Ormasýkingar í hrossum og varnir gegn þeim
Hross lifa samlífi við sníkjudýr í beitilandinu. Öll hross eru því með orma, alltaf, enda engin meðhöndlun til sem útrýmir þeim að fullu.
Við náttúrulegar aðstæður ríkir að mestu ásættanlegt jafnvægi milli sníkjudýra og hýsils. Sníkjudýr eru alla jafna vel aðlöguð að hýsli sínum og náttúrufari á hverju svæði, vita til dæmis hvaða árstíð er og hvenær er von á sumrinu. Ýmsir þættir geta þó raskað jafnvæginu og þar með aukið hættuna á ormaveiki.
Mikilvægt er að fyrirbyggja að ormasmit magnist upp í umhverfi hrossa, einkum með hóflegu beitarálagi, beitarskiptum og hreinlæti. Nauðsynlegt getur verið að nota ormalyf til að ná því markmiði.
Sníkjudýr eru þeirrar náttúru, líkt og aðrir sýklar, að mynda mótstöðu gegn lyfjum sem að þeim beinast. Til að draga úr þeirri hættu er skylt að halda notkun ormalyfja í lágmarki. Áður en ákvörðun er tekin um lyfjanotkun þarf að meta aðstæður á hverjum stað, svo sem beitarálag (landgæði og fjölda hrossa), aldurssamsetningu hrossahópa, holdafar, tíðarfar og árstíma.
Á Íslandi hafa fundist rúmlega 30 tegundir þráðorma (nematodes) og ein tegund bandorma (cestodes) sem smita hross. Hér verður fjallað um þær ormategundir sem helst geta reynst hættulegar hrossum.
Dreyraormar
Litlir dreyraormar (Cyathostoma spp.) er samheiti yfir algengustu ormategundirnar í fullorðnum hrossum hér á landi. Ormarnir eru um 2,5 cm að lengd, rauðleitir, þunnir, og sýkja hross á öllum aldri. Egg þeirra berast í beitilandið með hrossaskít þar sem þau klekjast út og lirfurnar ganga í gegnum þrjú þroskastig. Hross smitast við að éta 3. stigs lirfur (smithæfar) sem svo þroskast í meltingafærum þeirra í fullvaxta orma. Sú þróun felur í sér dvalastig í víðgirni og við mikið smitálag geta lirfurnar skaðað slímhúðina, einkum á leið þeirra í eða úr dvala. Einkenni þess eru slappleiki, niðurgangur, hiti, hrossasóttareinkenni og þyngdartap. Fullvaxta ormar eru alla jafna taldir skaðlitlir, og eru til staðar í hrossum frá 10-16 vikna aldri.
Stórir dreyraormar (Strongylus spp.) eru líka þekktir í hrossum hér á landi, en eru ekki eins útbreiddir og aðeins til staðar í sumum stóðum. Sérstaklega ein tegund þessara orma, Strongylus vulgaris (stundum kallaður blóðormur), getur valdið alvarlegum sjúkdómi. Eftir að hestur étur smithæfar lirfur ferðast þær í gegnum æðar í þarmahenginu og víðar, en snúa til baka sem fullorðnir ormar og taka sér bólfestu í víðgirninu. Á ferð lirfanna um æðakerfið geta þær valdið blóðtappa og drepi víðsvegar um líkamann, en algengast er að þær valdi drepi í þörmum. Áður en ormalyf komu til sögunnar voru sjúkdómar vegna þessarar tegundar algengir, en sjúkdómstilfellum hefur fækkað verulega í seinni tíð. Lífsferill stóru dreyraormanna er allt að 11 mánaða langur. Þar sem ormalyf vinna aðeins á fullorðnum ormum og virkum lirfum í meltingarvegi er gagnslaust að meðhöndla fyrr en allt að ári eftir ætlað smit, sé ætlunin að koma í veg fyrir að stórir dreyraormar berist með t.d. stóðmerum og folöldum úr stóðhestahólfum eða frá sæðingastöðvum í heimahaga.
Fyrirbyggjandi aðgerðir: Aðeins um 20% hrossa skilja út 80% þeirra eggja sem smita beitiland. Sum hross skilja nánast ekki út egg, þó þau séu vissulega smituð af ormum. Útskilnaður dreyraormaeggja er í algjöru lágmarki yfir vetrarmánuðina, en hækkar jafnt og þétt frá maí/júní og lækkar svo þegar hausta tekur. Mest er af smithæfum lirfum í beitilandinu frá ágúst-október, en smitið getur þó verið breytilegt eftir veðurfari. Egg og lirfur dreyraorma nýta skítahrúgurnar til að verjast veðrum og vindum, og stór hluti eggja og lirfa á 1. og 2. þroskastigi, lifir af íslenskan vetur. Því er ráðlagt að slóðadraga beitarhólf á haustin, svo sem flestar lirfur drepist yfir vetrartímann. Hross sem hafa aðgang að rúmu landi bíta ekki í kringum skítahrúgur, en hættan á því eykst við randbeitingu og í sveltihólfum. Fullorðin, heilbrigð hross geta haldið ormasmitinu niðri, en í áhættuhópi eru folöld, ung hross, gömul hross, hross sem hafa veikst nýlega og hross með ónæmisbælingu (td hross með efnaskiptasjúkdómana PPID og EMS).
Lirfurnar verða smithæfar að sumrinu (þurfa þær 10°C hita til að ná því þroskastigi) og lifa eftir það aðeins í takmarkaðan tíma utan hýsils. Sumarfriðað land hreinsast því að miklu leyti af virku dreyraormasmiti og slíkt land hentar best til haust- og vetrarbeitar. Skiptibeit með sauðfé og nautgripum hefur sömu áhrif þar sem ormarnir eru sérhæfðir fyrir hverja dýrategund.
Lyfjameðferð: Mest áhersla ætti að vera á meðhöndlun að vori eða snemmsumars, gjarnan í tengslum við beitarskipti. Ekkert ormalyf nær til lítilla dreyraorma í dvala og meðhöndlun að vetri hefur því lítið uppá sig, nema hjá folöldum, þar sem hýsill og sníkjudýr hafa ekki náð jafnvægi og ekki er hægt að treysta á að ormarnir séu í dvala.
Folöld geta verið komin með fullorðna dreyraorma 10-16 vikna gömul og því getur verið ástæða til meðhöndlunar á þeim aldri. Einnig er þörf á meðhöndlun þegar folöld eru vanin undan því hverskonar stress getur valdið því að ormarnir vakni úr dvala. Aftur þarf að meðhöndla ársgömul trippi til að ná stórum dreyraormum og næstu bylgju lítilla dreyraorma. Sömuleiðis er alla jafna þörf á að meðhöndla tveggja til þriggja vetra trippi að vorinu.
Óþarfi er að meðhöndla fullorðin, heilbrigð hross á besta aldri nema til að minnka útskilnað eggja tímabundið og draga þannig úr ormasmiti í beitilandinu. Meðhöndlun á hryssum við komu á sæðingastöð eða í stóðhestahólf er með sama hætti til þess fallin að draga úr smitálaginu, ekki síst á folöldin. Hafa ber í huga að hvers kyns fyrirbyggjandi meðferðir bera með sér hættu á ofnotkun og lyfjaónæmi. Því þarf að meta þörfina á hverjum stað fyrir sig, miðað við aðstæður, svo sem þéttleika og umfang starfseminnar.
Litlir dreyraormar hafa myndað umtalsvert ónæmi gegn tilteknum ormalyfjum (einkum fenbendazol). Dýralæknar gefa nánari leiðbeiningar um lyfjaval og meðhöndlun sem hentar búskaparlagi á hverjum stað fyrir sig.
Hrossaspóluormurinn
Hrossaspóluormurinn (Parascaris spp.) finnst nánast eingöngu í folöldum upp að 6-10 mánaða aldri, þar sem hross mynda fljótt ónæmi gegn orminum. Undantekning eru ónæmisbæld hross, sem eru í áhættuhópi hvað varðar allar tegundir ormasýkinga (gömul hross og EMS/PPID). Ormarnir geta orðið 20-30 cm langir og skilja út egg allan ársins hring. Þegar folöld innbyrða eggin klekjast þau út innvortis og lirfurnar ferðast úr þörmunum í gegnum lifur, hjarta og lungu. Folöldin hósta lirfunum svo upp í kokið og kyngja þeim aftur sem veitir ormunum tækifæri til að setjast að í mjógirni. Fullvaxta ormar eru til staðar frá 12-18 vikna aldri. Ormurinn getur valdið vanþrifum, og í sjaldgæfum tilfellum getur mikil ormabyrði valdið stíflum jafnvel svo miklum að mjógörnin rifnar.
Fyrirbyggjandi aðgerðir: Egg spóluormsins eru einstaklega harðgerð og geta lifað lengi í umhverfi hrossanna. Hætta er á að þau magnist upp í hesthúsum og öðru manngerðu umhverfi. Folöld sem haldin eru á húsi eru því í meiri áhættu en þau sem ganga úti sem kallar á góð þrif og hreinlæti, þ.m.t. hreingerningar á hesthúsum og hreinsun á skít úr gerðum. Sömuleiðis er smithætta í beitarhólfum, ekki síst í stóðhestagirðingum og á sæðingastöðvum í réttu hlutfalli við þéttleika og beitarálag.
Ónæmi hrossaspóluormsins gegn lyfjum sem innihalda ivermectin er þekkt á heimsvísu, og hefur sömuleiðs verið staðfest á Íslandi. Yfirleitt er nægjanlegt að meðhöndla folöld við þessari ormategund við 2-4 mánaða aldurinn, en við mikið smitálag gæti þurft að endurtaka meðferðina við 6 mánaða aldur.
Hrossabandormurinn
Hrossabandormurinn (Anoplocephala perfoliata) er til staðar í sumum stóðum, en bandormurinn þarf millihýsil til að sýkja hross og er talið að hann sé helst til staðar í votlendi. Rannsóknir hérlendis hafa sýnt að bandormar eru til staðar hjá rúmlega helmingi hrossa (gögn úr sláturhúsum). Hrossin smitast að vori, og fullorðnir bandormar eru til staðar að hausti. Hross mynda ekki þol gegn bandorminum með aldrinum. Bandormurinn veldur sjaldnast alvarlegum sjúkdómseinkennum nema sýkingin sé stórfelld. Þá getur hún valdið vanþrifnaði og/eða hrossasóttareinkennum. Hafa ber þennan möguleika í huga við framgreind einkenni en greiningin getur verið erfið þar sem bandormar skilja ekki út egg með reglubundnum hætti. Einu lyfjategundirnar á markaði sem virka eru praziquantel, eða pyrantel í tvöföldum skammti. Kerfisbundin lyfjagjöf er alla jafna óþörf.
Einstaklingsmeðhöndlun eða hjarðmeðhöndlun?
Í nágrannalöndunum hefur það færst í aukana að beitt sé einstaklingsmeðferð fremur en hópmeðhöndlun. Helsta ástæðan er viðleitni til að draga úr lyfjaónæmi. Ef öll hross eru meðhöndluð samtímis drepast þeir ormar sem lyfin virka á, en ormar með ónæmi eru settir á og verða ríkjandi í næstu kynslóð. Eins og fram hefur komið skilur einungis lítill hluti hrossa í hverju stóði út bróðurpartinn af þeim eggjum sem menga beitilandið. Því ætti að vera óþarfi að meðhöndla alla hjörðina. Eina leiðin til að vita með vissu hvaða hross þurfa meðhöndlun er að taka saursýni úr öllum einstaklingum hjarðarinnar til eggjatalningar, en sú leið kostar bæði fé og fyrirhöfn. Í hjarðbúskap sem tíðkast víða hér á landi, er þessi leið nánast óvinnandi verkefni. Þó er hægt að taka stöku saursýni til að kanna hvaða ormar eru til staðar í hjörðinni, og jafnvel hvaða ormalyf virka með því að taka sýni fyrir og eftir meðferð.
Hnitmiðuð áætlun þar sem hross í áhættuhópi eru meðhöndluð í samráði við þjónustudýralækni samhliða öðrum fyrirbyggjandi aðgerðum, er því skynsamlegasta leiðin, bæði út frá heilsu og velferð hrossa og til að verjast frekara ónæmi gegn ormalyfjum.

*Lyfjameðferð skal ævinlega ákveðin í samráði við þjónustudýralækni
**Íhuga aflífun á mjög gömlum og/eða krónískt veikum hrossum
Höfundar veita upplýsingar um heimildir ef óskað er.