Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Bóndinn sem útvegaði þér lambakjöt í súpuna í fyrra krækti sér í skuldir fyrir ómakið, fékk mínus 35.000 krónur í mánaðarlaun skv. tölum Bændasamtaka Íslands.
Bóndinn sem útvegaði þér lambakjöt í súpuna í fyrra krækti sér í skuldir fyrir ómakið, fékk mínus 35.000 krónur í mánaðarlaun skv. tölum Bændasamtaka Íslands.
Leiðari 1. nóvember 2023

Mínus

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Fæðuöryggi er einn af hornsteinum þjóðaröryggis, segir Johan Åberg hér í tölublaðinu en hann er fulltrúi finnsku bændasamtakanna í Neyðarbirgðastofnun finnska ríkisins. Þar í landi eru alltaf á öllum tímum til neyðarbirgðir af fæðu, orku, lyfjum, lækningavörum og öllu því sem þarf til að halda samfélaginu gangandi í níu mánuði ef allar aðfangakeðjur lokast. Aðrar þjóðir líta nú til finnska kerfisins enda eru margar þjóðir að átta sig á að þær hefðu kannski ekki átt að leggja niður sínar neyðarbirgðastöðvar.

Á Íslandi er engin neyðarbirgðastofnun en vinna við að greina nauðsynlegar birgðir og meta stöðu þeirra liggur nú hjá ráðuneytum í framhaldi af útgáfu skýrslu starfshóps um neyðarbirgðir sem kom út síðasta haust. Þeirri vinnu átti að ljúka á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en lítið hefur heyrst um framgang þeirrar vinnu.

Á meðan eru ekki gildandi nein stjórnvaldsfyrirmæli um lágmarksbirgðir matvæla eða aðfanga til matvælaframleiðslu í landinu. Hér eru birgðir af matvælum sem liggja hjá framleiðendum, afurðastöðvum, innflytjendum, verslunum og neytendum.

Í þessu samhengi er þó eitt deginum ljósara; hér mun aldrei ríkja neitt fæðuöryggi ef við höfum ekki frumframleiðendur matvæla. Landbúnaður er ein af grunnstoðum samfélagsins, rétt eins og heilbrigðis- og skólakerfið. Hlutverk þess er að stuðla að sjálfbærni landsins, styrkja áfallaþol samfélagsins og viðhalda matvælaöryggi. Bændur þjóna því veigamikla hlutverki að byggja undir grunn þjóðaröryggis í landinu.

Það er skrítið að meginstoðum samfélagsins sé haldið uppi með láglaunastörfum. Starf bónda, kennara og sjúkraliða eiga það sameiginlegt að vera illa borgaðar stöður sem ekkert samfélag kemst samt af án. Þjóð er ekkert án menntakerfis, við lifum vart án heilbrigðiskerfis, enginn kemst af án matar.

Það sem skilur að fyrrnefndar starfsstéttir, kennarann og sjúkraliðann annars vegar og bóndann hins vegar, er að þær fyrrnefndu geta og hafa barist fyrir sínum kaupmætti reglulega í gegnum kjarasamninga. Samningar ríkis við bændur eru hins vegar, eins og Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent við LbhÍ og bóndi, bendir á hér í blaðinu, bundnir til langs tíma og taka ekki mið af sveiflum í kostnaði við framleiðslu búvara. Bændur hafa enga tryggingu fyrir stöðugum kaupmætti, heldur þurfa þeir að taka af launum sínum neikvæða þróun allra helstu kostnaðarliða.

Enda sýna tölur Bændasamtaka Íslands að meðalmánaðarlaun bænda með búfé er fyrir neðan núllið. Bóndinn sem útvegaði þér lambalærið í fyrra krækti sér í skuldir fyrir ómakið, fékk mínus 35.000 krónur í mánaðarlaun. Það sama má segja um bóndann sem skaffaði í hamborgarann, hann borgaði einnig með sér og fékk mínus 366.000 krónur í mánaðarlaun.

Ríkisstjórnin ákvað að koma á fót starfshópi þriggja ráðuneytisstjóra til að leggja mat á stöðu landbúnaðar í framhaldi af neyðarfundi sem Bændasamtökin boðuðu með matvælaráðherra og fjármálaráðherra fyrir tveimur vikum. Ekki fylgir tilkynningu hvenær niðurstöðu er að vænta, hvort það verði innan einhverra vikna eða mánaða. Á meðan munu bændur halda áfram sínu góðgerðarstarfi og framleiða mat fyrir þjóðina á eigin kostnað. Ráðuneytisstjórarnir munu varla sætta sig við að borga tímakaupið sitt úr eigin vasa eins og bændur eru að gera. Og á meðan við bíðum hriktir í stoðum fæðuöryggis þjóðarinnar.

Kjöt og kosningar
Leiðari 22. nóvember 2024

Kjöt og kosningar

Eftir nokkra daga mun þjóðin velja þá sem sitja á Alþingi næstu fjögur ár. Kosni...

Lágmarkskröfurnar
Leiðari 11. október 2024

Lágmarkskröfurnar

Tíunda grein laga um velferð dýra fjallar um getu, hæfni og ábyrgð umsjónarmanna...

Að vernda landbúnaðarland
Leiðari 1. október 2024

Að vernda landbúnaðarland

Margir tengja Hornafjörð við kartöflur enda eru þar mikil og góð ræktarsvæði sem...

Áhrifavaldið
Leiðari 30. ágúst 2024

Áhrifavaldið

Svo bar til tíðinda í síðustu viku að gúrkuskortur í matvöruverslunum á Íslandi ...

Slök frammistaða
Leiðari 16. ágúst 2024

Slök frammistaða

Í þessu tölublaði Bændablaðsins er fjallað um stóran rekstrarþátt ylræktarframle...

Skín við sólu Skagafjörður
Leiðari 11. júlí 2024

Skín við sólu Skagafjörður

Eftirfarandi línur úr fyrsta erindi hins tilkomumikla ljóðs Matthíasar Jochumsso...

Af íslenskum matjurtum
Leiðari 27. júní 2024

Af íslenskum matjurtum

Tíminn er núna til að taka forskot á sæluna og leita uppi brakandi ferskar íslen...

Veðuröfl
Leiðari 13. júní 2024

Veðuröfl

Margt hefur verið að frétta í íslensku samfélagi að undanförnu. Forsetakosningar...