Jarmað, hneggjað, baulað ...
Það verður að segjast að áform um atvinnustefnu stjórnvalda sem forsætisráðherra kynnti á fimmtudag í síðustu viku eru byggð á þröngri sýn á íslenskt atvinnulíf. Þau fela hvorki í sér áhugaverða né ábyrga framtíðarsýn á íslenskt atvinnulíf og þær áskoranir í loftslagsmálum, umhverfismálum, byggðamálum, matvælaframleiðslu og hvað varðar jöfnuð sem okkar samfélag jafnt sem öll önnur samfélög heims standa frammi fyrir næsta áratuginn. Það eru vonbrigði.
Kristrún kynnti atvinnustefnuna sem „vaxtarplan til 2035“ enda lagði hún umfram allt og „fyrir það fyrsta“ áherslu á að þetta ætti að vera hagvaxtarstefna: „Já, ef við höldum rétt á spilunum þá getur nútímaleg atvinnustefna lagt grunn að betri hagvexti á Íslandi, meiri hagvexti á mann – sem er lykilatriði – með minna álagi á samfélag, umhverfi og innviði.“
Þetta gæti hljómað vel í eyrum sumra, en ef orð Kristrúnar eru skoðuð kemur í ljós að í stjórnsýslunni á að leggja áherslu á „einföldun regluverks“ sem liðkar fyrir leyfisveitingum í orkumálum (sem sagt virkjanaframkvæmdum). Svo á að „létta á byggingareglugerð“, væntanlega til að hraða framkvæmdum þótt jafn æskilegt væri að auka gæði. Sömuleiðis á að „létta á jafnlaunavottun“ þó að skynsamlegra væri líklega að endurmóta það fyrirbæri og uppfæra. Í rannsóknar- og þróunarstarfi ætlar ríkið að styðja við „frekari vöxt hugverkaiðnaðar“ og virðist byggja þá áherslu á þeirri þróun sem hefur verið að eiga sér stað síðustu áratugi og hefur skilað verðmætustu fyrirtækjum heims. Síðast en ekki síst kynnir Kristrún nýja byggðastefnu með eftirfarandi hætti: „Tími stórframkvæmda er runninn upp á ný.“ Með stórframkvæmdum á að „treysta byggð og stuðla að svæðisbundnum hagvexti“. Með stórframkvæmdum er væntanlega einkum átt við virkjana-, vega- og jarðgangaframkvæmdir – mannaflsfrekar framkvæmdir sem kalla umfram allt á enn meira af ódýru, innfluttu vinnuafli.
Þetta er framtíðarsýnin.
En í raun er þetta atvinnustefna sem hér var við lýði fyrir tuttugu til þrjátíu árum og fór með þetta samfélag fram af brúninni. Þetta er atvinnustefna tuttugustu aldarinnar. Hún fjallar umfram allt um eflingu hefðbundins iðnaðar.
Mál forsætisráðherra bar því miður vott um ákaflega þrönga og gamaldags sýn á atvinnuþróun. Hvað varðar landbúnað og matvælaframleiðslu er þar ekkert að finna. Ein af stærstu áskorunum næstu ára er að efla heilnæma og sjálfbæra matvælaframleiðslu sem vinnur gegn þeirri vá sem stafar af loftslaginu og tryggja fæðuöryggi á þeim viðsjárverðu tímum sem ríkja. Ein af stærstu áskorunum í okkar landi er að jafna stöðu landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis og það verður ekki gert með því að flytja inn meira af ódýru vinnuafli. Umhverfismál verða áfram eitt af stærstu viðfangsefnum aldarinnar. Í því sambandi þarf að vera á hreinu í hvað orkan á að fara sem á að framleiða næsta áratuginn. Ekkert var talað um landeldi í þeim efnum en minnst var á gagnaver á fundinum. Landeldi er atvinnuskapandi landbúnaður. Gagnaver sækja fyrst og fremst í ódýra, græna orku og munu ekki skapa mörg störf hér á landi.
Það eru veruleg vonbrigði að heyra engin orð um þær áskoranir sem hér eru nefndar í ræðu forsætisráðherra um nýja atvinnustefnu sl. fimmtudag. Stjórnvöld verða að sýna að þau sjái og skilji helstu áskoranir samtímans, að öðrum kosti missa þau traust og tiltrú.
