Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Valborg Einarsdóttir.
Valborg Einarsdóttir.
Á faglegum nótum 9. ágúst 2024

Úr sarpi Bændablaðsins: Veigar garðsins

Höfundur: Vilmundur Hansen

Víngerð í berjum er aldagömul hefð sem þekkist frá Kína, Egyptalandi og ekki síst frá löndunum við Miðjarðarhaf. Elsta heimildin um íslenskt berjavín er í Grágás frá árinu 1203. Einnig þekkist að brugga vín úr rabarbara og fíflum.

Valborg Einarsdóttir garð­yrkju­fræðingur hefur staðið fyrir námskeiðum á vegum Garðyrkjufélags Íslands sem kallast Veigar garðsins. Á námskeiðunum fjallar hún um ræktun, sögu og nýtingu berja, rabarbara og fífla og víngerð úr þeim.

Aukinn áhugi á gróðurnytjum

„Sjálfbærni er áberandi hugtak í íslensku samfélagi um þessar mundir og tengist því að fólk vill nýta sem mest og best allt sem vex í garðinum. Til þess að það sé hægt þarf fólk að vita hvaða plöntur eru nýtanlegar og hvernig má nýta þær. Auk þess er fátt skemmtilegra en að geta boðið upp á heimaræktað og heimalagað. 

Síðastliðið vor var ég með námskeið þar sem ég fjallaði aðallega um nýtingu rabarbara til víngerðar en minna um ber, í haust sneri ég þessu við. Fjallaði mun meira um berin og ávextina en minna um rabarbarann.“

Valborg segir að sér þyki afskaplega skemmtilegt hvað fólk er jákvætt og áhugasamt um ræktun og nýtingu ýmiss konar berja og hún tekur því sérstaklega fagnandi að rabarbari sé aftur upphafinn til þess vegs og virðingar sem hann á skilið.

Fleiri berjategundir í ræktun

Valborg segir Íslendinga afskaplega duglega við að nýta ýmiss konar ber í hlaup, sultur, saft og bakstur. „Að mínu mati er líka sport í því að bera fram heimalagað berjavín með matnum eða berjalíkjör með kaffinu, til viðbótar við það hefðbundna eins og heimabakaðar smákökur.

Ekki er nokkur vafi á því að mikil aukning er í ræktun og nýtingu á alls konar berjum og mun fleiri tegundir af berjarunnum eru ræktaðar núna en áður. Að ógleymdri allri ávaxtaræktuninni sem er frábær.


Elsta heimildin um íslenskt berjavín er í Grágás frá árinu 1203, eftir uppskrift Sverris Noregskonungs og ég veit að það er áratuga hefð fyrir heimagerðu víni hjá mörgum fjölskyldum hérlendis.“

Vín- og líkjörsgerð ákveðin lausn

„Ástæður fyrir auknum áhuga á ræktun rabarbara, berja, ávaxta og matjurta eru margar og misjafnar og ólíkar hjá hverjum og einum. Mjög mikill áhugi er fyrir sjálfbærni hjá mörgum og að rækta og nýta betur. Fólk er meðvitað um að við þurfum að framleiða meira sjálf. Þá vill fólk vita hvað það er borða, hvernig matvælin voru ræktuð og hvort fæðan sé lífrænt eða vistvænt ræktuð.

Yfirleitt er mun hagkvæmara að rækta sjálfur, auk þess sem það er skemmtilegra, en heimaræktað og heimalagað bragðast líka oft mun betur. Ræktun kallar á aukna útiveru og hreyfingu sem marga vantar.
Hvað vín- og líkjörsgerðina varðar þá er hún viss lausn á nýtingu á uppskerunni. Ég hef oft sagt að það þjóni engum tilgangi að rækta ávexti og grænmeti í stórum stíl ef maður veit ekki hvað eigi að gera við uppskeruna. Eða réttara sagt, það þarf þekkingu til að nota réttar geymsluaðferðir því uppskeran úr garðinum kemur á tiltölulega stuttu tímabili,“ segir Valborg.

Margs konar nytjar

„Rabarbarinn er auðræktaður og sjálfsagt að fólk nýti hann. Vín- og líkjörgerð úr rabarbara er bara einn möguleiki af mörgum. Hann er einnig góður í sultur, kryddmauk, alls konar kökur og fallegur í blómaskreytingar.

Mér finnst að kaffihús og veitingastaðir ættu að gera mikið meira af því að bjóða upp á kökur og fleira úr rabarbara. Rabarbari er ekki eins algengur erlendis og hér og ég er viss um að ferðafólki þætti hann skemmtileg viðbót við íslenska matarhefð.

Rabarbara má líka nota til að lita prjónagarn og ull. Svo má ekki gleyma að nýta blöðin til að breiða yfir illgresið í garðinum eða sjóða þau í lífrænar varnir til að úða með yfir óværu á trjám og runnum.“

Rabarbari í bókum Schierbeck

„Fyrsta ritaða heimildin um rabarbara sem ég veit um er frá árinu 1886 en hún er frá Schierbeck landlækni sem stofnaði Garðyrkjufélag Íslands.

Schierbeck minnist á það í umfjölluninni að það megi búa til bragðgott vín úr stönglunum. Hann segir frá yrkjunum Linnaus og Queen Viktoríu, en bætir því við að „enginn skyldi rækta hinar fornu, fölu aukategundir; eptirtekjan af þeim er svo sem engin í samanburði við eptirtekjuna af hinum rauðleitu veigamiklu tegundum“. Þannig að einhver smávaxin yrki af rabarbara hafa verið hér í ræktun áður.

Þess má geta, að í umsögnum um Schierbeck er sagt að hann hafi eingöngu fjallað um þær matjurtir sem hann taldi að góð eftirtekja yrði af, en sleppti umfjöllun um aðrar plöntur,“ segir Valborg Einarsdóttir hjá Garðyrkjufélagi Íslands.

Uppskriftir

Fíflavín

10 til 15 lítrar af  blómkörfum fífla
4 til 6 lítrar sjóðandi vatn
5 til 6 kíló sykur (má nota púðursykur til helminga)
10 sítrónur
6 appelsínur
2 kíló rúsínur
2 til 3 stappaðir bananar, valfrjálst en gerir vínið fyllra.

Best er að tína fíflablómin í þurru veðri, fjarlægið leggina strax. Bikarblöðin undir blómkörfunni mega fylgja með, þau krydda vínið, gera það aðeins beiskara eða rammara, aðrir vilja fjarlægja allan græna hlutann.

Skolið blómin og setjið blómkörf­urnar í gerjunarílátið. Hellið 4 til 6 lítrum af sjóðandi heitu vatni yfir og hrærið  reglulega í leginum næstu 2 til 3 dagana.

Kreistið safann úr ávöxtunum, appelsínum og sítrónum, geymið safann. Síið vökvann og setjið í pott ásamt söxuðum rúsínunum og smátt skornum berkinum af ávöxtunum,  látið suðuna koma upp. Setjið aftur í gerjunarílátið og hrærið sykrinum saman við.

Bætið við köldu vatni upp að 24 lítrum. Hitinn á blöndunni þarf að vera um 22 til 25° C. Hrærið Pectolose saman við blönduna, til að skerpa bragð og lit. Bætið ger og gernæringu saman við eftir um það  bil hálftíma.

Þegar  gerjun er komin af stað bætið ávaxtasafanum saman við. Geymið ílátið við stofuhita og hrærið í því kvölds og morgna. Þegar gerjun hefur staðið yfir í 3 til 4 daga, fleytið þá yfir á annað ílát. Látið vínið gerja út eða svo gott sem.  

Víninu fleytt yfir á annan kút og gerstopp sett saman við og hrist vel. Eftir sólarhring  er nauðsynlegt að athuga hvort það sé kolsýra í víninu. Kúturinn er hristur hressilega nokkrum sinnum á dag í nokkra daga eða þangað til „hviss“ hættir að heyrast.

Í lokin eru sett felliefni og gerjunarílátið látið standa í 2 til 3 vikur. Eftir það er vínið sett á flöskur og er tilbúið til drykkjar eftir nokkrar vikur en batnar eftir því sem frá líður í 6 til 12 mánuði.  

Krækiberjasnafs
500 grömm krækiber (eða önnur ber)
750 millilítrar gin
100 grömm sykur
 
Nota má fryst ber.  Þvoið berin vel og merjið þau. Setjið berin í stóra krukku ásamt sykrinum og gininu og hristið vel. Geymið á köldum, dimmum stað og hristið daglega í tvær vikur og síðan vikulega í tvo og hálfan mánuð.  
 
Sigtið snafsinn og hellið á hreina flösku, sem áður hefur verið skoluð vel upp sjóðandi heitu vatni og kæld.  
 
Sjálfsagt er að nýta berin til dæmis í ávaxtakökur eða desert. Ef sykurmagnið er aukið upp í 500 grömm verður til líkjör.  
 
Bláber og sólber njóta sín mjög vel í vodka. Bæta má örlítilli vanillu í líkjörinn ef vill. 
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...

Réttalistinn 2024
29. ágúst 2024

Réttalistinn 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Göngur og góður reiðtúr
13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Bændur selja Búsæld
13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Gerum okkur dagamun
13. september 2024

Gerum okkur dagamun