Norrænir byggingarráðunautar hjá kúnni Eddu í Eyjafjarðarsveit.
Norrænir byggingarráðunautar hjá kúnni Eddu í Eyjafjarðarsveit.
Mynd / aðsendar
Á faglegum nótum 9. desember 2025

Nordisk Byggtreff 2025 á Íslandi

Höfundur: Anna Lóa Sveinsdóttir og Ditte Clausen, ráðgjafar hjá RML

Dagana 9.–11. september síðastliðinn var haldin ráðstefna norrænna byggingarráðunauta – Nordisk Byggtreff – á Múlabergi á Akureyri. Þema ráðstefnunnar var Endurnýting útihúsa, fjölbreyttur landbúnaður og voru fyrirlestrar og heimsóknir miðaðar að því. Saman komu 42 ráðunautar frá sex Norðurlöndum, þ.a. 38 erlendir. Ráðstefnan var skipulögð af Önnu Lóu, Ditte Clausen og Lindu Margréti, starfsmönnum RML. Þá kom Elise Calesse, nýr starfsmaður RML, með á ráðstefnuna og sá aðallega um ljósmyndunina.

Hefðbundið fyrirkomulag var á þessari ráðstefnu eins og öðrum slíkum, þ.e.a.s. fyrirlestrar fyrir hádegi og skoðunarferð með rútu um svæðið eftir hádegi.

Garðyrkjustöðin á Hveravöllum í Reykjahverfi. Páll Ólafsson tók á móti okkur og kynnti starfsemi stöðvarinnar. Þar náði hann m.a. að mana yngsta ráðunautinn, Arne Brenne Staven frá NLR í Noregi, til að smakka sterka papriku, öllum til ánægju.

Fyrsta dag ráðstefnunnar var farið yfir hvað væri helst að frétta frá þátttökulöndunum, svokallaðir „status“-fyrirlestrar hvers lands. Umhverfismál eru heitt umræðuefni á öllum Norðurlöndunum og í Danmörku eru komnir grænir skattar sem valda fækkun bænda. Þessi fækkun er ekki einungis vegna meiri áherslna á umhverfismál, því hið sama er að gerast í öllum löndunum, að bændum fækkar á meðan búin eru að stækka. Við þetta fjölgar eyðibýlum og þörfin fyrir að finna nýja nýtingu fyrir gömul útihús vex. Þá virðist áhugi fyrir að endurnýta útihús sem samkomuhús og fyrir öðruvísi rekstur eins og gallerí, vinnustofur og smáframleiðendur, vera vaxandi. Í nýbyggingum virðist vera lögð meiri áhersla á framtíðarnotkun á byggingum þannig að þær geti öðlast áframhaldandi líf þegar starfsemi hættir. Það má hugsa þetta sem fjölnota byggingar.

Tæknivæðing fjósa heldur ört áfram og í Danmörku og Svíþjóð er mikill áhugi á lotumjöltum (e. batch milking) sem lausn í meðalstórum og stórum framleiðslueiningum. Lotumjaltir eru framleiðslukerfi þar sem kýrnar eru mjólkaðar í mjaltakjörnum með 8–30 mjaltaþjónum á ákveðnum tíma dags. Fyrirkomulagið er því svipað hefðbundnum mjöltum og rútínum og í því felst mikill vinnusparnaður þar sem einn starfsmaður getur séð um mjaltir mjög margra gripa. Í Noregi eru búin lítil eins og við þekkjum og þar er ekki óalgengt að byggt sé fjós með mjaltaþjóni fyrir bú með 20–30 kýr. Það má því segja að reynsla byggingarráðunauta sem saman koma á Nordisk Byggtreff sé mjög fjölbreytt og er það góður grunnur að góðum umræðum.

Í Vogafjósi í Mývatnssveit. Áhugavert þótti að hægt væri að sjá á milli fjóss og veitingastaðar.

Það er alltaf áhugavert að bera saman byggingarkostnað milli landa en fram kom að á öllum Norðurlöndunum hefur hann hækkað töluvert. Það má þó áætla að kostnaðurinn sé hæstur á Íslandi miðað við umræðurnar sem fóru fram á ráðstefnunni. Talið var að skýringin væri að hluta til miklar kröfur um burðarþol, sem eru meiri hér en á hinum Norðurlöndunum, en þær voru samt ekki taldar skýra allan muninn. Eins er vaxtaumhverfið hérlendis miklu erfiðara en annars staðar og gerir það bændum erfitt að fara í viðamiklar fjárfestingar.

Skoðunarferð fyrsta dagsins vakti lukku. Þá var rennt í Mývatnssveit með viðkomu í Reykjahverfi til að sýna ráðstefnugestunum ferðaþjónustu út frá ýmsum forsendum. Kíkt var á Garðyrkjustöðina á Hveravöllum í Reykjahverfi þar sem er að finna mikið af heitu vatni sem notað er við framleiðsluna. Þetta fannst gestunum áhugavert og það var vott af öfund að sjá í augum þeirra. Allir fengu að smakka tómata á Hveravöllum og einn Norðmaðurinn, sem borðar ekki tómata, gat ekki hætt að raða þeim í sig. Það bar vott um gæði íslenskrar framleiðslu. Frá Hveravöllum var farið að Mývatni þar sem boðið var að fara í Jarðböðin eða kíkja á hverina austan Námaskarðs. Enduðum við daginn í Vogafjósi við Mývatn þar sem snæddur var kvöldverður. Þar er ferðamannafjós þar sem búið er að breyta hluta fjóssins í veitingasal með útsýni yfir eldra básafjós þar sem hægt er að fylgjast með mjöltum í 2x2 mjaltabás.

Kornþurrkstöðin á Laugalandi. Þar tók Hermann Ingi Gunnarsson á móti okkur og fræddi um uppbygginguna, starfsemina og helstu áskoranir. Hér er glatt á hjalla milli Hermanns Inga og Lindu Margrétar Gunnarsdóttur, starfsmanns RML.

Á öðrum og þriðja degi ráðstefnunnar komu gestafyrirlesarar til að fjalla um ýmis málefni. Þátttakendur voru sérstaklega áhugasamir um orkunotkun á Íslandi og kom Sigurður Ingi Friðleifsson frá Orkustofnun og var með framsögu um helstu orkugjafa Íslands, vatnsafl og jarðvarma. Hann talaði um mikilvægi þess að meiri áhersla væri lögð á orkuöryggi samhliða fæðuöruggi, því þeir hlutir fylgjast vissulega að. Þá má gera ráð fyrir að eftirspurn eftir rafmagni aukist með tilkomu fleiri rafknúinna tækja, líka í landbúnaði, og því þurfi að bregðast við sem fyrst.

Ingvi Stefánsson frá Teigi kom og sagði okkur frá framkvæmdum á nýju, glæsilegu svínabúi þar sem velferð dýra er í hásætinu. En einnig er það byggt með velferð starfsfólks í huga og eru margir gluggar á húsinu. Er ætlunin að það bæti geð starfsfólks að geta kíkt út á fallegt umhverfi á meðan verið er í vinnunni.

Margir þátttakendur undruðu sig yfir aðbúnaðarhönnun Íslendinga í ferðum okkar og fengum við t.d. spurningarnar „Af hverju er loftræsting útihúsa hönnuð svona?„ eða „Af hverju eru engir gluggar á útihúsunum?“ Atli Gunnar Arnórsson frá Stoð ehf., verkfræðistofu sem hannar m.a. útihús, gat ekki svarað því fyrir utan að sumt í byggingarhönnun væri vegna þjóðarhefðar. Það var sama svarið og við því af hverju Íslendingar eru að byggja stór og djúp haughús. Þekkist það bara sem hefð í Noregi líkt og á Íslandi en á sumum hinna Norðurlandanna mega haughúsin ekki vera svona djúp. Sem dæmi í Danmörku mega eingöngu vera rásir (kanalar) sem eru mest 1,2 m að dýpt ef byggt er hauggeymslurými undir gripagólfi. Atli Gunnar útskýrði hins vegar fyrir hópnum af hverju útihúsin þurfa að vera svo sterkbyggð á Íslandi miðað við önnur Norðurlönd. Hérlendis er lögð mikil áhersla á að byggingar standist vindálagið, sem veldur því að hér eru töluvert meiri kröfur en í hinum löndunum. Einnig þarf að taka tillit til jarðhreyfinga sem eru á sumum svæðum landsins en alla jafna þarf ekki að huga að slíku á hinum Norðurlöndunum.

Djúpadalsvirkjun. Pétur Freyr Jónsson tók þar á móti okkur og fræddi fólk um vatnsaflsvirkjanir og starfsemi Norðurorku.

Helge Kromann frá Danmörku hefur mætt allar götur síðan þessi samkoma var haldin hér á landi fyrst fyrir 20 árum síðan. Þetta var síðasta skiptið sem hann er með vegna aldurs og langaði hann þess vegna að segja okkur frá sinni framtíðarsýn í fjósbyggingum. Hann sá fyrir sér fjós sem á að sameina allt frá óskum kúa, bóndans og neytandans, fjós sem setur velferð og umhverfi í forgrunn. Fjós þar sem tæknilegar lausnir við dagleg verk og bústjórnun eru notaðar til að besta framleiðslu og orkuframleiðslu til eigin notkunar á búinu. Það gæti verið fjós með stórum og opnum legusvæðum frekar en hefðbundnum básum, kerfi sem leyfir kálfum að vera með kúm allt mjólkurskeiðið og hönnun fjóssins leyfir umbreytingu í annan rekstur sé þess óskað.

Seinni tveir skoðunardagarnir voru í innanverðum Eyjafirði þar sem heimsótt voru fjölbreytt bú með mismunandi búskaparáherslur og einnig var stoppað við Djúpadalsvirkjun. Skoðaðar voru nýjar byggingar en aðallega endurnýting á eldri byggingum, m.a. vegna breyttrar notkunar, framleiðslu eða búskapar.

Vöktu erlendu ráðunautarnir athygli á að sóknarfæri er í að skoða loftræstingu útihúsa betur og að einkenni voru um flökkustraum í fjósum. Flökkustraumur er óæskileg rafspenna sem samkvæmt rannsóknum getur haft neikvæð áhrif á velferð gripa og framleiðslu. Í framhaldinu er að fara af stað verkefni hjá RML. Skoða á algengi flökkustraums í íslenskum fjósum.

Eftir velheppnaða ráðstefnu fóru gestir leiðar sinnar, kátir og glaðir yfir upplifun, fræðslu og samtölum sem urðu í þessari annarri viku septembermánaðar. Nú hlakka allir til næsta hittings hópsins í Finnlandi árið 2027, þar sem við fræðumst meira og stillum saman strengi um ýmis málefni sem nýtast við aðbúnaðarhönnun útihúsa.

Þökkum við öllum þeim sem tóku á móti okkur kærlega fyrir hlýjar og góðar móttökur. Við færum ykkur bestu þakkir. 

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...