Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Kerfið
Leiðari 29. janúar 2024

Kerfið

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir ritstjóri.

Að vanda kennir ýmissa grasa í þessu tölublaði Bændablaðsins en áherslurnar eru óneitanlega á nautgriparækt enda árlegar niðurstöður skýrsluhalds frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins ávallt birtar á þessum tíma.

Við tökum hús á afurðahæsta kúabúi landsins, hvar bændur telja einsleitni og gott hey lykil að árangri. „Þetta er svo óspennandi bú að það er eiginlega ekkert gaman að taka viðtal við okkur,“ segir Aðalbjörg Ásgeirsdóttir bóndi glettin í viðtalinu, sem er þó afar fróðlegt og gefur gagnlega innsýn í líf og hugðarefni kúabóndans. Við forvitnumst líka um nythæstu kýr landsins og hraðvöxnustu nautin. Þá skýrum við út viðskipti með mjólkurkvóta en mikil umræða hefur skapast um það í framhaldi af aðsendri grein Baldurs Helga Benjamínssonar kúabónda í síðasta tölublaði.

Að baki kaupum á mjólkurkvóta liggur mikil skuldsetning: Á árunum 2022 og 2023 nam heildarandvirði með greiðslumark mjólkur á tilboðsmörkuðum rúmum 2,4 milljörðum króna vegna viðskipta með framleiðslurétt af ríflega 7,2 milljónum lítra af mjólk. Framleiðsla meðalbús er um 317.000 lítrar og er verðmæti framleiðsluréttar þess um 100 milljónir króna miðað við gildandi markaðsverð, 300 kr./ltr. Áhrif kvótaeignar á efnahagsreikninga bænda er því veruleg. Bóndinn fær nú um 132 kr. fyrir hvern lítra sem hann framleiðir innan greiðslumarks. Það fjármagn fer þá gjarnan í að greiða vexti og afborganir lána, til dæmis vegna kaupa á framleiðsluréttinum. Sem keyptur er til að tryggja sér lágmarksafurðaverð fyrir framleiðslu sína. Þetta er auðvitað ofureinföldun á flóknu samspili búvöruframleiðslu og opinberra kerfa.

Ónefnd er til dæmis fjárfesting í jörðum, húsnæði, gripum og tækjabúnaði sem og rekstrargjöldin við framleiðslu á þessari mjólk. Í öllu falli benda niðurstöður RML til þess að kúabú sé að borga með framleiðslu sinni því sem nemur 18,9 krónum á hvern framleiddan mjólkurlítra.

Heildarvirði mjólkurkvótakerfisins eins og það leggur sig, miðað við 300 kr./ltr. er um 45,5 milljarðar króna. Ef hver kynslóð kúabænda á héðan af að halda kerfinu uppi, burtséð frá þeim sem erfa jarðir og kvóta eða þeim sem njóta vaxtalausra lána, þá kostar greiðslumarkskerfið tæpa fjóra milljarða króna á ári þegar tekið er tillit til fjármagnskostnaðar. Þetta eru tvöfaldar opinberar greiðslur út á þetta sama greiðslumark. Aftur gríp ég til ofureinföldunar í þeirri veiku von að setja flókið kerfi í skiljanlegt og víðara samhengi. Sem er þetta: Auðvitað kostar það alltaf sitt fyrir hverja kynslóð bænda að greiða sér leið inn í atvinnugreinina hvernig sem reikningsforsendurnar eru. En kerfið ætti ekki að snúast um að opinberar greiðslur fari í að kaupa sér þátttöku í kerfinu. Því mikla fjármagni sem fer í að borga sig inn í kerfið væri kannski betur varið í annað í búrekstrinum sjálfum. Þannig mætti kerfið sem unnið er eftir stuðla betur að eðlilegri framfærslu fyrir þá mikilvægu vinnu að yrkja landið og skapa þannig fæðu.

Framleiðendum búvara er ætlað að tryggja að hér sé framboð af mat í samræmi við þarfir þjóðarinnar. Það er bókstaflega skráð í lög. Fæðuöryggi er enda ein af forsendum þess að við tryggjum hér þjóðaröryggi og grundvallarlífsskilyrði. Um það er líka fjallað í lögum. En stefnum þurfa að fylgja leiðir og fyrrnefnd hringavitleysa bendir til þess að kerfið sé nokkuð óskilvirkt, sérstaklega þegar horft er til nýliðunar í atvinnugreininni. Til þess að geta framfylgt stefnu stjórnvalda væri æskilegt að þau, sem kjósa að leggja fyrir sig atvinnu í búskap, þurfi ekki að steypa sér í óyfirstíganlegt skuldafen.

Skín við sólu Skagafjörður
Leiðari 11. júlí 2024

Skín við sólu Skagafjörður

Eftirfarandi línur úr fyrsta erindi hins tilkomumikla ljóðs Matthíasar Jochumsso...

Af íslenskum matjurtum
Leiðari 27. júní 2024

Af íslenskum matjurtum

Tíminn er núna til að taka forskot á sæluna og leita uppi brakandi ferskar íslen...

Veðuröfl
Leiðari 13. júní 2024

Veðuröfl

Margt hefur verið að frétta í íslensku samfélagi að undanförnu. Forsetakosningar...

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu
Leiðari 4. júní 2024

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu

Kolviður hefur unnið að því sl. tvö ár að skilgreina verkferla og verkefni samkv...

Stuðningskerfi framtíðar
Leiðari 30. maí 2024

Stuðningskerfi framtíðar

Núverandi búvörusamningar gilda til og með 31. desember 2026. Því ætti nýtt stuð...

Að fletta blaðinu
Leiðari 16. maí 2024

Að fletta blaðinu

Nýlega bárust okkur gleðifregnir um magnaða ljósmynd. Forsíðumynd Sigurðar Más H...

Sérmerktar svínavörur
Leiðari 24. apríl 2024

Sérmerktar svínavörur

Neytendur eru alltaf að verða meðvitaðri og ábyrgari við vöruval. Þó að verðmiði...

Orð eru til alls fyrst
Leiðari 12. apríl 2024

Orð eru til alls fyrst

Góður fjölmiðill dregur saman upplýsingar, kemur á framfæri ólíkum sjónarmiðum, ...