Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Frá samræmingarnámskeiði sauðfjárdómara á Norðurlandi haustið 2025.
Frá samræmingarnámskeiði sauðfjárdómara á Norðurlandi haustið 2025.
Mynd / Aðsend
Á faglegum nótum 24. september 2025

Um ásetningsval haustið 2025

Höfundur: Eyþór Einarsson, sauðfjárræktarráðunautur hjá RML.

Sauðfjárdómarar eru nú farnir að ferðast um héruð með ómsjá og tommustokk að vopni til að aðstoða bændur í líflambavali og safna upplýsingum fyrir hið sameiginlega ræktunarstarf. Að baki er óvanalega hlýtt vor og sumar þrátt fyrir júníáhlaup og því verulega spennandi að vita hvernig lömbin reynast. Fram undan er uppskerutími sauðfjárbænda og verkefnið að velja líffé fyrir næsta framleiðsluár. Í þessum pistli verður drepið á nokkrum atriðum sem tengjast þeirri skemmtilegu vinnu.

Af niðurstöðum arfgerðagreininga m.t.t. riðumótstöðu

Afar vel hefur gengið hjá Íslenskri erfðagreiningu að greina sýni í sumar þrátt fyrir mikið magn innsendra hylkja. Hratt tókst að vinna á magninu sem barst í vor og því staðan góð nú þegar haustsýnatakan fer í hönd. Frá áramótum hafa verið tekin um 65 þúsund sýni. Megnið af því kom eftir vorið en sýni sem bárust í maí, júní, júlí og ágúst voru nú um 56 þúsund, sem er örlítið meira en greint var á sama tímabili í fyrra.

Á heimasíðu RML (undir fréttir) er að finna yfirlit yfir hrúta með mismunandi arfgerðir eftir svæðum. Þar kemur m.a. fram að skráð eru í Fjárvís um 7.700 hrútlömb með ARR genasamsætuna (bera dökkgrænt flagg). Þar af eru 427 lambhrútar arfhreinir fyrir ARR. Samanlagt eru um 100 lambhrútar sem bera T137 eða C151 á mót ARR og til eru um 450 hrútlömb með ARR/ AHQ. Í yfirlitinu má einnig finna fjölda hrútlamba með AHQ og breytileikana T137 og C151 (ljósgrænu flöggin) og hvernig þeir dreifast eftir varnarhólfum.

Áherslur í ræktun gegn riðu

Samkvæmt þeim markmiðum sem sett hafa verið fram í landsáætlun um útrýmingu riðuveiki eru markmiðin um arfgerðir ásettra hrúta haustið 2025 eftirfarandi:

Áhættubú:

  • Að lágmarki 25% kynbótahrúta beri V/V eða V/MV arfgerð. Restin af hrútunum beri V/x eða MV/x.

Önnur bú í áhættuhólfi:

  • Að lágmarki 50% kynbótahrúta beri V/x eða MV/x arfgerð. Hrútar sem bera V/x séu þó ekki undir 25% af kynbótahrútum búsins.

Landið allt utan áhættuhólfa:

  • Að lágmarki 50% kynbótahrúta beri V/x eða MV/x arfgerð.

Í áhættuhólfum er öllum bændum skylt að taka þátt. Í öðrum hólfum er mælst til þess að allir taki þátt að einhverju leyti en markmiðið í verkefninu er að lágmarki 25% búa nái þessu marki í haust.

Skýringar:
V = ARR
MV = T137, C151 eða H154
X = allar genasamsætur nema VRQ (áhætta).

Nokkur atriði tengd ræktun gegn riðu

Áfram er lögð áhersla á að þynna nokkuð hratt út erfðahlutdeild upphafshrútanna frá Þernunesi. Það er því mælt með að skipta hrútum sem eru afkomendur Gimsteins 21-899 og Gullmola 22-902 hratt út nema ljóst sé að um sérstaka yfirburðargripi sé að ræða. Gimbrar af Þernuneskyni sem eru hlutlausar (ARQ/ARQ) er best að setja ekki á nema þær allra álitlegustu. Í þessu sambandi má nefna að ákveðið hefur verið að öllum ARR hrútum af Þernuneskyni sem voru í boði á stöðvunum síðasta haust verði skipt út fyrir nýja hrúta fyrir komandi sæðingavertíð.

Hrútar sem bera 2 græn flögg eru spennandi kostir til ásetnings. Það auðveldar vinnu við innleiðingu arfgerðanna að geta sleppt því að greina gimbrar og þurfa aðeins að taka sýni úr þeim hrútum sem koma helst til álita sem ásetningur. Gimbrar sem eru undan arfhreinum hrútum eða hrútum með einhverja samsetningu af grænum flöggum þarf strangt til tekið ekki að greina til að uppfylla markmið landsáætlunar þar sem þær fá sjálfkrafa flögg í Fjárvísi.

Það er mikilvægt að þekkja arfgerð allra ásettra hrúta. Í áhættuhólfum er nauðsynlegt að setja á hrúta samkvæmt markmiðum landsáætlunar. Þeir sem standa utan áhættuhólfa og eru lítið farnir af stað í ræktun gegn riðu eru samt eindregið hvattir til að greina a.m.k. hrútana sem settir verða á. Greining á ásettum hrútum hlýtur hámarks niðurgreiðslu og þarf bóndinn í raun aðeins að greiða fyrir sýnatökuhylkið (300 kr. + vsk.).

Bætt skráning á lit, hornalagi og heilbrigðisþáttum

Til að stuðla að betri skráningu í skýrsluhaldskerfinu á lit og hornalagi hefur nú verið bætt við dómaskráningarformið í Fjárvís að hægt sé að leiðrétta litaskráningu lamba og að hornalag sé skráð á öll stiguð lömb. Er sauðfjárdómurum ætlað að fylgja því eftir að þessir eiginleikar séu rétt skráðir á þeim lömbum sem fara í gegnum þeirra hendur.

Þá er æskilegt að taka heilbrigðisþætti enn fastari tökum við ásetningsvalið, sérstaklega hvað varðar kviðgalla og fótagalla. Nú hefur verið bætt við dómaskráninguna að hægt sé að merkja við þessa galla sem athugasemd. Fyrir lömb sem ekki koma til dóms en eru með naflaslit, kviðslit eða fótagalla er mikilvægt að skrá viðeigandi athugasemd á lömbin undir „skrá atburð“ í Fjárvís, þannig að hægt sé að fá yfirsýn yfir slíka galla í skýrsluhaldskerfinu. Hjá fullorðnum gripum er hægt að skrá kviðslit og fótagalla sem ástæður förgunar og bændur áfram hvattir til að skrá förgunarástæður fullorðins fjár.

Tilboð á þokugreiningum

Auglýst hefur verið á vef RML tilboð á Þokugensgreiningum hjá RML í samstarfi við Matís. Kostar greiningin 5.600 kr. án vsk. Á vefnum eru auglýstar fjórar mismunandi dagsetningar sem miðað er við að afhenda niðurstöður og fyrir hverja þeirra er tilgreint hvenær sýnin þurfa að hafa borist á starfsstöðvar RML í Reykjavík eða á Hvanneyri. Annaðhvort þarf að skila inn sérstöku sýni vegna þokugreiningar eða senda tölvupóst á dna@rml.is og óska eftir viðbótargreiningu á eldra DNA sýni og er þá átt við sýni sem voru arfgerðargreind hjá Íslenskri erfðagreiningu eða Matís fyrir 1. september 2025 (yngri sýni verða ekki aðgengileg í viðbótargreiningu í haust).

RML getur einnig tekið við sýnum vegna greiningar á Lóugeni (frjósemiserfðavísi) eða vegna erfðagallans gulrar fitu. Þessar greiningar kosta 7.000 kr. án vsk. Þá er verið að vinna að þróun á prófi vegna erfðagallans bógkreppu hjá Matís og verður sú þjónusta auglýst betur þegar þau mál skýrast.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...