Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
„Ég hef það bara nokkuð gott“
Af vettvangi Bændasamtakana 28. ágúst 2025

„Ég hef það bara nokkuð gott“

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands

Á dögunum sótti ég fund Norrænu bændasamtakanna í Noregi, en samstarfið við frændur okkar á hinum Norðurlöndunum er bæði áhugavert og gagnlegt íslenskum bændum. Það er áhugavert að sjá að fæðuöryggi er ekki eitthvað sem við hjá Bændasamtökum Íslands erum ein að velta fyrir okkur, heldur er þetta eitthvað sem brennur á bændum um Norðurlöndin öll.

En það var ekki síður áhugavert að fara um norskar sveitir, hitta þar bændur og ræða við þá um starfsskilyrði þeirra og aðstæður. Fyrir mann sem starfar við landbúnað í íslenskri sveit sló það mann strax að sjá að í Noregi hafa bændur greinilega haft svigrúm til fjárfestingar sem íslenskir bændur hafa ekki notið undanfarin ár. Nýjar vélar og vel hirtan húsakost var að sjá á hverjum bæ, enda styður norska ríkið við fjárfestingu í landbúnaði á ýmsan hátt.

Norðmönnum virðist einnig hafa auðnast nokkuð sem ekki hefur tekist hér, en það er að halda landbúnaðarlandi í rækt. Ekki er að sjá að þar hafi heilu sveitirnar farið í eyði og séu nú engum til gagns og fáum til gamans öðrum en sumarhúsaeigendum eða erlendum laxveiðiáhugamönnum.

Í raun má samt segja að staða norsks landbúnaðar kristallist í svari sem einn ungur bóndi gaf við spurningu sem hann fékk um það hvernig afkoman væri hjá honum. „Ég hef það bara nokkuð gott,“ sagði hann, sem á náttúrlega að vera svarið hjá íslenskum bændum við sömu spurningu. En því miður er afkoma íslenskra bænda almennt töluvert frá því að vera „nokkuð góð“.

Í hverju skyldi munurinn á Íslandi og Noregi liggja hvað þetta varðar? Bæði löndin eru í hópi auðugustu ríkja heims þegar miðað er við tekjur og landsframleiðslu á mann. Vissulega búa Norðmenn að olíuforða sem Íslendingar hafa ekki, en á móti kemur að orkuauðlindir okkar hafa gert okkur algerlega sjálfbær um raforku og húshitun. Það munar um minna.

Ég held að svarið sé ekki flókið, heldur liggi í því að í Noregi hefur verið mörkuð skýr stefna um stuðning við uppbyggingu og nýsköpun í landbúnaði og að við þessa stefnu hafi verið staðið til lengri tíma. Þar eru stjórnvöld ekki aðeins meðvituð um samfélagslegt og efnahagslegt mikilvægi landbúnaðar og innlendrar matvælaframleiðslu. Þau hafa líka verið tilbúin að búa þarlendum bændum starfsskilyrði sem tryggja þeim mannsæmandi afkomu við framleiðslu á hollum, heilnæmum og umhverfisvænum landbúnaðarafurðum.

Landbúnaður á norðurslóðum lýtur öðrum lögmálum en landbúnaður í Kaliforníu eða Frakklandi, en reynsla frændþjóða okkar sýnir að með stefnufestu og hugmyndaauðgi er hægt að finna leiðir til að auka framleiðni í landbúnaði, halda landi í rækt og viðhalda byggð í sveitum landsins. En það sem mestu máli skiptir er að þetta sýnir að það er hægt að tryggja bændum sanngjörn laun fyrir þeirra vinnu og þeirra framlag.

Markmiðið á að vera að íslenskir bændur hafi það „bara nokkuð gott“ líka.

Gerum allt að garði
Lesendarýni 28. nóvember 2025

Gerum allt að garði

Garðurinn í kringum Listasafn Árnesinga í Hveragerði er bæði umgjörð um safnið o...

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum

Aukin ásókn í ræktun skóga með framandi ágengum tegundum, eins og hún hefur tíðk...

Að vera í stríði við sjálfan sig
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Að vera í stríði við sjálfan sig

Snjótittlingurinn er ein helsta hetja norðursins. Vegur um 40 grömm og stenst fr...

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði

Tækifærin til orkusparnaðar, aukinnar sjálfbærni og samdráttar í losun gróðurhús...

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi

Um allt land á Íslandi eru lítil þorp, með litlum húsum en stórum garði. Garðuri...

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?
Lesendarýni 26. nóvember 2025

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?

Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár gengur í fáum orðum út á það til hvaða aðgerð...

Beitarstýring er best
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Beitarstýring er best

Í 16. tölublaði Bændablaðsins frá 11. september er forsíðugrein sem heldur því f...

Ávaxtaðu jarðveginn þinn
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Ávaxtaðu jarðveginn þinn

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir tveimur áskorunum, loftslagsbreytingum og hnig...