Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Hvenær getur starf verið lífshættulegt?
Af vettvangi Bændasamtakana 1. júní 2023

Hvenær getur starf verið lífshættulegt?

Höfundur: Halla Eiríksdóttir stjórnarmaður BÍ, hjúkrunarfræðingur og sauðfjárbóndi.

„Það lagast ekkert þó maður tali um það,“ sagði móðir mín svo beinskeytt í anda þeirrar kynslóðar sem mætti áskorunum lífsins af hörku gagnvart eigin líðan og gaf lítið svigrúm fyrir tilfinningar.

Halla Eiríksdóttir.

Sársauki og þjáning var ekki til umræðu sem leiddi það af sér að fólk fékk enga þjálfun í að færa líðan í orð. Sögur, ljóð og söngur innihéldu lýsingarorð um það sem fólk gat samsamað sig tilfinningalega en deildi sjaldan hvernig þeim leið í raun. Eins og einn góður sveitungi lýsir þessu. „Maður elst upp við það að bíta á jaxlinn og halda áfram að vinna, enginn vill ræða tilfinningar, bara alls ekki.“ Viljinn til þess að ræða þessi mál eru misjöfn að teknu tilliti til aldurs. Yngri bændur eru þannig oft opnari til að ræða sín mál. Umræðan um sjálfsvíg sem afleiðingu af vanlíðan sem hefur orðið svo nístandi og óbærileg snertir alla, ekki síst eftirlifendur, þ.e. maka, börn, foreldra og aðra sem sitja með sálarkvölina og hugsanlega komast aldrei að því hvað lá að baki sársaukanum sem kvaldi ástvin okkar. Áhrif sjálfsvíga þeirra sem búa í dreifbýli nær einnig til nærsamfélagsins og því mikilvægt að tryggja stuðning eftirlifenda, fjölskyldu og aðra nákomna frá öðrum fagaðilum vegna fjarlægðar heilbrigðisþjónustu.

Dómharka

Í starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur hef ég oft hitt fólk sem er að kljást við lífið og líður bölvanlega. Það er tvennt sem flest allir eiga sameiginlegt; hvað það er þeim erfitt að setja orð á eigin tilfinningar eða líðan og hitt að umburðarlyndi gagnvart vanlíðan er mjög lítið. Til þess að fá fólk til að draga úr skömminni gagnvart sjálfu sér, sem fylgir slíkri dómhörku, hef ég notað dæmi þar sem ég bið fólk um að ímynda sér að tilfinningar og þjáning verði að útbrotum á húð. Ef sú væri raunin þá væri umsvifalaust sagt: „Hvað er sjá þig? Þú verður að fara til læknis!“ Það er stórt skref að stíga að leita sér aðstoðar en því fyrr sem það er gert því betra. Það er ekki séríslenskt fyrirbæri að bændur leita síður eftir aðstoð. Orsakir þjáninga geta verið margslungnar og eiga misdjúpar rætur sem við berum með okkur í lífinu og allt gengur sinn vanagang. Álag, og þá sérstaklega yfir langan tíma, getur auðveldlega sett fólk út af laginu. Erfiðleikar í búskap fyrirfinnast oftast ekki bara á einum bæ, því það eru flestir að kljást við sömu erfiðu verkefnin, þannig getur vætusamt sumar þar sem heyskapur gengur brösuglega haft mikil áhrif á líðan viðkomandi í ofanálag við verðhrun afurða með tilheyrandi fjárhagsáhyggjum. Þá er það til lítils að setja hausinn undir sig að venju og halda áfram og þurfa svo að takast á við afleiðingar álagsins þegar fer að líða á veturinn. Þetta er einfalt dæmi um hvernig starfið getur sligað geðslagið.

Eru bændur í meiri sjálfsvígshættu en aðrar stéttir?

Rannsókn frá árinu 2021 um tíðni sjálfsvíga í Bandaríkjunum sem náði yfir 29 ára tímabil sýndi fram á að þeir sem starfa í landbúnaði, skógrækt og fiskveiðar eru líklegri til að falla fyrir eigin hendi en þeir sem stunda önnur störf. Sambærilegar niðurstöður er að finna í tölfræði frá Ástralíu, Bretlandi og Noregi og hafa samtök bænda þar brugðist við með forvarnarvinnu til að vekja athygli á vandanum.

Af þessu má draga þá ályktun að bændur og fólk í dreifbýli er í meiri áhættu um að svipta sig lífi, en hvort það eigi við hérlendis er engin tölfræði til um. Það er þó vitað að sjálfsvíg eru þekkt meðal bænda á Íslandi og full þörf á að vekja athygli á því að starfsumhverfi getur verið stór áhrifaþáttur sem orsakavaldur vanlíðunar sem á ekki að draga úr okkur lífsviljann.

Við erum öll mikilvæg

Ef þú upplifir vanlíðan sem þú áttar þig ekki á, líttu um öxl og rifjaðu upp hvað hefur gengið á síðustu mánuði í lífi þínu. Skoðaðu hvort eitthvert samhengi er í liðnum atburðum og líðan í dag. Það er mannlegt að gefa sjálfum sér tækifæri á að líða betur og leita eftir aðstoð sem stendur til boða. Vinir, ættingjar eða fagfólk geta látið sig líðan þína varða. Píeta- samtökin helga starf sitt forvörnum gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og bjóða aðstandendum stuðning.

Samtökin bjóða símtalsþjónustu allan sólarhringinn þar sem hægt er að ræða við fólk sem hefur þekkingu á líðan fólks í aðstæðum þar sem lífið er orðið þeim óbærilegt. Aðstandendum stendur einnig til boða þjónusta, hvort sem um er að ræða ástvin sem er í sjálfsvígshugleiðingum eða þeim sem syrgja eftir sjálfsvíg. Að pakka tilfinningum niður er eins og að troða í tunnu, hún fyllist og þá gefur eitthvað eftir. Til þess að þola þetta ástand bregður fólk oft á það ráð að deyfa tilfinningar með áfengi eða lyfjum sem er bara til að auka á vandann. Ef þetta er eitthvað sem þú kannast við þá skora ég á þig að gefa sjálfum þér tækifæri á að takast á við þjáningar og sársauka með aðferðum sem hjálpa þér að líða betur með fólki sem lætur sig varða um betri líðan og geðheilbrigði. Fáðu hjálp, það er aldrei of seint. Við erum öll mikilvæg.

Sími Píeta-samtakanna er 552-2218 og Hjálparsími 1717.

Skylt efni: bændageð

Sömu tækifæri um allt land
Lesendarýni 27. september 2023

Sömu tækifæri um allt land

Ísland eignaðist nýlega einhyrning, frumkvöðlafyrirtæki sem er metið á yfir einn...

Opið bréf til forsætisráðherra
Lesendarýni 26. september 2023

Opið bréf til forsætisráðherra

Nú styttist í jólin og í nýtt ár. Í landinu okkar eins og öðrum löndum um heimin...

Kvikmyndin Konungur fjallanna
Lesendarýni 25. september 2023

Kvikmyndin Konungur fjallanna

Bíóhúsið á Selfossi var troðfullt af fólki sunnudagskvöldið 10. sept. sl. þar se...

Aukinn stuðningur til vínbænda innan ESB á árinu 2023
Lesendarýni 22. september 2023

Aukinn stuðningur til vínbænda innan ESB á árinu 2023

Í júní síðastliðnum samþykkti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sérstakar ráðst...

Landsbyggðin lifi
Lesendarýni 15. september 2023

Landsbyggðin lifi

Samtökin Landsbyggðin lifi voru stofnuð formlega árið 2001 sem íslenski armur sa...

Brókarvatn og borusveppir
Lesendarýni 14. september 2023

Brókarvatn og borusveppir

Eitthvað var það. Jafnvel eitthvað áhugavert. En um leið og ég settist niður til...

Skógrækt í viðkvæmri náttúru Íslands
Lesendarýni 13. september 2023

Skógrækt í viðkvæmri náttúru Íslands

Samtökin Landvernd og Vinir íslenskrar náttúru (natturuvinir.is) stóðu fyrir nok...

Til í samtalið við bændur
Lesendarýni 12. september 2023

Til í samtalið við bændur

Ég fór á fund Bændasamtakanna á Selfossi á dögunum. Þetta var lokafundur í funda...