Þurrkskemmdir á trjám að vori
Um þetta leyti á vorin fer oft að bera á skemmdum á trjágróðri sem við fyrstu sýn gæti alveg eins verið af völdum sjúkdóma eða meindýra.
Þegar betur er að gáð eru þessar skemmdir ekki jafndreifðar á trjánum heldur eru þær verri á þeim hluta trjánna sem stendur á móti ríkjandi vindátt, á móti sól eða á þeim hluta sem staðið hefur upp úr snjó um veturinn.
Þetta bendir til þess að orsökin sé ekki af völdum meindýra eða sjúkdóma, heldur tengist frekar veðurfari eða öðrum umhverfisaðstæðum. Þurrkskemmdir að vori eru nokkuð algengar hérlendis, sérstaklega á þeim árum þegar mikið er um lægðir yfir vetrartímann og salt frá sjó fýkur yfir landið.
Furur eru sérstaklega viðkvæmar fyrir þessum skemmdum en þó geta ýmis önnur barr- og lauftré skemmst. Skemmdir af þessum toga stafa af samspili vinds, aukinni sólargeislun og breytilegu hitastigi á meðan frost er enn þá í jörðu. Á veturna er alltaf örlítil öndun til staðar hjá barrtrjám þó að plantan sé í dvala og þá gufar vatn upp úr nálunum í litlu magni. Aukinn vindur og hærra hitastig í umhverfinu eykur uppgufun vatns úr nálunum. Við þessar aðstæður þorna trén hratt upp og á meðan frost er enn í jörðu ná þau ekki vatni úr jarðveginum til þess að leiða upp í nálarnar sem veldur þurrki. Þar að auki getur ákoma salts með vindi frá sjó aukið á skaðann. Saltið sest á nálar trjánna, dregur í sig vatn og þurrkar nálarnar upp. Saltákoma eykur því uppgufun vatns enn fremur úr nálunum og veldur meiri þurrki. Á barrtrjám gulna nálarnar og verða á endanum rauðar. Skemmdir á lauftrjám lýsa sér aftur á móti þannig að jaðarinn á laufunum dökknar og sölnar.
Afleiðingar þessara skemmda geta verið mismunandi, allt frá minni háttar skaða á litlum greinum og brumum upp í stóran greinadauða eða jafnvel trjádauða. Vanalega er ekki hægt að vera viss um hversu alvarlegar skemmdirnar eru fyrr en þegar líður á sumarið. Þá er hægt að sjá hvaða hlutar verða grænir og eru lifandi. Ræktendur geta ekki mikið gert til að sporna við þessu eftir að skemmdir koma fram. Ekki er mælt með að fjarlægja brúnar greinar eða plöntur strax, þar sem þær jafna sig oftast seinna meir ef brum eru óskemmd. Ef tíminn leiðir í ljós að greinar eða toppar eru dauðir gæti hugsanlega hjálpað plöntunni að fjarlægja þá hluta af henni.
Til að draga úr líkum á skemmdum af þessum toga er hægt að huga vel að gróðursetningarstað og vali á trjátegund. Sumar trjátegundir þola þurrkskemmdir betur en aðrar, t.d. sitkagreni og blágreni. Ef þekkt er að trjátegund sé viðkvæm fyrir þurrkskemmdum að vetri er betra að forðast að gróðursetja þá tegund á berangur og svæði þar sem vindhraði getur orðið mikill og ef saltákoma er líkleg. Í görðum og þéttbýli er hægt að útbúa skjól gegn vindi fyrir stök tré og einnig getur hjálpað til að vökva vel að hausti á meðan jörð er ófrosin.