Eitt af lífgasverunum á Indlandi.
Eitt af lífgasverunum á Indlandi.
Mynd / Biogas-India.
Á faglegum nótum 12. nóvember 2025

Stefna á að knýja bíla á skít frá kúm!

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Indland, sem er fjölmennasta land í heimi með um 1,5 milljarða íbúa, er háð gríðarlega miklum innflutningi á eldsneyti, enda þótt landið sé sjálft í olíuframleiðslu þá stendur hún einungis undir um 10–15% af árlegri þörf landsins fyrir eldsneyti. Þessi staða er auðvitað ekki ákjósanleg til lengri tíma litið, enda er landið háð öðrum löndum hvað þetta varðar eins og gefur að skilja. Því er nú töluverðum krafti varið í það að finna lausnir sem byggja á því að framleiða eldsneyti á Indlandi, hvort heldur sem er með rafmagni eða öðrum hætti. 

Í fylkinu Uttar Pradesh á NorðurIndlandi er nú verið að vinna að einkar áhugaverðu verkefni til þess að draga úr þörf landsins fyrir innflutta orkugjafa, en það er að nota skít frá kúm til þess að framleiða lífgas (einnig þekkt sem hauggas) sem svo mun knýja áfram bíla og önnur farartæki!

Lífgas er hægt að nota beint til brennslu, m.a. til eldamennsku. Mynd: Snorri Sigurðsson.
Lífgas úr skít

Lífgasframleiðsla er í raun frekar einföld og byggir á því að örverur brjóta niður lífræn efni úr skítnum við loftfirrtar aðstæður. Við þessa iðju örveranna myndast ýmsar lofttegundir og úr verður blanda af lofttegundum þar sem lífmetan er oftast í mestu magni og svo koltvíoxíð þar á eftir. Hvert hlutfall hverrar lofttegundar í gasblöndunni er, fer eftir efnasamsetningu þess lífræna efnisins sem brotið er niður hverju sinni en algengt er að sjá tölur um metan á bilinu 50–70% og koltvíoxíð á bilinu 30–50%. Aðrar lofttegundir eru í miklum minnihluta.

Nýting lífgass

Lífgasið sjálft má nota með margs konar hætti, t.d. til beinnar brennslu og er það oft notað við orkuframleiðslu, þ.e. til þess að knýja áfram gasknúna rafala eða hreinlega til eldamennsku. Ef nota á lífgasið sem grunn að eldsneyti fyrir bifreiðar þarf aftur á móti að hreinsa það, þ.e. fjarlægja úr því þorrann af öðrum gastegundum en metani og eftir slíka hreinsun er talað um metanið sem lífmetan til þess að skilgreina það frá metani sem verður til við vinnslu á olíu. Þessi ferill, hreinsun lífgass, er þegar þekktur hér á landi, en hjá urðunarstöðinni í Álfsnesi fer slíkt ferli fram þar sem metanið er skilið frá öðrum lofttegundum með vatni. Metanið er svo þurrkað og síðan er því þjappað á gaskúta. Eftir svona hreinsun lífgass er hlutfall lífmetansins hærra en 90% og oft hartnær 98%.

Jákvæð umhverfisáhrif

Framleiðsla á lífgasi felur í sér margs konar jákvæð umhverfisáhrif þar sem úr því fæst eldsneyti sem er í raun endurunnið og kemur í stað jarðefnaeldsneytis. Þess utan dregur framleiðslan á lífgasi úr uppgufun skaðlegra gróðurhúsalofttegunda frá haughúsum og mykjugeymslum. Til viðbótar verður skíturinn, eftir framleiðslu á lífgasi, almennt betri áburður því hann inniheldur hærri styrk næringarefna sem eru aðgengileg plöntum.

Heimagerð lífgasver eru afar algeng víða um heim, hér sést efsti hluti eins þeirra og gasslangan frá því sem lá beint inn í eldavélina í eldhúsinu. Mynd: Snorri Sigurðsson.
Heimagert lífgas

Eins og áður segir er löng hefð fyrir því á Indlandi og auðvitað mörgum öðrum löndum að vera með litla heimavinnslu til framleiðslu á lífgasi til eigin nota. Þar sem lífgasið er „óhreint“, þ.e. inniheldur blöndu af efnum, er það líklega einungis notað til brennslu. Hér er að líkindum algengast að nota það við eldamennsku eða einhvers konar framleiðslu sem krefst upphitunar. Þessi lífgasframleiðslukerfi eru ofureinföld, oft einungis 1–3 rúmmetrar að stærð, og með framleiðslu upp á nokkra tugi lítra af lífgasi á degi hverjum og upp í nokkur hundruð lítra af gasi. Þetta magn af gasi uppfyllir þarfir hefðbundinna fjölskyldna fyrir gas til eldamennsku.

Rúmlega tvöfalt stærra en Ísland

Það kann að vera að fylkið Uttar Pradesh sé ekki mörgum lesendum Bændablaðsins kunnugt en fylkið nær upp að Nepal í norðri og er 243 þúsund ferkílómetrar að stærð, eða vel rúmlega tvöfalt stærra en Ísland. Þá búa þar rúmlega 240 milljón manns, svo landið er hraustlega þéttbýlt. Það er þó ekki mannfjöldinn sem er einungis mikilfenglegur í Uttar Pradesh heldur eru tölur um fjölda kúa þar einnig áhugaverðar, en talið er að nærri 7 milljón kýr séu í þessu eina fylki og er það langstærsta mjólkurframleiðslusvæði landsins.

Helgar kýr

Allstór hluti þeirra kúa sem eru í Uttar Pradesh valsa um fylkið sem hluti af hinum helgu kúm og er talið að rúmlega 1 milljón kýr séu í raun vandalausar í fylkinu. Sú staða er auðvitað sérstök og einstæð og fylgja því margs konar áskoranir fyrir fylkið, m.a. skítur þessara kúa. Hann fellur eðlilega til ansi víða og þar sem slíkt gerist á götum og gangstéttum er skíturinn fjarlægður af þar til bærum starfsmönnum. Þessum skít er svo oftar en ekki safnað saman og nemur magnið hundruðum tonna á degi hverjum! Til þess að nýta skítinn til gagns var því farið af stað með það að vinna lífgas úr honum, enda löng hefð fyrir gasframleiðslu úr skít á Indlandi eins og í mörgum öðrum löndum, eins og áður hefur komið fram. 

Gasvinnsla Uttar Pradesh

Sem hluta af því að efla starfsemi og tekjuflæði í dreifbýli fylkisins Uttar Pradesh hafa yfirvöld þar sett af stað hið áhugaverða verkefni að vinna gas úr skít, bæði þeim sem berst frá sjálfala kúm en einnig bændum fylkisins. Nú þegar hafa gasver tekið til starfa í fylkinu en stefnt er að því að byggja upp 15 slík gasver fyrir árið 2027 og nemur heildarfjárfestingin í þessu verkefni rúmum 11 milljörðum íslenskra króna. Samkvæmt fréttatilkynningu frá Uttar Pradesh benda tölur þeirra til þess að árlegt magn af skít frá hverri kú dugi til framleiðslu á lífmetani sem svari til 225 lítra af bensíni. Það magn segja þarlend yfirvöld að eigi að knýja bifreið áfram um 5.500 kílómetra án þess að valda nokkurri mengun! Þess má reyndar geta að svo það dæmi gangi beint upp má eyðsla bifreiðarinnar ekki vera nema 4,1 lítri á hundraðið svo hér er klárlega miðað við eyðslugrannt ökutæki. Hvað sem þessum útreikningum líður þá er dagljóst að þetta er áhugaverð leið fyrir þjóðir sem vilja stefna á aukna sjálfbærni þegar kemur að orkugjöfum og þeim sem vilja draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti.

Skylt efni: lífgas

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...