Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Hér á ég heima
Mynd / BBL
Skoðun 22. febrúar 2018

Hér á ég heima

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Blikur eru á lofti í íslenskum landbúnaði um þessar mundir. Þekktur er vandi sauðfjárbænda sem núverandi ríkisstjórn brást við með 665 m. kr. fjárveitingu í fjáraukalögum 2017.  Langtímalausn hefur þó ekki verið náð svo sem með því að lögleiða sveiflujöfnun eða beita öðrum verkfærum.
 
Tvennt er í farvatninu á næstu mánuðum. Annars vegar er um að ræða viðbrögð við dómi EFTA-dómstólsins þann 14. nóvember sl. varðandi ákvæði núverandi matvælalöggjafar þess efnis að ekki megi flytja inn hrátt kjöt, ógerilsneydd egg og ógerilsneydda mjólk hingað til lands frá öðrum aðildarríkjum EES án sérstaks leyfis. Jafnframt skilyrði um að kjöt skuli hafa verið fryst í a.m.k. 30 daga áður enn til innflutnings kemur. EFTA-dómstóllinn taldi þessi skilyrði fara í bága við EES-samninginn og mælir svo fyrir að þau eigi að afnema.
 
Hins vegar er um að ræða gildistöku tollasamnings við ESB sem undirritaður var í september 2015. Samningurinn tekur gildi 1. maí nk. en verður að fullu kominn í gildi í byrjun árs 2021.  Kvótar ESB fyrir tollfrjálsan innflutning hingað til lands munu fimmfaldast á tímabilinu, en kvótar Íslands á markað ESB munu á sama tíma ríflega þrefaldast.
 
Fyrir liggur að bæði þessi atriði geta haft mjög veruleg neikvæð áhrif á innlendan landbúnað. Aðstaða íslensks landbúnaðar til að keppa við erlenda framleiðslu er ekki jöfn og greinin býr yfir ýmiss konar sérstöðu sem auðvelt er að glata. Allt skiptir þetta verulegu máli. Fjöldi manns starfar við landbúnað eða úrvinnslu afurða hans og sú starfsemi er oft grunnstoð í samfélögum dreifbýlisins. Breytingar til verri vegar geta því haft mjög veruleg neikvæð samfélagsleg og byggðaleg áhrif, einkum í þeim byggðum sem hafa ekki að mörgu öðru að hverfa.
 
Hvað varðar tollasamninginn þá skal fyrst bent á niðurstöður starfshóps þáverandi ráðherra um hann sem skilað var árið 2016. Þar voru lagðar til aðgerðir sem gætu mætt áhrifum samningsins, þar á meðal að við útreikning á magni tollkvóta við innflutning verði alltaf miðað við kjöt með beini í samræmi við hvernig ESB framkvæmir slíkan umreikning. Þar er bara eitt dæmi um hróplegt ósamræmi sem ekki hefur komist til framkvæmda frekar en aðrar tillögur hópsins.
 
Einhliða niðurfelling tolla
 
Nú er staðan með þeim hætti að stjórnvöld hafa einhliða fellt niður tolla á öllum vörum nema sumum matvörum. Um ekkert annað er því að semja ef til stendur að gera fríverslunarsamninga við aðrar þjóðir. Á sama tíma er tollvernd mikilvægur hluti af landbúnaðarstefnunni. Eðlilegt er að afmarkað sé með skýrum hætti til hvaða afurða tollverndin á að ná og gera verður kröfu til þess að tollverndin skili árangri þar sem henni er beitt. Tollar eru að hluta til föst krónutala. Upphæðir hafa í mörgum tilvikum ekki breyst í meira en 20 ár og þar af leiðandi rýrnað verulega að verðgildi. Hátt gengi krónunnar undanfarin misseri kemur síðan þar til viðbótar og rýrir verndina enn frekar. Tollum er ætlað að jafna samkeppnisstöðu miðað við þær framleiðsluaðstæður sem eru fyrir hendi og í núverandi stöðu er það ekki raunin. 
 
EFTA-dómstóllinn kvað upp þann 14. nóvember sl. að gildandi skilyrði fyrir innflutningi á hráu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og eggjum væri brot á EES-samningnum. Þessi skilyrði voru tekin upp þegar íslensk stjórnvöld innleiddu matvælalöggjöf Evrópusambandsins. Málið nú spratt upphaflega af kvörtun verslunarinnar til ESA árið 2011. Við meðferð þess lögðu íslensk stjórnvöld fram margvísleg gögn þess efnis að takmarkanirnar sem deilt var um væru eðlilegar með vísan til 13. greinar EES-samningsins sem fjallar um heimild til takmörkunar á viðskiptafrelsi í því skyni að vernda heilsu manna og dýra. 
 
Niðurstaða dómstólsins var eftir sem áður að taka í engu mið af 13. grein EES-samningsins í niðurstöðunni. Talið var að hún ætti ekki við. Vísindaleg rök stjórnvalda hafa þó ekki verið dregin í efa og verður að segja að niðurstaða sem þessi veldur verulegum áhyggjum af því því hvort að EES-ríkin eru raunverulega á jafnréttisgrundvelli gagnvart ESB í þessu efni. Þessi staða er því verulegt umhugsunarefni fyrir stjórnvöld og fyllsta ástæða til að ræða við Evrópusambandið um raunverulega þýðingu þessara ákvæða. Að óbreyttu virðast þau einskis virði.
 
Vísindamenn hafa bent á að afnám ofangreindra takmarkana muni þýða verulega aukna áhættu á ýmsum sviðum fyrir heilsu manna og dýra.  
 
ESB hefur gefist upp í baráttunni við kampýlóbakter
 
Hvað varðar matarsýkingar þá er það staðreynd að eftirlit hérlendis með kampýlóbakter og salmonellu er umfangsmeira en annars staðar á EES-svæðinu og skilyrði fyrir markaðssetningu afurða strangari. Engin önnur Evrópuþjóð skimar jafn vel fyrir kampýlóbakter eins og Ísland, enda er okkar árangur í baráttu við þær sýkingar talinn öfundsverður.  Regluverk ESB gerir ráð fyrir að hægt sé að fá sérstakar viðbótartryggingar vegna salmonellu eins og Norðurlöndin hafa fengið. Sjálfsagt er að óska eftir þeim líka, en ekkert slíkt er í boði vegna kampýlóbakter. Það er einfaldlega ekki í regluverki ESB, en sýkingar af völdum kampýlóbakter eru algengustu matarsýkingar í Evrópu. Þar hefur ESB gefist upp. 
 
Aukinn innflutningur mun auka líkurnar á því að hingað berist sýkingar sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum sem er talið eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál í heiminum í dag. Mikil tengsl eru á milli þessa og sýklalyfjanotkunar í landbúnaði. Samkvæmt gögnum frá Lyfjastofnun Evrópu fyrir árið 2015 er sýklalyfjanotkun í landbúnaði í Evrópu allt upp í 88 sinnum meiri en hér á landi, þar sem hún fer hæst.
 
Smit getur valdið miklu tjóni
 
Hvað varðar heilsu dýra þá er ekki ágreiningur um að innlendir búfjárstofnar hafa búið við langa einangrun og hafa aldrei komist í snertingu við smitefni margra búfjársjúkdóma sem eru landlægir í Evrópu og víðar. Berist smit hingað er því líklegt að það geti valdið miklu tjóni með ófyrirséðum afleiðingum.   Um leið hefur íslenskur landbúnaður ekki aðgang að neinum tryggingasjóði vegna tjóns af völdum búfjársjúkdóma eins og er fyrir hendi innan ESB, ef frá eru taldar bótagreiðslur vegna riðuniðurskurðar í sauðfé.
 
Pólitísk viðbrögð eru nauðsynleg
 
Bændasamtökin telja eðlilegast að óskað verði eftir viðræðum við Evrópusambandið um þessa stöðu. Látið verði reyna á hvort við getum haldið núgildandi löggjöf áfram í gildi með samningum þess efnis. Full rök standa til þess þó að EFTA-dómstóllinn hafi  ekki tekið tillit til þeirra. Rétt er að rifja upp að við innleiðingu matvælalöggjafar ESB fór fram umfangsmikil fagleg umræða um efni hennar. Lokaafgreiðslan var samhljóða á Alþingi. Vönduð umræða við meðferð málsins skilaði þeim árangri. Nú hefur EFTA-dómstóllinn eyðilagt þá sátt. Sú staða hlýtur að hafa í för með sér að íslensk stjórnvöld bregðist við henni pólitískt. Lagaleg viðbrögð duga ekki til. Stjórnvöld verða að láta á það reyna gagnvart ESB hvort þau hafi raunverulegt vald á því að tryggja heilsu manna og dýra. Það er sannarlega uggvænleg staða ef svo er ekki og vekur margar alvarlegar og stórar spurningar um hvert vald íslenskra stjórnvalda er í raun og hvort við þá stöðu verði unað. Bændur una því ekki. Við ætlum að eiga áfram heima í sveitum landsins.
Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...

Notkun sýklalyfja í landbúnaði
Skoðun 8. júní 2023

Notkun sýklalyfja í landbúnaði

Í nóvember 2022 kom út tólfta skýrsla Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar um notkun...

Orkukreppan hófst strax á árinu 2019
Skoðun 16. janúar 2023

Orkukreppan hófst strax á árinu 2019

Árið 2022 var sögulegt, eftir tveggja ára baráttu við Covid-19 sjúkdóminn, sem e...