframleiðslu í Noregi er umtalsvert meira en á Íslandi en Norðmenn, þvert á pólitískar línur, styðja sína landbúnaðarframleiðslu; í orði, verki og með fjármagni. Tillögunum er ætlað að styðja við fjölskyldubú. Eru fjölskyldubú eingöngu í tilteknum búgreinum? Hér í blaðinu má finna gagnrýni frá fulltrúum búgreina sem stunda ekki nautgripa- eða sauðfjárrækt sem lýsa miklum vonbrigðum yfir því að stjórnvöld velji ekki að styðja við fjárhagsvanda allra bænda sem standa í ströngu. Þar spyr bóndi: Er ég ekki bóndi?

Umræður um landbúnað árið 2023 hafa meðal annars snúist um hvernig landbúnaðurinn er mát í þeirri stöðu sem hann er í gagnvart því kerfi sem honum er ætlað að spila innan. Kerfið virkar ekki sem skyldi þegar endurtekið neyðarviðbragð þarf til að bjarga lífsviðurværi fólks fyrir horn um stund. Engum er hollt að tefla djarft þegar velferð og fæðuöryggi er í húfi. Skilvirk matvælaframleiðsla þarf að byggja á fyrirsjáanleika og öryggi til langs tíma. Bændur búa ekki við það rekstraröryggi sem eðlilegt væri í atvinnugrein sem ætlað er að stuðla að fæðuöryggi þjóðarinnar og um leið matvælaöryggi með framleiðslu á heilnæmum mat. Því er ekki að undra að heildarendurskoðun á styrkjakerfi í landbúnaði virðist yfirvofandi. Enda voru 200 milljónir kr. af þeirri fjárveitingu sem tilkynnt var fyrir helgi meðal annars eyrnamerkt slíkri vinnu. Þá vinnur Landbúnaðarháskóli Íslands nú að skýrslu um styrkjaumhverfi landbúnaðar á Íslandi þar sem lögð er áhersla á samanburð við styrkjaumhverfi annarra landa sem og árangursmælikvarða. Því eru afskaplega áhugaverðir tímar fram undan á næsta ári, svo ekki sé meira sagt.

Áhrifavaldið
Leiðari 30. ágúst 2024

Áhrifavaldið

Svo bar til tíðinda í síðustu viku að gúrkuskortur í matvöruverslunum á Íslandi ...

Slök frammistaða
Leiðari 16. ágúst 2024

Slök frammistaða

Í þessu tölublaði Bændablaðsins er fjallað um stóran rekstrarþátt ylræktarframle...

Skín við sólu Skagafjörður
Leiðari 11. júlí 2024

Skín við sólu Skagafjörður

Eftirfarandi línur úr fyrsta erindi hins tilkomumikla ljóðs Matthíasar Jochumsso...

Af íslenskum matjurtum
Leiðari 27. júní 2024

Af íslenskum matjurtum

Tíminn er núna til að taka forskot á sæluna og leita uppi brakandi ferskar íslen...

Veðuröfl
Leiðari 13. júní 2024

Veðuröfl

Margt hefur verið að frétta í íslensku samfélagi að undanförnu. Forsetakosningar...

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu
Leiðari 4. júní 2024

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu

Kolviður hefur unnið að því sl. tvö ár að skilgreina verkferla og verkefni samkv...

Stuðningskerfi framtíðar
Leiðari 30. maí 2024

Stuðningskerfi framtíðar

Núverandi búvörusamningar gilda til og með 31. desember 2026. Því ætti nýtt stuð...

Að fletta blaðinu
Leiðari 16. maí 2024

Að fletta blaðinu

Nýlega bárust okkur gleðifregnir um magnaða ljósmynd. Forsíðumynd Sigurðar Más H...