Þolinmæðin og þrautirnar
Mynd / Sven Pieren
Af vettvangi Bændasamtakana 24. nóvember 2025

Þolinmæðin og þrautirnar

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands

Síðustu tvær vikur hitti ég, ásamt stjórn og starfsfólki Bændasamtakanna, bændur og aðra áhugasama á fjórtán fundum um allt land.

Við bændur erum annálaðir fyrir þolinmæði, enda eru þrautseigja og æðruleysi nánast forsendur fyrir því að fólk endist í búskap. Fólk getur komist í gegnum ótrúlega erfiðleika á seiglunni einni, eins og Íslendingar þurftu oft að gera fyrr á öldum. Sá munur á þrautseigju og þolinmæði er samt sá að í þolinmæðinni felst ákveðin vænting til framtíðarinnar, að fram undan sé eitthvað annað og meira en bara að þrauka og tóra út í það óendanlega.

Þolinmæði var mér oft hugleikin á fundaferð stjórnar og starfsfólks Bændasamtakanna um landið á dögunum. Fundirnir voru fjórtán talsins og eins og alltaf voru umræðurnar líflegar og málefnalegar. Stóru málin voru þau sömu og undanfarin ár. Skjólið af tollverndinni minnkar ár frá ári þar sem tollarnir eru bundnir í krónutölur, en fylgja ekki verðlagsþróun. Mikill og sívaxandi fjárfestingarkostnaður og kostnaður við það að hefja búskap valda mörgum áhyggjum sömuleiðis, því fjárfesting og nýliðun í landbúnaði eru alger forsenda fyrir því að greinin vaxi og dafni til framtíðar.

Í grunninn vilja bændur það sem allir vilja, réttláta umbun fyrir erfiði sitt og fyrirsjáanleika til framtíðar. Af þeim sökum var því almennt ekki illa tekið þegar ég sagði frá því á fundunum að atvinnuvegaráðherra hefði gert tillögu um að búvörusamningar verði framlengdir um eitt ár. Markmiðið með framlengingunni væri að fá meiri tíma til að búa hér til starfsumhverfi í landbúnaði sem lífvænlegt væri til lengri tíma.

Ég segi að hugmyndinni um framlengingu hafi „almennt“ ekki verið illa tekið, en þó mátti merkja ákveðna óþolinmæði líka, ekki síst hjá yngri bændum og þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í búrekstri. En þolinmæðin er heldur ekki óþrjótandi hjá öðrum bændum og því er mikilvægt, fari svo að framlengingin verði samþykkt, að tíminn verði þá raunverulega nýttur til að ná meiri og betri árangri en annars hefði verið mögulegt.

En fleira þarf en tíma til að vinnan við nýtt stuðningskerfi í landbúnaði verði árangursrík. Traust þarf að ríkja á milli aðila, og ekki aðeins á milli stjórnar Bændasamtakanna og ráðherranna, heldur á milli bænda almennt og stjórnvalda. Og það er ekki til þess fallið að skapa slíkt traust ef einstaka ráðherrar eru að gera breytingar á starfsumhverfi bænda upp á eigin spýtur, meðan á viðræðunum stendur.

Ráðherra og forysta bænda var sammála um það í sumar að í vegferðinni sem fram undan væri ætti að ræða starfsskilyrðin í stóru myndinni og hafa allt uppi á borðinu. Skoða þyrfti hvernig allt kerfið vinnur saman að heildarhagsmunum bænda og neytenda og að mínu viti er augljóst að tollamál og mögulegar breytingar á búvörulögum falla þar undir.

Það hlýtur að liggja í augum uppi að ef vinnan á að snúast um stóru myndina, og ef tollamál og búvörulög eru hluti af þessari sömu stóru mynd, þá gengur það ekki upp að bændur haldi áfram að lesa um það á fréttasíðum að fram undan séu breytingar á tollun innfluttra mjólkurvara, eða að gera eigi grundvallarbreytingar á starfsumhverfi afurðastöðva, svo nýleg dæmi séu tekin.

Stjórnvöld eru í einstakri stöðu til að skapa hér starfsumhverfi sem gefur bændum og íslenskum landbúnaði almennt svigrúm og tækifæri til að sækja fram og eflast í takt við kröfur og þarfir neytenda. Það væri synd ef þau láta það tækifæri sér úr greipum renna.

Gerum allt að garði
Lesendarýni 28. nóvember 2025

Gerum allt að garði

Garðurinn í kringum Listasafn Árnesinga í Hveragerði er bæði umgjörð um safnið o...

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum

Aukin ásókn í ræktun skóga með framandi ágengum tegundum, eins og hún hefur tíðk...

Að vera í stríði við sjálfan sig
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Að vera í stríði við sjálfan sig

Snjótittlingurinn er ein helsta hetja norðursins. Vegur um 40 grömm og stenst fr...

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði

Tækifærin til orkusparnaðar, aukinnar sjálfbærni og samdráttar í losun gróðurhús...

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi

Um allt land á Íslandi eru lítil þorp, með litlum húsum en stórum garði. Garðuri...

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?
Lesendarýni 26. nóvember 2025

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?

Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár gengur í fáum orðum út á það til hvaða aðgerð...

Beitarstýring er best
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Beitarstýring er best

Í 16. tölublaði Bændablaðsins frá 11. september er forsíðugrein sem heldur því f...

Ávaxtaðu jarðveginn þinn
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Ávaxtaðu jarðveginn þinn

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir tveimur áskorunum, loftslagsbreytingum og hnig...