Hvað er íslensk menning án landbúnaðar?
Menning getur verið skilgreind á margan hátt en ein merking sem hefur verið lögð í orðið er að menning sé sameiginlegur arfur, rótgróinn háttur eða siður og tengist þá hugtakinu þjóðmenning, að hver þjóð eigi sérstaka menningu.
Eins og menning er ekki bara eitthvað eitt, þá er matur ekki bara matur. Matur er hluti af menningu, sjálfsmynd og ímynd þjóðar. Hver réttur, hvert hráefni og hver hefð endurspeglar sögu sem við segjum um okkur sjálf, sögu um landið, fólkið og gildin sem við stöndum fyrir.
Á Íslandi hefur matur ávallt verið tengdur náttúrunni og því sem landið gefur af sér. Hreint loft, tært vatn, gróðursæl graslendi og gjöful fiskimið sem hafa fætt þjóðina í aldaraðir en allt er þetta hluti af þeirri menningararfleifð sem íslenskur matur byggir á.
Þegar við tölum um íslenska menningu, er óhjákvæmilegt að tala um íslenskan landbúnað því óteljandi matarhefðir Íslendinga má rekja beint til sveitanna þar sem maturinn verður til.
Matur er menningararfur
Matur hefur alltaf verið samofinn lífi okkar. Hann sameinar fjölskyldur við matarborðið þar sem þær tengjast í lok dags, er miðpunktur hátíða og stórra stunda í lífi okkar og heldur samfélaginu saman. Við eigum margar matarhefðir sem lifa góðu lífi enn þann dag í dag: þorramaturinn sem minnir okkur á harðindi og útsjónarsemi fyrri kynslóða og sem er orðinn einn vinsælasti viðburður í annars löngum janúar, klassískar íslenskar pönnukökur í sunnudagskaffinu, flatkaka með hangikjöti í nestispakkanum þegar við göngum á fjöll og ein með öllu á bensínstöðinni á ferðalagi sumarsins um sveitir landsins.
Þetta er ekki bara matur heldur minningar, menning og tenging við uppruna. Í gegnum matinn miðlum við sögu þjóðarinnar. Matur segir frá fortíðinni, en hann er líka brú inn í framtíðina.
Nýjar kynslóðir eru að taka við keflinu og hafa gefið gömlu hefðunum nýtt líf. Metnaðarfull kynslóð sem nálgast íslensk hráefni á skapandi hátt, blandar saman gömlu og nýju og nýtir íslensk hráefni með stolti og virðingu. Þannig þróast menningin, án þess að gleyma rótum sínum, frá ömmum fortíðarinnar til nýrra kynslóða.
Ísland á disknum
Þegar ferðamenn koma til Íslands sjá þeir fjöll, fossa, eldfjöll og víðerni, en þeir sjá líka hreinleika. Þeir finna hann í andrúmsloftinu, í vatninu og í matnum.
Samkvæmt könnun Ferðamálastofu sögðu 97% ferðamanna að náttúran væri helsta ástæðan fyrir komu þeirra til landsins en meira en helmingur nefndi einnig íslenska menningu og Íslendinga sjálfa sem sterkan þátt í upplifun sinni. Og þar kemur maturinn inn. Því hvar er íslensk menning áþreifanlegri en í matnum sem við borðum?
Þegar ferðamaður smakkar íslenskt lambakjöt sem hefur alist upp á fjöllum eða úti í grænum úthaga, eða fisk sem var veiddur sama dag, finnur hann Ísland á disknum. Hreinleikann, náttúruna og gæðin í einum bita.
Íslensk náttúra er þannig aðdráttaraflið sem dregur fólk til sín, en maturinn og menningin eru það sem skapa tengslin en líkt og árleg könnun Íslandsstofu hefur sýnt er Ísland þekkt fyrir fjölbreyttar afurðir og skorar maturinn þar hátt. Maturinn er orðinn að rödd ímyndar Íslands – án þess að segja orð.
Landbúnaðurinn er burðarás
Þetta er ástæða þess að íslenskur landbúnaður skiptir meira máli en margir gera sér grein fyrir. Landbúnaðurinn er undirstaða þess að við getum viðhaldið menningunni. Hann tryggir ekki aðeins fæðuöryggi, heldur er hann burðarás í varðveislu ímyndar og sjálfsmyndar þjóðarinnar.
Bændur, sjómenn og matvælaframleiðendur eru í raun menningarverðir, þeir viðhalda gildum sem ekki er hægt að flytja inn: traust, hreinleika og tengsl við landið okkar. Þetta er fólk sem viðheldur arfleifð sem hefur mótað íslenskt samfélag í gegnum aldir.
Þegar við kaupum íslenskt kjöt, mjólkurvörur, grænmeti, blóm eða fisk erum við ekki bara að versla við bændur heldur erum við að styðja við menningu, atvinnu og sjálfstæði þjóðarinnar. Við erum að tryggja að sagan haldi áfram að lifa, að íslenskur matur úr íslenskri sveit verði áfram hluti af því sem gerir Ísland einstakt.
Gildi þess að velja íslenskt
Það er einfalt að horfa á mat sem vöru – eitthvað sem við kaupum og neytum. En maturinn er miklu meira en það. Hann er tjáning. Þegar við veljum íslenskt erum við að taka afstöðu: við veljum gæði, við veljum sjálfbærni og við veljum að standa með landi okkar og menningu.
Það hefur raunveruleg áhrif, því þegar við styðjum íslenska framleiðslu styrkjum við efnahag landsins, drögum úr kolefnisspori og tryggjum áfram þá sérstöðu sem íslenskur matur býr yfir.
Ímynd Íslands byrjar nefnilega heima hjá okkur sjálfum og í því hvernig við hugsum um landið, vinnum með það og nýtum það.
Samvinna og framtíðin
Ef matur getur mótað ímynd heillar þjóðar, þá verðum við að spyrja: „Hvernig getum við áfram mótað íslenska matarmenningu saman?“
Svarið liggur í samvinnu. Það þarf að efla tengsl milli bænda, framleiðenda, veitingamanna, neytenda og stjórnvalda. Við þurfum að skapa umhverfi þar sem íslenskur landbúnaður fær að dafna og þróast áfram en ekki síður þar sem nýsköpun og hefðir ganga hönd í hönd.
Íslenskur matur er saga, menning og framtíð í einum bita. Maturinn er afrakstur kynslóða sem hafa lifað í sátt við náttúruna og nýtt það sem landið hefur upp á að bjóða. Hann er brú milli fortíðar og framtíðar, milli manns og náttúru.
Þegar við veljum íslenskt, veljum við ekki bara bragðgæði. Við veljum sjálfsmynd. Við veljum að standa með menningu sem byggir á hreinni náttúru, sterkum gildum og stolti yfir eigin uppruna.
Þess vegna skiptir máli að við veljum íslenskt og eflum íslenskt – ekki bara vegna bragðsins, heldur vegna þess hvað það segir um okkur sem þjóð.
Matur er menning. Menningin mótar ímyndina og ímyndin er það sem við skiljum eftir okkur í huga annarra.
Spurningunni „Hvað væri íslensk menning án landbúnaðar?“ er auðsvarað og svarið er einfalt.
Hún væri fátækleg.
