Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Nýja árið
Af vettvangi Bændasamtakana 19. febrúar 2024

Nýja árið

Höfundur: Halla Eiríksdóttir, stjórnarmaður BÍ, hjúkrunarfræðingur og sauðfjárbóndi.

„Gleðilegt ár!“ er sennilega algengasta setningin sem hljómar fyrstu daga og vikur í upphafi á hverju nýju ári og ber með sér að við óskum bæði okkur og hvert öðru gleði á nýju ári.

Halla Eiríksdóttir

Óneitanlega vilja allir ganga glaðir inn í nýtt ár en það gengur oft misvel að halda í gleðiblöðruna sem svífur frá okkur um leið og við sleppum hendinni af henni. Fyrir marga eru fyrstu mánuðir ársins erfiðir því það táknar upphaf á nýju ári með öllum þeim væntingum, sem geta jafnvel verið markaðar óvissu sem bændur og aðrir þurfa að mæta. Framtíðin getur birst mörgum sem kvika þar sem allt undirlagið er óstöðugt. Versnandi fjárhagur, lítt hjaðnandi verðbólguáhrif og hátt vöruverð aðfanga og eða þjónustu. Allt eru þetta utanaðkomandi þættir sem geta framkallað þau áhrif að við missum frá okkur gleðiblöðruna; hún hreinlega springur.

Að manni læðist kvíði við tilhugsunina um framtíðina og þá fá kvíðahugsanir að dansa frjálsar í kollinum. Þessar hugsanir geta verið lúmskar og við áttum okkur jafnvel ekki á því hvað er að gerast í „danshöllinni“. Kvíðadanshugsanir byrja í hægu tempói svona eins og rólegur vals. Við verðum önugri en venjulega, málrómurinn verður höstugri og við pirrumst yfir hlutum sem trufluðu okkur jafnvel ekki áður.

Kvíðatilfellum fjölgar, danstakturinn herðist. Við hættum að sofa eins og áður, eigum erfitt með að festa svefn og andvökunæturnar ágerast. Skapið þyngist og við sjáum fyrir okkur að flest er að fara á verri veg, og þá meina ég flest allt. Tökum dæmi; ef veðrið er gott hjá mér, þá verð ég upptekin af vonda veðrinu í öðrum landshlutum og bíð eftir því að það komi til mín þó svo að veðurspáin gefi ekki vísbendingu um að slíkar veðurfarsbreytingar séu í kortunum. Nú, eða þú færð boð á þorrablót, en nei, það gengur ekki af einhverjum ástæðum, sem jafnvel væri hægt að leysa, en það er einfaldara að finna til einhverja afsökun fyrir því að mæta ekki.

Nú eru hugsanirnar komnar á fullt og dansinn dunar. Vorverkin fram undan, skítmokstur, vélaviðhald, girðingavinna, nú fer hugurinn á flug, jarðvinnsla, heyskapur, nei, þetta er svo yfirþyrmandi að ég sef aðeins lengur. Herði mig upp og næ að klára dagsverkið, fæ mér einn kaldan í lok dags til að róa danstaktinn eða réttara sagt sljóvga hugsanir. Það sem næst liggur fyrir er að við förum að fresta ýmsu sem við þurfum að gera, „gleymum óvart“. Tilhugsunin um öll verkefnin sem bíða verður til þess að okkur líður enn verr og þá deyfum við hana með smá „sutli“ eða einhverju sem róar hugann. Svona heldur þetta áfram stigmagnandi og árið er rétt nýhafið.

Kvíðinn er nefnilega svo lúmskt fyrirbæri sem við áttum okkur oft ekki á eða hvað hann getur stjórnað lífi fólks og gerir okkur oft erfiðara að vera til. Það hjálpar ekki til þegar birtingarmynd framtíðarinnar er kynnt fyrir okkur, hlaðin ógn og óvissu sem við fáum vart umflúið nema slökkva á öllum fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Hvernig eigum við að trúa því að eitthvað gott geti raungerst á þessu ári þegar ástandið í landbúnaðinum er eins og það er? Það eru komin skörð með tilheyrandi skaða sem mögulega er hægt að lagfæra en þá aðeins með stórvirkum aðgerðum. Landbúnaðarkerfið hangir í óvissu, eftirspurnin eftir matvælum er til staðar en greiðsluviljinn um alla virðiskeðjuna er takmarkaður.

Starfsumhverfi bænda sætir verulegum áskorunum þessa dagana líkt og þeirra sem standa frammi fyrir óvissu um sína framtíð. Það er skiljanlegt að framtíðin sé kvíðvænleg en þeim mun mikilvægara að gera sér grein fyrir því að það er eðlilegt að vera kvíðinn upp að vissu marki en jafnframt minnug þess að kvíðahugsanir geta heltekið huga fólks og orðið að vandamáli.

Vertu á verði, hlúðu að þér og þínum því það er að minnsta kosti á þínu valdi að hafa stjórn á eigin tilfinningum og hugsunum, hvað svo sem framtíðin ber í skauti sér.

Skylt efni: bændageð

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...