Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Hraða verður búvörusamningum
Leiðari 24. september 2015

Hraða verður búvörusamningum

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Stjórnvöld kynntu síðdegis á fimmtudag nýjan samning sem þau hafa gert við Evrópusambandið.  Samningarnir fela í sér að tollkvótar sem heimila tollfrjálsan innflutning á búvörum frá ESB hingað til lands eru stækkaðir verulega, sem og kvótar fyrir ýmsar búvörur sem flytja má tollfrjálst héðan til ESB. 
 
Einnig var samið um niðurfellingar eða lækkanir tolla á fjölda vara og gagnkvæma viðurkenningu á afurðaheitum. Frekari grein er gerð fyrir efnisatriðum samningsins annars staðar í blaðinu. Bændum þótti illa fram hjá sér gengið á lokastigi samningaviðræðnanna, að málinu skyldi lokað án samráðs. Vissulega hafði legið fyrir lengi að viðræður væru í gangi en það kom óþægilega á óvart að heyra fyrst af niðurstöðum þeirra í fjölmiðlum. Ekki síst vegna þess að viðræður um búvörusamninga voru nýhafnar og þar stóð til að ræða um fyrirkomulag tollverndar á samningstímanum. 
 
Það er rétt eins og fram hefur komið að afurðafyrirtæki bænda fóru árið 2010 fram á aukinn markaðsaðgang fyrir íslenskar búvörur á ESB-markað. Með samningnum verður hægt að auka útflutning á ýmsum búvörum frá Íslandi, aðallega skyri og lambakjöti, en einnig fleiri afurðum ef markaðir finnast. Þau tækifæri sem samningurinn geymir felast vitanlega þar og vonandi verða þau vel nýtt. Útflutningur á öðrum vörum byggir á því að ásættanlegir markaðir finnist.
 
Gagnkvæm viðurkenning afurðaheita
 
Í samningnum er samið um gagnkvæma viðurkenningu afurðaheita. Við viðurkennum og skuldbindum okkur til að vernda tæplega 1.300 afurðaheiti sem skráð hafa verið í ESB og hafa landfræðilega skírskotun. Engin heiti hafa verið skráð hér enn samkvæmt okkar löggjöf um slíkar skráningar. Ástæða er til að hvetja þær greinar sem eiga sóknarfæri á markaði ESB til að skoða þessa möguleika – ekki síst skyrið og lambið. Fjölmörg dæmi eru um skráningar á afurðum sem skírskota til heilla landsvæða, t.d. hafa Skotar fengið skráð „Scottish Lamb“ og mörg sambærileg dæmi má finna.
 
Það er um leið skynsamlegt að valið hafi verið að gera samning um gagnkvæmar tollabreytingar en ekki einhliða niðurfellingar eins og hagsmunasamtök innflytjenda hafa ítrekað farið fram á. Flest ríki og ríkjasambönd eins og ESB líta á tollvernd sem verðmæti og hún er aldrei látin fyrir ekkert. Með tollabreytingum samningsins og öðrum tollabreytingum sem stjórnvöld áforma á næstu misserum er sennilega að verða lítið eftir af tollum yfirleitt til fyrir Ísland að láta á móti bættum markaðsaðgangi eins og til dæmis fyrir fiskafurðir.  Fyrir það verður þá að greiða með öðrum hætti.
 
Samkeppnisstaða versnar
 
Samkeppnisstaða bænda mun í mörgum tilvikum versna. Breytingarnar munu koma harðast niður á svína- og kjúklingabændum, en einnig nautakjötsframleiðslu, sem bændur stóðu í þeirri meiningu að ætti frekar að efla heldur en hitt. Ekki verður séð að stjórnvöld hafi gert neina skipulega athugun á líklegum áhrifum samningsins, svo sem á samkeppnisstöðu einstakra búgreina, afurðastöðva, annarra úrvinnslufyrirtækja eða matvælaiðnaðar yfirleitt. Meta hefði þurft áhrif á afurðaverð til bænda, líklega þróun á markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu og tekjuleg áhrif að teknu tilliti til áhrifa aukins markaðsaðgangs. Öllu þessu tengjast störf og afkoma – ekki bara bænda heldur líka verkafólks í úrvinnslugreinum.
 
Ekkert tillit er tekið til stærðarmismunar markaðanna. Í ESB eru íbúar ríflega 500 milljónir  manns en á Íslandi 330 þúsund, eða rúmlega 1.500 á móti einum.  Samningurinn veitir því ESB aðgang að margfalt stærri skerf af íslenskum markaði en Ísland fær á móti. Áhrifin af útflutningi íslenskra búvara til ESB á markaði þar verða engin, en þau geta orðið veruleg hér. Nú þegar flytjum við inn tólf sinnum meira af landbúnaðarvörum frá ESB en við flytjum þangað.
 
Almennar heilbrigðisreglur munu gilda áfram en engin krafa er gerð um að innfluttar vörur séu framleiddar við sambærilegar aðstæður. Framleiðsluhættir eru að ýmsu leyti ólíkir á milli Íslands og margra landa í Evrópu. Hér er t.d. bannað að blanda dýralyfjum í fóður sem er leyfilegt víða annars staðar. Sýklalyfjanotkun er ein sú minnsta í Evrópu hér á landi sem er verðmæt staða, ekki síst nú þegar ónæmi fyrir sýklalyfjum er vaxandi vandamál víða um heim. Strangar reglur gilda að auki um dýravelferð. Þessar aðstæður eru eitthvað sem íslenskir neytendur hafa tekið sem sjálfsögðum hlut. Þær eru það hins vegar fjarri því alls staðar og  hafa auðvitað kostnað í för með sér. Séu ekki gerðar sambærilegar kröfur til innflutnings og innlendrar framleiðslu og um leið og upprunamerking er ekki almenn skylda, skapar það óhjákvæmilega ójafna samkeppnisstöðu. Með því er verðinu þrýst niður og í sumum tilvikum getur það kippt rekstrargrundvellinum undan innlendu framleiðslunni. Tollar eru einmitt oftast notaðir til að leiðrétta ójafna samkeppnisstöðu en með samningnum nú er sú tollvernd þynnt verulega út.
 
Mikilvægt er að breytingar sem samningurinn hefur í för með sér gagnist neytendum beint. Öflugt verðlagseftirlit er nauðsynlegt til að það gangi eftir. Reynslan sýnir að breytingar á tollum, vörugjöldum eða gengisbreytingar skila sér ekki alltaf í lægra vöruverði. Það hefur til dæmis komið fram í verðkönnunum sem Alþýðusambandið hefur gert. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá því fyrr á þessu ári kemur jafnframt fram að arðsemi stórra fyrirtækja á dagvörumarkaði er 35–40% á Íslandi samanborið við 11% og 13% í Bandaríkjunum og Evrópu. Það er því höfuðnauðsyn að launþegahreyfingin og neytendur veiti birgjum og smásölum áfram virkt aðhald í verðlagsmálum. 
 
Viðræðum um búvörusamninga verði hraðað
 
Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir meðal annars:
„Ríkisstjórnin lítur á landbúnað sem eina af mikilvægustu atvinnugreinum framtíðarinnar. Vaxandi eftirspurn eftir mat á heimsvísu skapar íslenskum landbúnaði sóknarfæri með möguleikum á aukinni framleiðslu og margbreytilegum afurðum. Ríkisstjórnin mun gera íslenskum landbúnaði kleift að nýta þau sóknarfæri sem greinin stendur frammi fyrir. Með það fyrir augum er brýnt að kanna með hvaða hætti er unnt að auka verðmætasköpun og nýta sem best tækifærin sem felast í sveitum landsins.“
 
Í ljósi þessa samnings er það krafa bænda að viðræðum um búvörusamninga verði hraðað. Það þarf að ná niðurstöðu á allra næstu vikum og um hvernig eigi að ná fram ofangreindum markmiðum með tilliti til þeirra breytinga sem tollasamningurinn hefur í för með sér.
Að vernda landbúnaðarland
Leiðari 1. október 2024

Að vernda landbúnaðarland

Margir tengja Hornafjörð við kartöflur enda eru þar mikil og góð ræktarsvæði sem...

Áhrifavaldið
Leiðari 30. ágúst 2024

Áhrifavaldið

Svo bar til tíðinda í síðustu viku að gúrkuskortur í matvöruverslunum á Íslandi ...

Slök frammistaða
Leiðari 16. ágúst 2024

Slök frammistaða

Í þessu tölublaði Bændablaðsins er fjallað um stóran rekstrarþátt ylræktarframle...

Skín við sólu Skagafjörður
Leiðari 11. júlí 2024

Skín við sólu Skagafjörður

Eftirfarandi línur úr fyrsta erindi hins tilkomumikla ljóðs Matthíasar Jochumsso...

Af íslenskum matjurtum
Leiðari 27. júní 2024

Af íslenskum matjurtum

Tíminn er núna til að taka forskot á sæluna og leita uppi brakandi ferskar íslen...

Veðuröfl
Leiðari 13. júní 2024

Veðuröfl

Margt hefur verið að frétta í íslensku samfélagi að undanförnu. Forsetakosningar...

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu
Leiðari 4. júní 2024

Kolviður hlýtur alþjóðlega viðurkenningu

Kolviður hefur unnið að því sl. tvö ár að skilgreina verkferla og verkefni samkv...

Stuðningskerfi framtíðar
Leiðari 30. maí 2024

Stuðningskerfi framtíðar

Núverandi búvörusamningar gilda til og með 31. desember 2026. Því ætti nýtt stuð...