Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Misjöfn er tíðin
Leiðari 18. ágúst 2015

Misjöfn er tíðin

Höfundur: Einar Ófeigur Björnsson, 2. varaformaður BÍ
Mér finnst við hæfi að hefja þennan leiðara á að fjalla um tíðarfarið. Á Norðausturlandi hefur það verið frekar leiðinlegt í sumar og bændur duglegir að kvarta undan erfiðri heyskapartíð. Sumrin hafa þó oft verið verri. Fyrir ekki svo mörgum árum var mest af heyinu  þurrkað. Forfeður mínir hefðu þakkað fyrir þá tækni sem okkur stendur nú til boða. Við bændur, eins og aðrir, verðum að vinna í samræmi við það tíðarfar sem okkur er úthlutað. Því getum við ekki stjórnað.
 
Annað sem við getum hins vegar reynt að breyta eða hafa áhrif á er verðið sem við fáum fyrir af­urðir okkar. Á dögunum ákvað verðlagsnefnd bú­vöru að hækka mjólkurverð til bænda um 1,7%. Formaður BÍ fjallaði um það starf í síðasta leiðara. Ég hef orðið var við það að ýmsum kúabændum þyki þetta lítið, en ég hef líka skilning á því að starf verðlagsnefndar hefur ekki verið auðvelt, ekki síst að nýloknum kjarasamningum.
 
Er vitlaust gefið?
 
Verðskrár fyrir sauðfjárafurðir sem sláturleyfis­haf­ar gefa út um þessar mundir líta því miður ekki út fyrir að hækka neitt frá síðasta ári. Landssamtök sauðfjárbænda hafa birt ágæta samantekt á afurðaverði til bænda annars vegar og hins vegar á hlutdeild þeirra í endanlegu smásöluverði, borið saman við nokkur lönd í Evrópu. Þessi samanburður er okkur bændum mjög í óhag en versluninni frekar hagstæður. 
Við hljótum að velta því fyrir okkur hvort þetta sé eðlileg skipting á því sem neytandinn greiðir fyrir vöruna. Sauðfjárbændur eru ein launalægsta stétt landsins, sláturleyfishafar rétt svo skrimta en verslunin virðist vel haldin. Landssamtök sauðfjárbænda hafa sett fram markmið um leiðréttingu á skiptingu á smásöluverði sem er raunsæ og sanngjörn. Verðlagning á þessari vöru verður að vera þannig að allir geti lifað af, annars sígur smátt og smátt á ógæfuhliðina. Nauðsynlegt er að greina enn frekar af hverju skipting á smásöluverði er með allt öðrum hætti hér en víðast í Evrópu. 
 
Vinna við nýja búvörusamninga á næsta leiti
 
Hvorki sauðfjár- né kúabúskapur verður rekinn í þeirri mynd sem nú er án stuðningsgreiðslna frá ríkinu. Gerð búvörusamninga er á næsta leiti. Skipuð hefur verið samninganefnd sem undirritaður á sæti í. Ég tel að við þurfum enn skýrari stefnu en verið hefur, um hverju við ætlumst til að þessir samningar skili. 
Nýir samningar eiga að skila sanngjörnu vöru­verði til neytenda en þeir eiga að líka að stuðla að því að viðhalda byggð sem víðast um landið. Sérstaklega á þetta við um sauðfjárræktina. Hún er og verður hornsteinninn í atvinnustarfsemi dreifðustu byggðanna og jaðarbyggðanna um allt land. Nágrenni þéttbýlis er ekki best fallið til sauðfjárræktar. Það er sorglegt að sjá alltaf molna úr jaðrinum á byggðinni og jarðir sem henta afbragðsvel til sauðfjárræktar falla úr ábúð. Ástæðan er sú að búreksturinn skilar almennt ekki nægum tekjum til að menn geti fjárfest í jörðunum og byggt þær upp. Um leið er ekki aðra vinnu að hafa í nágrenninu. Afurðaverðið og þær greiðslur sem við fáum frá ríkinu verða að skapa eðlilegan rekstrargrundvöll undir þokkalega stór bú þannig að ungu fólki þyki fýsilegt að koma inn í landbúnaðinn hvar sem er á landinu.
Sátt um landnýtingu er nauðsyn
 
Sauðfjárbændur þurfa einnig að ná betri sátt um landnýtingu en verið hefur. Það hlýtur að vera eðlilegt að hver og einn geri grein fyrir því beitilandi sem hann ætlar sínum bústofni hvort sem það er eignarland, leiguland,  afréttur eða annarskonar nýtingarheimildir. Uppfæra þarf þessar upplýsingar ef búskapur eða búskaparaðstæður breytast.
 
Þá vex annars konar landnýting ógnarhratt um þessar mundir þar sem ferðaþjónustan er. Þar stefnir í algjört óefni á sumum stöðum. Í erfiðu tíðarfari getur stórséð á ákveðum blettum eftir til þess að gera lítinn ágang ferðamanna. Þeir breyta landinu í flag ekki síður en ósjálfbær beit getur gert. Ferðamenn skapa tekjur fyrir þjóðarbúið og núna mjög miklar tekjur. Þeir mega þó ekki flæða yfir skipulagslaust, ekki fremur en landnýting bænda má vera skipulagslaus. Það eru náin tengsl á milli ferðaþjónustu og búskapar og búsetu í landinu. Fallegar sveitir eru nauðsynlegur þáttur í ásýnd þessa lands og hjálpa örugglega til að laða að erlenda ferðamenn. Það kemur okkur öllum í koll ef ekki verður tekið á þessu fyrr en síðar.
Pylsan og merkið
Leiðari 21. mars 2024

Pylsan og merkið

Upprunamerkið Íslenskt staðfest var mikið rætt á nýafstöðnu Búnaðarþingi. Við se...

Beðið eftir jarðræktarmiðstöð
Leiðari 7. mars 2024

Beðið eftir jarðræktarmiðstöð

Sex ár eru síðan Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands flutti frá Korpu e...

Útflutningsverðmæti
Leiðari 5. mars 2024

Útflutningsverðmæti

Þótt framleiðsla landbúnaðarafurða sé að mestu hugsuð miðað við innlenda þörf er...

Samvinna og kreppa
Leiðari 8. febrúar 2024

Samvinna og kreppa

Áhugaverðar umræður sköpuðust á Alþingi þegar rætt var um mögulega heimild kjöta...

Kerfið
Leiðari 29. janúar 2024

Kerfið

Að vanda kennir ýmissa grasa í þessu tölublaði Bændablaðsins en áherslurnar eru ...

Bitlaust
Leiðari 11. janúar 2024

Bitlaust

Tollvernd er eitt aðalverkfæri stjórnvalda til að stuðla að innlendri framleiðsl...

Peð
Leiðari 14. desember 2023

Peð

Bóndi er ekkert borðleggjandi hugtak. Samkvæmt Íslensku nútímamálsorðabók Árnast...

Landbúnaðarland
Leiðari 30. nóvember 2023

Landbúnaðarland

Jude L. Capper prófessor sagði í erindi sínu á afmælisráðstefnu RML að misvísand...