Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Tími haustlaukanna
Á faglegum nótum 29. ágúst 2014

Tími haustlaukanna

Höfundur: Vilmundur Hansen

Laukar og hnúðar eru forðarætur sem safna í sig næringu og geyma hana yfir veturinn. Laukjurtir eru því vel undir það búnar að hefja vöxt snemma á vorin, jafnvel áður en snjóa leysir.

Best er að setja haustlauka niður fyrir fyrstu frost, í september eða október, en ekkert mælir gegn því að setja þá niður síðar, eða svo lengi sem tíðin leyfir. Margar laukjurtir þurfa að standa í freðnum jarðvegi í nokkrar vikur til þess að undirbúa sig fyrir vöxt að vori. Laukar þrífast best á þurrum stað í vel framræstum og sendnum jarðvegi.

Flestar tegundir kjósa skjól og birtu en hátíðarliljur þola nokkurn raka og skugga. Allar laukjurtirnar sem fjallað er um hér eru einkímblöðungar, að einni undanskilinni, vorboða sem er tvíkímblöðungur.

Tvö til þreföld hæð niður

Einföld þumalfingursregla segir að setja skuli laukana niður sem nemur tvö- til þrefaldri hæð þeirra, og heldur dýpra í lausum jarðvegi. Hentugt bil á milli lauka er tvisvar sinnum þvermálið. Fallegast er að planta laukum þétt, milli 50 og 100 á fermetra, eða 10 til 15 saman í hnapp eftir stærð laukanna, þannig að þeir komi upp eins og stór blómvöndur.

Best er að grafa holu í rétta dýpt með lítilli skóflu eða stinga fyrir laukunum með laukajárni og losa um jarðveginn. Gott er að setja mold sem blönduð er með lífrænum áburði, þangmjöli eða hænsnaskít í botninn og yfir laukana. Einnig má blanda eilitlu af tilbúnum áburði við moldina áður en hún er sett yfir þá. Þegar búið er að hylja laukana með góðri mold skal þjappa jarðveginn varlega og hylja hann með laufi eða trjákurli og vökva.

Við niðursetningu er gott að hafa í huga að mismunandi tegundir koma upp á mismunandi tímum og einnig er æskilegt að huga að því hvaða litir fara vel saman.

Ræktun í kerum og pottum

Þeir sem ekki hafa aðgang að garði geta sett haustlauka í ker eða potta með gati á botninum, og haft á svölum eða tröppum. Blanda þarf moldina í kerunum með sandi eða vikri og setja möl í botninn svo að hún verði ekki of blaut. Lágvaxnar tegundir, eins og krókusar eða vetrargosar og smávaxnir túlípanar, fara betur í kerum en hávaxnar tegundir og auðveldara er að færa kerin til ef plönturnar eru lágar.

Hægt er að planta laukum í lögum. Neðst eru laukar sem blómstra seint, til dæmis túlípanar og síðan koll af kolli þannig að efst eru laukar sem blómstra snemma, til dæmis krókusar.

Lítil umhirða

Haustlaukar þurfa litla umhirðu eftir að þeir eru settir niður. Ef þeir blómstra illa er ástæðan líklega sú að þeir standa í bleytu eða skugga.

Margar tegundir safna ekki nægum forða yfir sumarið til að blómstra árið eftir. Þetta á sérstaklega við um viðkvæmar tegundir, eins og hýasintur og keisarakrónu. Æskilegt er að endurnýja túlípana annað til þriðja hvert ár en viðkvæmum tegundum þarf að skipta út á hverju ári. Krókusar og páskaliljur eða narsissur eru mjög harðgerðar ættkvíslir sem blómgast ár eftir ár. Leggháar tegundir geta þurft stuðning eða uppbindingu.

Laukjurtir þola illa köfnunar­efnis­ríkan áburð þar sem hann eykur ofanjarðarvöxt á kostnað neðanjarðarhlutans. Kalí- og fosfóráburður hentar laukum betur þar sem hann eykur blómgun og frostþol.

Eftir blómgun á að klippa blómstöngulinn burt svo að plantan eyði ekki orku í að mynda fræ. Blöðin þurfa aftur á móti að sölna áður en þau eru klippt burt. Séu þau klippt of snemma nær laukurinn ekki að safna forða fyrir veturinn og blómgast ekki árið eftir. Mörgum finnst ljótt að sjá sölnuð blöð og er þeim hefur oft verið bent á að klippa helminginn burt og binda blöðin saman með teygju en slíkt er ekki ráðlegt vegna þess að það skerðir mjög vöxt og eftirþroska laukanna. Einnig má setja lauka niður í þar til gerðar körfur og má þá taka þá upp og flytja annað eftir blómgun.

Dalalilja. Þjóðarblóm Finnlands. Lágvaxin, um 20 sentímetrar á hæð. Blaðstór jurt sem blómgast hvítum bjöllulaga blómum. Berin rauð, eitruð. Harðgerð, dafnar best í hálfskugga og lausum moldarjarðvegi. Jurtin er sögð hafa vaxið upp af tári Evu eftir að hún og Adam voru rekin úr aldingarðinum Eden, eða tári sem María mey felldi þegar hún sá Jesúm á krossinum. Jurtin er öll eitruð. Kjörin laukjurt til að setja í skógarbotn, t.d. trjálundi eða runnabeð, skríður mikið um og magnast með hverju ári eftir að hún hefur sætt sig við aðstæður.

Furðulaukur. Fallegar laukplöntur sem geta orðið um metri á hæð. Blómin drjúpandi, bleik eða rauðleit og með grænum grunni. Blómstöngullinn réttir úr sér eftir að blómin falla og fræ fara að myndast. Þrífst best á sólríkum stað í sendnum og þurrum jarðvegi.

Goðaliljur eða hýasintur. Viðkvæmar og blómgast sjaldnast nema einu sinni hér í görðum. Þurfa allra besta staðinn í garðinum og mikla alúð og umhirðu. Samkvæmt grískum goðsögum var ungur og fallegur drengur sem lést þegar hann varð fyrir kringlu guðsins Apollós þegar þeir léku saman kringlukast. Upp af blóði hans uxu þessar liljur sem síðan eru við hann kenndar.

Haustlilja. Ættkvísl með um það bil 60 tegundir laukjurta frá Vestur-Asíu, Bretlandseyjum og löndunum við Miðjarðarhaf. Blómin líkist blómum krókusa en haustliljur blómgast á haustin, í september og fram í október ef tíðin er góð. Blómin bleik eða hvít. Haustliljur eru blómsælar og blómstra á hverju hausti en til að blómin opnist þarf jurtin þurran og sólríkan stað. Haustliljur senda upp blöð sín að vori og þau visna niður um mitt sumar og ekkert gerist fyrr en blómin skjóta upp kollunum undir haustið.

Indíánalilja. Hávaxnar laukjurtir, 60 til 90 sentímetrar á hæð. Blómgast hvítum, ljósbláum eða bláum blómum í löngu axi í kringum mánaðamótin maí og júní. Harðgerðar plöntur sem þrífast best í góðri mold og á sólríkum stað. Náttúruleg heimkynni þeirra eru í Norður-Ameríku þar sem indíánar frumbyggjarnir nýttu ýmsar tegundir þessarar ættkvíslar, einkum til matar.

Keisarakróna. Glæsileg planta sem verður allt að einn metri á hæð. Til í appelsínugulum eða gulum lit. Blómgast í maí til júní. Kýs þurran, sólríkan og skjólgóðan stað í garðinum undir stærri trjám eða runnum sem skýla henni gegn næturfrostum á vorin. Keisarakróna lifir árum saman hér í görðum þar sem henni hafa verið búnar réttar aðstæður, til dæmis í skjóli við húsvegg.

Laukur keisarakrónu er stundum kallaður músafælulaukur vegna þess að af honum er sterk lykt sem mýs fælast. Skera skal laukinn í nokkra bita og dreifa honum innandyra þar sem hætta er á músagangi, til dæmis í húsbílum, tjaldvögnum, sumarbústöðum og útihúsum. Viðkvæm planta sem blómgast eingöngu við bestu skilyrði.

Aðrar tegundir af sömu ættkvísl eru svokallaðar fuglaliljur. Af þeim er vepjulilja algengust og vinsæl.

Krókus. Blómgast snemma á vorin en einnig er til tegundir sem blómgast að hausti. Lágvaxnir og til í mörgum litum. Fallegt að planta krókusum í litlar þyrpingar, 10 til 20 saman, í grasflötina eða dreifa þeim handahófskennt og fylgjast með þegar þeir koma upp á vorin.

Garðakrókusar blómgast snemma, blómin stór og þétt, blá, gul eða hvít. Tryggðakrókus er harðger og fjölgar sér ört í görðum blómin eru ilmandi, yfirleitt gul en geta verið gul og blanda af öðrum lit. Hann blómgast snemma á vorin, blómin lítil en mikið opin.

Haustkrókusinn blómgast á haustin. Saffrankrókusinn er haustblómstrandi, fræflar hans eru hið eftirsótta saffrankrydd.

Liljur. Ótal tegundir af liljum eru til. Þær sem í ræktun eru koma yfirleitt frá Asíu og Norður-Ameríku eða eru blendingar tegunda í milli. Yfirleitt eru liljur um metri á hæð og geta þurft stuðning. Ræktunarafbrigði skipta þúsundum og þegar vel tekst til blómgast liljur stórum og litríkum blómum. Dafna best í frjósamri mold með góðu frárennsli því að laukunum hættir til að rotna ef þeir standa í bleytu. Hérlendis gefst yfirleitt best að rækta liljur í köldum eða svölum gróðurskálum vegna vetrarvætunnar utandyra.

Páskaliljur eða hátíðarliljur. Fást í ótal tilbrigðum og í mörgum flokkum eftir blómgerð og uppruna. Þeim þykir gott að standa lengi á sama stað. Yfirleitt mjög harðgerðar og fjölga sér mikið með tímanum. Páskaliljur blómgast yfirleitt í lok maí og verða 40 til50 sentímetra háar. Til er fjöldi afbrigða en gul afbrigði þrífast best. Aðrar narsissur blómgast fyrr, jafnvel seint í mars eða byrjun apríl, til dæmis hin smágerða 'Tete-á-Tete‘ sem mikið er selt af í pottum um páskaleytið. Eftir blómgun má gróðursetja plöntuna eins og hún kemur fyrir í pottinum úti í garðinum og þar kemur hún upp og blómgast á hverju vori.

Í grískum goðsögum segir frá unglingnum Narkissos sem var heftur í álög sem ollu því að hann sat á árbakka bergnuminn af eigin spegilmynd í vatninu þar til hann breyttist í liljublómið sem síðan er við hann kennt og kallað narsissa.

Perlulilja. 10 til 20 sentímetrar á hæð. Blómin blá, perlulaga og í klösum. Náttúruleg heimkynni í Litlu-Asíu og Suður-Evrópu. Fara vel sem bryddingar með túlípönum og páskaliljum sem blómgast á svipuðum tíma og þær. Nokkuð viðkvæmar, þola illa raka og rask en þar sem vel fer um þær eflast þær með hverju ári.

Postulínslilja. Falleg jurt með lútandi, stórum fölbláum blómum sem eru saman í klasa. Þrífst best á sólríkum stað og blómgast í maí. Hæð um 15 sentímetrar. Upprunnin frá Líbanon og Litlu-Asíu.

Skrautlaukar. Nokkrar mismunandi tegundir af laukaættkvíslinni. Blómsveipurinn efst á lauflausum stöngli sem getur orðið allt að einn og hálfur metri að hæð, en er yfirleitt mun lægri. Skrautlaukar eru til í mörgum litum og oft með sérkennilega lagaða blómsveipi. Dafna best á sólríkum og skjólgóðum stað. Allir skrautlaukar þurfa frjóan og vel framræstan jarðveg, stórvöxnustu tegundirnar þurfa að fara um 20 til 25 sentímetra djúpt,en smágerðari tegundum nægir 10 sentímetra dýpi.

Skógarlilja. Nokkrar tegundir. Þolir nokkurn skugga. Blómin drjúpandi, gul, bleik, hvít og blá. Kýs vel framræstan og næringarríkan jarðveg. 50 til 60 sentímetrar á hæð.

Snæklukka. Blómin hvít með grænum blettum á enda blómblaðanna, klukkulaga og drjúpandi á stöngulendunum. 10 til 20 sentímetrar og ilmar lítillega. Þrífst í sól og hálfskugga, blómgast hér um miðjan maí og fram í júní. Náttúruleg heimkynni í Pýreneafjöllum. Þokkalega harðgerð.

Snæstjarna. Blómin stjörnulaga, blá með hvítri miðju. Til eru afbrigði með hvítum og bleikum blómum. Þrífst best í sól eða hálfskugga. Harðgerð og nægjusöm planta, 10 til 15 sentímetrar á hæð.

Stjörnulilja. Lágvaxin planta, 15 sentímetrar á hæð. Blómin blá eða hvít og eilítið drjúpandi. Harðgerð og þurftalítil, fjölgar sér hjálparlaust og er fljót að mynda breiður ef hún fær að vera í friði fyrir lújárni og illgresishreinsun. Þrífst best á sólríkum stað.

Sverðliljur. Mörg yrki í ræktun. Blómin stór, til í mörgum litum. Sverðliljur mynda bæði jarðstöngla og lauka. 40 til 70 sentímetra háar.

Túlípanar. Eru til í mörgum stærðum, gerðum og litum, bæði einlitir og marglitir. Einfaldir og fylltir. Nafnið túlípani er dregið af orðinu turban, en það er algengt höfuðfat karlmanna í Tyrklandi og víðar.

Vetrargosi. Harðgerðir og með fyrstu laukunum sem koma upp á vorin. Fjölga sér mikið svo að hægt er að skipta þeim upp á nokkurra ára fresti. Vetrargosar eru hvítir á litinn og verða 10 til 20 sentímetra háir. Skuggþolnir og fallegt að planta þeim í beð milli trjáa og runna.

Vorboði. Blómgast gulum blómum eldsnemma á vorin, jafnvel í febrúar eða snemma í mars. Mjög harðger og á það til að þroska fræ og fjölga sér með sáningu. Tegundin er af Sóleyjaætt og myndar forðahnýði, sem svo yfirvetra til að blómgast seinni hluta vetrar eða snemma vors. Hnýðin er fremur smágerð og því gróðursett grunnt, 5 til 7 sentímetra.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...