Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Bændur, blaðið og skörungar
Leiðari 27. desember 2024

Bændur, blaðið og skörungar

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir ritstjóri.

Lognmolla er eitthvað sem á sér aldrei stað í landbúnaði. Atvinnugreinin er hringiða mikilvægra málefna sem koma öllum við, því þau snúast um matinn sem við borðum, landið sem við byggjum og heiminn sem við búum í.

Í upphafi ársins 2024 bárust þær fregnir frá Gallup að Bændablaðið væri mest lesni prentmiðill landsins. Hafði lesturinn aukist sérstaklega meðal ungs fólks og innan höfuðborgarsvæðisins, sem var einstaklega ánægjulegt.

Bændur eru í forgrunni í Bændablaðinu og á árinu hleyptu 23 bændur, frá öllum búgreinum, landsmönnum inn til sín með því að sýna störf sín í gegnum samfélagsmiðla Bændablaðsins. Góður rómur hefur verið gerður að framtakinu. Fylgjendur blaðsins á Instagram hafa aukist um rúm sextíu prósent á árinu og yfir 1.500 manns fylgjast daglega með bændum. Enn er hægt að glöggva sig á sögum þeirra inni á miðlum okkar og fá þannig innsýn í íslensk landbúnaðarstörf í dag.

Á árinu 2024 hefur umræðan snúist um fjölbreytt kjarnamálefni; starfsumhverfi þeirra sem framleiða matvælin okkar, áhrif stefnumótandi ákvarðana á aðgang okkar að öruggri næringu á viðráðanlegu verði, áhrifin sem framleiðsla matvælanna hafa bæði á okkur og næstu kynslóðir og afleiðingar átakanlegra tíma í heimsmálum, svo eitthvað sé nefnt.

Af jákvæðum skrefum má nefna framfarir á grundvelli vísinda. Hafin er innleiðing á riðuverndandi genum í sauðfé og er stefnt að riðuveikilausu Íslandi árið 2044. Í nafni loftslagsvæns landbúnaðar eru æ fleiri bændur nú að skrásetja loftslagsáhrif starfsemi sinnar og bæta hana með viðurkenndum aðferðum. Kornþurrkstöðvar risu fyrir tilstilli framtakssamra aðila og hvatningar í formi opinbers fjárstuðnings. Ýmis nýsköpun í matvælaframleiðslu á sér stað, þar sem meðal annars eru nýttir hliðarstraumar úr sjávarútvegi og landbúnaði, hráefni sem annars er sóað, sem og ný sem hægt er að framleiða hér vegna breyttra skilyrða.

Fjórir einstaklingar sátu í stól matvælaráðherra á árinu 2024. Ný manneskja tekur við hlutverkinu innan tíðar og mun spila lykilhlutverk í mótun starfsumhverfis bænda til framtíðar. Sú sem heldur á umboði til stjórnarmyndunar, Kristrún Frostadóttir, sagði í þriðja tölublaði ársins að áframhaldandi innlend matvælaframleiðsla væri öryggismál. Vert væri að skoða hvort hægt væri að breyta aðgengi bænda að fjármagni, hvort sem það væri í gegnum niðurgreiðslur eða sjóði. Hún sagði einnig að ekki væri rétt að bændur tækju á sig erfiðar efnahagsaðstæður til að halda niðri verði. „Þetta er starfsemi sem er sérstök af því að hún er niðurgreidd af ríkinu að hluta til, en það er öryggismál að það verði áfram matvælaframleiðsla í landinu,“ sagði hún. Í aðsendri grein í apríl tók önnur öflug kona í framboði í svipaðan streng. Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, minnti okkur á að bóndi er bústólpi og búið landstólpi: „Bændur yrkja landið og tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar eins vel og aðstæður á norðurslóðum leyfa. Það eru bændur sem halda landinu í byggð. Getum við ímyndað okkur landið án býla og bújarða?

Þetta er vert að hafa í huga í áframhaldandi umfjöllun um landbúnað. Við hjá Bændablaðinu óskum lesendum okkar gleðilegrar hátíðar með þökk fyrir frábærar viðtökur á árinu.

Fyrirsjáanleiki og stöðugleiki
Leiðari 20. janúar 2026

Fyrirsjáanleiki og stöðugleiki

Óhætt er að segja að við lifum nú á áhugaverðum tímum, svo ekki sé fastar kveðið...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 16. janúar 2026

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Mercosur-samningurinn verður undirritaður á laugardaginn í Paragvæ eftir meira e...

RÚV og einkamiðlarnir
Leiðari 15. janúar 2026

RÚV og einkamiðlarnir

Ef stofnun fjölmiðils er verulega óskynsamleg hugmynd – jafnvel vitlausari en að...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 18. desember 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Ríkisstjórnin magalenti á árinu. Stóra planið virðist hafa verið að taka svo að ...

Nýtum tækifærin
Leiðari 18. desember 2025

Nýtum tækifærin

Mikill árangur hefur náðst í íslenskum landbúnaði þennan fyrsta fjórðung aldarin...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 4. desember 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Stofnanir og fyrirtæki á þessu landi virðast mörg hver vera orðin þreytt á því a...

Fæðuöryggi og landbúnaður
Leiðari 4. desember 2025

Fæðuöryggi og landbúnaður

Umræðan um fæðuöryggi er alltaf að taka á sig skýrari mynd. Atvinnuvegaráðherra ...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 24. nóvember 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Tregðan til þess að seinka klukkunni hér á landi er sorglegt dæmi um íhaldssemi ...