Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Káfað upp á atvinnufrelsið
Af vettvangi Bændasamtakana 21. september 2023

Káfað upp á atvinnufrelsið

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands

Síðustu misseri hefur okkur á skrifstofunni, í ljósi umræðu síðustu vikna, verið tíðrætt um atvinnufrelsið sem varið er samkvæmt 75. gr. stjórnarskrárinnar.

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands

Þar er sú grundvallarregla orðuð að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa og til þess að skerðing á þessu frelsi sé lögleg þurfi tvö skilyrði að vera uppfyllt. Í fyrsta lagi verður að kveða á um skerðinguna í lögum. Í öðru lagi þurfa almannahagsmunir að krefjast þess að gripið sé til skerðingarinnar.

Dómstólar hafa gert strangar kröfur til þess að skilyrðið um að skerðingar á atvinnufrelsi eigi sér stoð í lögum sé uppfyllt. Þannig er löggjafanum, hinu háa Alþingi, t.d. óheimilt að framselja framkvæmdarvaldinu frjálst mat um slíkar skerðingar. En hvað hefur verið að gerast síðustu mánuði? Í annan stað, þá velti ég því fyrir mér hvort það sé þá heimilt að framselja vald til eftirlitsstofnana í Brussel? Höfum í huga að samkvæmt EES-reglum þá ber aðildarríkjum að sýna sveigjanleika gagnvart framleiðendum og gæta meðalhófs.

Til upprifjunar þá var á liðnu þingi til umfjöllunar þingmannafrumvarp frá Flokki fólksins um bann við blóðmerahaldi sem hefur verið lagt fram síðastliðin þrjú löggjafarþing, eða frá árinu 2020, og 154. löggjafarþing sem nú hefur verið sett, verður þar engin undantekning. Vegferð „góða fólksins“ hefur nú birst í því að reglugerð um blóðtöku úr fylfullum hryssum nr. 900/2022 verður felld úr gildi frá 1. nóvember nk., þrátt fyrir að hafa verið sett með gildistíma til þriggja ára. Eftirlitsaðilinn, MAST, og ráðuneytið klóra sér eflaust í hausnum þessa dagana um hvernig skuli útfæra starfsemina og á meðan bíða bændur eftir svörum um hvort atvinnustarfsemi sem heimilt hefur verið að stunda hér á landi sl. 40 ár eða svo, verði fram haldið með góðu móti. Fyrirsjáanleikinn er enginn.

Það sló mig óneitanlega um daginn þegar samtal erlendra mótmælenda sem hlekkjuðu sig við hvalveiðibáta afhjúpaðist í beinni útsendingu. Af hverju? Jú, vegna þess að í samtali þeirra á milli kom fram að hvorugur þeirra hafði séð hval! Ég leyfi mér að fullyrða að fæstir þeir sem tala gegn blóðmerahaldi hafi verið viðstaddir þá framkvæmd og þá veit ég fyrir víst að flutningsmanni frumvarpsins um bann við blóðmerahaldi hefur ítrekað verið boðið að fylgjast með, en hún aldrei þegið.

Þingmenn hafa mörgum hlutverkum að gegna en eitt af því getur ekki verið að tala gegn atvinnugreinum sem heimilar eru samkvæmt lögum, og skapa störf og verðmæti. Til viðbótar hlýtur það að vera hlutverk fastafulltrúa Íslands á erlendum vettvangi sem starfa í utanríkisþjónustunni að gæta hagsmuna Íslands en ekki tala gegn atvinnuréttindum samborgara sinna en ekki viðra persónulegar skoðanir sínar í fréttum.

Hér þykir manni hreinlega að verið sé að káfa upp á atvinnufrelsið sem varið er samkvæmt stjórnarskrá á grundvelli persónulegra skoðana.

Endurskoðun búvörusamninga

Undanfarna mánuði hafa staðið yfir viðræður við samninganefnd ríkisins um endurskoðun gildandi búvörusamninga sem gildir til ársins 2026. Fram til þessa hefur enginn vilji verið til að auka fjármagn inn í búvörusamningana og það endurspeglast í nýbirtu fjárlagafrumvarpi og einnig í fjármálaáætlun sem gildir frá 2024 til 2028. Við höfum ítrekað bent á að samkvæmt búvörulögum segir að ávallt skuli tryggja nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu og að kjör þeirra sem landbúnað stunda skulu vera í sem nánustu samræmi við kjör annarra stétta. Hvað séu eðlileg kjör samanborið við aðrar stéttir hefur síðan verið skýrt nánar m.a. í 1. mgr. 8. gr. búvörulaga þar sem fjallað er um verðlagningu mjólkur en þar segir að áætlað vinnuframlag skili endurgjaldi hliðstæðu og gerist hjá starfsstéttum sem bera sambærilega ábyrgð á rekstri og mæta hliðstæðum kröfum um viðveru og færni.

Þá segir í 30. gr. búvörulaga að heimilt sé að mæla fyrir um endurskoðun samnings skv. 1. mgr. á samningstímanum þar sem metin eru áhrif og þróun samkvæmt samningi og teknar upp samningaviðræður að nýju teljist þess þörf. Því verður að telja að samkvæmt lögum sé skýrt að bæði eigi innlend landbúnaðarframleiðsla að anna innanlandsmarkaði auk þess sem afkoma þeirra sem slíka framleiðslu stunda eigi að vera í eðlilegu samræmi við kjör annarra stétta. Bændur bera jafnframt ákveðnar skyldur samkvæmt búvörulögum og búvörusamningnum. Þeir skuldbinda sig m.a. til að framleiða landbúnaðarafurðir og báðir aðilar, þ.e. ríkið og bændur, skuldbinda sig til að stuðla að þróun atvinnugreinarinnar. Það gefur auga leið að slíkt raungerist ekki nema afkoma bænda sé tryggð til framleiðslunnar.

Hækkanir aðfanga í landbúnaði árið 2022 hafa ekki gengið til baka. Þar að auki hefur fjármagns- og launakostnaður hækkað verulega milli ára, svo telur í milljörðum. Flestar búgreinar standa frammi fyrir miklum áskorunum í sínum rekstri og hluti þeirra býr við afkomubrest. Staðan er ekkert frábrugðin því sem var árið 2022. Bændasamtökin gera ráð fyrir því að það vanti um 9.400 12.200 milljónir til að landbúnaðurinn geti staðir undir rekstrarlegum skuldbindingum og eðlilegri launagreiðslugetu árið 2023. Sú sviðsmynd sem hefur verið rakin hér er ekki burðug og hefur bæði verið kynnt fyrir þingmönnum í atvinnuveganefnd og fjárlaganefnd á vordögum. Skilnings gætir en fátt er um aðgerðir.

Án íslensks landbúnaðar mun þjóðin glata einu því besta sem í henni er og við getum verið viss um að þegar bændur verða ekki lengur til staðar eða þeim mun fækka svo um munar að þá höfum við glatað hlutverki okkar sem sjálfstæð þjóð.

Veiða – sleppa, er gagn af því?
Lesendarýni 8. desember 2023

Veiða – sleppa, er gagn af því?

Eftir enn eitt laxveiðisumarið undir væntingum spyrja menn eðlilega hvað valdi. ...

Kræklinga- og fiskeldistilraunir í Eyjafirði
Lesendarýni 6. desember 2023

Kræklinga- og fiskeldistilraunir í Eyjafirði

Fyrir nokkrum misserum birtist grein í Bændablaðinu sem hét „Fiskeldi í Eyjafirð...

Opinská samtöl í átt að betri landbúnaði
Lesendarýni 5. desember 2023

Opinská samtöl í átt að betri landbúnaði

Matarkista okkar Íslendinga er fjölbreytt og margþætt. Hér á landi eru framleidd...

Meira um samgöngumál í Mýrdal
Lesendarýni 4. desember 2023

Meira um samgöngumál í Mýrdal

Þegar þetta er skrifað hefur umhverfismatsskýrsla verið birt um þennan fyrirhuga...

Gamlir reiðir kallar í landi hinna klikkuðu karlmanna
Lesendarýni 1. desember 2023

Gamlir reiðir kallar í landi hinna klikkuðu karlmanna

„Í landi hinna klikkuðu karlmanna“ er fyrirsögn á grein sem Andri Snær Magnason ...

Smáframleiðendur skipta máli
Lesendarýni 30. nóvember 2023

Smáframleiðendur skipta máli

Meginmarkmið Samtaka smáframleiðenda matvæla (SSFM) er að vinna að hagsmunamálum...

Jarðgöng undir Reynisfjall með aðliggjandi láglendisvegi
Lesendarýni 23. nóvember 2023

Jarðgöng undir Reynisfjall með aðliggjandi láglendisvegi

Árið 1984 voru Dyrhólahreppur og Hvammshreppur sameinaðir í einn hrepp, Mýrdalsh...

„Ærnar renna eina slóð“ – Um kindagötur
Lesendarýni 21. nóvember 2023

„Ærnar renna eina slóð“ – Um kindagötur

Göngumanni í íslenskum úthaga er það léttir að ramba á kindagötu. Því má treysta...