Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Norrænar leiðbeiningar um meðhöndlun júgurbólgu
Mynd / HKr.
Á faglegum nótum 22. febrúar 2019

Norrænar leiðbeiningar um meðhöndlun júgurbólgu

Höfundur: Snorri Sigurðsson, snsig@arlafoods.com
Á vegum afurðastöðva í mjólkur­iðnaði á Norðurlöndunum er starf­ræktur sérstakur sam­starfs­­­vettvangur varðandi mjólk­ur­­gæðamál sem kallast NMSM (Nordiske meieri­organisasjoners sam- rbeidsutvalg for mjølkekvalitets­arbeid). Eitt af lykilhlutverkum NMSM er að brúa bilið á milli Norðurlandanna og tengja saman þekkingarbrunna land­anna svo ekki sé verið að vinna tvöfalda vinnu, þ.e. NMSM reynir að samnýta eins og hægt er fagfólkið á Norðurlöndunum. 
 
Á vegum þessa samstarfs­vettvangs eru starfræktir þrír vinnuhópar á mismunandi sviðum og sitja fulltrúar SAM (Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði á Íslandi) í öllum vinnuhópunum. Tilgangur þeirra er að fjalla um ýmis sameiginleg málefni Norðurlandanna sem varða gæði mjólkur. Einn vinnuhópurinn sér um svokölluð tæknileg málefni og sér m.a. um að halda utan um tölfræði þróunar á mjaltaþjónatækninni. Þá sér annar hópur um þau atriði sem snúa að gæðamati mjólkur og söfnun á tölfræði sem snýr að gæðaþáttunum. Sá þriðji fjallar um heilbrigði dýra og heldur utan um þau málefni sem tengjast heilsufari og
mjólkurgæðum. 
 
Sameiginlegar leiðbeiningar
 
Vinnuhópurinn um heilbrigði dýra hefur að sjálfsögðu lagt áherslu á málefni sem lúta að júgurbólgu í kúm og í vinnuhópnum sitja helstu sérfræðingar Norðurlandanna í júgurbólgufræðum. Þessi vinnuhópur NMSM hefur m.a. staðið fyrir ráðstefnum og vinnufundum undanfarna áratugi en einnig séð um útgáfu á sameiginlegu leiðbeiningarefni, m.a. gefið út leiðbeiningar um meðhöndlun á júgurbólgu (Nordic Guidelines for Mastitis Therapy). Þó svo að þessar leiðbeiningar hafi ekki verið endurútgefnar síðustu árin standa þær vel fyrir sínu en tilgangur þeirra er að draga eins og unnt er úr notkun sýklalyfja og minnka líkur á lyfjaónæmum sýklum:
 
Almenn stefna:
Aðeins bráðatilfelli sýnilegrar júgur­bólgu ætti að taka til skoðunar varðandi með­höndlun.
Almennt borgar sig ekki að meðhöndla dulda júgurbólgu á mjaltaskeiði bæði vegna þess að oft fjarar sýkingin út en einnig vegna slakra áhrifa lyfjameðhöndlunar á dulda júgurbólgu. *
Dulda júgurbólgu ætti þess í stað að meðhöndla í geldstöðu.
Við meðhöndlun skal horfa til takmarkandi notkunar cefalósporína og kínólóna 
* Ef verið er að meðhöndla hjörð með smitandi júgurbólgu (Streptococcus agalactiae) má víkja frá þessari almennu reglu.
 
Viðbrögð sem alltaf eiga við, óháð ákvörðun um meðferð:
 
Meta batahorfurnar
 • Ef til eru kvígur til endurnýjunar, ætti að meta það alvarlega hvort rétt sé að meðhöndla (t.d. ef margir júgurhlutar eru sýktir).
 • Alltaf ætti að reikna út kostnað við endurnýjun grips í samanburði við kostnað við meðhöndlun.
Sóttvarnaraðgerðir
 • Meta skal hvort einangra skuli gripinn vegna júgurbólgunnar ef hætta er talin á því að sýkillinn sé smitandi.
 • Að gelda upp þann júgurhluta sem er með langvarandi sýkingu er fær leið, að því gefnu að haft sé hugfast að það er ekki það sama og að setja í einangrun.
Finna smitvaldinn
 • Sýnataka er mikilvæg til þess að geta fylgst með júgurbólgumynstri hjarðarinnar.
 • Að láta rannsaka júgurbólgusýni hjá viðurkenndri rannsóknastofu er talið best.
 • Notkun á heimaræktunarbúnaði júgurbólgusýna gæti reynst mikilvæg ef lyfjagjöfin er aðlöguð að niðurstöðunum.
Viðbótaraðgerðir
 • Mjólkaðu kúna einu sinni til tvisvar sinnum aukalega á degi hverjum.
 • Kýr með júgurbólgu í lausa­göngufjósi ætti að setja í sjúkrastíu svo hlúð sé sem best að henni s.s. varðandi hreinlæti, aðgengi að vatni og fóðri.
 
Viðbótarmeðferð eftir þörfum
 • Gefa mjaltavaka (oxítósín) til þess að tæma vel mjólkurblöðrurnar.
 • Gefa vökva í æð eða með inntöku.
 • Gefa bólgueyðandi verkjalyf.
 
Dýravelferð
 • Kýr með júgurbólgutilfelli sem valda miklum sýnilegum sjúkdómseinkennum og  sársauka skal meðhöndla eins fljótt og hægt er með þeim lyfjum sem eru tiltæk í samráði við dýralækni.
 • Í þessum alvarlegu tilfellum ætti einnig að hafa, eftir því sem hægt er, hugfastar aðrar meginreglur sem hér hafa verið kynntar í þessum leiðbeiningum.
 
Eftirfylgni meðferðar

Mat á meðferðarárangri skal gert af dýralækni:

 • Ætti alltaf að vera gert innan 4–8 vikna.
 • Feli í sér útreikninga á langtímahorfum og mögulegum kostnaði við endurnýjun.
 • Feli einnig í sér ákvörðun um frekari smitvarnaraðgerðir.
 • Taki tillit til frumutölu, sýnilegra einkenna og ástandi dýrsins.
 • Ef þörf krefur, láta rækta sýni eða PCR greina af viðurkenndri rannsóknastofu.
 
Nauðsynleg sýklalyf vegna júgurbólgumeðhöndlunar á Norðurlöndum
 • Penicillin G.
 • Lyf gegn sýklum með lyfjaónæmi (Beta-lactamase. *
 • Sýklalyf sem er löglegt í viðkomandi Norðurlandi og virkar á gram-neikvæðar bakteríur.
* Ætti einungis að nota í alvarlegum tilfellum er varða dýravelferð
 
Norrænar heilbrigðisreglur fyrir kýr:
 
Eftirfarandi norrænar heilbrigðis­reglur hafa að markmiði að tryggja góða mjólk frá heilbrigðum kúm:
 • Vel hannaðir gagnagrunnar, þar sem skráðar eru bæði framleiðslu- og heilsufarsupplýsingar.
 • Fyrirbyggjandi heilbrigðis­þjónusta og ræktunar­stefna sem byggð er á framangreindum gagnagrunnum.
 • Rétt fjóshönnun og bústjórn sem miðar að bestu mögulegu velferð nautgripa.
 • Varleg notkun sýklalyfja, sótthreinsiefna og hormóna.
 • Umhyggja fyrir umhverfis­áhrifum og sanngjörnum markaðsreglum.
 • Algjört bann við notkun á vaxtarhvetjandi efnum.

 

Heimild: 
Landin ofl., 2011. Nordic guidelines for mastitis therapy. NMC Proceedings 2011.

5 myndir:

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...