Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Rekstur kúabúa fer hallandi
Af vettvangi Bændasamtakana 12. maí 2023

Rekstur kúabúa fer hallandi

Höfundur: Guðrún Björg Egilsdóttir, sérfræðingur hjá BÍ.

Þann 28. apríl sl. birti RML fyrstu niðurstöður úr rekstri kúabúa fyrir árið 2022.

Guðrún Björg Egilsdóttir.

Niðurstöðurnar byggja á greiningu á rekstri 70 búa sem eru þátttakendur í verkefninu um Rekstur kúabúa og hafa verið með í verkefninu frá upphafi, en í mars sl. birti RML heildarskýrslu fyrir rekstur- og afkomu kúabúa fyrir árin 2019-2021 fyrir öll þátttökubú verkefnisins, sem alls voru 154. Greiningin nær því til um helmings búanna sem voru með í fyrra, en þessi 70 bú leggja inn 25,5 milljónir lítra sem endurspeglar 17,2% af landsframleiðslu ársins.

Afurðatekjur jukust um 14% milli ára

Úr niðurstöðunum má lesa að afurðastöðvaverð mjólkur í rekstrarverkefninu hækkaði að meðaltali um 16,4 kr./ltr. milli áranna 2021 og 2022, eða um 16%. Mikilvægt er að hafa í huga hér að viðbótargreiðslur á innlagða umframmjólk árin 2020- 2021 komu til greiðslu, og teljast þar með til tekna, á árinu 2022. Því er meðal afurðastöðvaverð í verkefninu hærra en meðallágmarksverð mjólkur ársins 2022. Afurðastöðvaverð á nautgripakjöti og kýrkjöti stóð í stað á milli ára sem og aðrar tekjur af nautgripum (t.d. selt á fæti).

Hvað varðar opinberar greiðslur, þá hækkuðu þær um 5,7 kr./ltr. á milli ára. Hækkunin er fyrst og fremst komin til vega einskiptisaðgerða stjórnvalda (áburðarstuðningur og spretthópsgreiðslur matvælaráðherra). Alls var viðbótarstuðningur vegna jarðræktar að meðaltali 3,7 kr./ ltr. og áætlað er að viðbótarstuðningur í formi gripagreiðslna mjólkurkúa sé rúmlega 1 kr./ltr. Erfiðara er að meta áhrif viðbótarsláturálags vegna greiðslna spretthóps og glöggir lesendur taka eftir því að sláturálag lækkaði örlítið á milli áranna 2021 og 2022.

Ástæður þess eru þær að Covid stuðningur og viðbótarsláturálag af framleiðslujafnvægislið sem greitt var á árinu 2021 höfðu töluvert meiri áhrif á tekjur í gegnum sláturálag en viðbótarstuðningur spretthóps. Í heildina hækkuðu afurðatekjur kúabænda um 22,8 kr./ltr., eða 14% milli áranna 2021 og 2022.

Breytilegur kostnaður hækkaði um 22% milli ára

Breytilegur kostnaður kúabúa hækkaði í heildina um 17,1 kr./ltr. (22%) milli áranna 2021 og 2022. Hækkunina má fyrst og fremst rekja til hækkunar á áburði, en hann hækkaði um 7,4 kr./ ltr. (73%) og hækkunar á kjarnfóðri sem hækkaði um 4,0 kr./ltr. (13%). Til viðbótar hækkuðu flest allir kostnaðarliðir um 1-2 kr./ltr. (0-27%). Fastur kostnaður tók ekki miklum breytingum á milli ára, en hækkar vissulega jafnt og þétt að undanskildu viðhaldi eigna sem dregst saman.

Sömu sögu er því miður ekki að segja um fjármagnsliðina, en á milli áranna 2021 og 2022 hækkuðu þeir að meðaltali um 6,2 kr./ltr. (32%). Hækkun á breytilegum kostnaði og fjármagnsliðum er því meiri í krónum á lítra talið (23,3 kr./ltr.) en heildarhækkun á afurðatekjum (22,8 kr./ltr.), þrátt fyrir áburðarstuðning og sprettshópsgreiðslur.

Framlegðarstig fer lækkandi

Á árinu 2022 voru heildarafurðatekjur mjólkurframleiðenda að meðaltali 183,2 kr./ltr. á meðan heildarframleiðslukostnaður mjólkur var að meðaltali 198,4 kr./ltr. Þannig vantar 15,2 krónur upp á að heildarafurðatekjur mjólkurframleiðenda standi einar og sér undir kostnaðinum við framleiðsluna.

Mjólkurframleiðendur sækja því í auknum mæli tekjur annars staðar frá, en á milli áranna 2021 og 2022 lækkaði framlegðarstig afurðatekna um 3,4% og var árinu 2022 komið niður í 49%.

Á árinu 2022 voru aðrar tekjur mjólkurframleiðenda (t.d. tekjur af öðrum búrekstri, verktöku eða ferðaþjónustu) að meðaltali 8 milljónir króna, samanborið við rúmar 5 milljónir króna árið 2019.

Þrátt fyrir minnkandi framlegðarstig hefur rekstrarafgangur fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITA) samt sem áður hækkað í krónum talið á milli ára og skuldahlutfall lækkað. Samkvæmt skýrsluhöfundum má rekja það til þess að búin hafa mörg hver aukið við sig veltu auk þess sem búin hafa fært sig meira yfir í óverðtryggð lán. Bændur hafa því hagrætt töluvert undanfarið árið í sínum rekstri en fjármagnskostnaður bítur þó sífellt fastar, en skv. skýrsluhöfundum breikkar bilið á milli búa í verkefninu, rekstrarstaða skuldsettra búa versnar til muna á milli ára en rekstrarstaða lítið skuldsettra búa batnar örlítið á milli ára.

Rekstur ársins 2023

Nú á árinu 2023 er staðan ekkert skárri en fyrir ári síðan. Áburðarverð, kjarnfóðurverð, olíuverð og annar rekstrarkostnaður hefur haldist í sambærilegu verði og fyrir ári síðan auk þess sem stýrivextir hækka sífellt. Áætla má að heildarkostnaður við framleiðslu mjólkur ársins muni því haldi áfram að hækka vegna tíðra stýrivaxtahækkana og endar líklegast hærri en á árinu 2022. Afurðastöðvaverð hefur vissulega hækkað á árinu en enginn viðbótarstuðningur virðist vera í kortunum, hvorki greiðsla spretthóps né áburðarstuðningur, en skýrsluhöfundar hafa bent á að sprettgreiðslur skiptu verulegu máli í afkomu ársins 2022. Raunhæft er því að áætla að heildartekjur af mjólkurframleiðslu verði sambærilegar og árið 2022, sem þýðir að tekjur mjólkurframleiðenda koma til með að standa undir enn lægra hlutfalli af kostnaði en áður.

Staða mjólkurframleiðenda er því alls ekki góð og mun líklegast ekki koma til með að batna á árinu án aðgerða. Mikilvægt er að viðhalda þeirri góðu framleiðslu sem nú er til staðar í landinu með því að tryggja greininni viðunandi afkomu.

Skylt efni: rekstur kúabúa

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi
Lesendarýni 4. október 2024

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi

Öldungaráð Selfoss boðaði komu sína í MS-stöðina á Selfossi með fyrirspurnina á ...

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu
Lesendarýni 3. október 2024

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu

Haustið 2007 setti stjórn félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu saman nefnd ti...

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið
Lesendarýni 2. október 2024

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið

Íslenskur landbúnaður hefur gegnt lykilhlutverki í þróun samfélagsins frá landná...

Áhyggjur af samdrætti innan ESB
Lesendarýni 26. september 2024

Áhyggjur af samdrætti innan ESB

Þann 9. september 2024 kynnti Mario Draghi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu,...

Þá og nú
Lesendarýni 23. september 2024

Þá og nú

Hin hugljúfa ástarsaga Bergsveins Birgissonar um ástir þeirra Bjarna og Helgu he...

Áhrif beitar á uppskeru og kolefnisspor kindakjöts
Lesendarýni 19. september 2024

Áhrif beitar á uppskeru og kolefnisspor kindakjöts

Í Bændablaðinu 2.11. 2023 var fjallað um bindingu CO2 vegna framleiðslu kindakjö...

Skýrsla um raunveruleikann
Lesendarýni 18. september 2024

Skýrsla um raunveruleikann

Ástandið í íslenskum landbúnaði er víðs vegar þungt og mannskapurinn er þreyttur...

Tollar og tómatar
Lesendarýni 16. september 2024

Tollar og tómatar

Eins og sólin sest í vestri er nokkuð árvisst að upp komi umræða um tolla á land...