Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Fagna ber málefnalegri umræðu um landbúnað
Leiðari 14. nóvember 2014

Fagna ber málefnalegri umræðu um landbúnað

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Fyrir skömmu sló Fréttablaðið upp á forsíðu að samkvæmt skoðanakönnun blaðsins vildu 53% landsmanna frjálsan innflutning landbúnaðarvara. Það er nokkru lægra en kom fram í svipaðri könnun MMR fyrir Viðskiptablaðið í mars á þessu ári, þegar hlutfallið var 61%. 
 
Spurning sem þessi segir aldrei alla söguna og er leiðandi á vissan hátt. Fæstir vilja vera á móti „frelsi“ – nema að þeir hugsi málið til enda.  
 
Innflutningur á landbúnaðarvörum er frjáls
 
Nú er það svo að innflutningur á landbúnaðarvörum er frjáls. Gríðarlega mikið af búvörum er flutt til landsins tollfrjálst og án skilyrða. Innflutningurinn er  hins vegar í sumum tilvikum háður skilyrðum sem byggja á því að vernda heilbrigði manna og dýra. Þau eru til þess að vernda heilbrigði innlendra búfjárstofna sem eru lausir við fjöldamarga sjúkdóma sem eru landlægir víðast hvar erlendis.  Bærust slíkir sjúkdómar hingað hefur íslenskt búfé ekki mótstöðu fyrir þeim og fátt yrði um varnir.  Skilyrðin eru líka til þess að vernda heilbrigði fólks.  Það er mikils virði að tíðni matarsýkinga er hér mjög lág í alþjóðlegum samanburði og þannig þurfum við að halda því. Gæði og heilbrigði vörunnar skipta miklu máli. Að sama skapi njóta sumar búvörur tollverndar til að jafna samkeppnisstöðu þeirra gagnvart innlendri framleiðslu.
 
Hagsmunasamtök verslunarinnar hafa linnulítið barið á því að þessi staða sé lítils eða einskis virði.  Hún er kannski einmitt lítils virði fyrir verslunina í landinu. Á meðan hún getur selt einhverjum eitthvað má þeim vera sama um annað. Því er stundum haldið fram að áhættan sé ekki mikil – en það er áhætta engu að síður og bændur vita sem er að tjón af völdum sýkinga sem hingað kunna að berast mun seint verða bætt af versluninni í landi.  Hún tekur enga ábyrgð á því.
 
Íslendingar ferðast nú aftur í auknum mæli til útlanda, eftir að úr því dró á fyrstu árunum eftir bankahrunið. Þá hefur tollgæslan í nógu að snúast við að tollafgreiða pakka úr netverslunum erlendis frá. Það þarf ekki  mikla rökfræði til að sjá að við þetta er verslunin að missa stóran spón úr aski sínum. Hún hefur ekki átt svar við þessari þróun. Spjótunum er því beint að landbúnaðarvörum og áfengi, ef til vill í því skyni að bæta sér upp tekjumissi vegna breyttra verslunarhátta á öðrum sviðum.
 
En þrátt fyrir markvissan áróður síðustu mánaða og óljósa og leiðandi spurningu þá hefur þjóðin tekið afstöðu með landbúnaðinum – að sjálfsögðu, enda er það í samræmi við þá umræðu sem nú fer fram um allan heim um framtíðina í matvælaframleiðslu.  Takk fyrir það, kæru landsmenn!
 
Málefnaleg umræða
 
Umræða um landbúnaðarstefnuna tók einnig ánægjulegri breytingu í síðustu viku. Daði Már Kristófersson hagfræðingur ræddi um hana á opnum fundi og sumir fjölmiðlar fjölluðu um málið í kjölfarið. Hann gagnrýndi stefnuna, sem er ekki nýtt, en hann gerði það á málefnalegan hátt, sem er óneitanlega nýtt. Því ber að fagna. Alltof oft er fjallað um starfsskilyrði landbúnaðarins með órökstuddum upphrópunum og sleggjudómum.  Aðalatriðið er þá að kerfið sé „slæmt“ og gagnslaust. Því fylgir yfirleitt ekki nánari greining á því hvað megi betur fara, hvað þá tillögur til úrbóta, nema þá að hætta öllum stuðningi við landbúnað, helst strax á morgun. Hætt er við að það mætti rústa ýmsa aðra grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar með sömu röksemdarfærslu.
 
Daði Már gerði að umtalsefni að okkar landbúnaðarstefna er ekki sú sama í öllum búgreinum. Það er rétt hjá honum. Stutt er við sumar greinar með beinum styrkjum, en í öðrum er aðalatriðið tollvernd og í enn öðrum er stuðningurinn lítill eða enginn. Verðlagning afurða er að jafnaði frjáls, en í mjólkurframleiðslu er beitt opinberri verðlagningu að hluta, þó ekki á öllum vörum eða öllum sölustigum. Þetta hefur einfaldlega þróast á þennan veg hérlendis, en eykur óneitanlega flækjustigið, einkum fyrir þá sem horfa á kerfið utan frá.  Þetta þarf að skoða og leita leiða til að stækka landbúnaðinn með því að skapa viðunandi rekstrarumhverfi fyrir fleiri greinar.  Landbúnaðurinn er alltaf að verða fjölbreyttari og við þurfum að hugsa um að nýta öll tækifæri hans sem best. Eðlilegt er að ræða opið um hvernig það verður best gert.
Þá benti Daði Már einnig réttilega á að stuðningurinn í nautgripa- og sauðfjárrækt sem gengur kaupum og sölum hefur tilhneigingu til að eigngerast. Það er hár þröskuldur fyrir nýliða að þurfa að kaupa sig inn í þessar greinar oftast með mikilli skuldsetningu. Slíkt er ekki eftirsóknarverð staða fyrir ungt fólk að byrja búskap. Daði benti á að fyrir slíkt mætti komast með því að miða greiðslur frekar við ræktarland. Þá er ekki lengur horft á einstakar afurðir eða búgreinar, heldur bara er ætlunin að styðja við landbúnaðinn með almennum hætti, en bændum er látið eftir að ákveða hvað þeir kjósa að framleiða. Þetta er svipuð aðferð og Evrópusambandið notar til að styðja sinn landbúnað.
 
Þessar hugmyndir eru allrar athygli verðar, en þó þarf að skýra nánar hvernig þær eiga að virka. Hætt er við að stuðningur sem miðast við land eigngerist líka og komi þá einfaldlega fram í landverði. Dæmi eru um það hérlendis þegar stjórnvöld hafa reynt að auðvelda fólki að eignast húsnæði þá hefur það oft orðið til verðhækkunar á húsnæði.  
 
ESB hefur notað þessa aðferð eins og áður sagði. Þar renna greiðslurnar til landeigenda, sem eru ekki endilega þeir sem sitja jarðirnar. Háir landbúnaðarstyrkir renna til ýmissa aðila sem stunda enga landbúnaðarframleiðslu, en leigja út land eins og til dæmis bresku konungsfjölskyldunnar. Enda er þetta harðlega gagnrýnt víða innan ESB. Það væri ekki framfaraskref hérlendis því að okkar opinberu framlög renna sannanlega til bænda.
 
Aðstæður til ræktunar hérlendis eru einnig afar misjafnar og landnýting er afar ólík eftir landshlutum. Ef útfæra ætti greiðslur út á land og gæta allrar sanngirni er því líklegt að það yrði heldur ekki einfalt mál. Væntanlega eru menn þó sammála um að slíkar greiðslur þyrftu að verða til þess að efla landbúnaðinn, matvælaframleiðsluna og byggðirnar, en rynnu ekki með beinum eða óbeinum hætti til einhvers konar nýlenduherra.
 
Hugsanlega er hægt að útfæra þessar hugmyndir hérlendis en gæta verður að því að landbúnaðurinn og byggðin þolir illa kollsteypur og það þarf að gefa sér tíma til breytinga. En það þýðir ekki að engar breytingar megi gera og það er sannarlega fagnaðarefni að landbúnaðarmál séu rædd á málefnalegum grunni. 
Orð eru til alls fyrst
Leiðari 12. apríl 2024

Orð eru til alls fyrst

Góður fjölmiðill dregur saman upplýsingar, kemur á framfæri ólíkum sjónarmiðum, ...

Pylsan og merkið
Leiðari 21. mars 2024

Pylsan og merkið

Upprunamerkið Íslenskt staðfest var mikið rætt á nýafstöðnu Búnaðarþingi. Við se...

Beðið eftir jarðræktarmiðstöð
Leiðari 7. mars 2024

Beðið eftir jarðræktarmiðstöð

Sex ár eru síðan Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands flutti frá Korpu e...

Útflutningsverðmæti
Leiðari 5. mars 2024

Útflutningsverðmæti

Þótt framleiðsla landbúnaðarafurða sé að mestu hugsuð miðað við innlenda þörf er...

Samvinna og kreppa
Leiðari 8. febrúar 2024

Samvinna og kreppa

Áhugaverðar umræður sköpuðust á Alþingi þegar rætt var um mögulega heimild kjöta...

Kerfið
Leiðari 29. janúar 2024

Kerfið

Að vanda kennir ýmissa grasa í þessu tölublaði Bændablaðsins en áherslurnar eru ...

Bitlaust
Leiðari 11. janúar 2024

Bitlaust

Tollvernd er eitt aðalverkfæri stjórnvalda til að stuðla að innlendri framleiðsl...

Peð
Leiðari 14. desember 2023

Peð

Bóndi er ekkert borðleggjandi hugtak. Samkvæmt Íslensku nútímamálsorðabók Árnast...