Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Undanþáguheimildir fyrir fyrirtæki í landbúnaði er að finna víða um heim. Í Michigan í Bandaríkjunum er til að mynda ostagerð starfrækt sameiginlega af þremur stórfyrirtækjum.
Undanþáguheimildir fyrir fyrirtæki í landbúnaði er að finna víða um heim. Í Michigan í Bandaríkjunum er til að mynda ostagerð starfrækt sameiginlega af þremur stórfyrirtækjum.
Mynd / Glanbia
Af vettvangi Bændasamtakana 1. maí 2023

Eflum samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu

Höfundur: Herdís Magna Gunnarsdóttir, varaformaður BÍ.

Með nokkuð reglulegu millibili sprettur upp umræða um hvernig ganga megi frá íslenskri matvælaframleiðslu, „íslenskum neytendum til hagsbóta“.

Herdís Magna Gunnarsdóttir.

Helstu tillögur sem hafa heyrst undanfarið eru afnám tollverndar á búvörur og afnám heimildar fyrir afurðstöðvar í mjólkuriðnaði til að starfa saman með það að markmiði að halda niðri kostnaði, heimild sem íslenskur mjólkuriðnaður hefur starfað eftir síðastliðin 20 ár og á grunni hennar náð fram mjög aukinni hagkvæmni í rekstri.

Nokkurs misskilnings virðist gæta í umræðunni um umrædda undanþáguheimild, hún sé jafnvel hið undarlegasta apparat og ýjað að því að þetta sér gjörspillt og séríslenskt fyrirbæri. Hér geri ég undanþáguheimildir afurðastöðva að umræðuefni mínu og vona að það verði einhverjum að gagni.

Íslenska undanþáguheimildin

Íslenskur landbúnaður býr við eina undanþágu frá samkeppnisreglum sem gildir einungis fyrir afurðastöðvar í mjólkuriðnaði. Í 71. grein búvörulaga er afurðarstöðvum í mjólkuriðnaði veitt undanþága frá ákvæði í samkeppnislögum sem felst í því að þeim er þar gert heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða.

Samkvæmt skýrslu Hagrannsókna sf, um þróun og hagræðingu í mjólkurvinnslu á Íslandi á árunum 2000-2018 hafa hagræðingaraðgerðir í íslenskum mjólkuriðnaði, sem umrædd undanþáguheimild gerði afurðastöðvum kleift að ráðast í, skilað ávinningi sem nemur um 2-3 milljörðum króna á ári hverju, sem skilar sér svo til neytenda í lægra vöruverði og bænda í formi hærra afurðaverðs.

Mjólkursamsalan er fyrirtæki í eigu íslenskra kúabænda. Fyrirtækið er lang stærst afurðastöðva hér á landi en aðrar minni afurðastöðvar líkt og Arna og Bio bú hafa einnig náð að hasla sér völl þó að hlutdeild þeirra á markaði sé minni. Reyndar er það svo að það er margt í íslenska kerfinu eins og það er í dag sem auðveldar nýjum aðilum að koma á fót mjólkurvinnslu. Minni aðilar hafa enga móttöku- og söfnunarskyldu á mjólk, minni aðilar þurfa ekki að tryggja framboð allra vörutegunda allt árið um kring, allar vinnslustöðvar fá hrámjólk á sama opinbera verði frá afurðastöð og þurfa ekki að greiða sérstaklega fyrir flutning að vinnslustöð sinni sama hvar þær eru staðsettar á landinu og til viðbótar gefur Auðhumla, móðurfélag MS, smærri vinnsluaðilum afslátt upp á fyrstu 300 þúsund lítrana sem þær vinna.

Í umræðunni á fólk það til að kalla Mjólkursamsöluna RISA á markaði. Kannski hefur þjóðarstoltið gefið nokkurn fyrirslátt, Ísland er stórasta land í heimi og allt það. En við skulum aðeins líta á hvernig málum er háttað í nágrannaríkjum okkar.

Erlendar undanþáguheimildir

Samkvæmt skýrslu Lagastofnunar HÍ 2020 um undanþágur frá samkeppnisreglum er varða samstarf búvöruframleiðenda í ljósi EES/ESB-réttar segir að víðtækar undanþágur gildi fyrir framleiðendur landbúnaðarvara í Noregi og innan ESB. Í norsku landbúnaðarstefnunni er lögð áhersla á að samkeppnishæfni framleiðenda landbúnaðarafurða verði meiri starfi þeir í stórum rekstrareiningum. Í ESB hefur landbúnaðarstefnan forgangsáhrif gagnvart samkeppnisreglum og framkvæmdastjórn ESB leggur mikla áherslu á stækkun rekstrareininga.

Ef við lítum til fyrirkomulags á Norðurlöndunum má sjá að svipað kerfi þekkist þar. Í Danmörku er fyrirtækið Arla með um 80% af allri unninni mjólk, en Mammen mejerierne er næst stærst með tæp 3%. Í Finnlandi er Valio með um 75% af unninni mjólk, Arla er næst stærst með tæp 9%. Í Noregi er TINE langstærsti aðilinn á markaði og var lengi vel eini aðilinn. Í dag sér fyrirtækið um söfnun og dreifingu u.þ.b. 95% allrar framleiddrar mjólkur í landinu og árið 2016 framleiddi fyrirtækið um 80% af öllum mjólkurvörum í Noregi. Í Svíþjóð er Arla stærsta fyrirtækið og er umfang þess um 60% af mjólkurmarkaðinum.

Til að átta okkur betur á stærðarmun mjólkurframleiðslu landanna þá framleiddu danskir kúabændur (skv. International Dairy Federation) um 5,7 milljónir tonna af mjólk árið 2021 og sænskir kúabændur framleiddu um 2,7 milljónir tonn. Íslenskir kúabændur framleiddu um 153 þúsund tonn af mjólk sama ár.

Ef við horfum út fyrir landa- mæri Evrópu er augljóst að undan- þáguheimildir fyrir fyrirtæki í landbúnaði er að finna annars staðar í hinum stóra heimi. Í Michigan í Bandaríkjunum er til að mynda ostagerð starfrækt sameiginlega af þremur stórfyrirtækjum. Þessi mjólkurvinnsla vinnur mjólkafurðir úr um 1,3 milljörðum lítra af mjólk á ári hverju eða tæplega nífaldri heildarársframleiðslu íslenskra kúabænda. Meðal eiganda afurðastöðvarinnar er samvinnufyrirtækið Dairy Farmers of America sem er stærsta mjólkur - vinnslufyrirtæki í heimi með um 3,4% markaðshlutdeild á heimsvísu.

Mjólkursamsalan er í raun agnarsmátt peð í samanburði við stór mjólkurvinnslufyrirtæki landanna sem ég nefni hér að ofan. Íslenskir kúabændur eru í beinni samkeppni við þessa aðila og fleiri og eykst sú samkeppni ár frá ári. Árið 2022 var hlutfall innflutnings 12,5% af sölu innlendra osta. Í magni hefur innflutningur osta aukist um 459 tonn frá árinu 2016, þegar sala innfluttra osta var 5,1% af markaðnum. Hlutfall erlendra osta hefur þannig rúmlega tvöfaldast frá 2016. Þó ekki sé nema bara í ljósi þróunar á samkeppnisumhverfinu er nauðsynlegt fyrir okkur að glata ekki þeirri stærðarhagkvæmni sem við þó höfum náð undanfarin ár og áratugi.

Í ljósi þessa er erfitt að skilja umræðu um að afnema einu íslensku undanþáguheimildina frá samkeppnisreglum og brjóta upp stórar rekstrareiningar, þveröfugt við það sem þekkist og stefnt er að innan ESB.

Þrjú skref að minni samkeppni

Það er torskiljanlegt að þeir aðilar sem berjast hvað harðast gegn undanþáguheimildum fyrir íslenskan landbúnað eru oft þeir sömu og tala fyrir inngöngu í ESB, þar sem mun víðtækari undanþáguheimildir frá samkeppnisreglum gilda en hér á landi. Í þennan kokteil blandast svo áhugi þessara sömu aðila á að afnema þá fáu verndartolla sem eftir eru fyrir íslenskan landbúnað.

Sé lokamarkmiðið að veikja samkeppnishæfni innlendrar matvælaframleiðslu þá er þetta þó auðvitað skothelt plan: Skref 1; afnema verndartolla, skref 2; koma í veg fyrir að íslenskur landbúnaður búi við sama regluverk og þekkist í helstu samkeppnislöndum og skref 3; afnema einu undanþáguheimildina fyrir íslenskan landbúnað sem fyrirfinnst í íslensku regluverki.

Þannig munum við í raun sjá samkeppni á íslenskum markaði minnka, þegar innlend framleiðsla verður komin úr kælum matvöruverslana og innflutningsaðilar verða einir um markaðinn.

Gerum innlendan landbúnað samkeppnishæfari

Við höfum nú þegar fengið smjörþefinn af afleiðingum minni tollverndar í íslenskri nautakjötframleiðslu. Frá árinu 2018 hefur tollkvóti fyrir nautakjöt frá ESB sjöfaldast í magni, en tollkvóti er tiltekið magn vöru sem hægt er að flytja inn til landsins án allra tolla. Á sama tíma hefur útboðsverð á tollkvótunum lækkað um 28% sé tekið tillit til verðlagsbreytinga. Hefur þetta engu skilað til neytenda skv. upplýsingum Hagstofunnar, raunar hækkaði verð á nautakjöti og á sama tíma lækkaði afurðaverð til bænda. Bænda sem eru nú margir hverjir að gefast upp og við erum farin að sjá aukinn skort á íslensku nautakjöti og þar með minna úrval fyrir neytendur.

Erlendis búa afurðastöðvar við undanþáguheimildir sem gera þeim kleift að ná aukinni framlegð og hagkvæmni í kjötvinnslu. Stjórnvöld alls staðar í kringum okkur átta sig á mikilvægi þess að veita landbúnaðinum þetta aukna svigrúm. Skynsamlegast væri að horfa til þess að veita svipaðar undanþágur fyrir kjötafurðastöðvar hér og þekkist í í ESB og Noregi, frekar en að ganga frá greininni hérlendis með afnámi tolla og almennri þröngsýni.

Í stað þess að leggja til að taka skref afturábak og afnema einu undanþáguheimild landbúnaðarins frá samkeppnislögum í íslenskum lögum eigum við að taka skref fram á við og efla samkeppnishæfni innlends landbúnaðar.

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki
Lesendarýni 20. júní 2024

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki

Tandrabretti ehf. hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu á viðarperluframleiðs...

Og svo kom vorið
Lesendarýni 18. júní 2024

Og svo kom vorið

Nú í byrjun júnímánaðar fengu landsmenn yfir sig sannkallað vetrarveður sem varð...

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn
Lesendarýni 12. júní 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn

Í Bændablaðinu miðvikudaginn 24.4. 2024 er viðtal við Jón Kristinsson umhverfisa...

Framtíð veiða með botnvörpu?
Lesendarýni 11. júní 2024

Framtíð veiða með botnvörpu?

Fyrir nokkrum vikum birtist í National Geographic grein sem byggir á viðamikilli...

Hrossaræktin á fljúgandi ferð
Lesendarýni 10. júní 2024

Hrossaræktin á fljúgandi ferð

Þegar ég var í búfræðinámi á Hvanneyri voru heilmikil átök um stefnuna í hrossar...

Saga af forystusauðnum Meistara
Lesendarýni 7. júní 2024

Saga af forystusauðnum Meistara

Árið 2013 fæddust hér á Grindum í Deildardal tvö hrútlömb af forystukyni, voru þ...

Stórkostlegt hugvit fyrir blinda
Lesendarýni 6. júní 2024

Stórkostlegt hugvit fyrir blinda

Það er í frumeðli mannsins að finna nýjar leiðir og lausnir til að einfalda og b...

Ráðuneytið hirtir sveitarstjórnir vegna ágangsmála
Lesendarýni 6. júní 2024

Ráðuneytið hirtir sveitarstjórnir vegna ágangsmála

Ítarlegt álit umboðsmanns Alþingis, dagsett 11. október 2022, fjallaði um aldaga...