Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Hér sést Kai Runig við eina af 8 þreskivélum verktakafyrirtækisins.
Hér sést Kai Runig við eina af 8 þreskivélum verktakafyrirtækisins.
Mynd / Snorri Sigurðsson
Á faglegum nótum 12. september 2022

Ungbændur í Evrópuferð - síðari hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Í lok júní héldu 24 nýútskrifaðir búfræðingar frá Hvanneyri í útskriftarferð til Evrópu og var fyrri hluti ferðalýsingar þessarar ferðar birtur í síðasta Bændablaði. Þetta er síðari greinin, þar sem farið er yfir það helsta landbúnaðarfaglega sem bar á góma í síðari hluta ferðarinnar.

Fimmta heimsókn ferðarinnar var til verktakans Gerhard Runig sem býr í miklu landbúnaðarhéraði ekki langt frá Erwitte í Þýskalandi. Þarna hefur verið rekið verktakafyrirtæki fyrir landbúnað í rúm 100 ár en afi hans stofnaði þessa merku þjónustu á sínum tíma. Sonur Gerhard, Kai Runig, sem tók á móti hópnum með pabba sínum og systur, stefnir á að taka við fyrirtækinu og verður þannig fjórða kynslóð þeirra sem reka fyrirtækið. Gerhard er með 8 fastráðna og 15 lausráðna starfsmenn og hreint ótrúlegt magn af tækjum og tólum, flest af stærri gerðinni! Segja má að vélaútgerðin passi vel við mannfjöldann sem þarna vinnur og hann er t.d. með 8 myndarlegar þreskivélar svo allir fastráðnir starfsmenn geta verið að þreskja á sama tíma!

Skítkeyrslan endalausa

Á hverju ári sér fyrirtækið um að keyra út 120 þúsund rúmmetrum af skít og vakti athygli að hann var einungis með 3 skítadreifara fyrir allt þetta magn. Með öðrum orðum þá er nýting tækjanna gríðarlega góð en hann getur keyrt út skít flesta mánuði ársins en í Þýskalandi má einungis bera á þegar plöntur eru að vaxa en það tímabil stendur mun lengur en á Íslandi, eða frá 15. febrúar og fram til 15. nóvember!

Breiðdreifing á mykju er ekki leyfileg lengur og því eru þessir dreifarar Gerhard með þar til gerðan búnað. Hann er með 2 slöngudreifara sem eru 27 m3 að stærð og einn 20 m3 dreifara með niðurfellingarbúnaði. Þá vakti athygli hópsins hversu gríðarlega tæknileg mykjudreifingin var en vélarnar eru útbúnar með sérstökum áfyllingarbúnaði sem getur fyllt á mykjudreifarann úti á akri. Mykjan er með öðrum orðum keyrð frá viðkomandi bóndabæ og út á tún í opnum gámum, en hann er með 5 slíka, og þegar þangað er komið með gámana geta mykjudreifararnir einfaldlega sogað upp mykjuna á staðnum. Dráttarvélarnar og dreifararnir þurfa því ekki að fara af ökrunum þegar búið er að tæma, heldur geta einfaldlega fyllt á þar og haldið áfram. Þetta sparar gríðarlega mikinn tíma að sögn Gerhard og tækin nýtast miklu betur og geta verið nánast stöðugt í fullri notkun.

Verktakafyrirtækið var vel búið tækjum, hér má t.d. sjá slöngudreifara.

Fiðrilda ruddasláttuvél

Af mörgum áhugaverðum vélum vakti verulega athygli búnaðurinn sem hann var með til ruddasláttar en um var að ræða fiðrilda-uppsetningu þ.e. dráttarvél með ruddasláttuvél að framan og einnig til sitt hvorrar handar að aftan! Skýringin á þessum tilkomumikla búnaði var sú að þegar búið er að slá maís eru eftir 25-30 cm stubbar á ökrunum sem þarf að fella fljótlega eftir sláttinn. Ef það er ekki gert getur komið upp sérhæfð sýking í akurinn sem hægt er að forðast með því að slá stubbana niður fyrir plægingju.

12.000 tonn af matarafgöngum

Auk verktökunnar er Gerhard með hauggasstöð sem framleiðir gas og úr því rafmagn með sérstökum gastúrbínum. Þetta er mjög stór framleiðslustöð en efniviðurinn fyrir gasmyndunina kemur frá ýmsum fyrirtækjum og bæjarfélögum í formi matarleifa. Alls fær Gerhard um 12.000 tonn af matarleifum á ári hverju. Ferillinn er í raun ekki mjög flókinn en fyrst þarf að hita matarleifarnar yfir 70 gráður í 60 mínútur til að drepa mögulegar bakteríur í efninu en eftir það fara leifarnar í aðal gerjunartankinn þar sem gerjunarferlinu er stýrt með sérstökum örverum, sem framleiða hauggas við niðurbrotið. Eftir að gerjun er lokið er moltan notuð sem áburður á akra í nágrenninu.

Gasframleiðslan dugar til að framleiða um 500 kW á hverri klukkustund þegar gastúrbínurnar eru keyrðar á fullum afköstum en rafmagnið selur hann inn á dreifingarnetið í Þýskalandi. Framleiðslan er að sögn Gerhard misjöfn eftir dögum en það er vegna annarrar grænnar orkuframleiðslu sem hefur forgang eins og frá sólarsellum og vindmyllum.

Þegar þeirrar orku nýtur ekki við eru gasverin ræst og er það ferli nánast sjálfkrafa. Stundum safnast því fyrir gas hjá honum og á öðrum tímum gengur hann á birgðir.

Áður en Rússar réðust inn í Úkraínu fékk Gerhard 12,7 evrusent fyrir hverja kWh, um 16,9 krónur, en vegna áhrifanna frá stríðinu hefur verðið rúmlega þrefaldast og er nú 37 evrusent, eða um 52,2 krónur!

Aðal gerjunartankurinn er vel stór eins og sjá má.

700 milljarða velta!

Sjötta heimsóknin var að höfuð­ stöðvum CLAAS í Harsewinkel í Þýskalandi en fyrirtækið framleiðir alls konar vélar og tæki fyrir landbúnað, svo sem dráttarvélar, þreskivélar og heyvinnuvélar. CLAAS er, eins og önnur fyrirtæki sem voru heimsótt í ferðinni, fjöl­skyldufyrirtæki en er gríðarlega stórt og með árlega veltu í kringum 5 milljarða evra, eða um 700 milljarða íslenskra króna!

 Hnýtingabúnaðurinn sem markaði upphaf þessa merka fyrirtækis. Mynd / Vefsíða www.claas.is

Fyrirtækið á sér afar langa sögu en í fyrra voru einmitt liðin 100 ár frá því að forsvarmaður þess, August Claas, fann upp og fékk einkaleyfi árið 1921 á hnýtingabúnaði fyrir bindivélar. Búnaðurinn var svo einstakur að hann skapaði Claas algjöra sérstöðu og vinsældir og má segja að með þessari uppfinningu hafi verið lagður grunnurinn að framtíð fyrirtækisins.

Í heimsókninni var boðið upp á kynningu á starfseminni í sýningarsal CLAAS þar sem vélaáhugafólk í hópnum fékk nóg að skoða og dást að.

Geitabú með rúmlega 5.000 lítra á dag

Sjöunda heimsóknin í ferðinni var á geitabú hjónanna Anita og Sander Bremer í Hollandi. Þau hafa búið með geitur í rúm 20 ár en áður var Sander kúabóndi og Anita vann utan bús. Enn í dag standa þau saman að rekstrinum enda með 1.500 geitur, mest af hinu mjólkurlagna Sana kyni. Þessar geitur gefa af sér að jafnaði um 3,5 lítra á dag en bestu geiturnar fara í allt að 8 lítra daglega.

Geiturnar eru mjólkaðar tvisvar á dag og taka mjaltirnar 2 tíma í mál enda hringekjan með góð afköst, 100 geitur í einu, auk þess sem hvorki er gerð krafa um að þvo spenana né taka fyrstu bogana úr þeim heldur bara skella tækjunum á.

Dagleg framleiðsla búsins er rúmlega 5 tonn af mjólk og er hún sótt á þriggja daga fresti af sérhæfðu afurðafélagi, sem er samvinnufélag 80 geitabænda í Hollandi, en það greiðir félögum sínum 70­-75 evrusent fyrir lítrann, eða um 99-­106 íkr.

Heimsókn á geitabú Bremer-hjónanna, sem standa fyrir miðju, með smá gjöf frá hópnum. Mynd / Vilborg Hrund Jónsdóttir.

Mjólka „endalaust“

Það sem er svolítið sérstakt við geiturnar er að þær mjólka í raun „endalaust“, þ.e. mjaltaskeið þeirra takmarkast ekki við ákveðið tímabil heldur þar til þær eru með fangi á ný. Vegna þessa er einungis lítill hluti þeirra, 250 huðnur, notaðar í kynbætur og til endurnýjunar stofnsins, en endurnýjunarhlutfallið er í kringum 30%, 50 þeirra eru sæddar en hafrar sjá svo um hinar 200 og er burður oftast í janúar og fram í mars.

Hver geit fær 3-­4 kið og eru þau tekin undan um leið og þau hafa tekið til sín broddmjólkina og eru á þurrmjólkurfóstru eftir það. Hafurskiðin eru oftast alin upp í um átta kílóa þunga og svo seld frá búinu til slátrunar. Í Hollandi eru hafurskiðin, sem gagnast lítið sem ekkert á búum í mjólkurframleiðslu, stundum send strax til slátrunar eftir vikueldi en þá þarf að borga með þeim 10 evrur, eða um 1.400 krónur.

Geitakynið Sana er mjólkurlagið og eru geiturnar að gefa af sér að jafnaði um 3,5 lítra á dag, en bestu geiturnar fara í allt að 8 lítra á dag.

Einungis með 13 hektara

Það vakti athygli hópsins að þetta stóra geitabú er einungis með 13 hektara af landi og eins og liggur í augum uppi eru geiturnar því alltaf inni. Þar eru þær í rúmgóðum hálmstíum í 200­250 geita hópum. Á sínu eigin landi rækta þau gras sem geiturnar eru fóðraðar á en það dugar auðvitað ekki svo viðbótarhey, hálmur og kjarnfóður er keypt að búinu.

Þá kaupa þau appelsínuhrat, sem er afgangur frá djúsverksmiðju í nágrenninu, og því blandað í fóðrið fyrir geiturnar. Aðspurð sögðu þau að geiturnar fái að jafnaði 0,7 kg af kjarnfóðri á hvert framleitt kíló mjólkur.

Með 700 naut í eldi!

Síðasta bændaheimsóknin var til Wouter Dits en hann rekur myndarlegt nautaeldisbú um 40 km norðaustan við Brussel í Belgíu. Hann kaupir nautin frá holdabúum þegar þau eru 6­7 mánaða gömul og hefur hann sérhæft sig í tveimur frönskum holdakynjum, annars vegar hinu þekkta Límúsín kyni og svo hins vegar Blonde d'Aquitaine frá samnefndu héraði í Frakklandi. Greinarhöfundi er ekki kunnugt um íslenskt heiti á þessu kyni en eflaust mætti kalla gripi af þessu kyni Hvíta Akvitanía.

Nautin eru afar þæg og góð í meðförum og að hans sögn er fyrir löngu búið að rækta úr þeim skapillsku eða önnur vandamál tengd lundarfari. Þetta gerir það að verkum að hann getur verið með þessi 700 naut á bilinu 7­24 mánaða með einungis tveimur stöðugildum og það þrátt fyrir frekar litla tæknivæðingu búsins.

Holdanautin 700 eru sérlega spök og auðveld í meðförum og er Wouter bara með einn starfsmann með sér við búskapinn.

Kaupir kálfana á 176.000 kr.

Eins og áður segir fær hann gripina frá búum þegar kálfarnir eru teknir undan en mörg slík bú eru ekki með uppeldisaðstöðu heldur einungis beitarhaga sem henta ekki til áframeldis þessara gripa.

Kaupverð kálfanna var að sögn Wouter 1.250 evrur, eða um 176 þúsund krónur, sem er vissulega há upphæð fyrir 6­-7 mánaða gamla nautkálfa en að hans sögn er afkoman góð í greininni enda eru þessir gripir með gríðarlega vaxtargetu, eða um 1,6­-1,7 kíló að jafnaði á dag.

Hann slátrar þeim við 2 ára aldur og hefur meðalfallþunginn verið 575-­600 kíló undanfarin ár! Til samanburðar má geta þess að meðalfallþungi álíka gamalla ungnauta á Íslandi síðustu 12 mánuði, miðað við uppgjörs­ tölur RML sem birtust í júlí sl., var 235 kg!

Vill lækka fallþungann

Að sögn Wouter er ekki sjálfgefið að svona mikill fallþungi sé endilega heppilegastur og sagðist hann vera að skoða það að færa hann niður í 500 kíló að jafnaði. Skýringin felst í því að síðustu kílóin sem nautin bæta á sig eru lengi að koma enda vaxtarkúrfan þannig að það hægist á daglegum vexti þegar nautin eru komin yfir 18 mánaða aldur.

Það megi því nýta aðstöðuna betur með því að auka gripaveltuna á búinu. Aðspurður sagðist hann fá núna 5,85 evrur fyrir kílóið, eða um 825 krónur, og að það væri engin bið eftir slátrun, raunar væri mikil eftirspurn eftir slátrun svo hann getur valið úr á hverjum tíma.

Smitgát mikilvæg

Vegna þess að hann kaupir kálfa af bændum sem hafa ekki aðstöðu til áframeldis fær hann oft gripi víða að og það skapar honum ákveðið vandamál sem snýr að smitgát.

Það getur verið erfitt að forðast að fá smit inn á búið en hann reynir eftir megni að halda aðkomuhópum aðskildum a.m.k. fyrst um sinn. Aðspurður sagði hann lungnabólgu vera aðalvandamálið á búinu, en hann bólusetur öll aðkomunaut við komuna og aftur eftir 4­5 vikur.

Þá hefur hann heimild til þess að gefa mótefni í fóðrið í hverri viku þegar lungnabólga er algengust, en það er á tímabilinu frá nóvember og fram í febrúar. Þá eru nautin einnig meðhöndluð með ormalyfjum. Aðspurður um lyfjakostnað búsins sagði Wouter að bólusetningin kosti 3 evrur, ormalyfjameðhöndlunin 5 evrur og mótefnameðhöndlunin 10 evrur, alls 18 evrur, eða um 2.540 krónur, á hvern sláturgrip.

Flokkar í hópa eftir stærð

Að sögn Wouter er hann með 110 hektara lands þar sem hann framleiðir annars vegar maís og hins vegar gras en hvort tveggja er votverkað á búinu. Hann fær svo aukalega maísvothey frá nágrannabónda. Þess utan fá nautin vel af kjarnfóðri en hann flokkar nautin í 3 fóðrunarhópa.

Fyrstu tveir eru vaxtarhópar sem eru á sterkri próteinfóðrun en síðasti hópurinn er lokaeldishópur þar sem hann leggur áherslu á fitusöfnun fyrir slátrun en ekki vöxt. Þegar hann flokkar í hópana þá fer hann ekki eftir aldri gripanna heldur stærð þeirra og eru 25 hafðir saman í hóp á fyrstu tveimur fóðrunartímabilunum og svo þegar kemur að fitufóðrunartímabilinu færir hann nautin niður í hólf með 7­8 nautum.

Má neyðarslátra heima

Fram kom í máli Wouter að hann getur neyðarslátrað, sé þess þörf, s.s. vegna slyss. Þá kemur dýralæknir á staðinn og sér um aflífun og blóðgun og svo er dýrinu ekið með hraði í næsta sláturhús. Þar er skrokkurinn verkaður, metinn og mældur og ef sýrustig og aðrir gæðaþættir eru í lagi er kjötið nýtanlegt til manneldis.

Að hans sögn gerist þetta svo sem ekki oft en þegar það gerist þá eru það u.þ.b. 50% innlagðra og neyðarslátraðra gripa sem nýtast í raun áfram, hinir falla í gæðaflokkun vegna sýrustigs eða annarra þátta og enda sem hráefni fyrir lífgasframleiðslu.

Síðasta faglega heimsókn hópsins var á landbúnaðarsýninguna Libramont í Belgíu, en í næsta Bændablaði verður fjallað um þá sýningu.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...