Eina eða tvær hendur á stýrið?
Framleiðslustýring hefur um áratugaskeið verið veigamikill þáttur í stuðningskerfi sauðfjárræktar og mjólkurframleiðslu hérlendis. Báðar greinar henta íslenskum aðstæðum vel með grasnytjum, beit og heyöflun. Að einhverju leyti kann það að skýra hvernig offramleiðsla var orðin á síðari hluta 20. aldar sem leiddi til kvótasetningar. Svipaða þróun mátti þó sjá víðar í Evrópu en þegar ESB afnam framleiðslukvóta með innleiðingu nýrrar landbúnaðarstefnu (CAP) eftir aldamótin, kom í ljós að breytingarnar höfðu í för með sér á ný offramleiðslu, verðfall og óvissu, einkum fyrir smærri bú við krefjandi aðstæður á afskekktum svæðum, líkt og Ísland er í heild sinni.
Eftir á má segja að lærdómurinn hafi verið að framleiðslufrelsi án ramma getur leitt til markaðsbrests, afkomuóvissu og umhverfisvandamála enda eru merki þess að í næstu landbúnaðarstefnu ESB verði stigin skref til baka. Hér var þó stefnt svipaða leið í búvörusamningunum 2016 en hins vegar dró í land við endurskoðun samninganna 2019 og 2023. Bæði mjólkur- og sauðfjárbændur vildu halda í framleiðslustýringu.
Samtök ungra bænda (SUB) hafa í seinni tíð tekið undir mikilvægi framleiðslustýringar að einhverju marki, þó gagnrýni hafi komið fram, m.a. á hærri verðlagningu á greiðslumarki í mjólk en bændur höfðu gert samkomulag um og skerðingu á forgangi nýliða á tilboðsmarkaði sem varð aðeins fimmtungur af því sem áður var. Í kjölfarið birti stjórn SUB grein með titilinn „starfslokasamningur nautgriparæktarinnar“ þar sem því var haldið fram að ungt fólk þyrfti að greiða fyrir starfslok eldri bænda án þess þó að taka við jörð eða rekstri þeirra. Í kjölfarið hefur mjólkurframleiðendum fækkað um rúm 3% á ári og í dag stendur afurðaverð ekki undir framleiðslukostnaði, sér í lagi hjá yngri bændum, þótt ekkert sé fullyrt um orsakasamhengi þar á milli.
Í sauðfjárrækt hefur sátt um greiðslumark aukist með tilkomu tilboðsmarkaðar og betra jafnvægi í framleiðslu, þó ásetningshlutfallið hafi verið gagnrýnt og kallað eftir endurskoðun sem var tekið undir á síðasta deildarfundi. Fækkun sauðfjárbænda hefur þó verið hlutfallslega svipuð og í mjólkurframleiðslu.
Framleiðslustýring hefur veitt mikilvægan stöðugleika og fyrirsjáanleika fyrir þessar greinar. Ef rétt er staðið að henni á hún að geta stutt við bættan hag bænda, neytenda og umhverfis, stuðlað að byggðafestu og staðið vörð um fjölskyldubú. En tryggja þarf að hún hindri ekki nýliðun eða þyngi byrðar þeirra um of. Heldur ekki að hún komi í veg fyrir að jarðir eigi afturkvæmt í framleiðslu enda kunna margir aðrir innviðir að vera til staðar. Tryggja þarf að fjármunir í kerfinu þjóni þessum markmiðum og stuðli að sveigjanleika og framþróun frekar en stöðnun.
Í einhverju samhengi kann það ekki að skipta höfuðmáli hvort þú hafir aðra eða báðar hendur á stýrinu ef þú ert búinn að missa stýrisenda eða jafnvel bara með þrjú hjól undir bílnum. Þannig er það líka í framleiðslu búvara og landbúnaðinum í heild sinni þegar horft er til innri og ytri starfsskilyrða. Mikilvægast af öllu er að taka skýra stefnu og fylgja henni en viðhafa ekki frekari hringlandahátt.
