Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Háskóli lífs og lands
Leiðari 3. apríl 2014

Háskóli lífs og lands

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Landbúnaðarháskóli Íslands hefur um árabil verið í fararbroddi í vísindarannsóknum á sviði landbúnaðar. Úttektir á skólanum hafa leitt í ljós að hann hefur gríðarlegan faglegan styrk og býr yfir miklum mannauði. Margir starfandi bændur á landinu hafa gengið menntaveginn við skólann og bera til hans mikið traust og jafnframt hlýjar minningar.

Yfirstjórn LbhÍ hefur á undangengnum árum ekki verið öfundsverð af því að stýra rekstri stofnunarinnar. Framlög hafa að núvirði lækkað um helming meðan nemendafjöldi hefur aukist mikið. Skort hefur pólitískan kjark til að framkvæma tillögur stjórnenda til að laga rekstur skólans, til dæmis með því að heimila sölu eigna skólans og nýta andvirðið til að bæta reksturinn. Segja má að fyrri sameiningu Landbúnaðarháskólans, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Garðyrkjuskólans hafi aldrei verið fyllilega lokið og það hefur háð rekstri LbhÍ alla tíð. Það er því ekki að undra að stjórnendur séu orðnir langþreyttir á biðinni eftir að stjórnvöld viðurkenni að framlög til skólans séu ekki í takti við starfsemi hans. Ástæða er til að þakka yfirstjórn skólans fyrir að hafa þróað öflugt háskólanám á svið landbúnaðar þrátt fyrir þrönga stöðu.

Það er sorglegt að verða vitni að því hvernig umræða um LbhÍ hefur þróast í fjölmiðlum að undanförnu. Menntamálaráðherra og yfirstjórn skólans hafa sakað forystumenn Bændasamtakanna um skammsýni og afturhald vegna hugmynda um sameiningu hans við Háskóla Íslands.

Á Búnaðarþingi 2013 var ályktað um að verja sjálfstæði landbúnaðarskólanna og að tryggja þyrfti rekstrargrundvöll þeirra. Undir þetta var tekið á nýliðnu búnaðarþingi og þar var jafnframt lagst gegn hugmyndum um samruna LbhÍ og HÍ.

Staða starfsmenntanámsins

Frá árinu 1889 hefur verið starfræktur bændaskóli á Hvanneyri og frá 1947 hefur þar verið rekin framhaldsdeild á háskólastigi. Starfsmenntanámið, þ.e. bændadeildin á Hvanneyri og garðyrkjunámið á Reykjum, er mjög mikilvægt til að mennta bændur til að takast á við þau sóknarfæri sem nú eru í íslenskum landbúnaði og hefur oft verið kallað hjartað í Landbúnaðarháskólanum. Þar sem um er að ræða starfsmenntanám á framhaldsskólastigi fellur það ekkert sérstaklega vel að hugmyndum um sameiningu skólanna. Í Noregi var kennsla í garðyrkju til dæmis færð yfir í framhaldsskólana og hefur það nám að mestu gufað upp í dag. Margir bændur hafa gagnrýnt stöðu starfsmenntanámsins og telja að þar hafi hallað undan fæti. Mögulega á það sér skýringar í erfiðum rekstri stofnunarinnar undanfarin ár og meiri áherslu á háskólastarfið. Enn fremur hefur það verið gagnrýnt að lítið sé um hagnýtar rannsóknir á sviði landbúnaðar hjá LbhÍ á meðan mikil áhersla hefur verið lögð á skrif ritrýndra greina í erlend fagtímarit, þar sem markhópurinn er ekki endilega starfandi bændur á Íslandi. Slíkt vísindastarf á sviði grunnrannsókna er að sjálfsögðu þakkarvert og er líklegt til að auka faglegan styrk skólans í samanburði við aðra skóla. Þetta allt vekur hins vegar upp spurningar um stöðu starfsmenntanámsins og hagnýtra rannsókna við mögulega sameiningu.

Sameining virðist ennþá á teikniborðinu

Í ljósi umræðu seinustu daga er margt sem bendir til að möguleg sameining LbhÍ og HÍ sé enn á teikniborðinu. Þrátt fyrir fréttaflutning af ákvörðun ráðherra um að hætt hafi verið við sameiningu og „fjölmiðladrama“ í tengslum við það bendir margt til þess að svo sé ekki. Af orðum ráðherra og rektors LbhÍ undanfarna daga má skilja að þeir séu síður en svo hættir við sameiningu. Samhliða því að sannfæra sem flesta um ágæti þess að sameina þessar stofnanir hafa þeir jafnframt beint spjótum sínum að Bændasamtökunum, þingmönnum Norðvesturkjördæmis og sveitarstjórnarfólki í Borgarbyggð og talið allan þeirra málflutning byggðan á skammsýni og afturhaldi.

Hver er afstaða ráðherra til háskóla á landsbyggðinni?

Það er því eðlilegt að velta upp ýmsum spurningum varðandi hugmyndir menntamálaráðherra um þessa sameiningu. Hvers vegna getur ráðherrann boðið verulega fjármuni og tilflutning verkefna upp á Hvanneyri ef af sameiningu verður, en ekki að öðrum kosti? Sjálfstæðum skóla býðst engin uppbygging, heldur niðurskurður á starfsemi, uppsagnir starfsfólks og innheimta til að vinna á skuldum skólans við ríkissjóð. Hver er eiginlega afstaða og hugarfar ráðherrans til háskóla á landsbyggðinni?

Hvernig eru skuldirnar metnar?

Ýmislegt í þessari umræðu kallar á enn frekari skýringar og öðru virðist snúið á haus. Meintur halli eða skuldasöfnun skólans undanfarin ár hefur verið metinn með ýmsum hætti. Í umræðu hefur hann verið talinn ríflega 700 milljónir. Inni í þeirri tölu er 300 milljóna króna söluandvirði hlutabréfa í ORF líftækni, fyrirtækis sem á sínum tíma var m.a. stofnað af LbhÍ og er því um að ræða verðmæti sem voru sköpuð af skólanum ásamt öðru góðu fólki. Er sanngjarnt að meta slíkt söluandvirði sem skuld og tengja það slæmum rekstri með vafasömum eftiráskýringum? Er það rétt að skólinn eigi handbært fé til að greiða allt að helmingi þess hala sem eftir væri?

Lítill áhugi á samtali við bændur

Lítill vilji hefur verið til að hafa samráð við landbúnaðinn varðandi þessar sameiningarhugmyndir. Hugmyndir BÍ og heimamanna í Borgarbyggð hafa allar verið slegnar út af borðinu, hvort sem um er að ræða möguleika á sameiningu háskóla á landsbyggðinni eða hugmyndir um sjálfseignarstofnun um LbhÍ. Gott samstarf hefur verið milli Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskólans sem er mjög mikilvægt að þróa áfram. Bændasamtökin bera traust til Háskóla Íslands og eru þakklát fyrir gott samstarf hans við LbhÍ.
Fyrst og síðast vilja Bændasamtökin tryggja áframhaldandi öflugt nám á sviði landbúnaðar á Íslandi til þess að íslenskir bændur geti nýtt sem best þau sóknarfæri sem landbúnaðinum standa opin með aukinni matvælaframleiðslu, orkuframleiðslu, fjölbreyttari fram­leiðslu, aukinni þjónustu og fleiri tækifærum. Það er meginatriðið.

Orð eru til alls fyrst
Leiðari 12. apríl 2024

Orð eru til alls fyrst

Góður fjölmiðill dregur saman upplýsingar, kemur á framfæri ólíkum sjónarmiðum, ...

Pylsan og merkið
Leiðari 21. mars 2024

Pylsan og merkið

Upprunamerkið Íslenskt staðfest var mikið rætt á nýafstöðnu Búnaðarþingi. Við se...

Beðið eftir jarðræktarmiðstöð
Leiðari 7. mars 2024

Beðið eftir jarðræktarmiðstöð

Sex ár eru síðan Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands flutti frá Korpu e...

Útflutningsverðmæti
Leiðari 5. mars 2024

Útflutningsverðmæti

Þótt framleiðsla landbúnaðarafurða sé að mestu hugsuð miðað við innlenda þörf er...

Samvinna og kreppa
Leiðari 8. febrúar 2024

Samvinna og kreppa

Áhugaverðar umræður sköpuðust á Alþingi þegar rætt var um mögulega heimild kjöta...

Kerfið
Leiðari 29. janúar 2024

Kerfið

Að vanda kennir ýmissa grasa í þessu tölublaði Bændablaðsins en áherslurnar eru ...

Bitlaust
Leiðari 11. janúar 2024

Bitlaust

Tollvernd er eitt aðalverkfæri stjórnvalda til að stuðla að innlendri framleiðsl...

Peð
Leiðari 14. desember 2023

Peð

Bóndi er ekkert borðleggjandi hugtak. Samkvæmt Íslensku nútímamálsorðabók Árnast...