Jarmað, hneggjað, baulað ...
Efist einhver um miklar breytingar á landbúnaði undanfarna áratugi má rýna í tölur.
Bændum fækkar. Það eru ekki nýjar fréttir. Bændum hefur fækkað jafnt og þétt síðustu áratugi. Mestu munar þó um mikla fækkun sauðfjárbænda. Þeir voru 1.823 árið 2008 en 1.477 árið 2023. Kúabændum fækkar einnig talsvert. Þeir voru 759 árið 2008 en 671 árið 2023. Öðrum nautgripabændum fækkaði um ellefu á sama árabili, úr 107 í 96. Bændum í loðdýrarækt hefur fækkað um fimmtán á sama tímabili, úr 42 í 27 en bændum í garðyrkju hefur hlutfallslega fækkað minna eða úr 218 í 208. Tölurnar eru fengnar úr rekstrar- og efnahagsyfirliti landbúnaðarins á vef Hagstofunnar.
Tölur úr mælaborði landbúnaðarins á vef Stjórnarráðsins segja í grófum dráttum sömu sögu. Fjöldi búfjáreigenda í landinu árið 1981 var 9.359 en í fyrra voru þeir 4.585. Þar má sjá að hrossaeigendum hefur fækkað úr 2.795 í byrjun níunda áratugarins í 1.918 í fyrra. Sú tala segir þó ekkert um fjölda hrossaræktenda í landinu en þeir eru mun færri. Mælaborðið sýnir mikla fækkun þeirra sem búa með alifugla eða úr 1.284 í 144. Fækkunin er sömuleiðis mikil á meðal þeirra sem búa með svín eða úr 60 í 10. Starfandi í landbúnaði og skógrækt árið 2024 voru 3.123 samkvæmt tölum frá Bændasamtökunum en afleidd störf voru 4.800.
Þessar tölur segja ekki alla söguna en á bak við þær má þó greina mikla samþjöppun í landbúnaði.
Framleiðsla á alifuglakjöti hefur aukist mest sé horft til síðustu fimm ára, ef marka má tölur á vef Hagstofunnar. Hún var 9.082 tonn árið 2020 en 10.589 tonn í fyrra. Á sama tíma hefur framleiðsla á kindakjöti dregist saman um álíka mörg tonn eða úr 9.490 tonnum í 7.993 tonn. Nautakjötsframleiðsla var álíka mikil í fyrra og 2020 eða ríflega 200 tonnum meiri. Svínakjötsframleiðsla hefur dregist eilítið saman og sömuleiðis hrossakjötsframleiðsla. Athyglisvert er að á sama tíma og mest er framleitt af alifuglakjöti hér á landi af öllum tegundum kjöts er sömuleiðis mest flutt inn af því kjöti eða 1.877 tonn. Næst mestur er innflutningur á svínakjöti eða 1.527 tonn og í þriðja sæti er nautakjötið en á síðasta ári voru 1.356 tonn af því flutt til landsins sem er meira en nokkru sinni fyrr. Innflutningur á öllum þessum kjöttegundum hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 2011 samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofunnar. Þá voru flutt inn 20 tonn af lambakjöti sem er næst mesta magn á eftir árinu 2019 þegar innflutningurinn nam 39 tonnum.
Líklega helst neysla landsmanna í hendur við þessar tölur en væntanlega verður einnig að taka fjölgun ferðamanna inn í myndina. Neyslan hefur aukist á alifuglakjöti og minnkað á kindakjöti. Tölur frá umræddu tímabili vantar en þessa þróun má greina með skýrum hætti í tölum Hagstofunnar um kjötneyslu á tímabilinu 1983 til 2015. Þær sýna að ársneysla á kindakjöti dróst mikið saman á þessu ríflega þriggja áratuga skeiði, úr 45,3 kg á íbúa í 19,5 kg á íbúa. Neysla á alifuglakjöti jókst hins vegar úr 4,3 kg á íbúa í 27,6 kg en árið 2015 neyttu landsmenn meira af því kjöti en nokkru öðru. Svínakjötsneysla fimmfaldaðist á sama tímabili og neysla á nautakjöti var nálægt því að tvöfaldast. Landsmenn borðuðu hins vegar helmingi minna af hrossakjöti árið 2015 en 1983.
Framleiðsla á grænmeti hefur aukist mikið frá því um og upp úr miðjum níunda áratugnum þegar markviss ræktun hófst fyrir alvöru. Framleiðsla á tómötum hefur til dæmis nánast tvöfaldast og gúrkuframleiðsla hefur meira en fjórfaldast. Sveppaframleiðsla var 80 tonn árið 1986 en var 562 tonn á liðnu ári. Framleiðsla á salati hefur tvöfaldast frá árinu 2013 þegar fyrstu tölur voru gefnar út. Athygli vekur þó að framleiðsla á kartöflum hefur snarminnkað frá því hún var mest árið 1984, 19.459 tonn, en hún er nú 5.514 tonn.