Smitvarnir eru alltaf forgangsmál
Samhliða stækkandi bústærð kúabúa á Íslandi þurfa bændur að auka áherslur á smitvarnir búa sinna, enda er einn alvarlegasti vandi sem hvert bú tekst á við sjúkdómar með einum eða öðrum hætti.
Hér á landi eru sem betur fer ekki margir smitandi sjúkdómar og mun færri en t.d. þekkist víða erlendis, en af þeim sjúkdómum sem helst herja á kúabú hér er júgurbólga helsti skaðvaldurinn og töluverður hluti hennar kemur til vegna beinna smita innan búa og/eða milli búa. Aðrir sjúkdómar, eins og t.d. smitandi skita svo dæmi sé tekið, koma einnig reglulega upp, en með því að huga vel að smitvörnum má draga verulega úr líkum á áföllum.
Smitvarnir eru flóknar
Þegar horft er til smitvarna er mikilvægt að bæði horfa til varna utan bús, þ.e. að koma í veg fyrir að smit berist inn á búið, sem og innan bús, þ.e. að minnka líkur á því að smit dreifist innan bús. En auk þess er hluti smitvarna að draga úr líkum á því að smit berist frá viðkomandi búi og yfir á önnur bú. Þannig má með sanni segja að smitvarnir séu töluvert flóknar og smitleiðirnar eru í raun ótal margar. Þannig getur smit borist inn á bú með farartækjum, fólki, búfé eða jafnvel villtum dýrum. Þá eru þekkt dæmi, líklega helst erlendis, um loftborin smit svo sem þekkt er með gin- og klaufaveiki.
Varnir miðað við ástæður
Í dag er mælt með því að kúabú setji upp áhættumat innan og utan bús, þ.e. að bændur velti fyrir sér hvaða smit séu líkleg til að geta komið upp á viðkomandi búi og/eða í viðkomandi héraði og gera ráðstafanir í takt við þá áhættu sem er til staðar. Það er t.d. óþarfi að gera óheyrilegar kröfur til smitvarna, svo sem að skylda alla gesti í sturtu og að skipta um föt, sé smitálagið á svæðinu í lágmarki, en á sama tíma þó full ástæða til þess að vera með áætlun um það hvernig unnt sé að bregðast við ef upp kemur t.d. smitandi sjúkdómur á næsta bæ eða í nágrenni viðkomandi kúabús.
Þrepin þrjú
Þrepin þrjú. Ef bændur ætla að ná góðum tökum á smitvörnum búa sinna er mikilvægt að nálgast verkefnið á skipulegan hátt, svo ná megi hámarks árangri. Þegar þetta er skoðað í þaula á hverju búi er almennt mælt með því að meta stöðuna með þriggja þrepa kerfi:
1. Áhættumat. Framkvæma áhættumat á búinu svo sem hvaða smit það eru sem helst þarf að verja sig gegn. Hér þekkir auðvitað hver bóndi sitt bú og heimahérað best og best er að skrifa niður helstu sjúkdóma sem komið hafa upp á búinu eða í héraðinu undanfarin ár. Dæmi um svona sjúkdóma eru t.d. veiruskita og algengasta júgurbólgutegundin á Íslandi, sem er af völdum sýkilsins Staphylococcus Aureus (hér eftir nefnd SA júgurbólga). Ýmsa fleiri sjúkdóma mætti nefna en þetta áhættumat þarf s.s. hver og einn kúabóndi að gera fyrir sitt bú, svo unnt sé að gera raunhæfa smitvarnaráætlun. Afar gott getur verið að gera svona áhættumat út frá PCR greiningum á tanksýnum þar sem slík sýni gefa afar góða mynd af smitstöðu viðkomandi bús.
2. Smitleiðir. Þegar áhættumatið hefur verið gert er næst að skrá niður þær smitleiðir sem eru þekktar fyrir þá sjúkdóma sem skráðir voru niður við gerð áhættumatsins. Ef við höldum áfram með framangreinda tvo sjúkdóma væri þetta gert þannig:
Veiruskita: þar sem þetta er bráðsmitandi sjúkdómur í nautgripum af völdum nautgripakórónuveirunnar BovCoV þarf að þekkja smitleiðir þessa hvimleiða víruss. Þekkt er að sjúkdómurinn smitast innan bús með skít og slími frá nösum og á milli búa berst vírusinn næsta auðveldlega með fólki, dýrum og farartækjum og fleira mætti tína til. Hér má ætla að helsta smitleiðin inn á búið sé aðallega með þjónustuaðilum og farartækjum þeirra sem oft eru á ferðinni á milli búa svo sem viðgerðar- og viðhaldsaðilum, dýralæknum, frjótæknum, mjólkurbílstjórum, bílstjórum gripabíla o.s.frv.
SA júgurbólga: júgurbólgusmit hegða sér mismunandi og eru mjög mis-smitandi á milli gripa. Þessi tegund júgurbólgu, sem kemur til vegna ágangs bakteríunnar Staphylococcus Aureus, hefur nokkrar þekktar smitleiðir og sú algengasta er líklega með höndum, tækjabúnaði eða t.d. innréttingum sem spenaendar geta komist í snertingu við.

3. Aðgerðaáætlun. Lokaskrefið er að gera eitthvað í málinu! Með öðrum orðum, að innleiða áætlanir sem taka á augljósum smitleiðum þeirra sjúkdóma sem hafa verið metnir í þrepi 1 sem áhættuþættir og með niðurstöður í þrepi 2 að leiðarljósi, þ.e. hvernig má stöðva þekktar smitleiðir. Auðvitað mætti hér hreinlega leggja til að taka á öllum þekktum smitleiðum helstu sjúkdóma landsins, eins og gert var áður fyrr og mælt með, en það er nokkuð umfangsmikil aðgerð ef t.d. PCR greining sýnir að ákveðnar gerðir af bakteríum er hreinlega ekki vandamál á búinu. Með dæmið hér að ofan í huga, þar sem ofangreindir 2 sjúkdómar hafa verið teknir sérstaklega fyrir, mætti sjá fyrir sér eftirfarandi aðgerðir:
Veiruskita: Til þess að draga úr líkum á að hún berist inn á búið þarf að brjóta upp smitleiðirnar utan frá. Þetta er best gert með því að horfa til farartækjanna sem koma inn á búið, tryggja að t.d. akstursleiðir þeirra séu sem mest einangraðar og fari ekki þvert á t.d. akstursleiðir innan bús. Þetta getur verið nokkuð vandasamt verk í framkvæmd og einnig að ná yfirsýn yfir allar akstursleiðir, enda væri hægt að sjá fyrir sér að sama daginn komi farartæki dýralæknis og frjótæknis auk fóðurbíls, sláturbíls og þjónustubíls inn á búið! Þetta eru allt aðilar sem líklega hafa skömmu áður verið á öðru kúabúi og geta hæglega flutt með sér smit. Sumar akstursleiðir þessara farartækja liggja væntanlega að framhlið fjóss, þ.e. að þjónustuinngangi eða mjólkurhúsi en aðrar líklega að bakhlið eða langhlið fjóss þar sem oftar en ekki er dælt inn fóðri í síló eða gripir fluttir á sláturbíl. Best er að teikna upp búið, eða nota loftmynd, og draga hreinlega upp aksturslínur þessara aðila, auk t.d. aksturslína fyrir verktaka í klaufskurði eða haugkeyrslu svo dæmi sé tekið. Bæta svo við þekktum vinnuleiðum innan búsins og gera sitt besta til þess að búa svo um hnútana að fæstar aksturslínur skerist. Væntanlega er algjörlega ómögulegt að komast 100% í veg fyrir skörun aksturleiða en með góðu skipulagi má draga verulega úr þessari mögulegu smitleið.
Síðan á auðvitað að gera kröfu til þeirra sem koma inn á búið að vera á hreinum ökutækjum til að minnka frekar líkur á smitburði. Svo er það væntanlega í dag sjálfsögð krafa og harla eðlileg að fara fram á það að þeir aðilar sem þurfa að fara inn í byggingar búsins fari í hlífðarfatnað og skó frá viðkomandi búi. Allir ættu að eiga nokkra umganga af stígvélum og göllum, svo enginn þjónustuaðili þurfi að nota eigin fatnað frá einu búi til annars. Sumir þjónustuaðilar sjá sjálfir um þennan þátt og sótthreinsa t.d. stígvél við lok og upphaf hverrar heimsóknar, skipta um galla við hverja heimsókn o.s.frv. Það er hið besta mál og í slíkum tilvikum mætti athuga að krefjast þess ekki að viðkomandi fari í föt og skóbúnað frá viðkomandi búi. Þó er það alltaf ákvörðun hvers bónda og ef hann/hún vill heldur að einungis sé notaður hlífðarfatnaður viðkomandi bús þá er það auðvitað sjálfsagt mál hvers þjónustuaðila að skipta um föt enda réttur búsins að setja eins strangar kröfur og viðkomandi bóndi vill.
SA júgurbólga: Til þess að bregðast við bakteríunni sem veldur þessari tegund júgurbólgu þarf að brjóta upp smitleiðir hennar með því að sótthreinsa reglulega þá staði sem fundust í þrepi 2 eftir því sem við á. Hér mætti t.d. nefna mjaltaþjónaarm, hlífðarhús spenagreiningabúnaðar mjaltaþjóns, spenagúmmí og -hylki, mjaltaslöngur, hendur, júgurklúta o.fl. Einnig þarf að skoða vel hvernig megi koma í veg fyrir að smit berist úr einum spena yfir í annan á sömu kú. Hér koma til þættir eins og sótthreinsun á búnaði, spenadýfunotkun, meðhöndlun júgurklúts við þvott, handhreinsun við hreytingu o.fl.
Ekki smita aðra
Eitt af mikilvægustu atriðunum þegar kemur að smitvörnum er að sýna ábyrgð og ef það kemur upp smit á búinu sem gæti verið smitandi yfir á önnur bú er um að gera að láta vita strax, svo önnur bú geti hert sínar ráðstafanir til þess að reyna að koma í veg fyrir að smit berist inn á búin.